Færsluflokkur: Dægurmál
6.2.2008 | 15:13
Hafnað af Sorpu
Fátt er meira niðurlægjandi en að vera hafnað af Sorpu, en það er einmitt það sem gerðist fyrir vin minn um daginn.
Það var verið að gera breytingar á heimilinu og við þær breytingar varð sófi útundan. Fínn sófi í fínu lagi, ekkert gamall, ekkert snjáður.
Gefa hann til Góða hirðisins varð niðurstaðan eftir miklar bollaleggingar og trega vegna þess að sófinn kostaði hundruð þúsunda á sínum tíma.
Vinur minn og kona hans tóku þessa ákvörðun hafandi í huga að með hinni höfðinglegu gjöf myndu þau mjög trúlega gera heimili fátæks manns að höll. Það blikaði tár á hvarmi konu hans við að sjá fyrir sér fátæka fjölskylduna hamingjusama í gamla sófanum þeirra, börnin glöð að hoppa í pullunum og foreldrarnir að hugsa hlýlega til gefendanna.
Þegar komið var í Sorpu sagði starfsmaðurinn: Nei takk. Settu þennan í gáminn merktan óflokkanlegt rusl.
Sófinn sem verið hafði heimilisprýði í öll þessi ár! Hvað segir þetta um heimili hans? Húsgögnin eru ekki einu sinni nógu góð fyrir Góða hirðinn!
Að mínum dómi ætti að vera áfallahjálparstreituröskunarteymi til taks þegar svona tilfelli koma upp. Við svona aðstæður verður lífið tómt og tilgangslaust, hlutirnir sem fóðrað hafa sjálfstraustið, sjálfsvirðinguna og sjálfsmatið reynast ekki leðurlíkisins virði!
Ég gæti grátið vini mínum til samlætis.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
2.2.2008 | 12:09
Synt í engu vatni
Hafa börnin á Akranesi aldrei heyrt um loftsund? Loftsund er gömul íþrótt sem mikið var stunduð í Kópavogi á mínum æskuárum, en loftsund fólst í því að stinga sér til sunds í lausu lofti og synda bringusund, skriðsund, baksund eða bara hvaða sund sem er, til dæmis út í búð. En þótt börnin hafi gleymt loftsundinu má hugga sig við það að fullorðnir Skagamenn kunna það, ef eitthvað er að marka fréttina, og geta kennt ungviðinu sundtökin. Fyrir þá sem ekki treysta sér í loftsundið má nefna gólfsundið, en það sund geta allir stundað. Gólfsund er eins og loftsund, nema á gólfi. Að vísu kemst sundmaðurinn ekki eins langt í gólfsundi og loftsundi, en það er samt skemmtilegt sport. Gólfsundinu fylgir bónus: Gólfið skúrast í leiðinni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.1.2008 | 23:25
Hugmyndir að kröfugöngum
Komið hefur í ljós að hraðahindranir eru mjög óheppilegar fyrir umhverfið, eins og kemur fram í þessari frétt. Réttast væri að skipuleggja mótmæla- og kröfugöngu, td. niður Digranesveginn í Kópavogi, en á þeim ágæta vegi eru amk. 100 hraðahindranir. Umhverfisverndarsinnar ættu að gæta að því að það eru ekki bara álver og virkjanir sem ástæða er til að mótmæla, það má ekki gleyma litlu skaðvöldunum. Umhverfisverndarsinnar ættu einnig að gæta þess að fara varlega fari þeir í þá göngu, hraðahindranir geta verið hættulegar yfirferðar, einkum fyrir ökklana.
Á mörgum vegum þar sem hraðahindranir eru, er ekki nokkur leið að fara yfir þær á þó löglegum hámarkshraða. Slíkar þvingunaraðgerðir eru óþolandi. Nýlega í fréttum var fjallað um strætisvagnabílstjóra sem beðið hafa heilsutjón vegna hraðahindrana, þannig að þær eru ekki bara mengunarvaldur, heldur líka heilsufarsvandamál. Eini kosturinn við hraðahindranir, er að þær halda hraðanum niðri og þar með hugsanlegum slysum á fólki. En spurningin er: Er sú forvörn of dýru verði keypt? Hversu mikil mengun er réttlætanleg og hversu marga atvinnubílstjóra með brjósklos þarf til að gera vegi slétta á ný, með þeirri óhjákvæmilegu hættu að einhver kunni að verða fyrir bílunum?
Raunar hefur mér oftar en ekki sýnst, á ferðum mínum um borgina, að hvorki nægu fé né atgervi sé varið í skipulag og hönnun umferðarmannvirkja. Ef ég væri starfsmaður þeirrar deildar er sér um gatnakerfi borgarinnar (eða ríkisins þar sem það á við) myndi vera mitt fyrsta boðorð að umferðin gengi sem greiðast fyrir sig svo allir hefðu meiri tíma fyrir fjölskylduna eða það sem þeim er kærast. Gatnamót Hringbrautar og Snorrabrautar er gott og nýlegt dæmi um að skilvirkni er ekki efst á blaði hjá þeim sem hanna eiga skilvirk gatnamót. Afrein er til dæmis ekki til staðar ef beygja skal frá gömlu Hringbrautinni inn á Bústaðaveg, þótt nægt sé plássið. Í stað þess verða vegfarendur að bíða á ljósi eftir að geta tekið þá einföldu hægribeygju. Og afreinin af nýju Hringbrautinni inn á Bústaðaveg var þegar of lítil þegar hún var opnuð. Vissu hönnuðirnir ekki hve margir bílar fóru þarna um? Eða reiknuðu þeir skakkt? Svona dæmi eru mýmörg í borginni, meira að segja í svo að segja nýjum mannvirkjum. Hugsanlegt er að hönnuðirnir séu allir sænskmenntaðir fjandmenn einkabílsins sem nota hvert tækifæri til að klekkja á þeim djöfli. Vel hugsanlegt, vinstrimenn hafa jú stjórnað borginni um langa hríð. Hvað ætli þessir sömu menn hugsi svo í einkabíl sínum í umferðarteppu á leið heim? Gott á þessa djöfulsins einkabílista! Látum þá bíða svo þeir átti sig á að strætó er framtíðin.
Það mætti skipuleggja kröfugöngu gegn þessum gatnamótum.
Fyrst ég er farinn að fjalla um umferðarmannvirki, þá verð ég að gera alvarlega athugasemd við nýlega breytingu á gatnamótum Vesturgötu og Garðastrætis. Vesturgatan var nýlega gerð að einstefnu í austur sem var óþægilegt fyrir íbúa Garðastrætis (amk. mig); umferðin í götunni stórjókst og bílastæðin eru meira upptekin (verra aðgengi að lausum stæðum vestar). En þetta er þó ekki það sem ég geri athugasemd við, heldur þá furðulegu stækkun á gangstéttinni við Garðastræti 2. Fyrst Vesturgötunni var lokað í vestur, eins heimskulega og það hljómar nú, hafði maður kost á að taka u-beygju. En svo datt einhverjum kjánanum í atvinnusköpunardeild Reykjavíkur í hug að nauðsynlegt væri að stækka gangstéttina og gera u-beygjuna nánast ómögulega. U-beygjan er nota bene, lögleg á þessum stað. Hefur gatnagerðardeildin virkilega ekkert betra við vinnuaflið að gera? Þetta var óþarft, hvernig sem á það er litið og gerir aðeins íbúunum erfiðara fyrir að komast leiðar sinnar.
Dægurmál | Breytt 27.2.2008 kl. 22:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.1.2008 | 00:49
Lyfti báðum skónum frá jörðu!
Jaó Defen (34) lyfti báðum skónum frá jörðu um daginn. En leggur Jaó í vana sinn að lyfta báðum skónum? Nei, það geri ég ekki. En mér fannst viðeigandi á þessari stund að gera það. Vinkona Jaó, Mó Ching (29) var í heimsókn á sama tíma. Ég lyfti ekki báðum skónum frá jörðu þennan dag, sagði Mó, ekki vegna þess að ég gæti það ekki, heldur vegna þess að ég var ekki í skapi til þess. Einmitt það. Slefað og skeint þakkar vinkonunum fyrir spjallið og óskar þeim velfarnaðar í framtíðinni.
Jaó (t.h.) lyftir báðum skónum og Mó lyftir öðrum skónum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.1.2008 | 14:37
Einhentur maður klappar
Æringinn Jay Leno er með horn í þætti sínum sem ég hef ákaflega gaman að og kallast á útlensku Headlines. Í horninu sýnir hann aðsent efni úr pappírsmiðlum sem leikið hefur verið grátt af prentvillupúkanum eða fyrirsagnir sem eru klaufalega samdar, eins og sú úrklippa sem hér má sjá.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.1.2008 | 21:04
Þrettándabrenna
Jólin voru kvödd að þessu sinni á Valhúsahæð þar sem kveikt var í áramótabrennunni. Já áramótabrennunni vegna þess að ekki reyndist unnt að kveikja í henni á gamlárskvöld vegna veðurs. Valgeir Guðjónsson álfur og álfadrottning léku og sungu. Ég kann ennþá textann við Stóð ég úti í tunglsljósi næstum því utanbókar, enda mikil íslenskusnilld þar á ferð þótt þýðing sé. Hér er úrval mynda sem ég tók í hlýjunni frá álfabrennunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
14.1.2008 | 09:58
Sjálfráða lús
Ég veit ekki um neina lús sem hefur verið svipt forræði og er heldur ekki með á hreinu hvenær lýs verða sjálfráða. Þær lifa víst aðeins í fjórar vikur þannig að gera má ráð fyrir, ef miðað er við okkur mannfólkið, að þær verði sjálfráða þriggja til fjögurra daga gamlar. Eftir það eru þær á eigin vegum, en ekki foreldranna. Það er því rangt sem kemur fram í fréttinni (sjá mynd) að lúsin sé á ábyrgð foreldranna. Ef lýs væru alltaf ósjálfráða stefndi fljótt í óefni vegna þess að á aðeins örfáum vikum verða engir foreldrar á lífi til að bera ábyrgðina. Heppilegast tel ég að lúsin flytji að heiman um vikugömul. Ef lús býr lengur en viku í foreldrahúsum er hætta á að hún verði lúser.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.1.2008 | 00:08
Gamlárskvöld
Það var einstaklega gaman hjá okkur á gamlárskvöld. Við kvöddum árið með stæl í Hafnarfirðinum hjá bróður mínum og hans fjölskyldu. Hér er úrval mynda sem teknar voru við þetta tækifæri. Því miður var ekki hægt að mynda flugeldana vegna veðurs, eru lesendur beðnir velvirðingar á því.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.1.2008 | 00:03
Fjárfestir – fjárleysir
Ég hef ávallt verið þeirrar skoðunar að fjárfestar hljóti að vera fjárleysar við ákveðin skilyrði. Þeir eru það margir hverjir núna eins og markaðirnir hafa verið. Fjárfestar sem festa fé í hlutabréfum eru nú orðnir fjárleysar eftir að bréfin urðu ekki pappírsins virði. Sumir hverjir eru jafnvel ekki bara fjárleysar, heldur fjárlausir, ef eitthvað er að marka fréttirnar.
Ég hef aldrei verið fjárfestir, miklu frekar fjáreyðir. Hrunið á hlutabréfamörkuðunum kemur sér vel fyrir mig: Bilið milli mín og þeirra sem ríkir eru hefur aldrei verið minna. Húrra! Jöfnuðurinn í þjóðfélaginu er loksins kominn á ásættanlegt stig. Ég get hætt, ásamt ýmsum kverúlöntum í æðstu menntastofnunum þjóðarinnar, að öfundast út í þá sem eru ríkir.
Að lokum er hér skilti sem sýnir að ekki er öll von úti. Ég minnist þess þegar ég vann í gestamóttöku Hótels Loftleiða 1993 að þá kom Ástþór með barmmerki sem á stóð: Friður 2000, og dreifði því meðal okkar. Ég setti merkið í barminn og svo kom fólk á vegum Ástþórs á friðarráðstefnu á Íslandi á hótelið og varð hrikalega upp með sér að Ástþór skyldi eiga svona gríðarlega mikinn stuðning á Íslandi að meira segja aumingjar í gestamóttökum settu upp barmmerkið. Það láðist að segja því að þetta var gert í gríni, eða kerskni eins og sagt var þá. Ég hef alltaf haldið upp á Ástþór. Hann er maður hugsjóna og ég hvet hann að bjóða sig aftur fram. Lýðræðið þarf á svona mönnum að halda.
Dægurmál | Breytt 12.1.2008 kl. 00:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 00:07
Kiri, te?
Ég held að guð sé að refsa mér fyrir að ég trúi ekki á hann.
Þessa yndislegu línu (nokkurnveginn svona) rakst ég á á leyndarmálasíðunni. Geri ég hana hér með að minni.
Kiri, te?
Kaffi, Fassett?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 00:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.1.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 8
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.