Færsluflokkur: Dægurmál
25.3.2007 | 21:17
Litli litli fékk galla galla
í dag og margar góðar gjafir um helgina. Hann er nú óðum að braggast og er jafn þungur í dag og hann var þegar hann fæddist. Það er gott vegna þess að yfirleitt léttast nýburar á fyrstu dögum lífsins.
Sigurgeir Jónasson frændi minn varð 12 ára í dag. Hann fékk bókina Bragðarefurinn frá okkur. Í fyrra fékk hann bókina Stöngin inn (á frummálinu: Come and have a go if you think you're smart enough!) Stöngin inn er góður titill á bók því það gefast svo margir sjálfsagðir framhaldstitlar: Stöngin út, Sláin inn, Sláin út, Skeytin inn og síðast en ekki síst: Skeytin út.
---
Vinur minn sem jafnframt er umhverfisverndarsinni benti mér á áhugavert kort sem sýnir svo ekki verður um villst að fækkun sjóræningja hefur eitthvað með hækkun hitastigssins að gera. Ef ekkert verður að gert verða sjóræningjar horfnir áður en langt um líður.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.3.2007 | 11:14
Mynd af Lilla litla
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
22.3.2007 | 13:35
Drengur fæddur
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
20.3.2007 | 08:58
Britney í meðferð en hvað með Bubba (the Hut)?
Þegar fréttist af lögsókn gúanórokkarans Bubba Morthens gegn vikuriti vegna meiðandi ummæla (Bubbi fallinn) rifjaðist upp fyrir mér Idol-þáttur sem ég sá þar sem rokkarinn var dómari. Keppandi, stúlka, hafði sungið lag með Britney Spears sem heitir I'm not a girl, not yet a woman. Bubbi lá ekki á skoðun sinni á Britney Spears og viðhafði eins meiðandi ummæli um hana og frekast var unnt, sagði hana iðnaðarframleiðslurusl sem ætti ekkert skylt við tónlist og svo framv. Keppandinn fékk ekki góða umfjöllun frá gúanórokkaranum heldur. Aðspurð sagðist hún hafa valið lagið vegna þess að það höfðaði til hennar, hún hefði ung eignast barn og liði ekki ósvipað og fjallað er um í laginu.
Fyrir utan tillitsleysi og dónaskap gagnvart keppandanum voru ummælin um Britney Spears svo ógeðfelld að fullyrðingarnar sem vikuritið var dæmt fyrir eru sem fagur fuglasöngur í samanburði.
Það er mjög skrítið að Bubbi sé á móti Britney, þau sem eiga svo margt sameiginlegt:
1 Ást og ástleysi er þeim báðum ríkt yrkisefni.
2 Bæði gera út á kynferðið í tónlist sinni, hún syngur í efnislitlum fötum, hann er iðulega ber að ofan á tónleikum (trúlega líka í búningsherberginu).
3 Bæði hafa farið flatt á fíknilyfjum.
4 Bæði hafa farið í meðferð.
5 Bæði eru sköllótt.
6 Ástarmál þeirra beggja eru áberandi.
7 Bæði eru fræg, hann á Íslandi, hún um allan heim.
8 Bæði hafa selt margar plötur, hún um allan heim, hann á Íslandi.Britney vill fá Justin Timberlake í heimsókn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.3.2007 | 00:11
Vísindindalegar mælingar kvikmynda
Áhugalækninum vex fiskur um hrygg. Í kvöld horfði Afspyrnuklúbburinn á myndina Va savoir (Hver veit?) sem er frönsk og fjallar um leikhúsfólk og líf þess. Á löngum 150 mínútum komumst við að því að leikkonan sá eftir að hafa hætt með heimspekiprófessornum, leikstjórinn var að leita að týndu leikriti, núverandi kona prófessorsins var danskennari, barnabarnabarn leikskáldsins sem samdi verkið týnda varð ástfangin af leikstjóranum og bróðir hennar stal hring af konu heimspekiprófessorsins. Hver veit? er á margan hátt áhugaverð mynd, en þó ekki áhugaverð á þann hátt sem filmmakararnir gerðu sér vonir um. Maður veit miklu betur nú en áður hvernig ekki á að bera sig að við kvikmyndagerð. Maður á til dæmis ekki að láta aðalpersónuna semja bréf og lesa það upphátt um leið. Það gerist of hægt. Þannig var þessi mynd: h æ g. Einnig kennir þessi mynd að eigi er affarasælt að taka sig of hátíðlega. Það má heldur ekki nota ódýr brögð eins og að taka afsteypu af hring á konufingri um leið og hún kyssir elskhugann. Hún var ekki lömuð fyrir neðan háls en fann þó ekki fyrir því þegar blá leirklessan þrýstist á hringinn. Kannski var hún lömuð fyrir ofan háls?
Jæja, þetta var nú ekki umræðuefnið, heldur vísindin. Já vísindin sem efla alla dáð. Áhugalæknirinn tók fram græjurnar snemma í kvöld og mældi limina einn af öðrum fyrir og eftir sýningu. Að vísu fóru tveir limir áður en sýningu lauk og verða því ekki teknir með í mælingunni að þessu sinni.
Niðurstöðurnar á gæðum myndarinnar voru sem sagt þessi:
Aggi fyrir 84/143, Aggi eftir 87/130. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Mjög rólegur: 1 stjarna.
Herbert fyrir 88/138, Herbert eftir 90/144. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar spenntur: 3 stjörnur.
Neddi fyrir 97/154, Neddi eftir 92/147. Gaf 1,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar rólegur: 2 stjörnur.
Orri fyrir 74/138, Orri eftir 79/136. Gaf 2,5 stjörnur. Vísindin segja: Frekar rólegur: 2 stjörnur.
Heiðrún fyrir 70/121, Heiðrún eftir 75/130. Gaf 2 stjörnur. Vísindin segja: Frekar spennt: 3 stjörnur.
Af þessu sést að vísindin mæla nokkra skekkju milli þess sem limir segja og svo hvað þeim raunverulega finnst.
Áhugalæknirinn er svo hrifinn af læknavísindum sínum að hann er að hugsa um að innrétta skurðstofu niðri í kjallara. Fékk fínan læknabekk í Góða hirðinum en fann ekki notaða skurðhnífa neins staðar. Er að kanna verð á slíkum græjum á internetinu. Honum skilst að það sé í fínu lagi að praktísera lækningar svo lengi sem það er ekki gert í hagnaðarskyni, enda er ekki meiningin að gera atvinnu úr áhugamálinu, aldeilis ekki.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 08:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.3.2007 | 08:37
Er hann galinn?
Spurði Margrét Lovísa. Nei, svaraði ég, hann er næturgalinn.
Við vorum að horfa á teiknimyndina Næturgalann eftir H. C. Andersen í sjónvarpinu, ég og Margrét Lovísa frænka mín sem er fjögurra ára.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2007 | 21:20
Litlu kraftaverkin
sem eru alltaf að gerast og maður tekur ekki einu sinni eftir þeim:
1. Sokkurinn var týndur í morgun. Fann hann um hádegið.
2. Hnerraði og hélt ég væri kominn með flensu. En var það ekki.
3. Jónas Bjartmar frændi litaði með tússlitum í litabók á gólfinu. Litaði ekkert á gólfið.
4. Keypti þrjá lítra af appelsínugulri málningu. Dugðu akkúrat á vegginn.
5. Fór með bréf í póst um daginn og lagði við stöðumæli en var ekki með smápening. Fékk ekki sekt.
6. Borðaði hamborgara á fimmtudaginn í Kringlunni. Gekk út með tvo fyrir einn miða í Kringlubíó á fimmtudögum.
Af þessu sést að kraftaverkin eru allt um kring, maður þarf bara að vera vakandi og taka eftir þeim.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.3.2007 | 14:16
Stórkostlega alheimshlýnunar blekkingin
er vægast sagt áhugaverð mynd. Þar eru færð ákaflega sannfærandi rök fyrir því að hitabreytingar á jörðinni stafi ekki af koldíoxíðútblæstri manna heldur því sem raunar blasir við: Sólinni. Hlýnun eða kólnun á jörðinni er í beinu sambandi við sólgos eða umbrot á sólinni sem sendir geisla til jarðarinnar. Línuritið um samspil koldíoxíðs og hitafars sem stjórnmálamaðurinn Al Gore setti fram með afar hræðandi hætti er samkvæmt þessari mynd byggt á misskilningi. Já á misskilningi. Ef rýnt er nánar í gögnin kemur í ljós að eftir því sem það hlýnar á jörðunni eykst koldíoxíðið. Það er lógískt: Meiri hiti, meiri vöxtur plantna og dýra. Sem sagt: Meiri hiti, meira koldíoxíð. Ekki: Meira koldíoxíð, meiri hiti.
Ýmislegt fleira áhugavert kemur fram í myndinni. Til dæmis er hrakin sú bábylja að malaría berist nú æ norðar vegna hækkandi hita. Á þriðja áratug síðustu aldar gekk malaríuplága í Síberíu sem varð fjölmörgum að aldurtila. Malaríuberar þrífast jafnt í kulda sem hita. Vísindamaðurin sem benti á þessa staðreynd lenti í mestu vandræðum við að fá nafn sitt tekið af skýrslu Sameinuðu þjóðanna um alheimshlýnun. Ástæðan var sú að úr skýrslunni voru felldar burt mikilvægar ábendingar hans og annarra sem drógu í efa alheimshlýnunina samkvæmt bókstafstrúnni. Það var ekki fyrr en hann hótaði lögsókn sem nafn hans sem skýrsluhöfundar var fellt út. Þannig að listinn um allan þennan stóra hóp vísindamanna sem eiga að vera sammála um koldíoxíðskenninguna er ekki nærri eins langur og ætla mætti í fyrstu.
Ég hvet alla til að horfa á The Great Global Warming Swindle.
Ég frétti fyrst af þessari mynd á bloggsíðu Ágústs Bjarnasonar. Þar eru frekari upplýsingar um myndina, m.a. listi yfir þá vísindamenn sem koma fram í henni.
---
Sú nýbreytni hefur verið tekin upp hjá Afspyrnuklúbbnum að blóðþrýstingur allra mættra lima er tekinn í lok sýningar. Brögð hafa nefnilega verið að því að limir gefi falskar upplýsingar um hversu mikla geðshræringu sýningin olli. Vísindalegar mælingar á gæðum kvikmynda hafa ekki áður farið fram og telst Afspyrna brautryðjandi á því sviði.
Niðurstöður gærkvöldsins:
Sigurjón 66/110. Mjög rólegur: 1 stjarna.
Orri 72/137. Frekar spenntur : 3 stjörnur.
Herbert 89/147. Mjög spenntur: 4 stjörnur.
Neddi 101/156. Yfirspenntur: 5 stjörnur.
Kristinn 71/123. Frekar rólegur: 2 stjörnur.
Taka verður fram að þetta er það sem VÍSINDIN segja um áhuga lima, ekki hvað þeir segja sjálfir. Í ljós kom að þeir sem gáfu upp skoðun sína á myndinni með afgerandi hætti voru í nokkuð góðu samræmi við niðurstöður mælingarinnar. Neddi og Hebbi voru í samræmi við mælinguna, mjög spenntir. Orri sagðist vera mjög spenntur en var bara miðlungs spenntur samkv. mælingunni.
Dægurmál | Breytt 13.4.2007 kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.3.2007 | 08:14
Umhverfisvernd
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 114499
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.