Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Mátulegt á hann

Enn eru til stjórnmálamenn í þessu landi sem styðja stríðið í Írak. Ástæðan fyrir því að þeir styðja þetta ljóta stríð er sú að það eru ekki nægilega harðar refsingar við því. Fengju allir sömu meðferð og Joe Lieberman fékk fyrir sinn stuðning, er ég hræddur um að það myndi fækka í stuðningsliðinu.

Aumingja Joe

Það er annars að frétta af Joe að hann flaug inn á þing í sérframboðinu. Kjósendur hafa vafalítið vorkennt honum og greitt honum atkvæði í sárabætur.

En það er alveg ljóst að Joe Lieberman mun ekki styðja innrás í Írak í bráð. 


Júróvisjón Frelsi

Ég spáði rétt með þetta lag.Mér er mikil ánægja að tilkynna að ég er hættur að fylgjast með Júróvisjón. Ég var svo ungur þegar ég byrjaði að ég man ekki lífið öðruvísi. Ég var ábygglega mesti Júróvisjón aðdáandi í heimi. Ég gleymi ekki gleðinni yfir því þegar Save all your kisses for me vann, því ég hafði spáð því sigri. Þóttist heldur betur hafa nef fyrir tónlist. Þegar Nicole sigraði með lagið Ein bischen frieden fór ég umsvifalaust út í búð og keypti smáskífuna. Eflaust hlæja einhverjir að því, en það er til marks um hversu forfallinn ég var.

Þegar Ísland var með í fyrsta skipti náði Júróvisjónið hámarki. Ég hélt í alvöru að Gleðibankinn væri besta lag mannkynssögunnar. Það var því mikið áfall er það lenti í 16. sæti. Mér leið eins og ég hefði verið í bíltúr með óminnishegranum og ekið á staur. Gleðibankinn var besta lag mannkynssögunnar.

Skyndilega rann upp fyrir mér að Júróvisjón var kannski ekki eins æðislegt og ég hélt. Áður en það gerðist sá ég bara snillinga í glæsilegum búningum. Eftir að raunveruleikinn knúði dyra sá bara lúða að nauðga sönggyðjunni og ekki bara sönggyðjunni, heldur líka tískugyðjunni, fegurðargyðjunni og móður allra lista, listagyðjunni.

Silvía Nótt er það besta sem komið hefur fyrir keppnina.Skoðuð í samfélagslegu ljósi er Júróvisjón birtingarmynd ríkisrekstrarins. Ríkið að giska á hvað unga fólkið fílar. En flest ungt fólk í dag hefur engan áhuga á keppninni, engan. Það eru einungis hommar og gamalmenni sem hafa gaman að henni. Nú er ég ekki að kasta neinni rýrð á homma en af einhverjum ástæðum hafa þeir fallið fyrir Júróvisjón. Mig grunar að glysið eigi þátt í því. Þegar Silvía Nótt varð fulltrúi Íslands var mér skemmt. Það var nákvæmlega það sem þessi "keppni" þurfti; afhjúpun og afbygging. Silvía Nótt er það besta sem fyrir þessa keppni hefur komið frá upphafi, en kerfi eins og þetta, sem hefur það eitt að markmiði að viðhalda sjálfu sér, er ekki beinlínis ánægt með að klúbbmeðlimir ráfi út af braut rétttrúnaðarins. Ísland sendir því ótvíræð skilaboð í ár: Við erum þægir, við fylgjum rétttrúnaðinum og sendum ykkur holdgerving Júróvisjón í Skandinavíu, Eirík Hauksson. Nú geta lúðarnir tekið gleði sína á ný og klappað saman höndunum og sungið með.

Þegar ég var lítill einokaði ríkið rekstur sjónvarps á Íslandi og skammtaði ofan í mig og þjóðina dagskrá í smærri skömmtum en löngun var til. Þess vegna var öllu tekið fagnandi, sama hversu lélegt það var. Þjóðin var ekki ósvipuð þyrstum manni í eyðimörk sem rambar á fötu með fúlu vatni.

Ég þarf ekki lengur að drekka vatn úr þessari fötu.Í dag er þetta breytt, ég þarf ekki lengur að drekka fúlt vatn til að seðja þorstann. Þökk sé frelsinu og afurð þess, netinu. Ég hef hvorki séð né heyrt lögin sem voru í undankeppninni á Íslandi, hvorki lagið sem vann eða fallistana. Mér hefur tekist að leiða Júróvisjón algerlega hjá mér fyrir utan eina og eina fyrirsögn í blöðunum um hver verður fulltrúi Íslands, hvaða litur er á lubbanum á Eiríki og eitthvað fleira. Það er sannarlega af sem áður var, nú hef ég raunverulegt val. Nú er ekki þröngvað inn í vit mín hlutum sem ég vil ekkert með hafa. Það er æðislegt og það er ástæðan fyrir því að ég aðhyllist frjálshyggju; að hver maður sé frjáls til að gera það sem honum þóknast á sína ábyrgð án þess að það bitni á öðrum. 


mbl.is Eiríkur fékk næstum fullt hús stiga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ef þú vilt bæta heiminn...


Í þessari gestaþraut Heimsverndar er fjallað um hús tveggja bandarískra manna. Annað húsið tilheyrir verðlaunuðum umhverfisverndarsinna, hitt alræmdum umhverfissóða að margra mati. 

Hvort húsið tilheyrir umhverfisverndarsinnanum? 

HÚS A:

20 herbergja villa með 8 baðherbergjum sem kynnt og kæld er með gasi. Við húsið er innisundlaug og gestahús sem einnig er kynnt og kælt með jarðefnaeldsneyti. Orkunotkun hússins á mánuði er meiri en ársnotkun meðalhúss í Bandaríkjunum. Orkureikningur hússins er um 160 þúsund á mánuði. Gasnotkun villunnar er 20 sinnum meiri en meðaltalið.

HÚS B: 

Hannað (af prófessor í arkitektúr við einn fremsta háskóla Bandaríkjanna) með tilliti til orkusparnaðar og umhverfisverndar. Það er 370 fermetrar að stærð með fjórum svefnherbergjum og er staðsett á sléttunum sem þekja suðvesturhluta Bandaríkjanna. Úr miðstöð hússins liggja rör nær 100 metra niður í jörðina þar sem hitinn er um 20 gráður. Hringrás vatnsins heldur húsinu heitu á veturna og kælir það á sumrin. Jarðefnaeldsneytisnotkun miðstöðvarinnar er engin og dælurnar sem viðhalda hringrásinni nota aðeins fjórðung þess rafmagns sem hefðbundnar miðstöðvar nota. Regnvatni er safnað af þaki hússins í sérstakan neysluvatnstank. Vatn úr sturtum, vöskum og salernum rennur í gegn um hreinsikerfi og síðan aftur í neysluvatnstankinn. Umframvatn er notað til að vökva plönturnar í garðinum, sem allar eru úr sveitinni í kring.

 XXHouse

 

 

 

 

 

 

 

HÚS A (orkusóandi villa) er staðsett skammt frá Nashville í Tennesseeríki. Það er aðalíverustaður hins kunna umhverfisverndarsinna og kvikmyndagerðarmanns, Al Gore.

ranch

 

 

 

 

 

 

HÚS B (náttúruvænt hús) er í búgarði nærri Crawford í Texasríki. Húsið sem stundum er kallað Hvíta húsið í Texas, er heimili forseta Bandaríkjanna George W. Bush.

Skilaboð Heimsverndar til Al Gore eru þessi: Kæri Al Gore, ef þú vilt bæta heiminn, byrjaðu þá á sjálfum þér.


Kjaftæðið á meðal vor

Penn and teller 2Þjóðfélag okkar er barmafullt af hindurvitnum og þvælu sem óhætt er að kalla því viðeigandi orði kjaftæði. Penn og Teller hafa verið óþreytandi að benda okkur á það. 

Átappað vatn, mörgum að óvörum, fellur í þann flokk. Almennt er talið að vatn á flöskum sé hreinna og bragðbetra en venjulegt kranavatn. Það er kjaftæði. Þriðjungur alls vatns sem selt er í flöskuvís í búðum Bandaríkjanna stóðst ekki lágmarkskröfur um hreinlæti. Í smökkunarkönnun sem gerð var í New York kom í ljós að þrír af hverjum fjórum vegfarendum þótti kranavatn úr þeirri Gómorru bragðbetra en rándýra flöskuvatnið.

Til að mæla hversu svæsið bullið í kringum blávatnið er földu Penn og Teller myndavélar á veitingastað og bjuggu til nýja tegund af þjóni: Vatnsþjón (sbr. vínþjón). Niðurstaða var mjög athyglisverð, eins og meðfylgjandi myndbútur ber með sér.

 


Via: VideoSift

Penn & Teller

Undanfarin misseri hef ég dundað mér við að horfa á sjónvarpsþættina Bullshit, sem dúettinn Penn og Teller stýra. Þættirnir, eins og nafnið bendir til, fjalla um það sem við myndum á íslensku kalla Kjaftæði. Kjaftæði það sem veður uppi meðal okkar og hefur blindað mörgum sýn. Þættir Pen og Teller eru eins og ferskur andblær inn í annars forheimskandi pólitískt rétthugsandi heim.

Vissir þú að endurvinnsla er 99% kjaftæði? Það er enginn tilgangur annar en sjálfsblekking og sjálfsfróun að endurvinna annað en ál. Endurvinnsla á öðrum hlutum er meiri orkusóun og þar af leiðandi mengun en að henda því einfaldlega í ruslið og grafa ruslið svo á þar til gerðum svæðum. Ekki beinlínis vinsælt að halda þessu fram á tímum umhverfisverndargeðbilunar, en engu að síður satt.

Um það er einmitt einn þáttur Penn og Teller, Umhverfisverndargeðbilunina. Þar er gjörsamlega óborganlegt atriði þar sem þeir gera leikara út af örkinni með mikilvægan málstað: Að banna Dihydrogen Monoxide, það stórhættulega efni sem finnst víðar en þig grunar. Sjá myndina hér að neðan:

 


Kötturinn í sekknum

Væntanlega verður Jóhanna svipt dýrlingstigninni af páfa, fyrst þetta svindl komst upp. Óneitanlega læðist að manni grunur um að fleiri hafi svindlað sér, eða verið svindlað, inn í dýrlingatöluna. Nunnan sem læknaðist fyrir kraftaverk af Parkinsons-veikinni fyrir það eitt að hafa heitið á Jóhannes Pál heitin páfa - það ætti að fara betur í saumana á henni. Hvaða heilvita maður trúir því að vegna þess að nunnutetrið læknaðist af veikindum sínum eigi að gera Jóhannes að dýrlingi?

Hversu lengi eiga trúmál að vera stikk frí frá raunveruleikanum? Ef ég segðist hafa læknast af lifrarbólgu a, b, c og d vegna þess að ég hét á Elvis Presley, hvort yrði hlegið að mér eða Elvis gerður að dýrlingi?


mbl.is Líkamsleifar Jóhönnu af Örk reyndust egypsk múmía
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Villi á afmæli í dag

Vilberg Friðrik Ólafsson er fertugur í dag og óska ég honum innilega til hamingju með afmælið. Hann verður að heiman í dag, það er að segja: Hann býr í Danmörku og verður því væntanlega ekki í föðurlandinu. Villa kynntist ég á Kópavogsbrautinni. Móðir hans var í göngutúr með guttann í kerrunni er ég og móðir mín, sem var í göngutúr með mig, rákumst á þau. Ég sá strax á svipnum á Villa að hann var að gera í bleyjuna og benti móður hans, Ágústu, á það. Hún sagði það vera misskilning hjá mér, hann væri alltaf svona á svipinn. Síðan eru liðin hátt í fjörutíu ár og enn er Villi í góðum gír.

Talandi um bleyjubörn þá er það að frétta af Litla litla að hann er tveggja vikna í dag og braggast vel. Það sést á puttunum á honum að hann er farinn að fitna vegna þess að skinnið á höndunum var eins og rúmgóðir hanskar þegar hann fæddist. Nú eru puttarnir bústnir. Svefnvenjur Litla litla eru ákjósanlegar, hann á það til að sofa heilu næturnar. Það er meira en nýbakaðir foreldrar gátu vonað.

Sjálfur hef ég verið með lítilsháttar kvef, en það er á undanhaldi.


Klipptir brandarar

Í gær í fjögurfréttum Ríkisútvarpsins heyrði ég sagt frá ræðu Bandaríkjaforseta í árlegum kvöldverði samtaka fréttamanna þar sem venjan er að slá á létta strengi. Spilaður var þessi bútur úr ræðu Bush: „Fyrir ári naut ég um 30% stuðnings, fulltrúi minn í embætti hæstaréttardómara hafði dregið sig í hlé og varaforsetinn minn hafði nýlega skotið einhvern."

Þarna var klippt á ræðuna og farið út í aðra sálma. Svona hljómar búturinn eins og Bush hafi verið að fjalla um síðasta ár og telja upp helstu atburðina. En þetta var, eins og fréttamaðurinn Jón Hannes Stefánsson hlýtur að hafa vitað, brandari og með því að klippa á endann, var hann raunverulega að eyðileggja grínið og snúa því upp í eitthvað allt annað.

Það sem vantaði var rúsínan í pylsuendanum (pönslænið): „Ó, þetta voru hinir gömlu góðu dagar!" 

Hvað vakti fyrir fréttamanninum? Ekki gott að segja, etv. er hann á móti Bush og Bandaríkjunum, eins og svo vinsælt er í dag meðal vinstrimanna, eða hann er vita taktlaus þegar kímni er annars vegar. Ég hallast að fyrri skýringunni.


mbl.is Bush brá sér í hlutverk uppistandara
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Góður húmor

Ekki spillir fyrir að sannleikskorn fylgir með. Það er einkenni á góðum húmor.picture_1_165692

Draumalandið anno 1790

Í umræðum um álverskosninguna í Hafnarfirði heyrði ég talað um hraunþjóðgarð á Suðurnesjum sem valkost í staðinn fyrir álverið. Þá velti ég fyrir mér hvers vegna engir snjallar viðskiptakonur hafi ekki stofnað slíkan garð og greitt sér ríkulegan arð. Svarið liggur að vísu ljóst fyrir: Það er engin viðskiptahugmynd í því. Hraungarðurinn færi beinustu leið á höfuðið. Nema ríkið alltumvefjandi myndi taka að sér að reka hann og veita 10 manns vinnu sem 2 kæmust yfir. Það er að skapi sumra. En þessir "sumir" gera sér ekki grein fyrir að engin verðmætasköpun er fólgin í því. Mig grunar að þeir geri sér yfirleitt ekki grein fyrir hvar verðmætasköpunin fer fram. Þeir sem sjá ljósið í þeim efnum snúa baki við slíkum hugsunarhætti. Af því þekki ég dæmi.

Andúðin á virkjunum og álverum hvílir á þessum misskilningi. Hvers vegna láta þeir sem hvað mest hamast gegn virkjunum og álverum ekki reyna á allar sínar frábæru hugmyndir um aðra atvinnuvegi og náttúruvæna áður en þeir taka til við andófið? Svarið við því liggur líka ljóst fyrir: Þeir hafa engar hugmyndir. Og ef þeir hafa hugmyndir eru þær jaskaðar klisjur frá útlöndum.

Andófsmennirnir tala í sífellu um heildarmyndina og stóru myndina og hvaðeina, tala um framtíðar- og draumaland, grænt en ekki grátt, óspillt land o. sv. frv. Þó blasir við að þeir sjá aðeins litlu myndina. Sjá ekki einu sinni það sem blasir líka við: Hálendi Íslands er ekki óspillt, öðru nær. Það er rótnagað og niðurtroðið.

Ef við stækkum litlu mynd draumalandssinna og færum okkur fram fyrir Skaftárelda sem brunnu fyrir rúmum 200 árum. Hvaða framtíðar- og draumaland blasti þá við? Jú fagrar sveitir suðurlands sem örfáum árum síðar eyðilögðust í vítiseldum. Það er mikil skammsýni að tala fjálglega um framtíðarlandið og gera ekki ráð fyrir að slíkt geti gerst aftur. Þeir sem eru sér meðvitaðir um að þeir búa á virkustu eldfjallaeyju í heimi láta ekki draumóra um draumaland halda fyrir sér vöku þegar verðmætasköpun með virkjun fallvatnanna er annars vegar.

Ég styð heilshugar stækkun álversins í Straumsvík og myndi greiða því atkvæði ef ég ætti þess kost.


mbl.is Alltaf staðið til að línur fari í jörðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 114499

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband