Færsluflokkur: Dægurmál
5.5.2007 | 15:51
Lóan er farin til Feneyja
Hanna Gunna gamla bekkjarsystir mín stendur nú í stórræðum. Hún er að flytja verk eftir Steingrím Eyfjörð, sem heitir Lóan er komin, til Feneyja á tvíæringinn sem kenndur er við eyjarnar. Það sem vakti athygli mína og talsverða kátínu er ég las umfjöllunina í Mogganum á föstudag, var lýsing á tilurð og inntaki verksins:
Þungamiðja verksins er gerðið. Gerðið sjálft er smíðað eftir leiðbeiningum huldumanns sem Steingrímur komst í samband við í gegnum miðil en verkið lýsir ferð listamannsins til heimkynna huldumanns á Suðurlandi til að kaupa af honum kind. (Mbl. 4. maí bls. 22)
Hvernig ætli listamanninum hafi gengið að finna huldumanninn með fölu kindina? Það kemur því miður ekki fram í greininni. Á myndinni við hliðina á myndinni af Hönnu er gerðið tómt, þannig að ég dreg þá ályktun að ferðin hafi verið fýluferð. Leiðinlegt. Ég hefði viljað sjá þá kind sem keypt var í gegnum miðil af huldumanni á Suðurlandi. Þá hefði verið hægt að kalla miðilinn kindamiðil eða kindamiðlara.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.5.2007 | 00:52
Tilvitnun í Vefþjóðviljann
Bjarni Ármannsson var í fréttum í gærkvöldi spurður um greiðslur samkvæmt samningi hans við fyrrverandi vinnuveitendur hans í Íslandsbanka. Hann sagði að þær væru allar trúnaðarmál.
Það er auðvitað skiljanlegt.
Æ hvað hét hann aftur bankastjórinn sem hélt ræðu á landsfundi Samfylkingarinnar fyrir hálfum mánuði og krafðist þess að launaleynd yrði bönnuð með lögum?
Vefþjóðviljinn fimmtudaginn 3. maí.
Hræsnin verður ekki afhjúpuð með betri hætti. Og er það tilviljun að hún tengist Samfylkingunni? Nei.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
3.5.2007 | 10:03
Hljóðeffektar fyrir klámmyndir
Þessi mynd sýnir vel hversu mikil list það í raun er að gera sannfærandi hljóð fyrir kvikmyndir. Hún sýnir líka hversu vanþakklátt það getur verið að vinna bak við tjöldin. Kastljósið er ávallt á leikurunum. Er ekki kominn tími til að heiðra hinn breiða hóp sem heldur leikurunum á floti?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.5.2007 | 09:13
Biðin er á enda, Jesús er kominn!
Haldiði að Jesús hafi ekki gert sér lítið fyrir um daginn og stigið niður til jarðarinnar á ólíklegasta stað í heimi: Klámráðstefnu í Las Vegas! Vegir guðs eru svo sannarlega órannsakanlegir. Það er aldrei að vita nema hann hefði komið á íslensku klámráðstefnuna ef Hótel Saga hefði ekki misst kjarkinn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.5.2007 | 13:23
Skýringin á alheimshlýnuninni fundin
Í lesendabréfi sem sent var til dagblaðs í Arkansas (Democrat Gazette) var gerð mikilvæg uppgötvun á orsökum alheimshlýnunar.
Það vekur furðu að enginn skuli hafa áttað sig á þessu fyrr. Samkvæmt Snopes.com er þetta ekkert grín, enda Arkansasbúar ekki þekktir fyrir að vera grínarar. Þeir eru meira eins og Hafnfirðingar í huga samlanda sinna og um þá ganga Hafnarfjarðarbrandarar eins og þessi: Tannburstinn var fundinn upp í Arkansas, ef hann hefði verið fundinn upp annarsstaðar, væri hann kallaður tannabursti.
Kemur í ljós við gúglun á neti lýðsins að höfundurinn er lögmaður í Little Rock í Arkansas.
P.s. Þetta er víst grín hjá henni Connie, mér yfirsást það, en var bent á það af lesanda. Takk fyrir það.
Dægurmál | Breytt 2.5.2007 kl. 17:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.4.2007 | 22:01
Litla lifrin ljóta
Af öðrum bókum sem eru í farvatninu er sjálfstætt framhald skáldsögunnar Gúru Góvinda eftir Gunnar Dal. Mun hún heita Gúrú úrvinda og fjalla um gúrú sem er orðið þreytt á því að vera fullkomið gúrú og langar að vera fullkomið fífl.
Önnur barnabók sem mun slá í gegn
Heiðrún Gígja og Sigurgeir Orri hafa sameinað krafta sína og skrifað glænýja barnabók sem ber heitið Bumbi og Rassa og fjallar um hjón sem setja í sífellu út á hvort annað og skilja svo. Loksins raunveruleg barnabók um raunverulega hluti en ekki kjaftæði sem engin fótur er fyrir. Svæfir börnin strax á fyrstu síðu.
Tímabær ævisaga
Grenja, drekka, bleyja, sofa er heiti 1. bindis ævisögu Litla litla Orrasonar. Á 359 síðum er sögð ævisaga þessa merka barns frá fæðingu til fimm vikna afmælisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
28.4.2007 | 11:09
Nýja testamentis vindlingar
Ísak vinur minn benti mér á þessa auglýsingu Woodys Allen (úr Bananas) í sambandi við færslu hér að neðan (Ofbeldi og trú), en í henni legg ég til að ríkið hvetji til trúleysis, eins og það hvetur til reykleysis, enda hvort tveggja óhollt og getur leitt til dauða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.4.2007 | 12:32
Að sjá ljósið
Óskírð börn ekki lengur í forgarði vítis | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
26.4.2007 | 10:58
Ofbeldi og trú
Í heimildarmynd sem heitir The God Who Wasn't There eftir Brian Fleming kemur fram að í lang-vinsælustu trúarkvikmynd allra tíma, The Passion Of The Christ eru blóðsúthellingar, ofbeldi og þjáningar í 104 mínútur af heildarlengdinni sem er um 120 mínútur. Leikstjórinn, Mel Gibson, lagði sig sérstaklega fram um að hafa myndina sem ógeðslegasta, sprautar t.d. blóði með sprautu inn í rammann þegar verið er að negla Jesú á krossinn, eins og það gusist upp sletta þegar gaurinn fer í gegnum lófann. Þessi grófi ofbeldispakki féll trúuðum ákaflega vel í geð. Þeir flykktust á myndina og sögðu halelúja. Ég man eftir forsvarsmönnum tveggja trúfélaga mæra hana í sjónvarpinu (þ. á m. opinberu). Ég man hins vegar ekki eftir neinum forsvarsmanni trúfélags mæra í sjónvarpinu aðra kvikmynd með 52 mínútur af ofbeldi, blóði og þjáningu af hverjum 60. Að vísu horfi ég ekki mikið á sjónvarp og ef því trúlega misst af lofi klerka um Hostel (sem Eyþór Guðjónsson lék svo eftirminnilega í).
Það er víst óhætt að fullyrða í framhaldi af þessu að í kjarna kristinnar trúar er ofbeldi fyrirferðarmikið; er snar þáttur í trúnni. Krossinn sem margir bera um hálsinn er tákn ofbeldis; er aftöku- og pyntingatæki, ekki ósvipað gálga eða rafmagnsstól. Þótt sumir vilji meina að krossinn sé tákn upprisu og vonar, fer ekki á milli mála hvaða hlutverki hann gegndi. Pína Krists er heldur engin undantekning Biblíunni. Hún er í raun blóði drifin. Ef til vill er trúin aðeins birtingarmynd á ofbeldisfullu eðli mannskepnunnar og aðeins tál að halda að án trúar væri heimurinn betri.
Að mínum dómi ætti ríkið að hverfa frá trúboði og hvetja jafnvel til trúleysis. Ríkið hvetur og skikkar til reykleysis, hví skyldi það ekki hvetja og skikka til trúleysis? Reykingar drepa, það er ljóst. Trú drepur, það er líka ljóst. Yfirvöld í ríkjum þar sem sjálfsmorðsárásir viðgangast ættu að taka þetta til alvarlegrar skoðunar. Yfirvöld í vestrænum ríkjum ættu einnig að taka þetta til skoðunar. Forvarnir skipta miklu máli, um það eru allir sammála. Að vísu er hæpið að yfirvöld sumra ríkja taki upp á því að boða trúleysi, þar sem þau hin sömu sjálfskipuðu yfirvöld stjórna að eigin mati landinu í umboði guðs.
Sem eftirmála við þessa færslu langar mig að bæta við að uppgangur öfga sem tengjast trú, svo sem vitsmunahönnun, er mikill um þessar mundir (sjá grein í nýjasta Economist, 21. apr.). Trúaðir hafa fært sig upp á skaftið og eru í auknum mæli farnir að þröngva heimsmynd sinni yfir á aðra, einkum börnin, með góðu eða illu. Núlltrúaðir, trúlausir, trúlitlir og trúengir þurfa að mínum dómi að bregðast við. Guð skapaði ekki heiminn frekar en tunglið er úr osti. Þetta ætti að vera hafið yfir deilur, en er það ekki. Það sýnir vandann í hnotskurn.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 12:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.4.2007 | 14:09
Trú og ofbeldi
Hefur enginn tekið eftir mynstrinu? Ofbeldi og trú eru eins og síamstvíburar.
Í sambandi við þessa sorglegu frétt langar mig að birta tilvitnun í Nóbelsverðlaunahafann Steven Weinberg:
Trú er móðgun við mannlega reisn. Hvort sem trú væri til eða ekki, myndi gott fólk gera gott og vont fólk illt. En til þess að gott fólk geri illt, þarf trú til.
Ég sendi ættingjum fólksins hugheilar samúðarkveðjur.
---
Könnun í Fréttablaðinu í dag sýnir að 57,2% landsmanna er fylgjandi aðskilnaði ríkis og kirkju. Þar sem ég hef alltaf verið ákaflega hlynntur sölu ríkisfyrirtækja er ég fylgjandi aðskilnaði, enda eru fá rök fyrir því að ríkið haldi uppi einni trúardeild fremur en annarri, ekki síst á tímum aukinnar fjölbreytni í því sem fólk kýs að trúa á.
Útgefendur Biblíunnar myrtir í Tyrklandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 20.4.2007 kl. 21:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 114499
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.