Leita í fréttum mbl.is

Ofbeldi og trú

Gerið ykkur klárar stelpur, ég er að koma.Það er nánast regla frekar en undantekning að ofbeldisverk sem getið er um í fréttum dag frá degi eru trúarlegs eðlis. Segja má á hinn bóginn að ofbeldi sem framið er í nafni trúar sé misnotkun á henni. Ég er sammála því, en ég tel talsverð sannindi fólgin í orðum Steven Weinberg um að til þess að gott fólk geri illt, þurfi trú til. Margur saklaus en graður drengurinn hefur eflaust látið ginna sig til voðaverks með sprengju um mittið í þeirri trú að hans bíði ástarleikur með hreinum meyjum í „himnaríki“. Voðaverk hafa oft verið framin í nafni kristinnar trúar líka, til dæmis á Norður Írlandi. Vesturlandabúar geta ekki horft framhjá því að ofbeldi í stíl öfgafullra múslima er einnig að finna meðal kristinna, þótt í minna mæli sé. Misnotkun á trúnni er ein skýring. En líta má öðruvísi á málið og spyrja sig: Er trú og ofbeldi tvær hliðar á sama peningi? Ég hygg að svo sé. 

Áttu plástur?Í heimildarmynd sem heitir The God Who Wasn't There eftir Brian Fleming kemur fram að í lang-vinsælustu trúarkvikmynd allra tíma, The Passion Of The Christ eru blóðsúthellingar, ofbeldi og þjáningar í 104 mínútur af heildarlengdinni sem er um 120 mínútur. Leikstjórinn, Mel Gibson, lagði sig sérstaklega fram um að hafa myndina sem ógeðslegasta, sprautar t.d. blóði með sprautu inn í rammann þegar verið er að negla Jesú á krossinn, eins og það gusist upp sletta þegar gaurinn fer í gegnum lófann. Þessi grófi ofbeldispakki féll trúuðum ákaflega vel í geð. Þeir flykktust á myndina og sögðu halelúja. Ég man eftir forsvarsmönnum tveggja trúfélaga mæra hana í sjónvarpinu (þ. á m. opinberu). Ég man hins vegar ekki eftir neinum forsvarsmanni trúfélags mæra í sjónvarpinu aðra kvikmynd með 52 mínútur af ofbeldi, blóði og þjáningu af hverjum 60. Að vísu horfi ég ekki mikið á sjónvarp og ef því trúlega misst af lofi klerka um Hostel (sem Eyþór Guðjónsson lék svo eftirminnilega í).

Það er víst óhætt að fullyrða í framhaldi af þessu að í kjarna kristinnar trúar er ofbeldi fyrirferðarmikið; er snar þáttur í trúnni. Krossinn sem margir bera um hálsinn er tákn ofbeldis; er aftöku- og pyntingatæki, ekki ósvipað gálga eða rafmagnsstól. Þótt sumir vilji meina að krossinn sé tákn upprisu og vonar, fer ekki á milli mála hvaða hlutverki hann gegndi. Pína Krists er heldur engin undantekning Biblíunni. Hún er í raun blóði drifin. Ef til vill er trúin aðeins birtingarmynd á ofbeldisfullu eðli mannskepnunnar og aðeins tál að halda að án trúar væri heimurinn betri.  

Væri ráð að hvetja til reykleysis á sígarettupökkum?Að mínum dómi ætti ríkið að hverfa frá trúboði og hvetja jafnvel til trúleysis. Ríkið hvetur og skikkar til reykleysis, hví skyldi það ekki hvetja og skikka til trúleysis? Reykingar drepa, það er ljóst. Trú drepur, það er líka ljóst. Yfirvöld í ríkjum þar sem sjálfsmorðsárásir viðgangast ættu að taka þetta til alvarlegrar skoðunar. Yfirvöld í vestrænum ríkjum ættu einnig að taka þetta til skoðunar. Forvarnir skipta miklu máli, um það eru allir sammála. Að vísu er hæpið að yfirvöld sumra ríkja taki upp á því að boða trúleysi, þar sem þau hin sömu sjálfskipuðu yfirvöld stjórna að eigin mati landinu í umboði guðs.

Sem eftirmála við þessa færslu langar mig að bæta við að uppgangur öfga sem tengjast trú, svo sem „vitsmunahönnun“, er mikill um þessar mundir (sjá grein í nýjasta Economist, 21. apr.). Trúaðir hafa fært sig upp á skaftið og eru í auknum mæli farnir að þröngva heimsmynd sinni yfir á aðra, einkum börnin, með góðu eða illu. Núlltrúaðir, trúlausir, trúlitlir og trúengir þurfa að mínum dómi að bregðast við. Guð skapaði ekki heiminn frekar en tunglið er úr osti. Þetta ætti að vera hafið yfir deilur, en er það ekki. Það sýnir vandann í hnotskurn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Trú og trúarbrögð eru hreint ekki alltaf það sama. Margir trúa á hið góða, upplýsandi, fræðandi og víðsýna og kalla það Guð. Mín trú er þannig og margra annarra. Hryllingurinn felst í bókstafstrú á ritningar löngu úreltra trúarrita þar sem hægt að að skýla sér á bak við voðaverk með því að vitna í ritningar sem heilög lög.  Ég sá þessa mynd "The passion of the Christ" og fannst meira en lítið gert úr ofbeldinu þar og þessu fögnuðu "heittrúaðir".  Vægast sagt ógeðfellt. En mjög góður og athyglisverður pistill hjá þér og ég ætla að fylgjast með þínum skrifum.  Bestu kveðjur.

Margrét St Hafsteinsdóttir, 26.4.2007 kl. 15:41

2 Smámynd: Berglind Steinsdóttir

Stuna, já, það sem ég er sammála þér. Trú eða trúarbrögð, ég held að náið sé nef augum og þótt ekki séu allir trúaðir ofbeldissinnaðir er meðal heitra iðkenda mikil forræðishyggja með allri hugsanlegri neikvæðni. Aðskilnað ríkis og kirkju, takk.

The Passion of the Christ ofbauð mér ekki, hvað ætli það merki, hömm hömm?

Berglind Steinsdóttir, 26.4.2007 kl. 19:47

3 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Hún ofbauð mér ekki heldur, enda ofbýður ofbeldi í kvikmyndum yfirleitt mér ekki.

Vitaskuld eru trúarbrögð svo víðfeðmt hugtak að það væri ósvinna að bendla þau við ofbeldi í heild sinni, en það stingur í augu hve ofbeldi er sentralt í kristninni. Bilið er stutt, hættan á að það flæði á milli, ofbeldi brjótist út í nafni trúar, er mikil. Um það þurfum við að vera meðvituð.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 27.4.2007 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 38
  • Frá upphafi: 114001

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 38
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband