Færsluflokkur: Dægurmál
7.10.2007 | 00:22
Sagaklasstá!
Þau undur og stórmerki gerðust að táin á Heiðrúnu Gígju Ragnarsdóttur (36) ferðaðist á fyrsta farrými í innanlandsflugi í Bandaríkjunum um daginn. "Það gerðist þannig," sagði Heiðrún Gígja í stuttu samtali við blaðið, "að ég fékk sæti næst fyrsta farrými. Það var gott sæti með nóg pláss fyrir fæturna. En svo gerðist það að táin á mér tók að pota sér inn á sagaklassann og ég fékk ekkert við ráðið. Táin ferðaðist svo það sem eftir var ferðarinnar þar. Eftir ferðalagið var táin á mér montin og leiðinleg og talsvert bólgin. Hún mun ekki fá að ferðast aftur á sagaklassa, það er alveg ljóst."
Slefað og skeint þakkar Heiðrúnu Gígju kærlega fyrir spjallið og vonar að táin á henni hætti að vera montin.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.9.2007 | 01:48
Tilviljun!
Sigurgeir Orri (40) hitti Hugleik Dagsson (29) skopmyndateiknara á förnum vegi á fimmtudag. Þetta væri svo sem ekki í frásögur færandi nema vegna þess að ég hafði nokkrum mínútum áður keypt bóki Hugleiks, Avoid us, til að gefa David frænda mínum í fimmtugsafmælisgjöf, sagði Sigurgeir Orri í samtali við blaðið. Þegar ég keypti bókina hugsaði ég með mér að það hefði nú verið gaman að fá Hugleik til að kvitta í bókina fyrir David, en enginn tími gæfist til þess þar sem ég væri að fara til útlanda síðar um daginn. David yrði bara að lesa óáritaða bók. Þegar ég svo rakst á Hugleik fyrir þessa furðulegu tilviljun í rigningarsuddanum í Austurstræti stöðvaði ég hann og bað hann um að árita bókina. Við brugðum okkur inn í vínbúðina (sem er ekki lengur með kæli) og þar teiknaði Hugleikur engil og skrifaði eitthvað bull fyrir David. Sannarlega skemmtileg tilviljun eða hvað? Já það má segja það. Ekki síst í ljósi þess að bók Hugleiks var ekki eina varan sem ég keypti í Eymundsson, heldur keypti ég líka hljómplötu Lay Low og skopmyndabók Hallgríms Helgasonar til að gefa Pat sem varð líka fimmtug í ágúst, enda tvíburasystir Davids. En bók Hugleiks var sú eina af þessum listrænu afurðum sem mig langaði að fá áritun listamannsins á. Ég veit ekki hvers vegna, líklega er það vegna þess að ég held mest upp á hann. Getur verið að þessi tilviljun tengist eitthvað því sem við spjölluðum um um daginn, þegar þú hittir Unu bloggara? Ég veit það ekki, svaraði Sigurgeir Orri, en einhver kynni að álykta sem svo að þetta sé hluti af mynstrinu sem ég talaði um. En óvissuþátturinn er alltaf sá að þetta getur hafa verið tilviljun, hversu ólíkleg sem hún kann að virðast. Blaðakona þakkar Sigurgeiri Orra fyrir spjallið og vonar að hann upplifi fleiri dæmi um svona fréttnæmar tilviljanir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.9.2007 | 21:55
Ónákvæm vísindi
Rannsóknir á loftslaginu eru afar erfiðar af þremur ástæðum. Kerfið sjálft er verulega flókið, það er aðeins eitt kerfi svo samanburðarrannsóknir eru ekki mögulegar, og stýrðar tilraunir eru heldur ekki mögulegar. Það mun því alltaf verða óvissa og þar af leiðandi nægt tilefni til ágreinings. Á hvaða sveif yfirvöld hallast stjórnast af pólitík en ekki vísindum.
Hagfræðingurinn 13. ágúst 2005. Íslensk þýðing Sigurgeir Orri.
Studying the climate is a hard problem for three reasons. The system itself is incredibly complex. There is only one such system, so comparative studies are impossible. And controlled experiments are equally impossible. So there will always be uncertainty and therefore room for dissent. How policymakers treat that dissent is a political question, not a scientific one.
Economist 13. ágúst 2005
Dægurmál | Breytt 25.9.2007 kl. 09:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2007 | 22:58
Hitti Unu!
Um það bil sem Sigurgeir Orri (40) kvaddi Svavar vin sinn í gær eftir kvöldverð á Sússístaðnum hans Stjána og spjall á Kaffi París, rakst hann á Unu Sighvatsdóttur (22), Önund mann hennar (22) og vinkonu þeirra (14). Það var sérstaklega gaman að rekast á Unu vegna þess að ég hef verið aðdáandi hennar allt frá því ég rambaði inn á bloggsíðu hennar fyrir mörgum árum. Mig hefur allaf langað að hitta hana í raunveruleikanum, sagði Sigurgeir Orri í samtali við blaðið. Þetta er eiginlega í fyrsta skipti sem ég tala við manneskju sem ég hef kynnst í gegnum bloggsíðu. Það var mjög ánægjulegt. Hvers vegna ertu aðdáandi Unu? Þótt Una sé ef til vill ekki virkasti bloggari í heimi, er alltaf gaman að lesa það sem hún skrifar. Hún hefur ákaflega góð tök á íslensku máli, er einlæg og fyndin. Skoðanir hennar fara að mörgu leyti saman við mínar og sú sýn sem hún hefur á lífið og tilveruna er heillandi. Það er aldeilis hrós, heldurðu að Una fyllist ekki af monti og verði leiðinleg við sína nánustu og jafnvel fleiri? Nei, því trúi ég ekki, Segir Sigurgeir Orri og hlær. Hún veit örugglega af því sjálf hvað hún er frábær og hefur lært að lifa með því.
Það var þá skemmtileg tilviljun að þú skyldir rekast á hana?Já það má segja það. Að vísu er það hætt að koma mér á óvart hversu oft ég hitti eða sé fólk sem ég hef hugsað til. Þú verður nú að útskýra þetta nánar. Það er sjálfsagt. Vitaskuld er Ísland lítið land og maður er sífellt að rekast á kunningja og samferðafólk í gegnum tíðina. En mér finnst ég hafa orðið var við nokkurs konar mynstur eða reglu sem erfitt er að finna röklegan stað. Þetta mynstur birtist svona: Ef ég hugsa ég með mér: Hvað skyldi þessi manneskja vera að gera núna? Til dæmis gamall skólabróðir eða -systir. Nánast undantekningalaust rekst ég á viðkomandi eða sé tilsýndar á götu skömmu síðar. Ertu með þessu að segja að ef þú óskar þér einhvers að það muni rætast? Hugsanlega. Ég hef að vísu aldrei unnið í happdrætti þótt ég hafi nokkrum sinnum keypt miða og væntanlega óskað mér um leið að ég ynni. Kannski eru happdrætti undantekning frá reglunni.
Ég verð nú að segja þér sögu fyrst við erum farin að tala um happdrætti og slíkt. Einu sinni fyrir langa löngu var ég sofandi og dreymdi lottótölurnar sem áttu að koma í næsta drætti. Þær voru þarna beint fyrir framan mig eins og stafir á bók. Það leið nokkur stund áður en ég þ.e. meðvitundin rankaði við sér og gerði sér grein fyrir því að ég gæti unnið fúlgu fjár með þessa vitneskju. Þá var eins og við manninn mælt, tölurnar hurfu úr minni mínu allar nema ein, sem var 18. Ég keypti ekki einu sinni miða í lottóinu, en horfði á útdráttinn í sjónvarpinu og sagði við það tækifæri við kærustu mína sem þá var, að það væri pottþétt að 18 kæmi. Svo komu tölurnar ein af annarri og ég var farinn að halda að mig hafi dreymt tölurnar sem áttu að koma í þarnæsta drætti. En svo kom síðasta talan og hún var 18! Þetta gæti að vísu hafa verið tilviljun, ekki satt? Vissulega, en skrýtin tilviljun samt.
Ég hef haft þessa pælingu lengi í kollinum. Ég man ekki hvenær það var, en það hlýtur að hafa verið snemma á tíunda áratugnum sem ég fór að taka eftir þessu mynstri. Þá hafði ég hugsað til skólasystur minnar sem vinur minn bjó með á tímabili. Hún átti dóttur sem var kornabarn þegar þau voru saman og ég hafði ekki séð barnið í nokkur ár. Ég hugsaði með mér: Hvernig ætli barnið hennar Lindu líti út í dag? Skömmu síðar sá ég mæðgurnar í Kringlunni. Þá hugsaði ég með mér: Þetta getur ekki verið tilviljun.
Af hverju ertu þá ekki milljarðamæringur fyrst þú getur óskað þér einhvers og fengið óskina uppfyllta? Þetta er ákaflega góð spurning og er til marks um hversu góð blaðakona þú ert. Ég hygg að maður verði að flokka óskirnar. Þær óskir sem ég er að tala um eru í raun ómeðvitaðar óskir. Ósk um að sjá eða hitta einhvern birtast fyrirvaralaust í kollinum á mér, koma úr dulvitundinni. En ef ég hins vegar óska þess að vinna í happdrætti blindravinafélagsins, er næsta öruggt að ég vinn ekki því sú ósk er meðvituð. Ertu þá að segja að það verði að flokka óskir í meðvitaðar og ómeðvitaðar? Já, það má segja það. Svo er örugglega hægt að flokka óskirnar í fleiri flokka. En ef þú til dæmis óskar þér þess að hitta einhvern sem er dáinn, er þá hætta á að þú deyir næstu daga? Já, það eru miklar líkur til þess, þess vegna hef ég aldrei óskað mér þess að hitta neinn sem horfinn er yfir móðuna miklu. En ef þú óskar þér að hitta einhvern sem er dáinn en þú veist ekki af því? Þá er ég í skítamálum. Heldurðu að þetta lögmál sé líka í gangi í Peking þar sem nokkrir milljarðar búa? Engin spurning. Líkurnar eru jafnmiklar í slíku mannhafi. Nú ertu alveg búinn að missa það! Nei, aldeilis ekki. Ég tel að fólk og líka dýr eigi samskipti milli sín sem eru ómeðvituð og berast um eins og útvarpsbylgjur.
Það var eitt sinn gerð tilraun á kanínu sem átti unga. Kanínan var sett í hnausþykkan blýhólk sem engar bylgjur komust í gegnum og honum lokað. Á haus kanínunnar voru skynjarar sem tengdir voru við mæli. Svo voru ungar hennar drepnir hver af öðrum og í hvert sinn kom kippur á mælinn. Ég hef sjálfur persónulega reynslu af svona sambandi vegna þess að vinkonu mína dreymdi númer á hótelherbergi sem ég hafði farið inn á um nóttina, en ég var næturvörður á hóteli þegar þetta var og þurfti að hafa afskipti af draugfullum manni sem gisti í herbergi 401. Hún hafði aldrei gist á hótelinu og vissi ekkert um númerin. Hún sagði mér frá þessum draumi daginn eftir, að hún hefði búið á herbergi 401 og teiknaði á servéttu hvar það var í húsinu og það var á sama stað og í raunveruleikanum. Þetta sýnir svart á hvítu, meira að segja stærðfræðilega, að skilaboð berast milli manna um fleira en hin hefðbundnu skynfæri. Þetta er nokkuð áhugavert sem þú ert að segja. Viðtalið okkar hefur farið um víðan völl. Það sem átti að vera stutt frétt um að þú hafir hitt bloggarann Unu Sighvatsdóttur hefur snúist upp í háfleygar pælingar um sérkennilegt mynstur og samskipti dulvitunda. Já, það má segja það að þetta viðtal hafi breyst úr Slef og skeint viðtali í Mannslefs viðtal. Ef ég hefði minnst á miðborgarvandann og krafist aukinna ríkisútgjalda og styttri opnunartíma og færri skemmtistaða, hefði þetta verið fyrirtaks Moggaviðtal. Það er nú óþarft að byrja á því að níða Morgunblaðið, þetta viðtal hefur farið nógu mikið út fyrir efnið. Viltu segja eitthvað að lokum? Já, ég vona bara að þetta hljómi ekki eins og hvert annnað bull. Að svo komnu máli lýkur þessu viðtali og blaðamaður setur á sig trefil, húfu og vettlinga og hneppir að sér kápunni og arkar út í norðangarrann.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2007 | 08:39
Fann ekki tölvupóstfang!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.9.2007 | 09:31
Spilaði í stuttbuxum!
Í gærkvöldi fór Sigurgeir Orri (40) í innanhússfótbolta og spilaði í stuttbuxum. Yfirleitt hef ég spilaði í síðum íþróttabuxum, svörtum frá Nike, en í þetta skiptið gerði ég breytingu. Það hafði ekki áhrif á leikinn, þvert á það sem ég hafði vonað, sagði Sigurgeir Orri í stuttu samtali við blaðið. Það gekk að vísu vel að sóla, en ég tel það vera vegna þess hversu andstæðingarnir voru slappir en ekki sú staðreynd að ég var í stuttbuxum. En er algengt að leikmenn í knattspyrnu spili í stuttbuxum? Já, það er nú eiginlega regla fremur en undantekning, sagði Sigurgeir Orri. Ég man ekki hvers vegna ég fór að leika í síðbuxum, það hlýtur að hafa verið þegar ég var að spila úti í kulda, svo vandist ég á það. Ef kalt er í veðri er gott að vera í síðbuxum til að halda vöðvum heitum. Það minnkar líkur á tognun. Þess má til gamans geta að stuttbuxurnar fékk ég frá Matta vini mínum í fertugsafmælisgjöf.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2007 | 13:53
Reikningsnúmer 46664
Þeir sem vilja styrkja Branson við að styrkja McCann-hjónin, vinsamlega leggið inn á reikning 46664. Branson lét af þessu tilefni húðflúra númerið á ennið á sér, eins og sést á meðfylgjandi mynd.
Branson leggur fram fé vegna lögfræðikostnaðar McCann hjónanna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2007 | 22:47
Þeir lifðu af síðasta hlýindaskeið
Spá fækkun ísbjarna um 2/3 fyrir miðja öldina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
8.9.2007 | 23:15
Lagði upp á gangstétt!
Sigurgeir Orri (40) lagði jeppanum sínum uppi á gangstétt í dag. Það atvikaðist þannig, Sagði Sigurgeir Orri, að ég var að sækja efni í timbursölu Húsasmiðjunnar og þurfti að ná í smádót í verslunina. En þá vildi svo óheppilega til að Húsasmiðjan var búin að auglýsa ofurútsölu og búðin var full af fólki í von um kjarakaup. Bílastæðið var troðfullt og ég með kerru! Hvað gera menn við slíkar aðstæður? Jú, brjóta lögin. En sem betur fer fékk ég ekki sekt.
En hefur Sigurgeir Orri ekki samviskubit yfir þessu lögbroti. Vissulega geri ég það, en ég vil minna á að ég var í mikilli neyð, varð að flýta mér að sækja dótið því sendibíllinn með allt hitt efnið var á leiðinni heim. Ég þurfti að vera kominn heim til að bera gipsið og járnið inn með bílstjóranum.
En ef Sigurgeir Orri var með kerru, hversvegna var þá sendibíll að flytja efnið? Sigurgeir Orri hlær. Er nema von þú spyrjir. Það atvikaðist þannig að þegar til kastanna kom var kerran of lítil. Efnið passaði einfaldlega ekki í hana. Það er skemmtilegt frá því að segja að þegar ég var um það bil að hringja á sendibíl, rifjaðist það upp fyrir mér að Jón Viðar vinur minn er nýbúinn að kaupa sér sendibíl. Ég hringdi í hann og hann gat komist í hvelli. Það bjargaði málinu.
Slef og skeint óskar Sigurgeiri Orra velfarnaðar í byggingaframkvæmdunum.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2007 | 11:10
Ekki alltaf í eftirlæti
Rakst á þessa frétt í gömlum Mogga um daginn og langar að deila henni með lesendum. Þarna sést að Bergman var ekki tekinn neinum silkihönskum í fyrirmyndarlandinu Svíþjóð.
Sænsk stjórnvöld kosta varðveislu á verkum Bergmans | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (13.1.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 8
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.