Færsluflokkur: Dægurmál
26.12.2008 | 08:44
Icesave vasareiknir - Enginn mínus bara plús!®
Egozentric®© París, Mílanó, London, Róm er stolt af því að kynna til leiks einstaka hönnun og vöru: Icesave vasareikninn - Enginn mínus bara plús!® Hver kannast ekki við að hafa lent í fjárhagserfiðleikum? En ekki lengur, með nýja Icesave vasareikninum - Enginn mínus bara plús!® þarf enginn að hafa áhyggjur af fjármálunum. Eftir aðeins fimm mínútna útreikning með nýja Icesave vasareikninum - Enginn mínus bara plús!® ertu kominn í bullandi gróða og gleði. Fjárhagsáhyggjurnar hverfa eins og hlutabréf í gjaldþrota félögum. Varla er hægt að hugsa sér betra tæki, því eins og nafnið gefur til kynna passar vasareiknirinn - Enginn mínus bara plús!® í alla rassvasa. Enginn verður með rassvasabókhald með þessa græju í rassvasanum, því hún reiknar út bókhaldið fimm ár fram í tímann og sjö ár aftur í tímann og leiðréttir allar skekkjur.
Icesave vasareiknir - Enginn mínus bara plús!® Litur hvitur með rauðum tökkum. Rafhlöður fylgja ekki. Vertu ekki með hnút í maganum vegna fjármála, vertu með Icesave vasareikninn - Enginn mínus bara plús! í rassvasanum. Gróði, gróði, gróði, ekkert tap og þér líður eins og fyrirmenni í veislu á reikningi ríkisins.
Það sýnir vel hve mikil bylting er hér á ferðinni að stjórnmálaflokkurinn Vinstri grænir ætlar að leggja til að allar reiknivélar á Íslandi verði bara með plús og engan mínus. Eru þeir með frumvarp í smíðum um það mál sem lagt verður fyrir Alþingi klukkan fimm að morgni nýársdags.
Verðið á Icesave vasareikninum - Enginn mínus bara plús!® svíkur engan, ekki frekar en Icesave sjálft. Aðeins 14990 krónur, eða 49 evrur. 1% af seðilgjaldi rennur óskipt til sérkennara forstjóra fjármálaeftirlitsins.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 10:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.12.2008 | 09:02
Sparnaðarráð: Leggja niður ríkiskirkjuna
Það er ekki úr vegi að leggja þetta sparnaðarráð til þegar fyrir dyrum er hátíð ljóss og vonandi friðar. Hátíð sem haldin er vegna þess að nú ætlar sólin okkar að hækka sig á lofti og svo kemur vorið og sumarið. Um árþúsundir hefur þessum tímamótum verið fagnað. Fyrir ekki svo löngu síðan var hátíðin yfirtekin á vesturlöndum og víðar af kristninni ef svo má segja og hækkandi sól persónugerð í manni sem kallaður er Jesú. (Manni sem fæddist víst í júní, ef eitthvað er að marka nýjustu útreikninga.)
Hækkandi sól sem mönnum hefur þótt viðeigandi og rétt að skála fyrir hefur í áranna rás orðið hluti af stofnun á framfæri ríkisins, skattgreiðenda, hvort sem þeim líkar betur eða verr.
Er ekki við hæfi nú að leyfa þeim sem vilja, halda upp á hækkandi sól og iðka sína trú á eigin kostnað? Hvað er fallegra og meira í anda kristninnar? Hugsið ykkur jólin hjá þeim sem af eigin sannfæringu hefja upp raust sína um frelsarann og fagnaðarerndið og boðskapinn, án þess að ríkið greiði þeim laun fyrir. Þá fyrst erum við að tala um trú.
Í frumkvæðinu og viljanum og sannfæringunni, þar er fegurðin. Þar vil ég vera. Gleðileg jól.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.12.2008 | 22:37
Kiss of death
Hver kannast ekk við að hafa fylgt hugsjón sem drapst? Hver kannast ekki við að hafa haldið með liði sem tapaði? Flestir ef ekki allir kannast við að hafa einhverju sinni verið í þessum sporum. Lífið er stundum í hag, stundum í óhag. Þó eru þeir til sem virðast aldrei geta haldið með réttu liði eða málstað. Virðast þefa uppi með næmu nefi allt sem dæmt er til að mistakast eða falla og misskilja skilaboðin og halda að hér sé sannleikurinn á ferðinni og gerast ákafar klappstýrur. Klappa, klappa og klappa jafnvel þótt þeir séu einir eftir ... en halda samt áfram og segja á útlensku: You aint seen nothing yet! Egozentric®© er stolt af því að kynna nýjustu hönnunina í vörulínunni sem miðar að hámarks gróða fyrir sem minnsta fyrirhöfn.
Kiss of death. Stærð 1-100. Litur Rauður. Ert þú koss dauðans? Sölnar allt og visnar og drepst sem þú kemur nærri? Ef svo er, er þessi vörulína fyrir þig. Veskið mun ekki visna við kaup á þessari vöru, verðið er sem fyrr hlægilegt: 9990 krónur (bolur). 1% af sendingarkosnaði rennur óskipt til samtaka til styrktar þeim sem geta aldrei haldið með réttu liði. (Samtökin voru stofnuð er kommúnistaflokkur Íslands, Samtök frjálslyndra- og vinstrimanna, Alþýðubandalagið og Aðdáendafélag Leeds United sameinuðust. Útrásarvíkingar eru sérstaklega boðnir velkomnir. Vetnisáhugafólk og þeir sem telja jörðina vera að hlýna af mannavöldum eru líka velkomnir.)
Nýtt nýtt: Kiss of death poncho. Litur Gulur. Ein stærð. Farðu á leik með Leeds og tapaðu að minnsta kosti þurr. Verð aðeins 19990 krónur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2008 | 23:53
Er hagkerfið lent?
Hver kannast ekki við þá nagandi spurningu hvort hagkerfið sé lent? Fyrir þá sem sjá þess engin áþreifanleg merki, sjá bara lífsræksnið ganga sinn vana gang, er þessi bolur. Egozentric®© er stolt af því að fá að græða á spurulli alþýðunni. Hver og einn hefur sitt að sýsla með í lífinu og má ef til vill ekki vera að því að kanna hvort hagkerfið sé lent eða ekki. Er jafnvel hjartanlega sama, en vill þó sýna hluttekningu og skilning og stuðning við málefnið. Því það er mikilvægt, margur stjórnmálamaðurinn á bágt núna, einkum þeir sem vita að því er virðist, ekkert í sinn haus og eru ekki einu sinni hafðir með á fundum um málefni sem þeir bera þó ábyrgð á. Sumir spyrja eflaust: Er hagkerfið hrapað? Hvar er þá flakið? Er flakið hugsanlega mögulega kannski við höfnina í Reykjavík? Það getur varla verið, þetta er glæsilegur minnisvarði um eyðslu á almannafé til góðra verka. Góðra og gildra verka.
Er hagkerfið lent? Stærð 1-100. Litur: Svartur. Vertu ekki pólitískt viðrini, vertu með á nótunum og krefstu svara. Verð aðeins 7990 krónur. 1% af pökkunarkostnaði fer óskiptur til lestrarkennara Björgvins G. Sigurðssonar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
11.12.2008 | 11:45
Nei þýðir víst ekki nei
Írar sagðir reiðubúnir að kjósa á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
10.12.2008 | 23:23
Icesave Poncho
Egozentric®© París, Mílanó, Róm, Aþena, Tokyo hefur ekki farið varhluta af kreppunni sem skollin er á. Ekki svo að hönnunarstofan hafi gert axarsköft svo neinu nemi, en margir af bestu viðskiptavinunum voru fyrirtæki sem nú eiga í lítilsháttar erfiðleikum og geta af þeim sökum ekki greitt fyrir þjónustu Egozentric®©. Ekki er ætlunin að kvarta undan eigin óláni heldur finna leiðir til að græða á óláni annarra.
Íslenskir bankamenn, bæði núverandi og fyrrverandi, vita hvað það rignir mikið í London. Því hefur Egozentric®© ákveðið að markaðssetja á Bretlandseyjum, á hlægilegu verði, Icesave ponchoið sem hannað var sérstaklega fyrir viðskiptavini Icesave til að halda þeim þurrum í suddanum. Þeim hefur víst fækkað eitthvað, en almenningi hefur ekkert fækkað og hann virðist geta tekið á sig ótrúlegustu skuldir, svo eitt poncho ætti ekki að setja neinn á hausinn.
Icesave poncho. Litur: Gulur. Ein stærð passar á alla (líka Sigurjón digra). Ekki rigna niður í suddanum í London. Vertu keikur og þurr og gakktu um heimsborgina vel varinn. Tengdu þig við mikinn gróða og mikinn auð og mikla ávöxtun. Icesave ponchoið kostar aðeins 9990 krónur. 1% af sendingarkostnaði rennur óskiptur til Fjármálaeftirlitsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.12.2008 | 21:20
Verðlaunabolur
Egozentric®© París, London, Róm, Mílanó var einu sinni sem oftar að láta taka til í vöruskemmu félagsins við Oxfordstræti í London og rakst þá á stæðu af bolum sem gerðir voru fyrir góðan viðskiptavin fyrir eigi alllöngu síðan. Góði viðskiptavinurinn á í greiðsluerfiðleikum og hefur ekki getað staðið skil á greiðslum fyrir verkið. Hefur Egozentric®© því ákveðið að setja bolina á útsölu á frábærlega góðu verði til að lágmarka hugsanlegt tap. Tíundi hver kaupandi fær helgarferð til London í kaupbæti gegn því eina ómerkilega skilyrði að hann klæðist bolnum yst fata í ferðinni.
Icesave. Stærð 1-100. Litur: Hvítur með grænum kraga. Af sérstökum ástæðum eru 50 þúsund Icesave bolir nú á útsölu á hlægilegu verði, aðeins 5990 krónur. Tilvalin jólagjöf handa erlendum vinum, kunningjum og viðskiptavinum sem treystu Icesave fyrir sparnaði sínum. Mjúki pakkinn í ár!
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.12.2008 | 11:43
Nýr fréttavefur: AMX
Vil vekja athygli lesenda á þessum nýja fréttavef. Styrmir Gunnarsson er ekki sestur í helgan stein og skrifar bara ágætis Reykjavíkurbréf um Sjálfstæðisflokkinn og þjóðfélagið og erfið viðfangsefni þessara missera. Evrópusamband eða ekki? Annan gjaldmiðil? Kosningar fyrr? Davíð lagður í einelti?
Sko. Netið er fjölmiðill. Margar skoðanir. Engin einokun. Eina sem farið er framá að þú ferðist víða um það og sért ekki lítilla sanda og sæva sokkinn ofan í prentmiðlana.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2008 | 11:29
Vottur Jehóva á flatbotna skóm
Prince sem er víst orðinn vottur Jehóva er hættur að syngja í háhæluðum skóm og farinn að móðga homma. Hommar móðga líka homma og pynta þá jafnvel, þótt þeir séu Norðmenn. Boy George, gamla poppstjarnan mín, sem lítur orðið hryllilega út ef eitthvað er að marka myndina, gerðist sekur um slíkt athæfi á dögunum. Kærasti Elton John gengur með lokk úr barnahári af Elton í nisti um hálsinn þegar hann fer í fjallgöngur.
Ég fékk nokkur hlátursköst þegar ég las þessar frásagnir um daginn. Mikilvægt að halda því til haga.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2008 | 11:31
Seinþreyttur til farsældar
Svavar Guðmundsson og Sigurgeir Orri í dulargervum sem Chelsea aðdáendur á Brúnni í leynilegri ferð til Bretlands á vegum ríkistjórnarinnar.
Svavar Guðmundsson vinur minn virðist hafa hrokkið undir óheillastjörnu þetta árið. Ég ætla ekki að rekja ófarir hans fyrir utan þær sem hann lenti í í gær. Hann lagði bifreið sinni við Garðastrætið, beint fyrir framan stöðumælatæki sem prentar út, gegn gjaldi, miða til að setja í framrúðuna. Setur pening í tækið en ekkert gerist. Þá kemur aðvífandi stöðumælavörður sem reynir að laga en án árangurs. Kemst að þeirri niðurstöðu að tækið sé bilað. Fer. Svavar staldrar við hjá mér í um 20 mínútur og þegar hann ætlar að fara er komin sekt á bílinn.
Þetta er dæmigert fyrir Svavar þessi misserin. Ég vona að nýja árið verði honum farsælla.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 114492
Annað
- Innlit í dag: 2
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 2
- IP-tölur í dag: 2
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.