Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Úr öskunni í eldinn

Heyrst hafa sjónarmið um að með Evrópusambandsaðild losni Íslendingar við hina meintu spillingu sem hér þrífst. Innganga í sambandið mun síður en svo leiða okkur af braut spillingar, heldur miklu fremur á beinni og breiðari veg til enn meiri spillingar.

Þetta skrifaði Vefþjóðviljinn 2006:

„Tólfta árið í röð hefur Endurskoðunarréttur Evrópusambandsins neitað að undirrita reikninga sambandsins fyrir síðasta fjárlagaár. Athugasemdir Endurskoðunarréttarins snúa að aðildarríkjunum og framkvæmdastjórn sambandsins og snýr gagnrýnin bæði að óreiðu og skipulagsleysi bókhalds Evrópusambandsins. Hluti óreiðunnar er síður alvarlegur og er vegna ófullkominna fylgiskjala en stór hluti óreiðunnar á rætur að rekja til þess að víða er svindlað með miðla Evrópusambandsins eins og alkunna er.“

Það má ef ég man rétt bæta amk. einu ári við þessa tölu.

Sem frjáls og óháður fjölmiðill í eigu öreiga tel ég skyldu mína að halda þessu til haga.

Auglýsing!

Auglýst er eftir skoðun Evrópusambandsins á þeirri hugmynd að Íslendingar taki einhliða upp evru. Evrópusambandssinnar hafa margoft sagt að sambandinu lítist afar illa á einhliða upptöku evru á Íslandi, en hvergi hefur það sést opinberlega að því er best er vitað.

Fundarlaun í boði.


Sparnaðarráð: Leggja niður forsetaembættið

Ég ætla ekki að breytast í saltstólpa fortíðarinnar heldur horfa fram á veginn, horfa fram á sparnaðarveginn fyrir land og þjóð.

Ég hef áður lagt til þessa sparnaðarráðstöfun og geri það aftur: Leggja niður forsetaembættið. Það kostar offjár og hefur aðeins verið til óþurftar. Embættið var eitt helsta sjúkdómseinkenni (góð vísa) útrásarinnar auk þess sem það er miskunnarlaust notað í hvers kyns skrumi sem kemur sér afar illa fyrir hagsmuni Íslendinga og heimsins alls (man einhver eftir alheimshlýnunarsöngnum af völdum manna og vetnisþvælunni?). Önnur ástæða til að leggja það niður er sú misnotkun þegar forsetinn neitaði að staðfesta lög sem Alþingi hafði þó samþykkt.


Skömmtunarseðlabanki Íslands

Hér með tilkynnist að Seðlabanki Íslands hefur hlotið nýtt nafn. Nýja nafnið er: Skömmtunarseðlabanki Íslands. Hlutverk hans er að gefa út og útbýtta skömmtunarseðlum og skrifa undir leyfi fyrir innflutningi vörum sem bankastjórnin telur mikilvægar.

Þeir sem vilja epli um jólin, vinsamlega skrifið greinargerð í 10 liðum þar sem ástæður fyrir beiðninni eru útskýrðar. Greinargerðinni skal skilað til stjórnar Skömmtunarseðlabanka Íslands eigi síðar en 4. desember.


Traustið á krónunni

Vefþjóðviljinn fjallaði um daginn um aðila sem tóku myntkörfulán og ályktaði svo:

„Það er eiginlega ekki hægt að sýna gjaldmiðli lands meiri virðingu og traust en að taka erlend lán til að kaupa lóðarskika í landi gjaldmiðilsins og byggja hús á honum. Þeir sem kaupa tæki og tól fyrir erlent lánsfé eiga þó þann kost að selja dótið aftur úr landi fyrir erlenda mynt en lóð og hús verða varla flutt úr landi.“

Hvernig er hægt að komast að þessari niðurstöðu? Þeir sem tóku myntkörfulán voru alls ekki að sýna krónunni virðingu. Þeir voru að hafna henni. Eina sem þeir gerðu ekki ráð fyrir var að krónan dræpist.


Vondur dagur

Sorglegasta fyrirsögn í heimi

Mikið var sorglegt að sjá forsíðu Morgunblaðsins í morgun. Víðtæk gjaldeyrishöft! Mér er svo niðri fyrir að ég vill helst ekki skrifa neitt. Það er etv. táknrænt fyrir þessi lög að þau hafi verið samþykkt í skjóli nætur. Er virkilega ekki hægt að gera þetta á daginn? Er svona mikið að gera hjá Alþingi? Það hefur yfir sér einhvern lúðablæ að samþykkja þetta grútsyfjaður og dómgreindarlaus klukkan fimm að morgni. Ekki bara lúðablæ, heldur líka skuggalegan blæ, eins og það sé verið að gera eitthvað sem þolir ekki dagsins ljós.

Sjónarmið um að stokkað verði upp í ríkisstjórn og stofnunum eiga fullan rétt á sér. Ríkisstjórnin virðist ekki gera sér grein fyrir að hún ber ábyrgð á þjóðarskútunni. Við vorum sofandi og því er strandið ekki okkur að kenna, segja þeir. Það væri einnig pólitískt klókt að einhverjir segi af sér, þó ekki væri nema ráðuneytisstjórar sem grunur leikur á að hafi nýtt sér innherjaupplýsingar og selt hlutabréfin sín. Afsögn er ekki endanleg. Menn sem það gera standa jafnvel sterkari eftir. Afsagnir myndu róa reiðina í þjóðfélaginu. Sjá ráðamenn þetta virkilega ekki?

Gjaldeyrishaftalögin bera með sér að nú eigi að herða enn kverkatökin á þjóðfélaginu. Munið að vandinn nú er tilkominn vegna hávaxtastefnunnar sem leiddi af sér krónubréf eða jöklabréf og skapaði falskt velmegunaröryggi. Þeir sömu og settu þá heimóttarlegu stefnu ætla nú að „bjarga“ okkur með enn einni stefnunni, einangrunar- og gjaldeyrishaftastefnunni.

Það minnir mig á að ég ætla að lesa bókina hans Jakobs F. Ásgeirssonar, Þjóð í hafti.


Fjölmiðlar, netið og eignarhald - viðbót

Það var eitt sem ég gleymdi á rökstólunum við sjálfan mig um fjölmiðla og eignarhald sem er netinu í óhag: Á hefðbundnum fjölmiðlum eru blaðamenn að störfum sem ættu að geta kafað í málin og rannsakað þau (það er að vísu undir hælinn lagt). Netið hins vegar hefur hærra hlutfall frístundablaðamanna eins og ég er, þannig að segja má að það sé meira álitsgjafafjölmiðill frekar en rannsóknarblaðamennskufjölmiðill. Á hinn bóginn má segja að margir frístundablaðamennirnir leggi meiri vinnu í rannsóknir sínar en atvinnublaðamenn. Margar vefsíður bera þess merki.


Fjölmiðlar og eignarhald

Það er undarleg þversögn að hvergi sé minnst á internetið þegar eignarhald á fjölmiðlum er til umræðu. Eins og netið sé ekki fjölmiðill heldur bara það sem er prentað, útvarpað eða sjónvarpað eftir hefðbundnum leiðum. Þrátt fyrir að internetið sé gríðarlega fjölbreytt og mikið notað, eru samt stórir hópar fólks í engri aðstöðu til að nálgast fréttir á netið yfir daginn. Þeir verða að treysta á blöðin og útvarpið og svo af gömlum vana glápa á fréttirnar í sjónvarpinu um kvöldmatarleytið. Sumir nota netið ekki neitt, fara þangað aldrei og kunna ekki á tölvu. Ekkert að því. Hefðbundnu fjölmiðlarnir eru þrátt fyrir allt mjög áhrifamiklir. Sú skoðun mín að eignarhald á hefðbundnum fjölmiðlum skipti ekki máli, er etv. að einhverju leyti á misskilningi byggð. Manni hættir svolítið til að sjá heiminn frá eigin sjónarhóli og gleyma að taka með í reikninginn þá sem eru ekki á netinu. 

Vandinn við prentmiðlana er að þeir ganga erinda ýmissa hagsmunahópa, ekki bara eigenda blaðanna, heldur líka vina og kunningja blaðamannanna sem og auglýsenda. Auglýsingar sem líta út eins og auglýsingar eru fráleitt einu auglýsingarnar í blöðunum. Allskyns ímyndasetning og áróður og sölumennska fer fram í fréttum, tilkynningum og viðtölum. Það bregst til dæmis ekki að einhver íslenskur rithöfundur geri milljóna samning við virðuleg forlög í útlöndum um það leyti sem hefðbundin jólasala á bókum er að hefjast. Þetta er sölumennska og ímyndarsetning, ekkert annað. Svo eru aðrir sem vilja bæta hlut sinn og þá birtast viðtöl og fréttir til dæmis um að nú eigi að endurgera þessa eða hina kvikmyndina í Hollywood þótt það blasi við öllum sem sáu myndina að sagan hafi verið einkar veikburða og ólíkleg til að hljóta meiri frama en hún gerði á Íslandi.

Þrátt fyrir það að hættulegt sé að auðmenn eigi fjölmiðlana og komi í veg fyrir neikvæða umfjöllun um sjálfa sig tel ég ekki að þjóðfélaginu stafi hætta af því. Því er haldið fram nú að skortur á gagnrýni á útrásina hafi átt sinn þátt í að þjóðarskútan sökk. Það er einföldun tel ég. Meginskýringin á skaðanum er íslenski gjaldmiðillinn, en það er annar handleggur. Við getum huggað okkur við að nú virðist sem áhrif tiltekinna auðmanna fari þverrandi og jafnvel hverfandi. Ástandið sem skapaðist hefur ekki staðið lengi yfir og mun aldrei gera. Fjölmargir hafa verið óþreytandi, ekki síst á netinu, við að benda á hver á fjölmiðlana og jafnvel fjölmiðlamenn sjálfir hafa beint og óbeint varað almenning við að eignarhaldið stjórni efnistökunum. Ég var amk. meðvitaður um það og ég er viss um að fjölmargir eru það líka.

Það fer þó ekki á milli mála að einhver mesti afglapi Íslands, forsetinn á Bessastöðum, gerði mikil mistök þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin sem samþykkt höfðu verð á Alþingi. Ekki endilega vegna þess að þau takmörkuðu eignarhaldið, heldur með því að ganga gegn vilja þingsins. Með því rændi hann völdum af réttkjörnum aðilum. Ég er ekki viss um að Ísland væri í betri málum í dag þótt hann hefði ekki hagað sér eins og bjáni þarna um árið (fyrir vini sína). Það er áminning um að sá einstaklingur er óhæfur til að gegna embættinu. Og bókin um hann nýja er enn ein áminningin.

Sem sagt, ef oflátungur eignast alla fjölmiðlana, verður almenningur óhjákvæmilega meðvitaður um það og lærir að taka það með í reikninginn. Ástandið stendur ekki lengi yfir því dramb er falli næst. Fallið er nú staðreynd. Það er vitaskuld mikil misnotkun á góðvilja fólks að troða áróðursblöðum í dulargerfi dagblaða óbeðið inn um lúgur þess. Þar er aumur blettur sem hrapparnir nýta sér. Það þarf að finna lausn á því, hvernig koma má í veg fyrir svona misnotkun. Ég átta mig ekki á því hvernig best er að gera það. Líklega er lausnin fólgin í að hætta að taka við pappír inn um lúgu og nota netið fyrir nauðsynleg gögn. Póstur sem berst gæti einfaldlega verið sóttur á pósthúsið eftir þörfum. Reikningar sem berast frá bönkum og fyrirtækjum fara allir beint í heimabankann, óþarfi er að prenta hann út og senda. Og auglýsendur geta nýtt sér netið fyrir fjölpóst. Ég er til dæmis áskrifandi að auglýsingapósti frá nokkrum fyrirtækjum, enda lít ég ekki á fjölpóst sem rusl heldur nauðsynlega samræðu kaupmanna við viðskiptavini. Ég er samt ekki viss hvernig ég get nálgast pappírs Moggann minn án þess að hafa bréfalúgu. Hm... Ágætt að enda á þessari pælingu.


Hneyksli

Þetta er algjört hneyksli. Jón Baldvin á að segja af sér fyrrverandi ráðherradómi og skila fálkaorðunni. Jólasveinn ríkisins á að fá fálkaorðuna fyrir að vera svona góður við Clinton-hjónin.


mbl.is Afhending bóka dróst af gildri ástæðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Facebook er sniðug og Börkur líka

Börkur Gunnarsson skrifaði bók um veru sína í Írak, en hann starfaði þar fyrir NATÓ um skeið. Börkur, sem er vinur minn á Facebook, bauð mér í útgáfuteiti bókarinnar. Þar sem ég var ekki viss um hvort ég kæmist þrýsti ég með músinni á „maybe“ takkann þegar ég var beðinn um að velja milli þriggja kosta, hvort ég kæmist, kæmist ekki eða kæmist kannski. Þið megið alveg kalla mig seinþroska eða bara, sem satt er, vanþroska, en ég áttaði mig á því þegar ég dreypti á rauðvíninu í útgáfuteitinu á Kaffibarnum að Facebook er stórsniðugt fyrirbæri. Með nánast engri fyrirhöfn bauð Börkur öllum sem hann þekkir og vel það í teitið á Facebook.

Facebook er sem sagt einskonar símanúmerabók sem heldur utan um vini, kunningja, fjölskyldu og stundum viðskiptavini. Kosturinn er ótvírætt sá að tenglarnir sjá sjálfir um að fylla út eyðublaðið. Ég hef aldrei verið nógu laginn við að halda símanúmerabók. Gleymi að skrá inn og það er aldrei hægt að treysta á hana, upplýsingarnar úreltar og svo framvegis.

Ég er byrjaður að lesa bókina hans Barkar (sem ég keypti í teitinu og hann áritaði) og hún er bráðskemmtileg og fræðandi. Gefur góða innsýn í þann heim sem kallast Græna svæðið í Bagdad.


Skilaðu ársreikningnum!

Ársreikningar eru sendir til Ríkisskattstjóra í tölvutækuformi á rsk.is eins og lög og skilafrestir gera ráð fyrir.

Svo gerist það skömmu síðar að Ársreikningaskrá sendir bréf og fer fram á að fá ársreikninginn sendan í tölvutæku formi á rsk.is og ef það er ekki gert innan ákveðins skilafrests færðu 250 þúsund króna sekt. Drullusokkurinn þinn.

Spurningin sem þá óhjákvæmilega vaknar er þessi: Getur Ársreikningaskrá ekki bara sótt ársreikninginn sjálf inn á rsk.is? Þetta er sama svæðið, sami aðilinn, bara annað stofnananafn.

Því minna umfang ríkisins, því minni hætta á að svona glórulaus skriffinska vaði uppi.

Svei.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 114492

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband