9.10.2020 | 23:30
Vindmyllur framtíðarinnar
Fyrirheitin eru fögur, ekki vantar það. Þetta er frétt úr hinu virta stórblaði Guardian frá því fyrir 13 árum.
16.9.2020 | 20:44
Feilsporið mikla
Veiran fer yfir hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er bara spurning hvað á að sóa miklum fjármunum í þetta með tilheyrandi gjaldþrotum, atvinnuleysi, skertri heilbrigðisþjónustu og annarri þjónustu.
Eitt virðist hafa gleymst: Fólk gætir sín, er með grímu og gætir annarrar varúðar sjáft, án þess að ríkið skipi því fyrir verkum með boðum og bönnum.
Það sorglega er að í upphafi faraldursins gerðu spálíkön sérfræðinganna (sem sumir treysta á eins og nýtt net) ráð fyrir að veiran myndi fara um öll lönd án þess að íbúarnir gerðu neinar ráðstafanir til að verja sig. Það reyndist vera kolrangt en var engu að síður grunnur stjórnvalda til að grípa til harðra aðgerða. Ein vitleysa leiddi aðra vitleysu af sér, einskonar stigveldisvöxt. Bretland (fimmtánföld skekkja) og Ástralía (þreföld skekkja) eru dæmi um þetta.
Aðgerðirnar sem hófust 19. ágúst eru mesta feilspor yfirvalda á Íslandi í langan tíma. Lokunin skapaði falskt öryggi sem gerði það að verkum að fólk gætti sín ekki. Nú er það að koma í ljós með fleiri smitum.
14.9.2020 | 13:52
Ísbjörnum útrýmt
Ísbirnir hafa verið áberandi í umræðum um loftslagsmál á undanförnum árum. Í heimildarmynd Al Gore frá 2006, Óþægilegur sannleikur, sést hvar einmana ísbjörn hrekst um hafið á ísjaka. Hans beið fátt annað en dauðinn að því er virtist vegna þess að sumarís á norðurskautinu átti að vera horfinn ekki seinna en 2015. Umhverfisverndarsinnar fengu því framgengt 2008 að Bandaríkjastjórn færði ísbirni í flokk dýra í útrýmingarhættu. Alþjóðleg samtök um náttúruvernd hafa þó aðeins flokkað ísbirni sem dýr í hættu ekki útrýmingarhættu frá 1982.
Ýmsir hafa bent á þversögnina sem felst í að telja ísbirni ekki þola ísleysi á sumrum. Ísbirnir hafa hingað til lifað hitabreytingar af. Fyrir 130 til 115 þúsund árum var mun hlýrra á jörðinni en nú. Mörg sumur var íslaust á sjónum þar nyrðra.
Þegar rannsóknir á ísbjarnastofninum hófust á sjöunda áratugnum leiddu þær í ljós að stofninn var á bilinu 5 til 19 þúsund dýr og að helsta hættan sem að honum stafaði voru ótakmarkaðar skotveiðar. Veiðar voru takmarkaðar og um 1980 hafði stofninn náð sér vel á strik, kominn í hátt í 23 þúsund dýr.
Þrátt fyrir þessar góðu fréttir af ísbjarnastofninum hafa ísbirnir verið áberandi í greinum, fréttum og sjónvarpsþáttum sem fjalla um áhrif loftslagsbreytinga af mannavöldum á dýrastofna (og líf á jörðinni yfirleitt). Ísbirnir hafa hingað til verið einskonar fyrirsætur í válegum tíðindum um loftslagsbreytingar.
En ekki lengur.
Sú vandræðalega staðreynd rann smám saman upp fyrir umhverfisverndarsinnum að þeir gátu tæplega notað fyrirsætur sem eru ekki í neinni hættu í hrakspám sínum. Breska blaðið Guardian sem telur sig vera í fararbroddi þeirra sem láta sig loftslagsbreytingar af mannavöldum varða ákvað 2019 að segja upp fyrirsætusamningum við ísbirni. Ísbirnir prýða ekki lengur efni í blaðinu sem fjallar um breytingar á loftslagi jarðar. Sömuleiðis er stofnun á vegum Bandaríkjastjórnar (Atctic Report Card) hætt að gera ísbirni að sérstöku umræðuefni í skýrslum sínum. Og Al Gore í framhaldsmynd sinni Óþægilegt framhald frá 2017 lætur ísbirni alveg sigla sinn sjó.
Það er svo gott sem búið að útrýma ísbjörnum úr umræðunni um loftslagsbreytingar af mannavöldum.
25.1.2016 | 18:32
Vöggugjöfin II Öl?
Fékkst þú þá einstöku náðargáfu í vöggugjöf að vita hvað öðrum, betur en þeim sálfum, er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé þótt það sé jafnvel aðeins óljós, kitlandi tilfinning taktu þá snillingsprófið. Líkurnar á að þú sért snillingur og vitringur eru talsverðar vegna þess að hlutfall slíkra virtúósa á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Hlutfallið er svo hátt að vísindamenn standa á gati.
Á ráðstefnu sem haldin var nýlega var reynt að finna svör við þeirri ráðgátu sem þetta háa hlutfall er. Margar tillögur komu fram hver annarri kjánalegri. Sálfræðingsræfill frá Sidney taldi hlutfall snillinga (hann gerði gæsalappir með fingrunum) ráðast af því hve langt þjóðir væru komnar í að horfast í augu við sjálfar sig, það er að segja, að hlutfall spámanna væri því hærra sem tvískinnungur, hræsni og yfirdrepsskapur væri útbreiddari. Hann var púaður niður af íslensku fulltrúunum sem voru fjölmennastir á ráðstefnunni (nema hvað).
Önnur tillaga álíka vitlaus kom fram í ræðu monthana frá Montana undir yfirskriftinni Vesæll er valdalaus vitringur. Hélt hann því fram að mikill meirihluti manna myndi láta visku og speki og tilskipanir og reglur vitringa sem vind um eyru þjóta ef þeir hefðu ekki völd til þess að þvinga þeim upp á þá og samt vera hamingjusamari, heilsuhraustari og farsælli.
Alvitlausasta kenningin verður þó að teljast vera sú sem danski fulltrúinn Níels Langström setti fram. Í löngu og þvoglumæltu máli hans kom fram að rannsóknir sem hann gerði sýndu að það væri útbreiddur misskilningur á Íslandi, miklu útbreiddari en í heimalandi hans til að mynda, að boð og bönn láti vandamál hverfa. Hann gerði gys að Íslendingum og kallaði þá bláeyga að halda að blá bönn kæmu í veg fyrir alla mannlega lesti og bresti og hvaðeina sem hinir vitru og framsýnu teldu ekki við hæfi. Hættir hóra að vera hóra við það að plebbi á löggjafarþingi banni vændi eða vændiskaup? spurði hann. Nei, hún leitar skjóls frá hrammi ríkisins hjá þeim sem síst skyldi, dólgnum, svaraði hann sjálfum sér. Hann var hrópaður niður af íslensku fulltrúunum sem fóru fram á það við skipuleggjendur ráðstefnunnar að Níelsi væri bannað að fara á þjóðdansasýningu sem skipulögð var fyrir ráðstefnugesti um kvöldið.
Ekki þarf að koma á óvart að lausnin á ráðgátunni kom frá snillingi snillinganna, yfirvitringi hópsins, Guttormi Melsteð frá Enni undir Ennisennisenni. Hann benti ráðstefnugestum og heimsbyggðinni allri kurteislega á það í eitt skipti fyrir öll að náðargáfan væri einfaldlega vöggugjöf mótuð og slípuð af mörgum kynslóðum íslenskra spekinga með ofurmannlegt innsæi. Var þá mikið klappað.
Allt um það. Ekki er eftir neinu að bíða en vinda sér í næstu spurningu.
Snillingsprófið önnur spurning
Vildir þú á árabilinu 1947 til 1967 að bjór væri leyfður í landinu?
__ Já.
__Nei.
Ef svarið er nei hefurðu stigið enn eitt skrefið í rétta átt. Þú ert í virkilega góðum félagsskap margra framsýnna manna vegna þess að Pétur Sigurðsson alþingismaður lagði fram frumvarp 1960 og aftur 1966 um að leyfa bjór. Pétur sagði meðal annars í framsögu að það væri meira en lítið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu á veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengisbölinu, en meginrökin væru að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna.
Sigurvin Einarsson alþingismaður furðaði sig á þrákelkni Péturs og sagði í ræðu: Hvar sem öl er bruggað og selt, verður það almenningsvarningur, almenningsneyzla, almenningslöstur. Ölið verður daglegur drykkur meira og minna á vinnustöðum, sem stelur peningum frá mönnum og dregur úr afköstum. Menn þurfa ekki annað en bera saman afköst íslenzkra verkamanna og öll tilþrif á vinnustað við störf starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum, þar sem a.m.k. einn í hverjum hópi hefur nóg að gera að ná í ölföng. Hætt er við, að hér yrði útkoman ekki ósvipuð með ölið og með sígaretturnar, það yrði nautnavarningur, furðu sakleysislegur, en menn mundu kaupa ölið, þegar þeir færu að venjast því, og smám saman gætu þeir ekki án þess verið. Og spariskildingarnir færu til ölkaupa í staðinn fyrir húsbyggingar eða að prýða heimili sín eða í staðinn fyrir góðan mat. Verkamenn nágrannalandanna eiga ekki fé til að byggja fyrir íbúðir eða prýða heimili sin á sama hátt og íslenzkir verkamenn. Hér talar sá sem vitið og framsýnina hefur. Íslenskir vinnustaðir nú um stundir eru vissulega nánast óstarfhæfir vegna bjórþambs starfsfólksins daginn út og inn. Ekki satt?
Skemmst er frá að segja að frumvarp Péturs var fellt. Á móti voru auk Sigurvins Einarssonar: Axel Jónsson, Ágúst Þorvaldsson, Benedikt Gröndal, Björn Fr. Björnsson, Eðvarð Sigurðsson, Einar Olgeirsson, Eysteinn Jónsson, Geir Gunnarsson, Gísli Guðmundsson, Gunnar Gíslason, Vilhjálmur Hjálmarsson, Halldór E. Sigurðsson, Hannibal Valdimarsson, Ingólfur Jónsson, Ingvar Gíslason, Lúðvík Jósepsson, Matthías Á. Matthiesen, Sigurður Ágústsson, Sigurður Ingimundarsson, Jón Kjartansson og Sverrir Júlíusson.
Ef svo ólíklega vill til að svarið er já hefurðu því miður færst einu skrefi fjær því að geta talist vera fórnfús og framsýnn snillingur sem ert fær um að vita hvað öðrum er fyrir bestu. Þú ert í félagsskap manna eins og áðurnefnds Péturs Sigurðssonar sem hvatti andstæðinga bjórsins að vera samkvæma sjálfum sér og stuðla að banni á sterku áfengi fyrst bjórinn væri jafn hættulegur og þeir vildu vera láta. Með því að láta það ógert væru þeir að viðurkenna að slíkt bann væri tilgangslaust í nútímasamfélagi með víðtækri bruggkunnáttu og miklum samgöngum við lönd þar sem allar víntegundir væru á boðstólum. Andstæðingar bjórsins væru með öðrum orðum hræsnarar.
Þeir sem vildu leyfa bjór voru: Sigurður Bjarnason, Birgir Finnsson, Bjarni Benediktsson, Davíð Ólafsson, Einar Ágústsson, Sigfús J. Johnsen, Gylfi Þ. Gíslason, Jóhann Hafstein, Jón Skaftason, Jónas Pétursson, Jónas G. Rafnar, Óskar E. Levý, Matthías Bjarnason, Pétur Sigurðsson, Ragnar Arnalds og Björn Pálsson sem sagði það reynslu annarra þjóða að tilgangslaust væri að setja bönn. Að banna innflutning á áfengum bjór væri hliðstætt því að banna innflutning á reyktóbaki en leyfa innflutning á vindlingum. Tilkoma áfengs öls myndi gera talsvert gagn. T. d. myndi ölið sporna við hinu mikla smygli, sem ætti sér stað á áfengu öli, og væri nú ástandið þannig, að hver sá sem hefði vilja til gæti aflað sér áfengs öls.
Ekki er öll nótt úti enn þótt þér hafi ef til vill fipast á tveimur spurningum vegna þess að þú getur enn sýnt fram á að þú sért gegnheill snillingur og vitringur með því að svara næstu spurningum rétt.
Dægurmál | Breytt 14.9.2020 kl. 14:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2015 | 17:26
Vöggugjöfin I Mjöður?
Íslenska þjóðin er einstök fyrir það hve marga snillinga hún á. Snillinga sem fengu þá náðargáfu í vöggugjöf að vita miklu betur en ég hvað mér sjálfum er fyrir bestu. Og ekki bara mér, heldur öllum! Raunar væri nær að tala um gáfur frekar en gáfu vegna þess að vöggugjöfin samanstendur af nokkrum haganlega innpökkuðum bögglum sem innihalda m.a. ofurmannlegt innsæi, botnlausa djúphygli, óendanlega framsýni, ómældan góðvilja og einstaka fórnfýsi.
Sumir snillinga okkar eru jafnvel svo fórnfúsir og góðviljaðir að þeir hafa kannað til þrautar skaðsemi óhóflegrar áfengisneyslu á fjölskyldur sínar og sjálfa sig til þess eins að geta haft vit fyrir mér þegar kemur að verslunarfyrirkomulagi og öðru fyrirkomulagi á þessari varasömu en þó löglegu neysluvöru. Það er varla hægt að hugsa sér meira göfuglyndi.
Langflestir þessara snillinga, sem eins mætti kalla spámenn, fæddust þó svo miklir snillingar að þeir þuftu enga glæfraför um vafasamar lendur til að vita allt best. Það er gæfa íslensku þjóðarinnar.
Að sama skapi er það ógæfa íslensku þjóðarinnar hve sjaldan er hlustað á spámennina hennar. Oft og tíðum er skollaeyrum skellt við ábendingum þeirra og viðvörunum þegar í raun réttri þeir ættu að vera leiðtogar, bæði veraldlegir og andlegir.
Bjórmálið svokallaða, þegar bjórinn var aftur leyfður á Íslandi eftir 75 ára bann er gott dæmi um hvílíka ógæfu það getur kallað yfir þjóð þegar ekki er hlustað spámennina. Það mál, þótt smátt sé og ómerkilegt og varla gaum gefandi, gefur ákveðnar vísbendingar um það hvort betra er að treysta hverjum og einum sauðsvörtum almúgamanni fyrir sjálfum sér og sinni gæfu eða snillingunum sem vitið og framsýnina hafa.
Til að koma í veg fyrir að annað eins óheillaskref verði tekið eins og það þegar bjórinn var leyfður á Íslandi (til dæmis að taka smásölu áfengis af könnu ríkisins) verður að lyfta þessum miklu vitringum á réttan stall og láta rödd þeirra heyrast og það sem mikilvægast er: að farið verði að leiðsögn þeirra. Gæfa okkar allra er í húfi, ekki síst æskunnar.
Fyrsta skrefið er að skilja kjarnann frá hisminu; finna snillingana sem vita manna best, eins og áður segir, hvað öðrum er fyrir bestu (jafnvel þótt þeir viti ekkert hvað þeim sjálfum er fyrir bestu, en það er eitt af undrum þessarar náðargáfu sem ekki verður farið nánar út í hér).
Leynist til dæmis slíkur vitringur í þér, lesandi góður?
Einfalt já eða nei próf getur skorið úr um það.
Snillingsprófið fyrsta spurning
Í greinargerð með frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 1947 sagði meðal annars: Á styrjaldarárunum brugguðu íslendingar áfengt öl fyrir hið erlenda herlið, sem hér dvaldi. Þótti það góð vara, og féll hinum ölvönu útlendingum vel í geð. En sala á því var ekki leyfð til Íslendinga sjálfra.
Ertu sammála því að rétt hafi verið að leyfa hinum ölvönu útlendingum að drekka íslenskan bjór á Íslandi á meðan hinum alölóvönu Íslendingum var það ekki?
__ Já.
__Nei.
Ef svarið er já hefurðu stigið fyrsta skrefið að staðfestingu á því að þú ert handhafi vöggjugjafarinnar. Þú ert í góðum félagsskap fjölmargra snillinga. Til dæmis áfengisvarnarnefndar Kvenfélaganna á Siglufirði sem ályktaði í blaðinu Mjölni 12. nóvember 1947:
Áfengisvarnanefnd kvenfélaganna í Siglufirði hefur nú sent Alþingi áskorun þess efnis, að fella bjórfrumvarp það, sem þeir Sigurður Bjarnason, Sigurður E. Hlíðar og Steingrímur Steinþórson hafa nýlega borið fram á Alþingi. Ennfremur hefur nefndin snúið sér til þingmanns bæjarins, Áka Jakobssonar, og mælst til þess, að hann beiti sér á móti frumvarpi þessu. Er áreiðanlegt, að Sósíalistaflokkurinn og þingmenn hans munu beita sér af alefli gegn þessu svívirðilega frumvarpi, sem án efa mundi leiða yfir þjóðina nýja drykkjuöld, ef það yrði samþykkt.
Ef svarið er nei eru nokkrar líkur til þess að þú hafir ekki fæðst með silfurskeiðina í munninum sem gjöfin góða er. Þú ert í miður góðum félagsskap Sigurðanna tveggja og Steingríms sem sögðu m.a. í greinargerð með frumvarpinu: Líklegt má telja, að Íslendingar geti fljótlega, eftir að þeir hafa hafið ölgerð, hafið útflutning á þessari framleiðslu. Yrði það nýr liður í útflutningsverzlun þjóðarinnar og líklegur til þess að skapa henni nokkrar gjaldeyristekjur, ef til vill verulegar, er tímar líða. Óhætt er að fullyrða að skammsýni alþingismannanna var einstök.
Það er yndislegt til þess að hugsa hve mikla umhyggju og ást ráðandi aðilar á Íslandi sýndu þjóð sinni með því að forða henni frá glapstigum öldrykkjunnar. Það var sannarlega klókt bragð; það mætti jafnvel kalla það hluta af andspyrnuhreyfingunni að láta setuliðið eitt um að þamba bjór. Ég sé vodkavana Íslendinginn ljóslifandi fyrir mér í ullarfrakka og með barðahatt á Austurvelli á stríðsárunum að fá sér sopa af pelanum sínum og glotta háðslega til hermannsins sem kýs heldur hinn stórhættulega bjór til að svala áfengisfíkn sinni. Hermaðurinn var sannarlega á hraðari leið til glötunar en Íslendingurinn, ekki satt?
Hafirðu svarað rangt þessari fyrstu prófspurningu, örvæntu eigi. Þú hefur enn tækifæri til að bæta ráð þitt og sýna fram á að þú ert þrátt fyrir allt handhafi vöggugjafarinnar góðu með réttum svörum við næstu spurningum.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.9.2020 kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2012 | 20:02
Ferð höfundarins 2. útg. komin út
Ferð höfundarins 2. útgáfa eftir Christopher Vogler er komin út á íslensku.
Það eru 150 bls. af nýju efni í þessari útgáfu, meðal annars greinar um kvikmyndirnar Titanic, Reyfara, Með fullri reisn og Stjörnustríðsbálkinn, og ritgerðir um kaþarsis, póla og Rumputusk eða Hrossabrest eins og hann hét í gamla daga. Rumputuski kemur við sögu í kafla sem heitir Sögur eru lifandi verur. Rumputuski hjálpaði, eins og frægt er orðið, stúlku að spinna gull úr stráum svo hún yrði ekki höfðinu styttri. Í laun vildi hann lítilræði; fyrsta barn hennar. Stóð hún við samninginn?
Kaflinn Viska líkamans er einkar áhugaverður. Líffærin bregðast við sögum og þau viðbrögð eru engin látalæti eða misskilningur og síst af öllu gáfumannsleg sem er næsti bær við misskilning eða eitthvað þaðan af verra. Hrollur sem hríslast um líkamann eða kökkur í hálsinum eru óvéfengjanleg skilaboð um að saga sé góð, eða að minnsta kosti áhrifarík.
Bókin er í handhægu kiljuformi og er prýdd fjölda ljósmynda úr kvikmyndum sem varpa ljósi á viðfangsefnið. Kaflarnir eru skreyttir ákaflega fallegum goðsögulegum teikningum eftir listakonuna Michele Montez, en hún lést fyrir aldur fram úr brjóstakrabbameini. Teikningar Michele eru og í ensku útgáfunni.
Eins og margir þekkja er Ferð höfundarins dregin af verkum goðsögufræðingsins Josephs Campbell. Hún sýnir hvaða aðferðum sagnaþulir á borð við Steven Spielberg og George Lucas hafa beitt við að semja sögur, hvernig kvikmyndir þeirra endurspegla goðsögulegan arf sem borist hefur milli kynslóða frá upphafi vega.
Bókin er afar hagnýt þeim sem fást við ritsmíðar og unna góðum sögum og kvikmyndum. Hún afhjúpar hið dulda mynstur sem býr í goðsögunum, mynstur sem varpar ljósi á líkamsbyggingu mannssálarinnar.
Bókin sýnir rithöfundum og kvikmyndagerðarmönnum hvernig söguþráður er byggður upp og við hvaða aðstæður persónur bera grímur stofngerðanna, til dæmis fórnarlambsins eða elskhugans. Tekinn er fjöldi dæma úr kvikmyndum, meðal annars norrænum.
Frá því fyrsta útgáfan kom út 1997, hef ég öðru hvoru frétt af fólki sem tekið hefur ástfóstri við bókina og jafnvel haft hana langtímum saman í pússi sínu eins og farsíma eða húslykla. Það er ánægjulegt. Ég vona svo sannarlega að þessi nýja útgáfa falli í kramið hjá lesendum, ekki síst yngri kynslóðum, og að hún verði til þess að auka lífsskilning og víkka sjóndeildarhring þeirra eins og hún gerði hjá mér þegar ég var yngri og vitlausari.
Kvikmyndir | Breytt s.d. kl. 20:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.4.2012 | 04:53
Bjargvættinum bjargað
Það fer ekkert á milli mála að íslenska krónan bjargaði öllu sem bjargað varð í hruninu. En svo krónan gæti bjargað okkur, þurfti fyrst að bjarga krónunni. Innrita á Landspítalann og tengja við járnlunga og gervinýra, skipta um lifur, heiladingul og gangráð, setja aftur í fitusog og gefa slakandi og örvandi næringu í æð. Þessar mikilvægu björgunaraðgerðir eru kallaðar höft til einföldunar. Meðan krónan er að jafna sig á björguninni hafa góðir menn tekið að sér að hjúkra henni og munu hugsanlega þurfa að gera það eitthvað áfram.
Það var mikið lán hve krónan var vel á sig komin líkamlega fyrir aðgerðirnar, annars hefði hún ekki lifað þær af. Einu aukaverkanirnar sem greindar verða og það verður að teljast ótrúlega lítið er að krónan er svolítið rugluð. Það er eins og hún hafi bætt við sig persónuleikum. Fyrir voru náttúrlega þessir tveir sem hún hefur flakkað á milli í þrjátíu ár, 1) Lánakróna og 2) Launakróna, sem illa gengur að lækna hana af. Færustu geðlæknar landsins, sem hafa verið með hana til meðferðar, hafa greint tvo persónuleika til viðbótar: 3) Aflandskróna og 4) Útboðskróna.
Læknarnir skilgreindu persónuleikana í greininni Fjögur andlit Krónu sem birtist nýlega í virtustu læknatímaritum heims. Helstu niðurstöður þeirra eru þessar:
- Lánakróna. Í þessum ham er hún yfirlætisfull og frek og veit allt manna best. Hún reynir að fresta öllum hlutum eins lengi og kostur er vegna þess að hún veit að á meðan hækkar verðtryggingin.
- Launakróna. Í þessum ham er hún bljúg og þæg og lætur allt yfir sig ganga og fagnar hverri nýrri krónu sem prentuð er sem væri hún gamall vinur. Fréttum af nýjum tíuþúsundkrónaseðli tók hún svo vel að hún fór með kvæði um krónuna sem hún hafði ekki farið með síðan tvö núll voru fitusogin af henni.
- Aflandskróna. Þegar hún er í þessum ham er sjálfsvirðingin engin og það þarf að setja hana í spennitreyju og binda ofan í rúmið svo hún fari sér ekki að voða. Meðan hún gekk laus klæddi hún sig í efnislítil klæði og falbauð blíðu sína fyrir smánarlega upphæð í skuggalegasta hverfinu í Hamborg.
- Útboðskróna. Í þessum ham er hún í krónísku kvíðakasti og nagar neglurnar á sér niður í kviku. Á nóttunni þylur hún heilu kaflanna úr fræðum Marx utanbókar og rökræðir þess á milli við sjálfa sig um Fylkinguna og Trotsky. Á daginn miklar hún allt fyrir sér og hefur stórkostlegar efasemdir um eigið ágæti.
Einhverjir kynnu að halda að eins sjúk og hún var gæti krónan tæplega bjargað miklu. Það er misskilningur. Hún bjargaði atvinnulífinu í heild sinni og kom í veg allir nema ríkisstarfsmenn misstu vinnuna með því að gengisfella stórkostlega laun þeirra sem þó höfðu vinnu. Það er ekki lítið afrek af helsjúkri hetju. Atvinnuleysi á Íslandi er ekki nema 6,9% (ef frá er talið fólkið sem flutti burt í atvinnuleit, en það skiptir ekki máli vegna þess að það getur étið það sem úti frýs). Til samanburðar má geta þess að atvinnuleysið í Evrópusambandinu er 10,1% og í Bandaríkjunum 8,3%. Munurinn er sláandi eins og allir sjá.
Alþjóðlegir fjárfestar, sem á mannamáli eru kallaðir fólk með peninga sem langar að ávaxta þá, munu að sjálfsögðu vilja flykkjast hingað eftir að þeir sjá hve vel er búið um krónuna og efnahagslífið. Það er víst svo auðvelt að reka alþjóðleg fyrirtæki á Íslandi um þessar mundir, ef eitthvað er að marka Össurarmenn. Og sjáið Samherja og alþjóðleg dótturfyrirtæki hans. Þau eru mjög áhugsöm um að stunda viðskipti á Íslandi meðan krónan er í læknismeðferðinni. Með þessu áframhaldi verður Ísland hrein paradís á jörðu og skjaldborgin loksins verða að veruleika.
Fróðlegt væri að heyra frá mönnum í stjórnarandstöðunni hvort þeir treysti sér til að setja krónuna á göngudeild ef þeir komast til valda. Það myndi hjálpa kjósendum að ákveða sig hvað á að merkja við á kjörseðlinum, að minnsta kosti mér. Þótt allir Íslendingar sem einn séu stoltir af krónunni sinni þá getur verið örlítið lýjandi að hafa hana sjúka lengi, ég tala nú ekki um ef persónuleikaflakkið heldur áfram. Mun hún geta gengið óstudd í framtíðinni?
Ekki að ég sé að leggja það til, þá eru dæmi þess að tækin hafi verið tekin úr sambandi, einkum ef sérfæðingar úrskurða að sjúklingurinn sé sannarlega heiladauður. Enginn er að halda því fram nema örfáir galnir menn að krónan sé heiladauð. Hún er eingöngu að jafna sig og mun hressast um leið og nýi heiladingullinn byrjar að dingla. Mikilvægt er þó að meta stöðuna af yfirvegun og skynsemi. Kalt, eins og sagt er. Vona hið besta en vera viðbúin hinu versta. Hvaða kostir aðrir eru til dæmis í stöðunni ef hið óhugsandi gerðist? Myndi ekki vera skynsamlegast í þeirri stöðu að taka upp Matador-peninga? Ég á svo margar fallegar minningar frá því spili frá því ég var krakki. Það var hægt að kaupa götur og hús inni í lítilli og fallegri sápukúlu spilsins, algerlega laus við heimskuleg og vitlaus markaðslögmálin.
Alþjóðlegar myntir koma að sjálfsögðu ekki til greina fyrir ofurhagkerfi eins og Ísland. Þótt aðrar smáþjóðir hafi látið glepjast og hætt að halda úti eigin gjaldmiðlum, eins og Panama til dæmis, þá er engin ástæða fyrir Ísland að feta þá óheillabraut. Þar er allt flatt og leiðinlegt, sama og ekkert atvinnuleysi, engar gengisfellingar, aldrei nein spennandi áföll á borð við fjármálahrun og efnahagshrun. Bara hundleiðinlegur stöðugleiki og stórlega skert tækifæri fyrir stjórnmálamenn að bora göt fyrir kjördæmin sín. Hvílíkur hryllingur!
Að lokum langar mig að birta ljóðið um krónuna, en það var spilað af geisladiski á ársfundi Seðlabankans nýlega.
Krónan er komin að kveða burt snjóinn,
að kveða burt leiðindin, það getur hún.
Már hefur sagt mér, að senn komi Ólinn,
saksókn í dali og húsleit í tún.
Hún hefur sagt mér til syndanna minna,
ég svindli of mikið og vinni ekki hót.
Hún hefur sagt mér að vakna og vinna
og vonglaður taka nú höftunum mót.
Mannréttindi | Breytt 15.5.2012 kl. 16:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.1.2012 | 14:41
Hvað eiga Ísland og Norður Kórea sameiginlegt?
Jú, bæði löndin eru með gjalmiðla sem enginn utan landsteinanna lítur við og gengið er ákveðið af gömlum stalínistum.
Annað sem löndin eiga sameiginlegt er að í báðum eru verksmiðjur þar sem framleiddar eru vörur til útflutnings sem seldar eru fyrir raunverulega peninga. Þeim gjaldeyri er svo skipt í innlenda gjaldmiðilinn og starfsfólkinu greidd launin í honum.
Getuleysi stjórnmálamanna við hagstjórn hefur löngum verið talin helsta ástæða þess að krónan hefur hrapað í verðgildi eins og steinvala í urð Hafnarfjalls. En nú er kominn annar sökudólgur: Verkalýðsfélögin. Þau heimtuðu alltaf hærri og hærri laun óháð getu efnahagslífsins til að greiða þau.
Það er því kominn tvöföld ástæða fyrir því að hætta að berja höfðinu við steininn.
10.11.2011 | 15:30
Ferð höfundarins 2. útgáfa

Um þessar mundir er ég að vinna í atriðisorða- og kvikmyndaskrá nýrrar útgáfu á bókinni Ferð höfundarins eftir Christopher Vogler sem kom fyrst út í minni þýðingu 1997. Síðan þá hefur bókin tvisvar verið endurútgefin og aukin á ensku, en þessi nýja íslenska útgáfa sameinar aðra og þriðju útgáfu hennar í eina glæsilega 150 blaðsíðum lengri bók á okkar ástkæra og fjölskrúðuga máli íslenskunni.
Þegar bók er komin á það stig að hægt er að gera atriðisorðaskrá er ljóst að stutt er í útgáfu. Það hefur tekið lengri tíma en ég áætlaði að ganga frá nýju útgáfunni en nú er því verki sem sagt lokið. Ég get slegið því föstu, án þess að lofa upp í ermina á mér, að bókin kemur út snemma á næsta ári.
Ferð höfundarins er eitt af undirstöðuritum þeirra sem leggja fyrir sig sögusmíðar, hvort sem þær birtast á bókfelli, tjaldi eða sviði. Svo er það einskonar bónus við bókina að hana má nota sem leiðsögutæki, GPS græju, til að rata um lífið.
Ljósmyndin sem fylgir þessari færslu er af kvikmyndaskránni en þar eru veggspjöld allra kvikmynda sem nefndar eru í bókinni. Veggspjald kvikmyndar er ómissandi hluti af söguheiminum, eru í mörgum tilfellum inngangur að sögunni, það fyrsta sem væntanlegir aðnjótendur sjá. Það gefur tóninn, andrúmsloftið og þemað.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það er sem gerir Ferð höfundarins svona vinsæla. Ég held að hluti af skýringunni sé sú að ef maður notar kvikmyndina Löggan í Beverly Hills með Eddie Murphy til að varpa ljósi á algildan sannleika í mannlegri tilveru að þá sértu kominn með Bingó.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.11.2011 | 14:31
Stikk-fríhöfnin
Þegar ég var barn fór ég oft í eltingarleiki með krökkunum í hverfinu. Ómissandi hluti af leiknum voru frísvæði þar sem ekki mátti klukka. Frísvæðin voru skilgreind fyrirfram og þangað var hægt að flýja undan þeim sem var'ann. Þú mátt ekki klukka mig, ég er stikk-frí.
Barnaleikir eru að sumu leyti æfingar fyrir fullorðinsárin. Eltingaleikir eru kannski fyrsti undirbúningurinn að því að forðast að vera klukkaður, til dæmis af skattinum. Þá koma stikk-frí svæðin sér vel. Frísvæðin þar sem önnur lög gilda en almennt. Frísvæðin þar sem það er leyft sem bannað er fyrir utan.
Mér varð hugsað til þessa leiks þegar ég átti leið um Leifsstöð um daginn. Á göngum flughafnarinnar var auglýsing á áfengum miði frá íslensku brugghúsi og innkaupakerran í versluninni við töskufæriböndin var skreytt með þessari ljómandi fínu auglýsingu frá framleiðanda Stella Artois ölsins. Guðaveigar voru auglýstar á skiltum fyrir ofan vínrekkana og ungir kurteisir sérfræðingar kynntu þær. Það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei hætt að leika mér í Stikk-frí. Í hvert sinn sem ég ferðast til útlanda gefst mér kostur á einni umferð af þeim gamla og góða leik. Skemmtilegt.
Í þessari útgáfu af Stikk-frí var ég sem sagt laus undan klukki skattsins, gat keypt vín í búð með fleiri vörum en bara víni (eins og víðast hvar í hinum vestræna heimi) og leyft að glápa á auglýsingar á því. Síðasta atriðið gladdi mig vegna þess að ég naut meira frelsis en venjulega. Gat á eigin ábyrgð horft á vínauglýsingu og metið, án aðstoðar frá einhverjum sem veit betur en ég hvað ég vil, hvort ég kaupi þessa víntegund, aðra víntegund eða enga víntegund.
Ég vorkenndi öllu því fólki sem hefur ekki tök á ferðalögum til útlanda. Ég furðaði mig á hvers vegna fyrsta hreina vinstristjórnin í landinu, þeirri sem berst að eigin sögn fyrir bættum kjörum hinna efnaminni með skjaldborgum og einhverju fleira, er ekki fyrir löngu búin að opna fríhöfn á Hlemmi eða BSÍ fyrir þá sem ferðast með vænglausum hópfarartækjum. Óréttlæti er eitur í mínum beinum og því skil ég ekki hvers vegna skoðanasystkin mín láta þetta óátalið. Sú röksemd og væntanlega forsendan að fríhöfnum yfirleitt, að fólk á leið ÚR LANDI geti keypt vörur skattfrjálst, á ekki við vegna þess að fólk á leið TIL LANDSINS eru bestu viðskiptavinir fríhafnarverslunarinnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu fyrir vini verkalýðsins að opna fríhöfn á Hlemmi.
Þó mér væri þarna, á íslenskri grund í íslenskri byggingu sem kennd er við Íslendinginn sem fann Ameríku, leyft vöflulaust að verða fyrir áhrifum af vínauglýsingum, fór það ekki framhjá mér að börn og unglingar voru þarna úti um allt. Hugsa sér! Kannski var verið að skjóta fyrstu rótunum að æfilangri áfengissýki hjá einhverju íslensku barninu með hinni blygðunarlausu auglýsingu um hve Thule bjór er ljúffengur (ég ætla nú ekki einu sinni að reyna að ímynda mér hvaða áhrif þetta hefur á útlensk börn). Hræðileg tilhugsun og furðulegt að þeir sem vita best hvað öðrum er fyrir bestu skuli ekki hafa gert við þetta alvarlegar athugasemdir. Áhugafólk um velferð æskunnar HVAÐ ERU ÞIÐ AÐ HUGSA? Af hverju gerið þið ekkert í þessu?
Leiknum lauk svo þegar ég var kominn hinum megin við þilið. Þá var ég aftur orðinn að hálfvitanum sem er því miður ekki fær um að meta sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Engar vínauglýsingar, enginn bjór í 10-11, nokkrum metrum frá fríhafnarversluninni, bara sama litskrúðuga og fallega Ísland, fast í viðjum sjálfsblekkingar, tvískinnungs, skorts á umburðarlyndi og sjálfshaturs.
Dægurmál | Breytt 10.11.2011 kl. 16:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.4.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.