Leita í fréttum mbl.is

Stikk-fríhöfnin

Þegar ég var barn fór ég oft í eltingarleiki með krökkunum í hverfinu. Ómissandi hluti af leiknum voru frísvæði þar sem ekki mátti klukka. Frísvæðin voru skilgreind fyrirfram og þangað var hægt að flýja undan þeim sem var'ann. „Þú mátt ekki klukka mig, ég er stikk-frí.“

Barnaleikir eru að sumu leyti æfingar fyrir fullorðinsárin. Eltingaleikir eru kannski fyrsti undirbúningurinn að því að forðast að vera „klukkaður“, til dæmis af skattinum. Þá koma stikk-frí svæðin sér vel. Frísvæðin þar sem önnur lög gilda en almennt. Frísvæðin þar sem það er leyft sem bannað er fyrir utan.

Mér varð hugsað til þessa leiks þegar ég átti leið um Leifsstöð um daginn. Á göngum flughafnarinnar var auglýsing á áfengum miði frá íslensku brugghúsi og innkaupakerran í versluninni við töskufæriböndin var skreytt með þessari ljómandi fínu auglýsingu frá framleiðanda Stella Artois ölsins. Guðaveigar voru auglýstar á skiltum fyrir ofan vínrekkana og ungir kurteisir sérfræðingar kynntu þær. Það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei hætt að leika mér í Stikk-frí. Í hvert sinn sem ég ferðast til útlanda gefst mér kostur á einni umferð af þeim gamla og góða leik. Skemmtilegt.

FríhöfninÍ þessari útgáfu af Stikk-frí var ég sem sagt laus undan klukki skattsins, gat keypt vín í búð með fleiri vörum en bara víni (eins og víðast hvar í hinum vestræna heimi) og leyft að glápa á auglýsingar á því. Síðasta atriðið gladdi mig vegna þess að ég naut meira frelsis en venjulega. Gat á eigin ábyrgð horft á vínauglýsingu og metið, án aðstoðar frá einhverjum sem veit betur en ég hvað ég vil, hvort ég kaupi þessa víntegund, aðra víntegund eða enga víntegund.

Ég vorkenndi öllu því fólki sem hefur ekki tök á ferðalögum til útlanda. Ég furðaði mig á hvers vegna fyrsta „hreina vinstristjórnin“ í landinu, þeirri sem berst að eigin sögn fyrir bættum kjörum hinna efnaminni með skjaldborgum og einhverju fleira, er ekki fyrir löngu búin að opna fríhöfn á Hlemmi eða BSÍ fyrir þá sem ferðast með vænglausum hópfarartækjum. Óréttlæti er eitur í mínum beinum og því skil ég ekki hvers vegna skoðanasystkin mín láta þetta óátalið. Sú röksemd og væntanlega forsendan að fríhöfnum yfirleitt, að fólk á leið ÚR LANDI geti keypt vörur skattfrjálst, á ekki við vegna þess að fólk á leið TIL LANDSINS eru bestu viðskiptavinir fríhafnarverslunarinnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu fyrir „vini verkalýðsins“ að opna fríhöfn á Hlemmi.

Þó mér væri þarna, á íslenskri grund í íslenskri byggingu sem kennd er við Íslendinginn sem fann Ameríku, leyft vöflulaust að verða fyrir áhrifum af vínauglýsingum, fór það ekki framhjá mér að börn og unglingar voru þarna úti um allt. Hugsa sér! Kannski var verið að skjóta fyrstu rótunum að æfilangri áfengissýki hjá einhverju íslensku barninu með hinni blygðunarlausu auglýsingu um hve Thule bjór er ljúffengur (ég ætla nú ekki einu sinni að reyna að ímynda mér hvaða áhrif þetta hefur á útlensk börn). Hræðileg tilhugsun og furðulegt að þeir sem vita best hvað öðrum er fyrir bestu skuli ekki hafa gert við þetta alvarlegar athugasemdir. Áhugafólk um velferð æskunnar HVAÐ ERU ÞIÐ AÐ HUGSA? Af hverju gerið þið ekkert í þessu?

Leiknum lauk svo þegar ég var kominn hinum megin við þilið. Þá var ég aftur orðinn að hálfvitanum sem er því miður ekki fær um að meta sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Engar vínauglýsingar, enginn bjór í 10-11, nokkrum metrum frá fríhafnarversluninni, bara sama litskrúðuga og fallega Ísland, fast í viðjum sjálfsblekkingar, tvískinnungs, skorts á umburðarlyndi og sjálfshaturs.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband