Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2008

Vantraustið er mikill vandi

Nauðsynlegt er að draga sem mest úr vantrausti milli stjónvalda og almennings. Stjórnvöld ættu að vera opinskárri gagnvart okkur og treysta okkur. Það er allt hrunið hvort sem er, engin ástæða er til að halda hlutum leyndum, enginn mun fara á taugum héðan af þótt vondar fréttir berist. Um leið og stjórnmálamenn treysta almenningi fyrir upplýsingum, mun almenningur bera meira traust til stjórnmálamanna. Vantraustið er nefnilega gagnkvæmt.

Mig grunar að Björgvin G. Sigurðsson hafi lofað upp í ermina á sér á fundinum með Darling 2. september. Hélt trúlega að allt væri í stakasta lagi (hafði ekki hugmynd um umfang IceSave) og íslenska ríkið myndi greiða allar skuldir bankanna í topp. Þessu hélt hann amk. fram lengi framan af en er nú orðinn loðnari í svörum.

Björgvin ætti að tjá sig um þessi mál á heimasíðu sinni, sem því miður er verið að endurskoða. Það er etv. lýsandi að þessi málglaði maður, sem hefur augljóslega unun af því að heyra sjálfan sig tala (sem ekkert er að auðvitað) er búinn að loka heimasíðu sinni. Vettvangnum þar sem umræðustjórnmálin njóta sín hvað best. Ég skora á Björgvin að opna síðuna aftur með stæl og birta þar minnisblöðin frá fundunum með Darling 2. september 2008.


mbl.is Öll minnisblöð vegna fundar viðskiptaráðherra og Darlings verði lögð fram
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Drink mojito

Þessi auglýsing um ágæti mojito-drykkjarins er á ensku vegna þess að það má bara auglýsa áfengi á útlensku á Íslandi: Drink Mojito, the best drink in the world. Drink responsibly and keep mojito from children.

Drekkið Mojito

Lögin um bann við áfengisauglýsingum í íslenskum fjölmiðlum eru til marks um heimóttarskap. Fjöldi útlendinga býr á Íslandi og ekki lesa þeir íslensk blöð, er ekki nauðsynlegt að vernda börn þeirra fyrir óæskilegum auglýsingum? Fjöldi barna íslendinga lesa erlend blöð ekki síður en íslensk. Verður ekki að banna erlendu blöðin? Áfengi er ekki af hinu vonda, það má misnota það eins og annað og það er á ábyrgð hvers og eins að gæta sín. Það á ekki að vera hlutverk ríkisins.


mbl.is Fyrrum ritstjórar dæmdir fyrir áfengisauglýsingar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íbúðalánasjóður ríkisins

Þegar Kaupþing hóf 2004 að lána til íbúðakaupa á betri kjörum en Íbúðalánasjóður ríkisins, einn einkabanka á Íslandi, sáu margir sér leik á borði og tóku lán hjá Kaupþingi og greiddu upp eldri lán hjá Íbúðalánasjóði ríkisins.

Kaupþing náði nokkru markaðsforskoti með þessu útspili og hefði vafalaust haldið því forskoti á aðra einkabanka landsins ef ekki hefði komið til – hver annar en Íbúðalánasjóður ríkisins?

Peningarnir sem hrúguðust í sjóði Íbúðalánasjóðs ríkisins þegar viðskiptavinir Kaupþings greiddu upp lánin voru þá umsvifalaust lánaðir áfram til Landsbankans, Glitnis og Sparisjóðanna sem hófu samstundis að bjóða viðskiptavinum sínum íbúðalán með tilheyrandi auglýsingum og sölumennsku.

Óhætt er að fullyrða að þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs ríkisins jók þenslu á fasteignamarkaðnum; hækkaði verð með aukinni eftirspurn kaupenda með gnægð lánsfjár í höndunum. Ekki sló það á þensluna að Íbúðalánasjóður ríkisins hafði skömmu áður, að undirlagi Framsóknarflokksins, ákveðið að hækka lánshlutfall í 90%.

Í fréttunum nýlega var viðtal við forstjóra sjóðsins, framsóknarmanninn Guðmund Bjarnason, þar sem fram kom að skuldir bankanna við hann væru 100 milljarðar. Það er sem sagt talan sem sjóðurinn lánaði bönkunum.

Íbúðalánasjóður ríkisins er enn eitt dæmið um að affarasælast er að stjórnmálamenn, ríkið öðru nafni, komi hvergi nálægt lánastofnunum og peningamálum yfirleitt. Þessi sjóður á stærsta sök á erfiðleikunum sem margir glíma við í dag vegna kaupa á fasteignum á uppsprengdu verði. Mikilvægt er að hafa þetta í huga við endurskipulagningu bankakerfisins. Ég er að vísu nokkuð svartsýnn á að stjórnmálamenn taki undir þetta vegna þess að þeir líta sjaldnast í eigin barm og leita sökudólganna, með aðstoð lögreglu- og skattayfirvalda, í einkageiranum. Stjórnmálamenn eru ekki settir undir neinar eftirlitsstofnanir og þurfa að því er virðist aldrei að bera ábyrgð. Hlaupast bara undan henni og komast upp með það. Bent hefur verið á að kosningar séu stóridómurinn, en þegar stjórnmálamenn tapa í kosningum fá þeir yfirleitt feit embætti í staðinn. Kosningaábyrgðakerfið virkar ekki þegar flokksmenn raða á listana, setja til dæmis vin sinn og félaga, sem jafnframt er óhæfur stjórnandi sem gengur bak orða sinna og hleypur frá skuldum, í efsta sæti. Kjósendur geta þar með ekki refsað viðkomandi þótt þeir vildu.

Hvað ætli bankamálaráðherrann okkar, Björgvin G. Sigurðsson, segi um stöðuna í landsmálunum í dag? Æjæ, hún virkar ekki heimasíðan hans. Furðulegt hvað það ætlar að taka langan tíma að endurskoða hana. Ég sem hélt að samræðustjórnmálin væru efst á lista hans. Getur verið að hann sé að hlaupast undan orðum sínum?


Netið er stærsti fjölmiðillinn

Í umræðunni um fjölmiðla gleymist netið. Netið er langstærsti fjölmiðill heims og enginn á hann! Jón Ásgeir má setja Hrein Loftsson sem lepp fyrir Vikuna og Séð og heyrt mín vegna. Meðan hann ræður ekki netinu er ég rólegur. Þótt gaman sé að fletta pappírsblöðum er netið sá staður sem ég sæki mér upplýsingar og fréttir. Áhrif hefðbundinna miðla fara minnkandi.

Nú er ég til dæmis í hlutverki fjölmiðils sem leitast við að upplýsa sauðsvarta yfirstétt þessa lands um orsakir kreppunnar. Viðtalið við Steve Forbes sá ég á síðu bloggvinar míns Jóns Þórs Ólafssonar. Kemur það nokkrum á óvart að það var ríkisbankinn með ríkisstarfsmennina sem gerði feil? Kemur það nokkrum á óvart að það voru ríkisstarfsmenn, stjórnmálamenn, sem vildu ábyrgðir á húsnæðislánum lækkuð? Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar byggja þarf upp að nýju.


Spurningar Einars um ESB

Einar S. Hálfdánarson spyr góðra spurninga um Evrópusambandið í Morgunblaðinu um helgina. Hann spyr varaformann Sjálfstæðisflokksins af því hann hefur, að því er virðist, talið að lausn vandamála Íslands séu fólgin í því að ganga í ESB. Raunar er óþarfi að Þorgerður Katrín svari spurningunum, það má hver sem er svara þeim.

Þar sem ég er ákaflega spenntur að heyra svörin ætla ég að taka undir með Einari og endurtaka spurningar hans.

1. Hversu mikil verðbólga hefur verið í Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen frá því þau gerðust aðilar að Evrópusambandinu?

2. Til samanburðar hversu mikil verðbólgan var í löndunum síðustu þrjú árin fyrir aðild (allt miðað við hvert land um sig).

3. Hafa löndin sem um ræðir fasttengt gjaldmiðla sína við evru á tímabilinu sem um ræðir?

4. Hver landanna hafa fengið vilyrði um upptöku evru og ef svo er, hafa dagsetningar þessar staðist?

5. Hver er meginástæða hlutabréfaverðfalls á sænsku bönkunum (Swedbank og SEB) nú nýverið og stórfelldrar aðstoðar sænska ríkisins til að styðja þá?

6. Hversu háa fjárhæð er áætlað að íslenska ríkið þyrfti að greiða til Evrópusambandsins eftir aðild?

7. Hveru mikill hluti útgjalda Evrópusambandsins er til landbúnaðar; hversu há fjárhæð er það?

8. Voru það reglur Evrópusambandsins eða Seðlabanki Íslands sem gerðu íslensku bönkunum heimilt, án sérstaks leyfis íslenska ríkisins, að taka við innlánum innan landa Evrópusambandsins?

9. Hefði svonefndur hringrásarhagnaður (sbr. ágætt nýyrði Björgólfs Thors um eignfærslu viðskiptavildar) verið heimill án breytingar íslenskra laga til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins um reikningsskil?

10. Hvernig telur ráðherrann að samræmd reikningsskil skv. tilskipun Evrópusambandsins hafi reynst í þá veru að treysta upplýsingagjöf til fjármálamarkaðarins?

11. Hversu mikill hefur hagvöxtur verið innan „gamla“ Evrópusambandsins (án Austur Evrópu) að meðaltali síðustur 10 ár? En í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Indlandi, Chile, Tyrklandi og Noregi á sama tíma (dæmin eru tekin af handahófi)?

Virðingarfyllst.

Þetta eru spurningar Einars sem birtust í Morgunblaðinu 2. nóvember 2008. Allir þeir sem eru að velta fyrir sér hvort Íslandi sé betur borgið í ESB ættu að leitast við að svara þessum spurningum.

Hvað mig snertir tel ég öldungis galið að ganga í ESB, réttast væri að segja EES samningnum upp, eins og Ragnar Árnason lagði til fyrir nokkrum árum að yrði skoðað. Ég tel líka að krónan sé búin að vera. Á Íslandi á að ríkja gjaldmiðlafrelsi, að hver og einn geti notast við þann gjaldmiðil sem hann kýs í viðskiptum sínum. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki krónuna lengur er einföld: Krónan er valdatæki og völdin hafa stjórnmálamennirnir, sömu stjórnmálamennirnir og nú hafa komið okkur á vonarvöl. Ég tel brýnasta verkefnið að minnka völd stjórnmálamanna, ekki vegna þess að þeir séu vondir menn, heldur vegna þess að ég vil ekki þurfa að treysta á þá. Frá því íslenska krónan var sett á stofn, hefur hún ekki gert annað en missa verðgildi sitt. Brúsann hefur almenningur greitt. Það er runnið upp fyrir mér að hagstjórn með krónuna er hlægileg vitleysa. Hún er of lítill gjaldmiðill.

Það má líkja Íslandi við stóran búgarð sem framleiðir tómata sem seldir eru í útlöndum. Síðan tekur yfirmaður búgarðsins dollarana sem fengust fyrir tómatana og skiptir þeim í krónur eftir gengisskráningu dagsins, með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði („hagstjórn“), og réttir starfsfólkinu. Hvers vegna er ekki hægt að greiða starfsfólkinu dollarana beint? Tekjur landsins eru allar í erlendum myntum hvort sem er, væri ekki eðlilegast að spara sér milliliðinn og nota þá peninga hér? Það hefur verið gert áður, áður en landið var hneppt í viðjar stjórnmálaflokka sem alltaf vilja vel og meina vel, en hefur ekki tekist vel. Þá var Ísland frjálst land.

Jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, enda kominn háttatími og bókin bíður á náttborðinu. Munið að svara spurningum Einars, ég tala nú ekki um ef þið viljið fyrir alla muni komast í pilsfald Evrópusambandsins.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband