Leita í fréttum mbl.is

Spurningar Einars um ESB

Einar S. Hálfdánarson spyr góðra spurninga um Evrópusambandið í Morgunblaðinu um helgina. Hann spyr varaformann Sjálfstæðisflokksins af því hann hefur, að því er virðist, talið að lausn vandamála Íslands séu fólgin í því að ganga í ESB. Raunar er óþarfi að Þorgerður Katrín svari spurningunum, það má hver sem er svara þeim.

Þar sem ég er ákaflega spenntur að heyra svörin ætla ég að taka undir með Einari og endurtaka spurningar hans.

1. Hversu mikil verðbólga hefur verið í Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen frá því þau gerðust aðilar að Evrópusambandinu?

2. Til samanburðar hversu mikil verðbólgan var í löndunum síðustu þrjú árin fyrir aðild (allt miðað við hvert land um sig).

3. Hafa löndin sem um ræðir fasttengt gjaldmiðla sína við evru á tímabilinu sem um ræðir?

4. Hver landanna hafa fengið vilyrði um upptöku evru og ef svo er, hafa dagsetningar þessar staðist?

5. Hver er meginástæða hlutabréfaverðfalls á sænsku bönkunum (Swedbank og SEB) nú nýverið og stórfelldrar aðstoðar sænska ríkisins til að styðja þá?

6. Hversu háa fjárhæð er áætlað að íslenska ríkið þyrfti að greiða til Evrópusambandsins eftir aðild?

7. Hveru mikill hluti útgjalda Evrópusambandsins er til landbúnaðar; hversu há fjárhæð er það?

8. Voru það reglur Evrópusambandsins eða Seðlabanki Íslands sem gerðu íslensku bönkunum heimilt, án sérstaks leyfis íslenska ríkisins, að taka við innlánum innan landa Evrópusambandsins?

9. Hefði svonefndur hringrásarhagnaður (sbr. ágætt nýyrði Björgólfs Thors um eignfærslu viðskiptavildar) verið heimill án breytingar íslenskra laga til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins um reikningsskil?

10. Hvernig telur ráðherrann að samræmd reikningsskil skv. tilskipun Evrópusambandsins hafi reynst í þá veru að treysta upplýsingagjöf til fjármálamarkaðarins?

11. Hversu mikill hefur hagvöxtur verið innan „gamla“ Evrópusambandsins (án Austur Evrópu) að meðaltali síðustur 10 ár? En í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Indlandi, Chile, Tyrklandi og Noregi á sama tíma (dæmin eru tekin af handahófi)?

Virðingarfyllst.

Þetta eru spurningar Einars sem birtust í Morgunblaðinu 2. nóvember 2008. Allir þeir sem eru að velta fyrir sér hvort Íslandi sé betur borgið í ESB ættu að leitast við að svara þessum spurningum.

Hvað mig snertir tel ég öldungis galið að ganga í ESB, réttast væri að segja EES samningnum upp, eins og Ragnar Árnason lagði til fyrir nokkrum árum að yrði skoðað. Ég tel líka að krónan sé búin að vera. Á Íslandi á að ríkja gjaldmiðlafrelsi, að hver og einn geti notast við þann gjaldmiðil sem hann kýs í viðskiptum sínum. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki krónuna lengur er einföld: Krónan er valdatæki og völdin hafa stjórnmálamennirnir, sömu stjórnmálamennirnir og nú hafa komið okkur á vonarvöl. Ég tel brýnasta verkefnið að minnka völd stjórnmálamanna, ekki vegna þess að þeir séu vondir menn, heldur vegna þess að ég vil ekki þurfa að treysta á þá. Frá því íslenska krónan var sett á stofn, hefur hún ekki gert annað en missa verðgildi sitt. Brúsann hefur almenningur greitt. Það er runnið upp fyrir mér að hagstjórn með krónuna er hlægileg vitleysa. Hún er of lítill gjaldmiðill.

Það má líkja Íslandi við stóran búgarð sem framleiðir tómata sem seldir eru í útlöndum. Síðan tekur yfirmaður búgarðsins dollarana sem fengust fyrir tómatana og skiptir þeim í krónur eftir gengisskráningu dagsins, með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði („hagstjórn“), og réttir starfsfólkinu. Hvers vegna er ekki hægt að greiða starfsfólkinu dollarana beint? Tekjur landsins eru allar í erlendum myntum hvort sem er, væri ekki eðlilegast að spara sér milliliðinn og nota þá peninga hér? Það hefur verið gert áður, áður en landið var hneppt í viðjar stjórnmálaflokka sem alltaf vilja vel og meina vel, en hefur ekki tekist vel. Þá var Ísland frjálst land.

Jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, enda kominn háttatími og bókin bíður á náttborðinu. Munið að svara spurningum Einars, ég tala nú ekki um ef þið viljið fyrir alla muni komast í pilsfald Evrópusambandsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Beturvitringur

Takk

Beturvitringur, 5.11.2008 kl. 01:59

2 Smámynd: Ársæll Níelsson

Væri ekki frekar langur verðlisti á öllum værum ef hægt væri að borga með hvaða gjaldmiðli sem er?

Ársæll Níelsson, 6.11.2008 kl. 19:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 4
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 21
  • Frá upphafi: 114021

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 20
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband