Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2007

Hugmynd fyrir Michael Moore

Í nýjustu mynd sinni, Sicko, sem frumsýnd er í dag, beinir Michael Moore fránum augum sínum að heilbrigðiskerfi Bandaríkjanna, hversu vont það er og dýrt. Mér skilst að gerð myndarinnar hafi verið ákveðin vakning fyrir Moore, sem léttist um 25 pund við gerð hennar. Hvort Moore sé að fjalla um þann hluta heilbrigðiskerfisins sem snýr að offituvandanum eða öðru verður að koma í ljós. Ef ekki legg ég til að hann geri aðra mynd um það mál og kalli hana Fatso. Hann gæti byrjað á að fara í heimsókn til fjölskyldunnar sem fjallað er um í þýsku fréttinni sem fylgir þessari færslu.


Fattest Child In The World - The best video clips are here

Snorri Bergs sá skemmtilegi strákur er búinn að setja af stað nýja tískubylgju (enda „trendsetter“) sem felst í að kolvetnajafna sig. Ef þú borðar eina brauðsneið þá geturðu kolvetnajafnað þig með því að ganga 500 metra.


Ef ef ef... Susie Rut

Greinin í Morgunblaðinu á þriðjudaginn um stúlkuna sem dó er sorgleg lesning. Faðir hennar leggur til í eftirmála að meira fé verði varið til baráttunnar gegn fíkniefnum. En er það lausnin? Það virðist engu máli skipta hversu miklu fé er varið til þeirrar baráttu, árangurinn lætur á sér standa.

Margir hafa lýst þeirri skoðun sinni að lögleiða eigi eiturlyf, það sé eina raunhæfa rótarstungan. Ég er sammála því. Greinin um bráðgeru stúlkuna er afar sterk röksemd fyrir því að lögleiða eigi fíknilyf. 

Ef samfélagið horfist í augu við það að fíkn er hluti af mannlegu eðli, sem hvorki er hægt að banna með lögum né sigrast á með auknu fjármagni, og setur þau inn í regluverk annarra lyfja á markaði, myndi fótunum verða kippt undan eiturlyfjaheiminum á einni nóttu. Skattur af slíkum lyfjum væri góður tekjugrunnur forvarnarstarfs.

Ef það hefði verið veruleikinn í dag, væri Susie að öllum líkindum á lífi. Þá væri enginn „sjúklingur“ (sölumaður) í næsta herbergi með heimatilbúinn kokteil lyfja (e.t.v. drýgður með skordýraeitri) til sölu. „Sama og þegið, ég kaupi minn skammt í apótekinu, þar sem innihaldið er rakið á umbúðunum og samþykkt af lyfjaeftirliti ríkisins“ gæti hún hafa sagt.

Ég veit að margir umhverfast við að heyra á það minnst að lögleiða eigi eiturlyf. En er ekki kominn tími til að horfast í augu við staðreyndirnar? Er ekki rót vandans undirheimahagkerfið þar sem milljarðar á milljarða ofan velta um milli óheiðarlegra manna og jafnvel ríkisstjórna (Talibanar seldu dóp sem og Norður Kórea)? Það er sífellt verið að tala um að það verði að ná stórlöxunum, hætta að refsa burðardýrunum. Ef hin mikla hagnaðarvon sem er af sölu eiturlyjfa í dag hverfur, er enginn vafi á að þeir sem nú sjá tækifæri í slíkum viðskiptum og eru umsvifamiklir, gæfu þau upp á bátinn.

Hvorki lög né fé stöðva strauminn

Þetta er fyrirsögn úr Fréttablaðinu í dag. Óhætt er að fullyrða að þótt góðhjartaðir og velviljaðir stofni sjóð til að berjast gegn eiturlyfjum mun það ekki koma í veg fyrir framleiðslu, dreifingu og sölu. Hagnaðarvonin er of mikil. 


9 ný boðorð frá Orranum

Páfinn gaf nýlega út 10 ný umferðarboðorð. Gott hjá honum. Það er skemmtileg dægradvöl að gefa út boðorð. Hér eru nokkur boðorð til trúaðra.

Boðorð til trúaðra

1. Eigi skaltu troða þínum trúarskoðunum upp á aðra.

2. Hættu að skipta þér af því hvaða kyn aðrir en þú aðhyllast.

3. Hafnaðu sérhverjum þeim söfnuði sem haldið er uppi af almannafé.

4. Trú á aldrei að vera ríkisstyrkt.

5. Hættu að agnúast út í þá sem kjósa að vera núlltrúar.

6. Lærðu orðið umburðarlyndi utanbókar og segðu það 1000 sinnum á hverjum degi.

7. Enginn er réttdræpur vegna trúar sinnar.

8. Vertu feginn ef þú greinist með ólæknandi sjúkdóm. Það flýtir fyrir för þinni til himnaríkis.

9. Hættu að skipta þér af því þótt aðrir kjósi að vinna á tyllidögum kirkjuársins.


Horfðu til framtíðar

Ef þú, lesandi góður, ert umhverfisverndarsinni og hefur miklar áhyggjur af hækkandi hita eða myndun koldíoxíðs vegna brölts manna, og langar að gera eitthvað í málinu, hef ég handa þér ráð: Ekki eignast börn. Hver veit nema afkomandi þinn kjósi að aka um á mengandi Hummer í framtíðinni, eða láti sér í léttu rúmi liggja hvort hann sleppi koldíoxíði út í loftið eða ekki. Og jafnvel þótt afkomandi þinn sé ákaflega meðvitaður um umhverfið og náttúruna og lífið og fuglana og blómin kemst hann ekki hjá því að skilja eftir sig slóð koldíoxíðs hvert sem hann fer.

Í þessu ljósi eru þeir sem eiga flest börn mestu umhverfissóðarnir. Tvö börn eru viðhald sama sóðaástands, koldíoxíðmengun áfram. Þrjú börn eru ávísun á enn meiri sóðaskap í framtíðinni. 

Er Framtíðarlandið þér hugleikið? Ef svo er, ekki menga það með afkomendum. Að þér gengnum verður til minna koldíoxíð en áður. Það er gott fyrir jörðina og framtíðina. Ef þú vilt vera sérstaklega góður við náttúruna gætirðu hugleitt að kolefnisjafna þig fyrir fullt og allt.


Myndlistarsýning

Heiðrún og Orri við opnun sýningarinnarÍ dag var opnun myndlistarsýningar okkar Heiðrúnar í Uppsölum í Aðalstræti 16. Við fórum árið 2004 um Ísland og máluðum fossa. Árangurinn af þeirri ferð er sú sýning sem nú er hafin. Margt góðra vina og ættingja kom til að samfagna okkur. Það er sérstakt ánægjuefni að af 11 málverkum sem á sýningunni eru, eru 4 seld. Eitt málverk er þegar farið til Danmerkur, en það voru danskir listunnendur sem keyptu Helgufoss, málverk Heiðrúnar.  

Að vísu má segja að erfitt sé að halda málverkaopnun um mitt sumar um helgi þegar veðurguðirnir asnast til að hafa eins gott veður og yfirleitt verður á Íslandi. Margir voru utanbæjar, en þeir sem komu fengu prik í kladdann. Við erum ákaflega sæl með sýninguna og vonum að þeir sem leggja leið sína á Uppsali, þar sem Tómas Guðmundsson og Þórbergur Þórðarson ásamt fleiri minni spámönnum drukku kaffi á fyrri hluta 20. aldar, njóti myndanna og góðra veitinga. Mig minnir samt að kaffihúsið sem áður hét Uppsalir hafi verið á annarri hæði hússins. Þess vegna hafi það heitir Uppsalir. En hverju skiptir ein hæð milli vina? Engu. 

Við tókum myndir í dag og hér er síða með þeim. 


Yfir regnbogann

Þátturinn sem eftirfarandi bútur er úr heitir Britain's got talent og er sýndur á ITV sjónvarpsstöðinni sem allir Íslendingar hafa aðgang að svo fremi þeir séu með móttökudisk (kostar um 20 þús. - einu sinni). Um daginn setti ég frammistöðu Paul á bloggið. Mig langar að birta annan flutning úr þessum sama þætti með ungri stúlku sem söng lagið úr Galdrakarlinum í Oz, Over the rainbow. Ef þetta væri sjónvarpsstöð myndi ég kynna lagið svona: Hér er óskalag fyrir Jóhönnu.


David Attenborough í mótsögn við sjálfan sig

Í Ríkissjónvarpinu í síðustu viku var Sir David Attenborough með þátt um hlýnun jarðar. Þar lýsti hann áhrifum 4 gráðu sveiflu á New York. 2 gráður niður miðað við hitastigið í dag og New York er á ís. 2 gráður upp og New York er á floti.

Víkur þá sögunni að kóralrifi í hafinu einhvers staðar eigi allfjarri Ástralíu. Þar kom David við á ferð sinni um heiminn fyrir 20 árum og hreifst mjög af litadýrð og lífi. Svo kom hann þar nýlega og þá blasti við sorgleg sjón: Kóralrifið hafði orðið fyrir „kóralbleikingu“, orðið hvítt. David sagði eitthvað á þessa leið: Samspil lífríkisins í kóralrifinu sem staðið hefur yfir í hundruð þúsunda ára er nú orðið hlýnun jarðar af mannavöldum að bráð. Það sem einu sinni sást úr geimnum er að sökkva.

Hvar voru kóralrifin þegar hitastigið var 2 gráðum hærra en það er í dag Sir Attenborough? Og það liðu engin hundruð þúsunda ára síðan það gerðist síðast. Getur verið að fræðingurinn sé orðinn blindaður af geðbiluninni um hlýnun jarðar af mannavöldum? Að minnsta kosti er alvarleg mótsögn í þætti hans.

Ég sem hafði svo mikið álit á David. Vera kann að hann sé orðinn ellimóður og sé undir miklum þrýstingi hagsmunahópa að básúna boðskapinn.


Gardiner eða grín?

Annað hvort er Steingrímur stórkostlegur grínisti eða Chance Gardiner. Sumir hallast að gríninu, eins og blaðamaður Observer, aðrir að Gardiner. Sjálfur er ég í vafa. Þarf að kynna mér málið betur, en ég veit að verk Steingríms snýst um heimsókn til huldumanns á Suðurlandi sem selur (huldu)kindur. Huldumaðurinn var að mér skilst ekki heima þegar Steingrím bar að garði. Lóa kemur líka við sögu.

Næst þegar ég rekst á Hönnu ætla ég að segja við hana: Gardiner eða grín?


mbl.is Steingrímur er „sannur grínisti"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hæ hæ ég hlæ

Þessi óborganlega lína, sem ég er með í láni, var lögð í munn Vaílu Veinólínu í einhverri Tinnabókinni af snilldarþýðandanum Lofti Guðmundssyni. Ég veit að eftirfarandi myndband er svínslegt, en fyndið er það.


Ummæli ársins

„Fólk heldur áfram að ferðast til USA þrátt fyrir rosalega andstöðu á heimsvísu við hernaðaraðgerðir þeirra. Hvers vegna ætti fólk að hætta að ferðast til Íslands þótt við veiðum örfáa hvali?“

Margrét St Hafsteinsdóttir 


Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.4.): 3
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 23
  • Frá upphafi: 114011

Annað

  • Innlit í dag: 3
  • Innlit sl. viku: 22
  • Gestir í dag: 3
  • IP-tölur í dag: 3

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband