Leita í fréttum mbl.is

David Attenborough í mótsögn við sjálfan sig

Í Ríkissjónvarpinu í síðustu viku var Sir David Attenborough með þátt um hlýnun jarðar. Þar lýsti hann áhrifum 4 gráðu sveiflu á New York. 2 gráður niður miðað við hitastigið í dag og New York er á ís. 2 gráður upp og New York er á floti.

Víkur þá sögunni að kóralrifi í hafinu einhvers staðar eigi allfjarri Ástralíu. Þar kom David við á ferð sinni um heiminn fyrir 20 árum og hreifst mjög af litadýrð og lífi. Svo kom hann þar nýlega og þá blasti við sorgleg sjón: Kóralrifið hafði orðið fyrir „kóralbleikingu“, orðið hvítt. David sagði eitthvað á þessa leið: Samspil lífríkisins í kóralrifinu sem staðið hefur yfir í hundruð þúsunda ára er nú orðið hlýnun jarðar af mannavöldum að bráð. Það sem einu sinni sást úr geimnum er að sökkva.

Hvar voru kóralrifin þegar hitastigið var 2 gráðum hærra en það er í dag Sir Attenborough? Og það liðu engin hundruð þúsunda ára síðan það gerðist síðast. Getur verið að fræðingurinn sé orðinn blindaður af geðbiluninni um hlýnun jarðar af mannavöldum? Að minnsta kosti er alvarleg mótsögn í þætti hans.

Ég sem hafði svo mikið álit á David. Vera kann að hann sé orðinn ellimóður og sé undir miklum þrýstingi hagsmunahópa að básúna boðskapinn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mér skilst að það séu rúm 100 þúsund ár (110-120 þús ár) síðan hitinn var jafn mikill á jörðinni og hann er í dag, kannski ekki hundruð þúsunda ára en allavega nægur tími fyrir kóralana að athafna sig.

Að kalla hann David Attenborough geðbilaðan er ákveðin geðveiki út af fyrir sig og er dæmigert fyrir þá sem eru í áróðursstríði til að gera lítið úr þeim vanda sem herjar og mun stigvaxa næstu tugi ára.

Höskuldur (IP-tala skráð) 19.6.2007 kl. 10:17

2 Smámynd: Margrét St Hafsteinsdóttir

Varðandi hlýnun jarðar, þá finnst mér bara fínt að það hlýni á Íslandi Held að það séu öfgar í þessum hlýnunaráróðri, en jörðin hefur alltaf staðið í brambolti í gegnum tiðina veðurfarslega séð og breytingar orðið á veðri, landslagi og lífríki vegna jarðskjálfta og annarra náttúruhamfara. En auðvitað eigum við að fara vel með jörðina, en á móti ætti hún að fara að verða aðeins vinsamlegri við okkur og hætta þessu hamagangi sem fylgir náttúruhamförum  

Margrét St Hafsteinsdóttir, 20.6.2007 kl. 01:27

3 Smámynd: Jóhann Elíasson

Ég er alveg sammála Margéti. Það hafa verið hlýinda- og kuldaskeið á jörðinni í gegnum tíðina,en varðandi hlýnunina núna er ég á því að við séum að ganga í gegnum hlýindaskeið en hitt er svo annað mál að aðgerðir okkar mannanna gætu flýtt þeirri þróun sem er í gangi.

Jóhann Elíasson, 20.6.2007 kl. 06:35

4 identicon

Sæll Sigurgeir, var að lesa og hlusta á bloggið þitt og myndbandið sem þú lést fylgja með þann 13.júní.  ÞAKKA ÞÉR FYRIR AÐ LEYFA OKKUR HINUM AÐ HLUSTA Á ÞETTA.  ÞETTA VAR STÓRKOSTLEGT.

Jóhanna (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 09:09

5 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Mín var ánægjan kæra Jóhanna. Hann er algjört fenomen þessi strákur. Ég las í blöðunum að hann og ung stúlka hefðu hrifið alla.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 20.6.2007 kl. 09:30

6 identicon

Það sem hreyf mig líka að þetta var bara venjulegur "Jón" sem var að taka þátt í keppni sem ég veit því miður ekkert um.  Geri samt ráð fyrir, og er viss um, að var þetta var ekki X-Faktor eða eitthvað því um líkt.  Það sem mér fannst líka yndislegt var, að úti í þjóðfélaginu (Englandi eða hvar sem er í heiminum) er fullt af hæfileikaríku fólki sem hefur ekki tækifæri til að láta hæfileika sína njóta sín nema í svona keppnum.

Þakka þér aftur fyrir að koma með þetta myndband.  Bið að heilsa fjölskyldu þinni. Rósa og ég erum "gamlar" samstarfskonur!!!    

Jóhanna (IP-tala skráð) 20.6.2007 kl. 19:02

7 identicon

Ég er að velta þessu soldið fyrir mér, og leikur mér hugur á að vita, hverjir séu hagsmuna-aðilar að áróðri á hlýnun jarðar af manna völdum. Ef höfundur þessa bloggs eða einhverjir aðrir hafa hugmyndir væru þær vel þegnar.

Daði (IP-tala skráð) 21.6.2007 kl. 11:01

8 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Ég skila kveðju til Rósu og spyr hana líka um þig Jóhanna. Gústa systir á afmæli um helgina og þá verður nú grillað lúxuskjötfars og rætt um heima og geima.

Athugasemd Höskuldar er ekki svaraverð.

Daða er fljótsvarað: Stjórnmálamenn og vísindamenn. Vísindamenn fá aukið fé til rannsókna ef þeir mála nógu dökka mynd og stjórnmálamenn fá útrás fyrir stjórnlyndið. Mesta ógnin sem mannkyni stafar af hlýnun jarðar (af mannavöldum eða ekki) eru skattarnir og höftin sem stjórnmálamenn kunna að setja í hlýnunar nafni.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 22.6.2007 kl. 06:48

9 identicon

Já, þú afgreiðir þetta með hagsmunaaðilana pent. Þetta snýst auðvitað allt um peninga og vísindamenn fljótir að selja í sér sálina ef þeir fá meiri aur. Sá svipað komment hjá þér á annarri vefsíðu þar sem umhverfisfræðingur var afgreiddur sem einhver sem ekki ætti að taka mark á því hann hefði ekkert að gera ef loftslagsbreytingar væru ekki af mannavöldum. Mjög málefnalegt og mikil er trú þín á manneskjuna.

Hef sjálf starfað við umhverfisráðgjöf. Hef meira að segja þegið peninga fyrir verkefni sem tengjast loftslagsbreytingum. Reyndar fremur illa borgað þannig að ég hef þurft að passa mig að taka betur borguð verkefni með - til að hafa "efni á" að beita mér í loftslagsmálum. Ef einhver gæti sannfært mig með rökum en ekki ómálefnalegum upphrópunum að enginn tengsl væru á milli loftslagsbreytinga og athafna manna - þá væri ég bara nokkuð fegin með það. Og ekki myndi ég bera af því fjárhagslegan skaða - því get ég lofað þér.

Ekki veit ég hvað þú starfar en er það málefnalegt að ætla t.d. Stígamótakonum að þær liggi á bæn og óski þess að sem flestir karlar út í bæ berji konur sínar svo þær hafi meira að gera? Eða að heilbrigðisfólk sé sjaldan ánægðara en þegar umferðarslysin séu sem flest og sjúkdómar hrjái sem felsta? Er ekki hugsanlegt að fólk velji sér starfsvettvang á því sviði sem þeim finnist þörf á að bæta hlutina, fremur en hugsa allt út frá peningum og eigin buddu?

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 15:27

10 identicon

Svarið mitt var víst ekki svaravert, leiðinlegt að vita það. Kannski full gróft hjá mér að mistúlka orð þín þannig að þú teljir Dabba geðveikan, en hvað um það, mér er sama þó mér sé ekki svarað (meðan ég er ekki strokaður út).

Ég vil taka undir með Auði, vísindamenn í þeim greinum sem fjalla um loftslagsrannsóknir eru flest hugsjónafólk og fæst þeirra græða á því að vinna þessa vinnu.

Daði spurði "hverjir séu hagsmuna-aðilar að áróðri á hlýnun jarðar af manna völdum". Ég vil meina að hagsmuna aðilar séu allar lífverur á jörðinni og þú getur þá í kjölfarið kallað mig umhverfis(eitthvað dónalegt). 

Lifðu heill. 

Höskuldur (IP-tala skráð) 22.6.2007 kl. 17:54

11 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Mig grunar að margir sem eru sannfærðir um að hlýnun jarðar sé af mannavöldum hafi ekki horft á þáttinn um Alheimshlýnunarblekkinguna, þótt þeir haldi öðru fram. Eitt skemmtilegt dæmi er tekið þar um vísindastyrki (man ekki hvað maðurinn heitir). Ef vísindamaður vill rannsaka vöxt og viðgang íkorna í Sussex og sækir um styrk í því skyni getur hann verið viss um að það gangi treglega. Hinsvegar ef hann sækir um styrk til rannsókna á vexti og viðgangi íkorna í Sussex með tilliti til alheimshlýnunar aukast líkurnar mikið á að styrkurinn fáist. Það er þetta sem um ræðir þegar ákveðin skoðun nær fótfestu og verður að „staðreynd“. Þá reynist þeim sem eru ekki á þeirri sömu skoðun illfært að starfa og rannsaka. Slíkur er þrýstingurinn. Það virðist henta samfélögum að lifa í einhvers konar ótta við heimsenda. Mig grunar að alheimshlýnunin sé að einhverju leyti svar við ákveðinni eftirspurn eftir ótta. Mannskepnan hefur lengst af lifað í ótta (t.d. einræði, stjórnleysi eða klerkaveldi), þegar ógn og ótta er útrýmt að mestu, eins og í lýðræðisþjóðfélögum nútímans, myndast þetta tómarúm.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 22.6.2007 kl. 19:23

12 identicon

Ég sá þáttinn, ég lét ekki sannfærast enda stjórnast ég af gagnrýnni hugsun og þó margt í myndinni sé mjög sniðugt þá er búið að hrekja mest af því aftur. Orð vísindamanna eru tekin úr samhengi (sumir þeirra hyggjast kæra þáttagerðarmenn), línurit eru mörg úrelt og vitlaust túlkuð. Með gagnrýninni hugsun þá er það augljóst.

Höskuldur (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 08:21

13 identicon

Ég sá þáttinn líka. ALLAN á netinu, fyrir mörgum vikum, áður en búið var að stytta hann með því að taka verstu vitleysurnar út  

Rannsóknarheimurinn er ekki fullkomin. Í viðbót við að þurfa helst að hafa "climate change" er t.d. vissara að bæta inn orðum á nokkrum stöðum eins og "sustainable" og "gender mainstraiming" þegar sótt er um fjármagn í suma sjóði. Þetta er auðvitað hvimleitt og eitthvað sem ég hef oft heyrt vísindamenn bæði hér og í öðrum löndum pirra sig á - en það þýðir ekki þorri vísindamanna falsi niðurstöður sínar.

Auður H Ingólfsdóttir (IP-tala skráð) 23.6.2007 kl. 09:36

14 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Villandi línurit, gölluð framsetning og fleira gagnrýnivert. Ekkert er hafið yfir gagnrýni. En sú tilhneiging að hafna gagnrýni umræddrar myndar alfarið er óábyrgt. Nauðsynlegt er að gagnrýna alla hluti, einkum þá sem virðast vera orðnir að trú, gefinni staðreynd, sem ekki er hægt að vefengja. Alheimshlýnun af mannavöldum er komin í þann flokk. Hvað varð eiginlega um hyggjuvitið sem kennt er við náttúruna? Væri ekki rétt að spyrja sig svona spurningar: Ef aðeins er horft á sögu jarðarinnar hefur hún hlýnað og kólnað á víxl frá öndverðu, án þess að maðurinn hafi komið þar nærri. Hví í ósköpunum skyldi það vera að gerast nú? Höldum við virkilega að brölt mannanna megi sín einhvers gagnvart til dæmis sólinni sem er svo stór að það væri hægt að setja eina milljón jarðkúlna inn í hana?

Gagnrýni myndarinnar er m.a. á þessa blindu trú og þann gríðarlega þrýsting stjórnmálamanna og sumra vísindamanna að taka hlýnunarkenningunni sem staðreynd. Engin röng framsetning eða gallað línurit er í orðum Paul Reiter prófessors við Pasteurstofnunina í París um að hann hafi þurft að hóta málsókn til að fá nafn sitt afmáð af lista Sameinuðu þj. yfir vísindamenn sem eiga að vera sammála um að hlýnun sé af mannavöldum. Hvers vegna? Jú vegna þess að fyrirvarar hans og ábendingar um að ekki sé alveg ótvírætt að hiti hækki af mannavöldum var felldur úr skýrslunni. Og þetta er plaggið sem flestir horfa til um að vísindaheimurinn sé sammála um hlýnunarkenninguna, ekki síst Al Gore. Er ekki ástæða til að staldra aðeins við?

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 24.6.2007 kl. 11:09

15 identicon

Jú stöldrum aðeins við.

Ef gagnrýni er villandi, full af rangfærslum, orð manna tekin úr samhengi og þannig gagnrýnisverð í sjálfri sér, þá finnst mér í lagi að hafna þá gagnrýni (hér er ég að vísa í hina heimildarmyndina the great global warming swindle, svo þetta verði ekki of ruglingslegt )

Sveiflur hafa alltaf orðið í náttúrunni, en líkur eru á að þær breytingar sem núna eru séu af mannavöldum. Sólvirkni hefur minnkað síðustu ár, samt heldur línuritið fræga áfram að rísa, þ.e. meðalhiti á yfirborði jarðar. Vissulega hefur sólin áhrif á hitann, en ef þetta væru náttúrulegar breytingar eingöngu þá væri mjög líklegt að hitastig færi lækkandi aftur nú. Ef sólvirknin skýrir ekki þessa hækkun sem er nú, hvað þá? Er alveg vonlaust að trúa orðum 90 % vísindamanna um að hlýnunin sé af mannavöldum?

Varðandi plaggið frá Sameinuðu þjónunum, þá var það ritskoðað í báðar áttir, öfgamenn voru klipptir í burtu (jafnt þeir sem vildu meina að ástandið væri verra af völdum manna og svo menn eins og sá sem þú bendir á) til að allar aðildaþjóðirnar gætu skrifað undir plaggið. Svona er það þegar margar þjóðir taka hendur saman, það verður að fara einhvern milliveg og niðurstaðan er sú að 95 % líkur eru á að hækkun hitastigs nú sé af völdum manna og 5 % líkur á að hækkun hitastigs sé af völdum sólarinnar ef ég hef skilið skýrsluna rétt. 

Annars vil ég þakka þér fyrir að leyfa mér að vaða hérna áfram hjá þér Sigurgeir. Ég hef alltaf gaman af góðum rökræðum.  

Höskuldur (IP-tala skráð) 25.6.2007 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 6
  • Sl. viku: 18
  • Frá upphafi: 114014

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband