Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2007

Bill Gates sakar Apple um þjófnað

Í viðtali í Newsweek 12. feb. lýsir Bill Gates hróðugur nýjungunum í Vistunni, nýja stýrikerfinu frá Microsoft: Í því sé öflug leitarvél, "sidebar" og möguleiki að klippa HD myndir. Blaðamaður bendir honum þá á að "nýjungarnar" séu talsvert líkar hlutum sem verið hafa í stýrikerfi Macintosh-tölvanna um árabil. Gates bregst ókvæða við og sakar Steve Jobs og Apple hálfpartinn um að hafa stolið þessum nýjungum frá þeim, en þeir hafi ekki haft tök á að birta þær opinberlega fyrr vegna þess að það tók svo langan tíma að gera Vistuna skothelda. Svo heldur hann þessu fram: "Nowadays security guys break the Mac every day [so your Mac] can be taken over totally. I dare anybody to do that once a month on a Windows machine." Þetta varðandi óöryggi Makkans eru fréttir, ég vissi ekki af því, og hef heldur ekki orðið var við það á minni vél eða í næsta nágrenni. Heimspressan hefur væntanlega sofið á verðinum og mun án efa birta fréttir sem staðfesta fullyrðingu Gates. Í millitíðinni auglýsi ég eftir Makkaeiganda sem orðið hefur fyrir innbroti. Varðandi hans eigið stýrikerfi er kokhreystið í Gates er ekki meira en svo að hann býst við að einhverjum takist að brjótast inn í Vistuna allt að 12 sinnum á ári. Tilvistarkreppa Microsoft kristallast í þessu viðtali. Þeir hafa misst allt frumkvæði (hafi þeir einhvern tíma haft það) og lifa einungis á fornri frægð. Það er með ólíkindum hve sauðtryggir viðskiptavinir þeirra eru. Þrátt fyrir endalaus vandkvæði vegna vírusa, tapaðra gagna, innbrota þar sem viðkvæmum upplýsingum er stolið og annarra vandkvæða, halda þeir áfram að kaupa PC-inn sinn eins og ekkert hafi í skorist. Og verja svo óskapnaðinn í þokkabót.BilliGeit

Blogg tilraunir

Nú hef ég sett upp síðu sem þó er enn í smíðum.

Hana má finna hér:

http://heimildarmyndir.com/

Vinstra megin annar hlekkur fyrir neðan mynd.


Loksins loksins

Með aðstoð tæknikunnáttumanns tókst mér að setja vísunarskipun á vefsvæðið mitt sem flytur gesti af gömlu síðunni á þessa. Eins og sjá má á færslunum undanfarna daga, er ég ekki alveg sáttur við þetta blogg. Það eru of margir tæknilegir vankantar á því enn sem komið er. Ef svo líklega vill til að ég færi bloggið eina ferðina enn, verður það rækilega auglýst, auk þess sem ég kann nú, þökk sé Ragnari Bjarti, að setja færsluskjal á heimasvæðið. Það er reyndar einfaldur html kóði, ein lína!

Þessa stundina er ég að hanna nýja heimasíðu, bloggsíðu, sem verður framtíðarheimili galinna skrifa um allt og ekkert.

Fyrir þá sem eru hér í fyrsta skipti, er rétt að upplýsa að gamla blogg síðan hrundi með þeim hætti að ég gat ekki lengur gert nokkurn skapaðan hlut.


Efasemdir

Fyrr í dag hugðist ég skrá mig inn í Moggablogg en fékk þau skilaboð að ég yrði að vera skráður inn sem sigurgeirorri til að geta opnað stjórnborðið. Síðast þegar ég gáði var ég sigurgeirorri, nema illgjarn klónn af mér sé kominn á kreik og geri mér lífið leitt. Þetta er það sama og gerðist í gamla blogginu, ég hætti að geta gert nokkurn skapaðan hlut. Ekki góð tilfinning að lenda í því aftur. Undanfarnar vikur hefur mér ekki tekist að skrifa skilaboð á blogg annarra sem tilheyra Moggabloggi.

Þegar maður kemst ekki inn í bloggið, getur ekki sett myndir með textanum, hvað þá mynd af sjálfum sér í hausinn, og finnst bloggið setja nokkuð þröngar skorður, dofnar áhuginn. Mig grunar að Safari sé ekki fyrsti vefskjárinn sem forritaranördar Moggans prufukeyra bloggið á.

Frómt frá sagt finnst mér þetta blogg á einhvern hátt hallærislegt, án þess að ég geti bent nákvæmlega á hvað það er.

Vandamálið við að halda úti sinni eigin síðu er það að maður er bundinn við þá tölvu sem inniheldur bloggforritið. Ég hallast nú að því að gera það frekar en hafa þann möguleika að geta bloggað frá Kína, Ástralíu og Norður Kóreu svo dæmi séu nefnd af stöðum sem ég verð hugsanlega á í framtíðinni.

Mig langar nefnilega að hanna síðuna sjálfur. Það er miklu skemmtilegra.


Egozentric designs - Feels Good®

Egozentric hönnunarstofan, París, Mílanó, London, Róm, er upptekin þessa dagana. Aðalhönnuður hennar hefur nýlega verið að vinna í fleiri textum á boli í því skyni að auka hróður Egozentric Designs. Óhætt er að segja að vel gangi. Vegna höfundarréttarlaga og smáa letursins, er ekki hægt að birta alla textana strax, en þó ætti að vera í lagi að birta eitt sýnishorn.

Egozentric er harmi slegið yfir getuleysi Moggabloggs. Sagt er í leiðbeiningum að með því að smella á tengil til hægri í stjórnborðinu sé hægt að setja mynd með textanum. Þessi möguleiki er ekki sjáanlegur. Blogg er einskis virði ef ekki er hægt að setja myndir með því.

Lesendum til hugarhægðar tókst aðalhönnuði Egozentric Designs - Feels Good® að setja frumteikningu af bolnum í Mynda-albúm sem er til vinstri á síðunni.


Mínus 37 gráður

Frost 20 gráður, að viðbættum vindi: 37 gráður. Og mér fannst þetta eitthvað skrýtið. Skildi ekki hvers vegna ég gat ekki bara verið á peysunni úti eins og venjulega. Eyrun köld, hrollur allsstaðar, byrjaður að berja mér til hita um leið. Líkaminn kann ráð við flestu, jafnvel þótt hann hafi aldrei þurft á því að halda áður. Nú er ég hamingjusamur eigandi að úlpu. Fer ekki út án hennar. Hún er svört.

Fæddist þú tilbúinn?

Ég hallast æ meira að þeirri skoðun að við fæðumst tilbúin að lang stærstum hluta. Tilbúinn á þann hátt að skólaganga og menntun er aðeins formsatriði. Fjórðungi bregður til fósturs, er sagt. Ætli það sé ekki nær tíund. Dæmi um tilbúinn mann er hann Fokker, hollenski snillingurinn sem ungur hóf að smíða og hanna flugvélar. Hann hætti í skóla til að geta unnið að hugðarefnum sínum. Og hann var með þúsundir manna í vinnu 25 ára. Skólaganga hefði aðeins tafið hann eða jafnvel hindrað í lífinu. Hversu margir hafa ekki þrælað sér í gegn um margra ára nám án nokkurs áhuga, einungis til að fullnægja utanaðkomandi kröfum? Enginn spyr farsælan mann um menntun hans, enda reynast farsælir menn ósjaldan sjálfmenntaðir og stuttskólagengnir. Lífið er besti skólinn.

Það var Fokker bæði til láns og óláns að styrjöld brast á. Stríðsherrarnir áttuðu sig fljótt á mikilvægi flugvélarinnar í hernaði. Uppgangur Fokker-flugvélaverksmiðjunnar var gríðarlegur, þrátt fyrir mikla samkeppni, og var það Fokker sjálfum að þakka. Hann var ávallt einu skrefi á undan keppinautunum og það voru flugmennirnir sjálfir sem völdu vélar hans. Ef þeir fengu ekki að ráða, voru vélar frá betur tengdum keppinautum valdar. Niðurstaðan af því var iðulega sú að fleiri mannslíf fóru í súginn. Ólánið varðandi stríðið var að verksmiðja hans var jöfnuð við jörðu í lok þess og bankainnistæðunum að mestu leyti stolið eða brunnu upp í óðaverðbólgu.

Ég man eftir því að hafa velt fyrir mér, þegar ég horfði á gamla stríðsmynd, hvernig hægt var að skjóta úr hríðskotabyssum flugvélanna svo að segja í gegnum skrúfublöðin án þess að þau tættust í sundur. Þetta var þraut sem leyst var snemma í styrjöldinni af Fokker. Hann fann up tækni sem stillti vélbyssurnar þannig af að þær skutu milli skrúfublaðanna en ekki í þau. Og það aðeins á nokkrum dögum. Þýska herstjórnin sagði við hann þegar hann kynnti uppfinningu sína: "Gott og vel, þú sýnir okkur hvernig þetta virkar með því að skjóta niður óvinaflugvél." Þegar til kom hafði Fokker ekki geð á því og hætti við þegar hann hafði vél í skotmarkinu.

Hvað mig sjálfan varðar eru það hlutirnir sem ég lærði upp á eigin spýtur sem gagnast hafa mér best. Skólinn, þótt góður væri, var ávallt í öðru sæti. Umbrot lærði ég til dæmis af sjálfum mér skömmu eftir að það fór inn í tölvurnar. Svo er um fleira. Menntunin er þó góður grunnur, ekki verður hjá komist að viðurkenna það.


Fokker flugvélasmiður

Það er ánægjulegt að sjá að greinaskilin eru komin í bloggið mitt. Greinaskilanefnd ríkisins samþykkti loksins að ég mætti nota þau.

Ég er að lesa bókina um hann Fokker flugvélasmið. Mikið óskaplega er það skemmtileg lesning. Fokker var hollenskur strákur sem af miklum eldmóði smíðaði flugvélar nokkrum árum eftir að Wright bræður flugu fyrst. Saga hans gefur góða innsýn í árdaga flugsins þegar heimsbyggðin var í hvað mestum friðarblóma, vissi ekki hvað stríð var. Þetta var um 1910. Fólk flykktist á sýningar til að sjá flugmennina leika listir sínar og aldrei var meiri aðsókn en eftir að einhver hrapaði. Í þá daga var leiðin frá flugvélinni í kirkjugarðinn með þeim stystu. Flugkapparnir voru slíkar hetjur að Beckham og hans líkar fölna í samanburði. Þetta var þá. Nú eru flugmenn ekki lengur hetjur sem gefa eiginhandaráritanir.

Margir Íslendingar hafa flogið innanlands með vélum frá Fokker.

Fremst í bókinni stendur skrifað: Gleðileg jól Geiri minn, frá mömmu. Sigrún amma gaf pabba þessa bók þegar hann var unglingur. Pabbi eða systur hans hafa límt myndir af dýrum á fyrstu síðurnar. Það yljar manni um hjartaræturnar að lesa bók sem amma Sigrún keypti. Blessuð sé minning hennar.


Bloggeðli

Það tekur smá tíma að læra að Moggablogga, en það lofar góðu. Hlakka til að læra að gera eitthvað sjálfur, setja mynd inn og svoleiðis.

Við þessi tímamót ætla ég að útskýra fyrir lesendum hverskonar bloggari ég er.

Í fyrsta lagi er ég næstum því raunverulegur bloggari. Raunverulegir bloggarar eru þeir sem skrásetja gjörðir sínar dag frá degi. Blogg er afleiða af orðinu Web log, sem á Íslensku hefur verið kallað logg og þá yfirleitt sem bókar logg. Blogg er sem sagt í eðli sínu dagbók, logg bók (logg bækur tilheyra skipum og flugvélum ef mér skjátlast ekki). Raunverulegir bloggarar eru sem sagt þeir sem segja frá því hvernig þeim leið þegar þeir vöknuðu í morgun, hvað var á morgunverðarborðinu og svo framvegis. Næstum því raunverulegir bloggarar, eins og ég er, eru þeir sem segja frá hversdagslegum hlutum öðru hvoru. Sumir kalla hversdagsblogg húsmæðrablogg.

Í öðru lagi er ég þjóðfélagsrýnir sem kryfur mál til mergjar og hendir svo mergnum.

Í þriðja lagi er ég grínisti. Reyni að vera fyndinn en er oftast sá eini sem hlær.

Í fjórða lagi er hluti af hönnunarteyminu á hönnunarstofunni Egozentric Designs - Feels Good®.

Í fimmta lagi er ég rithöfundur sem skrifar spennandi sakamálasögu fyrir lesendur. Því miður hefur ekki verið nógu góður gangur í sögunni. En hún fjallar um einkaspæjara á Ford Mustang. Sagan heitir Hótel Lifrarkæfa.

Í sjötta lagi er ég kvikmyndarýnir sem skrifar öðru hvoru um myndir, bæði þær sem sýndar eru í klúbbnum afspyrnu og í bíó.

Í sjöunda lagi (gleymdi þessu um daginn) er þetta gestablogg þar sem gestir og gangandi sem sjálfir hafa ekki blogg geta viðrað skoðanir sínar.

Í áttunda lagi er ég meðlimur í Heimsvernd, sem hefur það m.a. að markmiði að vernda heiminn fyrir umhverfisverndarsinnum.

Í níunda lagi er ég óflokkaður bloggari. Í þann flokk fellur allt sem ekki rúmast í hinum átta.

Ps. Þetta er ekki að virka nógu vel, því það koma ekki greinaskil.


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 114003

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband