Leita í fréttum mbl.is

Fæddist þú tilbúinn?

Ég hallast æ meira að þeirri skoðun að við fæðumst tilbúin að lang stærstum hluta. Tilbúinn á þann hátt að skólaganga og menntun er aðeins formsatriði. Fjórðungi bregður til fósturs, er sagt. Ætli það sé ekki nær tíund. Dæmi um tilbúinn mann er hann Fokker, hollenski snillingurinn sem ungur hóf að smíða og hanna flugvélar. Hann hætti í skóla til að geta unnið að hugðarefnum sínum. Og hann var með þúsundir manna í vinnu 25 ára. Skólaganga hefði aðeins tafið hann eða jafnvel hindrað í lífinu. Hversu margir hafa ekki þrælað sér í gegn um margra ára nám án nokkurs áhuga, einungis til að fullnægja utanaðkomandi kröfum? Enginn spyr farsælan mann um menntun hans, enda reynast farsælir menn ósjaldan sjálfmenntaðir og stuttskólagengnir. Lífið er besti skólinn.

Það var Fokker bæði til láns og óláns að styrjöld brast á. Stríðsherrarnir áttuðu sig fljótt á mikilvægi flugvélarinnar í hernaði. Uppgangur Fokker-flugvélaverksmiðjunnar var gríðarlegur, þrátt fyrir mikla samkeppni, og var það Fokker sjálfum að þakka. Hann var ávallt einu skrefi á undan keppinautunum og það voru flugmennirnir sjálfir sem völdu vélar hans. Ef þeir fengu ekki að ráða, voru vélar frá betur tengdum keppinautum valdar. Niðurstaðan af því var iðulega sú að fleiri mannslíf fóru í súginn. Ólánið varðandi stríðið var að verksmiðja hans var jöfnuð við jörðu í lok þess og bankainnistæðunum að mestu leyti stolið eða brunnu upp í óðaverðbólgu.

Ég man eftir því að hafa velt fyrir mér, þegar ég horfði á gamla stríðsmynd, hvernig hægt var að skjóta úr hríðskotabyssum flugvélanna svo að segja í gegnum skrúfublöðin án þess að þau tættust í sundur. Þetta var þraut sem leyst var snemma í styrjöldinni af Fokker. Hann fann up tækni sem stillti vélbyssurnar þannig af að þær skutu milli skrúfublaðanna en ekki í þau. Og það aðeins á nokkrum dögum. Þýska herstjórnin sagði við hann þegar hann kynnti uppfinningu sína: "Gott og vel, þú sýnir okkur hvernig þetta virkar með því að skjóta niður óvinaflugvél." Þegar til kom hafði Fokker ekki geð á því og hætti við þegar hann hafði vél í skotmarkinu.

Hvað mig sjálfan varðar eru það hlutirnir sem ég lærði upp á eigin spýtur sem gagnast hafa mér best. Skólinn, þótt góður væri, var ávallt í öðru sæti. Umbrot lærði ég til dæmis af sjálfum mér skömmu eftir að það fór inn í tölvurnar. Svo er um fleira. Menntunin er þó góður grunnur, ekki verður hjá komist að viðurkenna það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.5.): 4
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 32
  • Frá upphafi: 114059

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 32
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband