Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Skrifborðið mitt

Grænn stickies miði með heimilisfangi John frænda á. Minnismiði um dvd disk sem ég útbjó fyrir Rúnu. Gulur stór stickies miði með nafni manns sem er mikill safnari á Loftleiðadóti. 120 gb harður diskur. Lítil vasatölva sem tilvalið er að hafa með í ferðalög til að reikna út gengi. Batteríið í henni hefur verið það sama í áratugi og sýnir engin þreytumerki. Glær reglustika. Gluggaumslag frá Hive sem ég nota sem minnismiða. Á þeirri hlið sem snýr upp er ekkert skrifað utan tvö ártöl. Löstur er ekki glæpur eftir Lysander Spooner liggur undir umslaginu og undir þeirri bók er handbók um Final Cut Pro. Ævisaga Alfreðs Elíassonar. Gatari, Heyrnartól með hljóðnema, fjarstýring á myndavélina, fjarstýring á sjónvarpið, heftari, áherslupenni, úr, hljómdiskur með tónlist úr myndinni What's up Tiger Lily? með hljómsveitinni The Loving' Spoonful. Box með tómum dvd diskum, box með tómum cd diskum, hjól sem ég pantaði frá útlöndum undir ferðatöskuna mína. Blaðaúrklippa. Það er fleira á borðinu mínu, en til að halda spennunni ætla ég ekki að segja frá því fyrr en eftir óákveðinn tíma.

Eftirlit með eftirlitseftirlitinu

EftirlitseftirlitiðÞessi frétt færir heim sanninn um að nauðsynlegt er að hafa eftirlit með eftirlitinu og til að allt fari nú rétt fram þarf að hafa eftirlit með því líka. Ég er sammála, það er ólíðandi að ekkert eftirlit skuli haft með þeim sem fylgist með í gegnum eftirlitsmyndavélarnar. Það þyrfti að setja eftirlitsmyndavél á þá og til að allt sé öruggt og ekki án eftirlits verður að ráða sérstaka aðila til að hafa eftirlit með eftirlitsaðilanum. Til að minnka líkur á misnotkun og spillingu í eftirlitinu þarf að ráða vini og kunningja þeirra, sem sjá um eftirlit með eftirlitinu, til að fylgjast með þeim í þeirra daglega lífi og skrá niður það sem þeir segja og gera til þess að það sé alveg öruggt að þeir misnoti ekki aðstöðu sína. Með nútímatækni er leikur einn að koma fyrir eftirlitstækjum s.s. hljóðnemum og myndavélum á heimilum þeirra. Skýrsluútfyllingar eru orðnar miklu þægilegri eftir að tölvur voru fundnar upp þannig að nú er ekkert mál að fylla út skýrslu og senda til yfirvalda. Þar sem eftirlitsmyndavélavöktun er ábyrgðarfullt starf, er nauðsynlegt að þeir sem því sinna séu ábyrgðarinnar verðir og njóti trausts eftirlitsaðilans. Hverjir eru betur til þess fallnir en vinir og ættingjar?


Tilnefndur til Darwin-verðlaunanna

Ég ætla ekki að gera lítið úr alvarleika þessa hörmulega slyss, en vonandi verður þetta öðrum gassniffandi bjálfum víti til varnaðar. Það mætti einnig bæta því við hér að ef slys ber að höndum er heppilegast að aka á næsta sjúkrahús, en ekki þarnæsta. Það munar um hverja mínútu þegar brunasár eru annars vegar.

Þessi fær mitt atkvæði


Níu milljón nautheimsk náhveli!

Tinni í Kongó er fallinn í ónáð hins pólitíska rétttrúnaðar. Hvað þykir þessum kjánum óviðeigandi næst? Svona ósvinnu verður að mótmæla vegna þess að „Jafnréttisráð“ er á launum hjá ríkinu við að útvíkka starfssvið sitt. Ef ekkert er „misréttið“ er það einfaldlega fundið upp, eins og glöggt sést á þessum aðgerðum. Hafa þeir virkilega ekkert betra að gera en amast við Tinna?

Ef ég set mig örstutta stund í spor Jafnréttisráðs hennar hátignar og leita að fleiri ástæðum til að taka Tinna úr hillum bókaverslana er ég ekki lengi að finna minnihlutahóp sem klárlega er mismunað í Tinnabókunum: Heyrnardaufir. Vandráður prófessor er heyrnarskertur og Kolbeinn kafteinn lætur hann aldeilis heyra það. Í tilsvörum Vandráðs er gert stólpagrín að heyrnardaufum. Gróf mismunun þarna á ferð og ég mun fela lögfræðingum Lýðheilsustöðvar, Jafnréttisráðs, Félagsmálaráðuneytisins, Neytendastofu og Félags heyrnarlausra að setja lögbann á allar þær Tinnabækur þar sem gert er grín að heyrnardaufum.

Níðst á heyrnardaufumEkki nóg með það heldur er líka verið að níðast á öðrum minnihlutahópi sem síst má við því: Utangátta prófessorum. Hvers eiga þessir vesalingar að gjalda? Mega þeir ekki vera snillingar í friði? Þarf alltaf að vera að ráðast á þá? Lögfræðingur Háskóla Íslands mun fá greinargerð frá mér um þetta mál og hann mun í kjölfarið láta banna allar Tinnabækur þar sem hallar á prófessora.


mbl.is Tinni fjarlægður úr barnabókahillum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Panama besta kaffiland í heimi

Apakaffið er ljúffengt kaffiUndanfarin misseri hef ég átt þess kost að drekka panamískt kaffi. Það er vegna þess að Svavar vinur minn er farinn að flytja það inn.

Um daginn fór Svavar á Langasand í Kaliforníu á ráðstefnu um kaffi. Þar var smakkað kaffi frá öllum hornum heimsins og því gefin einkunn og raðað í sæti. Skemmst er frá að segja að kaffið hans Svavars lenti í 1. og 7. sæti yfir besta kaffi í heiminum. Panamakaffið bætti um betur í flokki náttúruræktaðs kaffis og lenti í 1. og 2. sæti. Frétt um málið birtist á Freistingu.is.

Það er ekki erfitt að mæla með Panamakaffinu. Um daginn keypti ég pakka með baunum frá Merrild, þeirra flaggskipi, Café Noir. Er ég bar saman baunirnar kom í ljós að hinar margauglýstu en óverðlaunuðu Café Noir baunir voru eins og sag í samanburði við bústnar og olíuglansandi apakaffisbaunirnar, brotnar smáar og þurrar.

Í skírn Ragnars Orra sonar míns í byrjun júní var hellt upp á Panamakaffi. Skírnargestir vissu ekki hvaðan kaffið kom, en óvenju margir höfðu á orði hve kaffið væri gott. Þetta eru góð meðmæli og algerlega óvilhöll.

Ég gleymdi að segja það að Panamakaffið fæst í Melabúðinni og öðrum „Þínum verslunum“ (hvar annars staðar?) 


Nú líður mér betur

Það fer nú ekkert á milli mála að þeir hafa undanfarin ár ekki verið fullfrískir á hellamyndböndunum sínum. Náfölir og aumingjalegir. Ánægjulegt að heyra að þeir hafa náð fyrri styrk.

Raunar tel ég að þeir hafi aldrei verið veikari vegna þess að nú er heimsbyggðin meðvituð um þá og margir eru vaktaðir um hvert fótmál. Stríð eins og Al-Qaeda háir eru heldur léleg til langs tíma litið, því í hvert skipti sem þeir gera eitthvað stinga þeir höfðinu út úr greninu og fræða óvininn um sig. Nú hefur það gerst margsinnis og það skal enginn segja mér að lögregluyfirvöld í hinum vestræna heimi séu ekki komin með dágóða þekkingu á aðferðum þeirra.

Mig langar í þessu sambandi að vísa lesendum á afar fróðlega færslu á síðu Benedikts Halldórssonar um þessi mál.


mbl.is Al-Qaeda hefur náð fyrri styrk
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Uppskrift að hrefnusteik

Það kom mér verulega á óvart hve Hrefnukjötið er gott, er ég slysaðist til að kaupa það um daginn í Melabúðinni. Slysaðist því ég hafði, ásamt svo mörgum öðrum, keypt vont kjöt í Hagkaupum þegar Hrefnan kom aftur á markað. Hagkaupsmenn klikkuðu hressilega, því kjötið frá þeim var vont, með þráabragði. Hugsanlegt er að um byrjunarerfiðleika hafi verið að ræða bæði hjá kaupmanninum og veiðimanninum og rangir bitar verið skornir af kvikindinu. Nú eru bitarnir sem seldir eru á afar sanngjörnu verði 1400 kr. kg í Melabúðinni miklu betri en nautakjötið íslenska (sem íslenskir bændur eru svo sannfærðir um að Íslendingar velji miklu heldur en erlent nautakjöt að þeir telja frjálsan innflutning óþarfan).

Ég fékk snilldar viðskiptahugmynd um daginn og ætla að deila henni hér, því ég sé ekki fram á að geta framkvæmt hana: Grillhúsið HJÁ HREFNU. Staðsetning: Við rætur Hellisheiðar (frá Vatnsenda að Sandskeiði u.þ.b.) við þjóðleiðina austur. Ekta íslenskur grillstaður sem heiðrar ævagamlar matarhefðir þjóðarinnar og grillar Hrefnu á kolum daginn út og inn. Einfættur, húðflúraður kokkur með lepp fyrir auga sér um að grilla eina réttinn á matseðlinum: Hrefnu. Bökuð kartafla og rauðvín eða öl. Hvalveiðisögu þjóðarinnar gerð skil á veggjum. Getur ekki klikkað.

Uppskrift 

Eins og fyrirsögnin vísar til ætla ég að deila með lesendum þeirri aðferð sem ég hef þróað við matreiðslu á Hrefnunni:

200 gr hrefnukjöt á mann (sneiðarnar eru um 1,5 sm á þykkt)

Vænn slurkur af appelsínugulri CARAMBA bbq olíu (cajp.se) fæst í Melabúðinni (hvar annars staðar?)

Ferskur pipar

Kjötinu velt upp úr olíunni og látið marinerast í 2 til 3 tíma (má vera lengur). Pipar malaður yfir.  Grillað í u.þ.b. tvær mínútur á hvorri hlið. Mitt grill er ekki mjög heitt, þannig að það mætti stytta örlítið tímann á nýrri grillum.

Sósa: Appelsínugul sósa frá Oscar sem fæst í Melabúðinni (hvar annars staðar?) Er í kælinum við vegginn næst kjötborðinu. Snilldarsósa sem bara bætir og kætir hrefnuna.

Bakaðar kartöflur taka um klst. á 240 í venjulegum ofni. Mæli með þeim og smjöri og hvítlaukssalti og sýrðum rjóma frá Mjólku (verður að vera frá Mjólku, verslið eins lítið og mögulegt er við einokunarviðbjóðinn).

Verði þér að góðu. 

Heimasíða hrefnuveiðimanna.


mbl.is Hrefnuveiðar hefjast aftur í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sniðug uppfinning

Rakst á þetta myndbrot áðan. Algjört undratæki. Verður næsta æði á Íslandi. 


Af sem áður var

Á hvaða leið er Ísland eiginlega? Er ekkert heilagt? Á nú að fara að greiða fyrir það sem áður var gefið með glöðu geði? Manni flökrar við svona fréttum. 
mbl.is Rússnesk vændiskona send til Íslands
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Innri maður Guðjóns sýnir sig

Framkoma Guðjóns Þórðarsonar og sonar hans er einhver sú ömurlegasta sem sést hefur í íslenskum knattspyrnuleik. Það blasir við á myndum að það var einlægur ásetningur Bjarna að skora mark. 

Eftir þetta atvik skilur maður betur hvers vegna frami Guðjóns Þórðarsonar í erlendri knattspyrnuþjálfun var endasleppur. Hann er óheiðarlegur og slíkir menn komast hvorki lönd né strönd. 


mbl.is Yfirlýsing frá Keflvíkingum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband