Færsluflokkur: Dægurmál
12.1.2011 | 21:19
Afleiðingar bannlaga
Ætli ekkjur og aðrir syrgjandi fjölskyldumeðlimir í Mexíkó séu sammála þeim sem vilja viðhalda bláu banni við öðrum fíkniefnum en víni og tóbaki?
Tollurinn sem greiða þarf vegna þessara skammsýnu sjónarmiða er miklu hærri en ef það væri ekki amast við fíkniefnum og þau sett undir lög og reglur eins og önnur neysluvara.
Hörmungarnar sem bann veldur eru gríðarlegar, eins og þeir sem orðið hafa fyrir árásum eða þjófnuðum eiturlyfjafíkla, vita.
Alkóhólistar á batavegi eru hvattir til að horfast í augu við fíkn sína og sjálfa sig undanbragðalaust. Erum við að horfast undanbragðalaust í augu við afleiðingarnar af fíkniefnabanninu?
Yfir 15.000 myrtir í eiturlyfjastríðum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt 19.1.2011 kl. 09:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.11.2010 | 08:39
Ekkert svigrúm
Umferðareyjur eru fyrirtaks öryggisventill, ef eitthvað kemur upp á, til dæmis ef það springur dekk eða skyndilega þarf að sveigja frá til að forða óhappi. Þá má aka upp á þær.
Er ég ók um Miklubraut í gærkvöldi sá ég að vegriðið sem fjallað er um í þessari frétt er sett alveg út við götuna. Mér þótti það óþægilegt. Það er ekkert svigrúm þarna lengur.
Væri ekki skynsamlegra, og hagkvæmara, að leggja eitt tvöfalt vegrið í miðju eyjunnar milli akreinanna?
Sama er uppi á teningnum á Hafnarfjarðarvegi, þar er vegriðið alveg út við götu. Þetta er óskynsamlegt og minnkar, eins og áður segir, svigrúm til að bregðast við óhöppum.
Framkvæmdir á Miklubraut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.10.2010 | 08:47
Kófsveitt
Fréttir eru í eðli sínu meira vondar en góðar. Góðar fréttir eru einhvern veginn léttvægari, finnst mörgum, en fréttir af óförum eða hörmungum. Ég er mikill aðdáandi góðra frétta og les þær iðulega á undan hinum vondu. Hjarta mitt tók gleðikipp í síðustu viku þegar ég sá baksíðu Moggans. Þar var mjög góð frétt. Frétt um að fólk kæmi kófsveitt úr leikfimi. En hvað það var nú ánægjulegt. Kófsveitt fólk sem kemur úr leikfimi getur aðeins þýtt duglegt, samviskusamt og heilbrigt fólk sem tekur virkilega á því í líkamsræktinni og hlífir sér hvergi, svíkst ekki undan með því að lyfta léttari lóðum og taka færri æfingar. En gleði mín dvínaði nokkuð þegar ég sá undirfyrirsögnina. Engar sturtur í einhverjum skólanum. Það er virkilega slæm frétt og meira í takt við eðli frétta. Þrátt fyrir það huggaði ég mig við þá staðreynd að hvað sem sturtumálum þessa skóla líður, taka krakkarnir á því í leikfiminni. Því ber að fagna vegna þess að síðast þegar ég vissi fór æska landsins stækkandi á þverveginn. Æsku landsins er þá viðbjargandi. Stórkostlegt!
Fáar fyrirsagnir og fréttir hafa í sér eins miklar dramatískar sviptingar eins og þessi. Fyrst er maður virkilega glaður fyrir hönd þeirra sem stunda leikfimi, svo kemur í ljós að þau komast ekki í sturtu, þá er maður sorgmæddur. Svo gleðst maður aftur yfir þeirri óvæntu gleðifrétt að þau taki hraustlega á því í leikfiminni en mæta ekki með vottorð eða neita hreinlega að hreyfa sig fyrr en sturturnar eru komnar í lag.
Dægurmál | Breytt 21.10.2010 kl. 22:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.10.2010 | 18:54
Hvar eru mínar afskriftir?
Egozentric Designs®©, París, London, New York, Róm er stolt af því að kynna nýjasta bolinn sinn. Hann er að þessu sinni ekki hannaður fyrir viðskiptavin, heldur stofuna sjálfa, enda fór stofan, eins og svo margir aðrir, fremur geyst á árunum fyrir hrun og tók lán sem nutu gengistryggingar. En svo virðist sem stofan hafi ekki verið nógu stórtæk. Aðalhönnuðurinn hefði mátt segja sér það sjálfur, maðurinn sem á mannamótum þuldi jafnan spekina skuldirðu lítið á bankinn þig, skuldirðu mikið átt þú bankann, til að sýnast gáfulegur.
Bolurinn er þýðing á hönnun sem stofan hefur gert fyrir erlenda viðskiptavini (Where is my bailout).
Vertu harður á þínu og sýndu stjórnvöldum og bankavöldum enga miskunn. Stærð 1-100. Litur: Rauður. Bolurinn er sem fyrr úr óviðjafnanlegri bómull, þrælatíndri með berum, blóðugum höndum á Madagaskar. Verð aðeins 19900 krónur. 0,05% af sendingarkostnaði rennur óskipt til afskriftasjóðs Íslandsbanka.
54,7 milljarðar afskrifaðir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.6.2010 | 09:38
Erlend lán voru hagkvæmari kostur fyrir hagsýna
Er við hugðumst taka lán til fasteignakaupa voru kostirnir reiknaðir út, annars vegar íslensk lán með verðtryggingu og háum vöxtum og hins vegar erlend lán með gengisáhættu og lágum vöxtum. Excel útreikningar sýndu svart á hvítu að það var miklu hagkvæmara að taka erlent lán. Útreikningarnir miðuðu við að krónan gæti farið í lægsta gengi á tíu ára tímabili sem var um 2001 (en þá var dalurinn 110 krónur). Þrátt fyrir það var hagkvæmara að taka erlenda lánið. Ekki var gert ráð fyrir algeru hruni og dauða krónunnar. Það er rangt hjá Pétri að óábyrgir hafi tekið myntkörfulán. Íslenskir hagstýrendur höfðu verðlagt krónuna út af markaðnum.
Fer ekki öllum að verða ljóst að krónan er búin að vera? Krónan er munaður sem Íslendingar hafa ekki lengur efni á. Við verðum að læra að nýta okkur smæðina og finna leiðir til að græða á henni en ekki vaða um í sjálfsblekkingu um að hægt sé að halda úti gjaldmiðli í landinu. Það er ekkert minna en hlægilegt að þurfa að sitja undir gjaldeyrishöftum og fölsku gengi. Það besta sem sparifjáreigendur og viljugir sparendur gætu fengið er raunverulegur gjaldmiðill að spara í. Þá fyrst eykst vilji til sparnaðar í landinu.
Bruðlurum bjargað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.5.2010 | 14:58
Röng stefna
Loðin og óljós svör fólksins sem vildi að allt væri uppi á borðum eru frekar hlægileg. Af hverju segja þau ekki hreint út hver áform þeirra eru? Hvar er heiðarleikinn sem Jóhönnu var svo hugleikinn áður? Er þetta opin stjórnsýsla?
Það er líka áhugavert að sjá hvernig þau fara að því að slá skjaldborg um heimilin. Er þetta virkilega skjaldborg? Mér sýnist þetta líta meira út eins og þau séu að slá skjaldborg um ríkissjóð.
Ríkisstjórn Íslands er að finna það á eigin skinni, sem svo margir bentu á, að skattahækkanir þýða ekki endilega auknar skatttekjur. Aukin skattheimta dregur máttinn úr atvinnulífinu, kakan sem ríkið fær hluta af minnkar þótt hluti ríkisins af henni stækki. Á þessu tapa allir. Furðu sætir að þau skuli halda þessari stefnu til streitu.
Því lengur sem þau draga að skera niður hjá ríkinu, því sársaukafyllra verður það.
Hér eru tillögur að niðurskurði:
1. Taka stjórnmálaflokka af framfærslu ríkisins. Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna er eitt mesta hneyksli síðari ára.
2. Leggja niður Seðlabankann og taka upp dal.
3. Leggja niður forsetaembættið.
4. Draga úr niðurgreiðslum í landbúnaði.
5. Sameina ríkisbankana í einn.
6. Draga stórlega úr fæðingarorlofsgreiðslum.
7. Engar fleiri ráðningar (án auglýsinga eða með) til ráðuneyta og stofanana út kjörtímabilið.
8. Fækka sendiráðum (opna heimasíður í staðinn).
9. Lögleiða kannabis. Það sparar gjaldeyri og löggæslu (nota Holland sem fyrirmynd).
10. Stöðva framkvæmdir við byggingu tónlistarhússins í höfninni (pakka í plast og bíða þar til betur árar og selja það svo).
11. Fækka ráðuneytum og ráðherrum.
Molar eru líka brauð. Virkja þarf þjóðina í að standa saman og spara.
Skattar munu hækka eitthvað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.5.2010 | 15:59
Lausnin er einföld
Tók stöðu gegn Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
17.5.2010 | 21:06
Leikarar óskast
Frægt leikskáld sagði eitt sinn að lífið væri leikrit og mennirnir leikarar á sviðinu. Íslenska útgáfan af leikriti lífsins er ólík mörgum erlendum uppfærslum að því leyti að í því eru of fáir leikarar. Það vantar fleiri leikara sem fara út að borða, kaupa í matinn, fylla tankinn, drekka vín, fara í bíó, ferðast um landið og gera yfirleitt það sem leikarar í leikriti lífsins gera.
Erlendur leikari eyðir 20 þúsund á dag
2008 komu um 473 þúsund útlendingar til landsins og dvaldist hver um viku í landinu (spáð var 600 þús í ár). Ekki er óvarlegt að áætla að hver ferðamaður á Íslandi verji um 20 þúsund krónum á dag meðan á dvöl stendur, fyrir utan ferðakostnað. Það gera níu og hálfan milljarð á ári. Peningurinn dreifist á marga aðila. Hótel, veitingahús, leiðsögumenn, bílaleigur, verslanir og svo framvegis. Fái leikari sér til dæmis rauðvínsglas, greiðir hann gríðarlega háan skatt til ríkisins af því, sömu sögu er að segja ef hann fyllir tankinn á bílaleigubílnum. Snæði ferðamaðurinn á veitingahúsi skapar hann störf í eldhúsi og framreiðslu og afleidd störf í innflutningi og matvælaframleiðslu. Það þarf ekki að telja meira upp til að sjá að hver leikari í leikriti lífsins á Íslandi skapar atvinnu hvert sem hann fer og skilar tekjum á ýmsum stigum til þjóðarbúsins, í formi launa og skatta.
Þröskuldar reistir
Nýlega var svokallað flugverndargjald hækkað um 53% úr 620 krónum í 950 krónur, nýtt 150 króna farþegagjald lagt á hvern farþega og leiðarflugsgjald, sem er líka nýtt, lagt á. Reiknað hefur verið út að flugfélögin þurfi að greiða um það bil 400 milljónir til opinberra stofnana á þessu ári ofan á það sem þau greiddu fyrir.
Fella skattana niður
Sá tiltölulega litli beini hagnaður ríkisins af sköttum á flugferðir er dropi í hafið miðað við tekjurnar og umsvifin sem skapast af fleiri ferðamönnum á Íslandi. Miklu vænlegra til árangurs er að fella alla skatta (hvaða nafni sem þeir nefnast) af farmiðum niður. Það mætti meira að segja færa fyrir því rök að það borgaði sig að greiða niður farmiða til landsins með lánum AGS.
Einlægur ásetningur, óheppileg niðurstaða
Stjórnmálamenn sem nú fara með völdin í landinu eru vitaskuld einlægir í viðleitni sinni að bæta hag almennings og ríkissjóðs (kannski aðallega þess síðarnefnda). Sú spurning vaknar óhjákvæmilega hvort aukin skattheimta á ferðir hingað sé misráðin. Flugmiðar þola eflaust einhverja skatta, en minn rökstuddi grunur er sá að engir skattar af flugmiðum skili miklu meiri skatttekjum til ríkisins þegar upp er staðið.
Fátt er sorglegra en leikhús án leikara
Þegar mest þörf er á tekjum og atvinnu er ekki skynsamlegt að setja hindranir á ferðir til og frá landinu. Slík gjöld renna vitaskuld beint út í verðið og draga úr sölu, en sýnt hefur verið fram á það af lærðum mönnum að eftirspurn minnkar í hlutfalli við hækkandi verð.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2010 | 19:18
Orð og athafnir fylgjast ekki að
Dæmigert fyrir þessa menn, orðagjálfrið er algjörlega úr sambandi við athafnir. Þetta sýnir afar vel að jafnréttismál eru ekki ofarlega í huga þeirra. Þetta er áminning til allra að hlusta ekki á orð heldur líta eftir athöfnum. Hér töluðu athafnirnar einfalt tungutak sem allir skilja. Það var ekki fyrr en bent var á lagabrotið að þeir rönkuðu við sér. Munu jafnréttissinnar kjósa þessa flokka áfram?
það er raunverulega skelfileg tilhugsun að það skuli sett á nefnd til að finna leiðir til frekari skattahækkana ofan á þær sem nú þegar eru komnar. Þeir sem nú fara með völdin eru úti á þekju í þessum málum, fara ekki að ráðum sérfræðinga, heldur láta gamlar kreddur eða hugsjónir - sem eiga rætur að rekja til sósíalismans og hafa allstaðar verið afsannaðar - ráða ferðinni.
Þegar skattar voru lækkaðir síðast, amaðist núverandi fjármálaráðherra við þeim, þær væru glapræði á þenslutímum. Skattalækkanir myndu auka útgjöld almennings og auka þensluna enn frekar. Miklu skynsamlegra væri að ríkið tæki þessa peninga (eða héldi þeim eftir). Eins og það sé trygging fyrir minni þenslu. Ekki þarf að líta annað en út á Reykjavíkurhöfn til að sjá hvílík þvæla þetta er, þar er ríkið að sólunda fé í svo miklum mæli að undrun sætir. Bílakjallarinn undir tónlistarhallarglapræðinu, er sá stærsti á landinu. Hann er í boði Vinstri Grænna. Gjörið svo vel.
Og nú, þegar kreppir að, þá er heldur ekki hægt að lækka skatta. Nú þarf ríkið enn meira. Á meðan aðrar þjóðir lækka skatta til að örva efnahagslíf fara Íslendingar þveröfuga leið og hækka þá og draga þannig máttinn enn frekar út fólkinu í landinu (eins og almenn efnahagslögmál eigi ekki við hér). Það er hlægileg della að halda að peningunum sé best fyrirkomið hjá ríkinu. Dæmið um tónlistarhöllina sannar það.
Stjórnmálamenn sem buðu sig fram sérstaklega til að gæta hags almennings reyndust bara vera að leika sér á launum, leika sér í stjórnmálaleik algerlega grunlausir um að húsið var að brenna ofan af þeim. Halda menn virkilega að hærri skattar séu lausnin? Aldeilis ekki. Það þarf að draga úr umsvifum ríkisins um lágmark tvo þriðju. Ríkisbáturinn er að fyllast. Þess verður ekki langt að bíða að hann sekkur undan bákninu. Stærsta verkefni vorra tíma er að minnka umsvif ríkisins.
Ég sakna þess að sjá ekki löglega skipaða nefnd sem leggur til hugmyndir um niðurskurð hjá ríkinu. Af nógu er að taka.
Skipar starfshóp að nýju | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
7.4.2010 | 16:57
Skilja ekki einföldustu hluti
Þessar skattahækkanir eru vísbending um að ráðandi stjórnmálamenn skilji ekki einföldustu hluti varðandi skattlagningu og hámörkun afraksturs af henni. Eðlilegra er að fella niður aðkomugjöld til landsins. Það myndi skila sér í miklu hærri skatttekjum í gegnum háskattaða vöru og þjónustu sem ferðamenn kaupa meðan á dvöl þeirra stendur.
Og á meðan stjórnmálamenn tala hátt um að nú þurfi að auka reglur og eftirlit með fjármálastarfsemi komast þeir upp með að leggja á ofurskatta, til dæmis í nafni samgöngubóta, en nota svo aðeins brot af skatttekjunum til samgöngubótanna. Svo virðist að stjórnmálamenn telji sig óháða einmitt því aðhaldi sem þeir telja að skorti annars staðar.
Til að kóróna ósvífnina leggja stjórnmálamennirnir fram tillögur að aukinni skattheimtu á samgöngurnar í landinu, til þess, jú, að bæta samgöngur. Ekki er nein ástæða til að trúa því.
Gagnrýna kostnaðarhækkarnir á flugfélögin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.1.): 1
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 114484
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.