Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Vöggugjöfin II – Öl?

Fékkst þú þá einstöku náðargáfu í vöggugjöf að vita hvað öðrum, betur en þeim sálfum, er fyrir bestu? Ef þú telur að svo sé — þótt það sé jafnvel aðeins óljós, kitlandi tilfinning — taktu þá snillingsprófið. Líkurnar á að þú sért snillingur og vitringur eru talsverðar vegna þess að hlutfall slíkra virtúósa á Íslandi er með því hæsta í heiminum. Hlutfallið er svo hátt að vísindamenn standa á gati.

Á ráðstefnu sem haldin var nýlega var reynt að finna svör við þeirri ráðgátu sem þetta háa hlutfall er. Margar tillögur komu fram hver annarri kjánalegri. Sálfræðingsræfill frá Sidney taldi hlutfall „snillinga“ (hann gerði gæsalappir með fingrunum) ráðast af því hve langt þjóðir væru komnar í að horfast í augu við sjálfar sig, það er að segja, að hlutfall „spámanna“ væri því hærra sem tvískinnungur, hræsni og yfirdrepsskapur væri útbreiddari. Hann var púaður niður af íslensku fulltrúunum sem voru fjölmennastir á ráðstefnunni (nema hvað).

Önnur tillaga álíka vitlaus kom fram í ræðu monthana frá Montana undir yfirskriftinni „Vesæll er valdalaus vitringur“Hélt hann því fram að mikill meirihluti manna myndi láta visku og speki og tilskipanir og reglur vitringa sem vind um eyru þjóta ef þeir hefðu ekki völd til þess að þvinga þeim upp á þá — og samt vera hamingjusamari, heilsuhraustari og farsælli.

Alvitlausasta kenningin verður þó að teljast vera sú sem danski fulltrúinn Níels Langström setti fram. Í löngu og þvoglumæltu máli hans kom fram að rannsóknir sem hann gerði sýndu að það væri útbreiddur misskilningur á Íslandi, miklu útbreiddari en í heimalandi hans til að mynda, að boð og bönn láti vandamál hverfa. Hann gerði gys að Íslendingum og kallaði þá bláeyga að halda að blá bönn kæmu í veg fyrir alla mannlega lesti og bresti og hvaðeina sem hinir vitru og framsýnu teldu ekki við hæfi. „Hættir hóra að vera hóra við það að plebbi á löggjafarþingi banni vændi eða vændiskaup?“ spurði hann. „Nei, hún leitar skjóls frá hrammi ríkisins hjá þeim sem síst skyldi, dólgnum,“ svaraði hann sjálfum sér. Hann var hrópaður niður af íslensku fulltrúunum sem fóru fram á það við skipuleggjendur ráðstefnunnar að Níelsi væri bannað að fara á þjóðdansasýningu sem skipulögð var fyrir ráðstefnugesti um kvöldið.

Ekki þarf að koma á óvart að lausnin á ráðgátunni kom frá snillingi snillinganna, yfirvitringi hópsins, Guttormi Melsteð frá Enni undir Ennisennisenni. Hann benti ráðstefnugestum og heimsbyggðinni allri kurteislega á það í eitt skipti fyrir öll að náðargáfan væri einfaldlega vöggugjöf mótuð og slípuð af mörgum kynslóðum íslenskra spekinga með ofurmannlegt innsæi. Var þá mikið klappað.

Allt um það. Ekki er eftir neinu að bíða en vinda sér í næstu spurningu.

Snillingsprófið – önnur spurning

Vildir þú á árabilinu 1947 til 1967 að bjór væri leyfður í landinu?

__ Já.

__Nei.

NeiEf svarið er „nei“ hefurðu stigið enn eitt skrefið í rétta átt. Þú ert í virkilega góðum félagsskap margra framsýnna manna vegna þess að Pétur Sigurðsson alþingismaður lagði fram frumvarp 1960 og aftur 1966 um að leyfa bjór. Pétur sagði meðal annars í framsögu að það væri „meira en lítið misræmi að leyfa sölu á eldsterku brennivíni, en banna sölu á veiku öli á þeirri forsendu, að verið sé að vinna gegn áfengisbölinu,“ en meginrökin væru „að slíkt bann sem nú er á áfengu öli sé móðgun við menningarþroska og frelsiskennd íslenzkra þegna.“

AlthingismennBanner1967Sigurvin Einarsson alþingismaður furðaði sig á þrákelkni Péturs og sagði í ræðu: „Hvar sem öl er bruggað og selt, verður það almenningsvarningur, almenningsneyzla, almenningslöstur. Ölið verður daglegur drykkur meira og minna á vinnustöðum, sem stelur peningum frá mönnum og dregur úr afköstum. Menn þurfa ekki annað en bera saman afköst íslenzkra verkamanna og öll tilþrif á vinnustað við störf starfsbræðra þeirra í nágrannalöndunum, þar sem a.m.k. einn í hverjum hópi hefur nóg að gera að ná í ölföng. Hætt er við, að hér yrði útkoman ekki ósvipuð með ölið og með sígaretturnar, það yrði nautnavarningur, furðu sakleysislegur, en menn mundu kaupa ölið, þegar þeir færu að venjast því, og smám saman gætu þeir ekki án þess verið. Og spariskildingarnir færu til ölkaupa í staðinn fyrir húsbyggingar eða að prýða heimili sín eða í staðinn fyrir góðan mat. Verkamenn nágrannalandanna eiga ekki fé til að byggja fyrir íbúðir eða prýða heimili sin á sama hátt og íslenzkir verkamenn.“ Hér talar sá sem vitið og framsýnina hefur. Íslenskir vinnustaðir nú um stundir eru vissulega nánast óstarfhæfir vegna bjórþambs starfsfólksins daginn út og inn. Ekki satt?

BjorfrumvarpFellt1967Skemmst er frá að segja að frumvarp Péturs var fellt. Á móti voru auk Sigurvins Einarssonar: Axel JónssonÁgúst ÞorvaldssonBenedikt GröndalBjörn Fr. BjörnssonEðvarð SigurðssonEinar OlgeirssonEysteinn JónssonGeir GunnarssonGísli GuðmundssonGunnar GíslasonVilhjálmur HjálmarssonHalldór E. SigurðssonHannibal ValdimarssonIngólfur JónssonIngvar GíslasonLúðvík JósepssonMatthías Á. MatthiesenSigurður ÁgústssonSigurður IngimundarssonJón Kjartansson og Sverrir Júlíusson.

JáEf svo ólíklega vill til að svarið er „já“ hefurðu því miður færst einu skrefi fjær því að geta talist vera fórnfús og framsýnn snillingur sem ert fær um að vita hvað öðrum er fyrir bestu. Þú ert í félagsskap manna eins og áðurnefnds Péturs Sigurðssonar sem hvatti andstæðinga bjórsins að vera samkvæma sjálfum sér og stuðla að banni á sterku áfengi fyrst bjórinn væri jafn hættulegur og þeir vildu vera láta. Með því að láta það ógert væru þeir að viðurkenna að slíkt bann væri tilgangslaust í nútímasamfélagi með víðtækri bruggkunnáttu og miklum samgöngum við lönd þar sem allar víntegundir væru á boðstólum. Andstæðingar bjórsins væru með öðrum orðum hræsnarar.

Þeir sem vildu leyfa bjór voru: Sigurður BjarnasonBirgir FinnssonBjarni BenediktssonDavíð ÓlafssonEinar ÁgústssonSigfús J. JohnsenGylfi Þ. GíslasonJóhann HafsteinJón SkaftasonJónas PéturssonJónas G. RafnarÓskar E. LevýMatthías BjarnasonPétur SigurðssonRagnar Arnalds og Björn Pálsson sem sagði það „reynslu annarra þjóða að tilgangslaust væri að setja bönn. Að banna innflutning á áfengum bjór væri hliðstætt því að banna innflutning á reyktóbaki en leyfa innflutning á vindlingum. Tilkoma áfengs öls myndi gera talsvert gagn. T. d. myndi ölið sporna við hinu mikla smygli, sem ætti sér stað á áfengu öli, og væri nú ástandið þannig, að hver sá sem hefði vilja til gæti aflað sér áfengs öls.“

Ekki er öll nótt úti enn þótt þér hafi ef til vill fipast á tveimur spurningum vegna þess að þú getur enn sýnt fram á að þú sért gegnheill snillingur og vitringur með því að svara næstu spurningum rétt.


Ferð höfundarins 2. útgáfa

Kvikmyndaskráin í bókinni

Um þessar mundir er ég að vinna í atriðisorða- og kvikmyndaskrá nýrrar útgáfu á bókinni Ferð höfundarins eftir Christopher Vogler sem kom fyrst út í minni þýðingu 1997. Síðan þá hefur bókin tvisvar verið endurútgefin og aukin á ensku, en þessi nýja íslenska útgáfa sameinar aðra og þriðju útgáfu hennar í eina glæsilega 150 blaðsíðum lengri bók á okkar ástkæra og fjölskrúðuga máli íslenskunni.

Þegar bók er komin á það stig að hægt er að gera atriðisorðaskrá er ljóst að stutt er í útgáfu. Það hefur tekið lengri tíma en ég áætlaði að ganga frá nýju útgáfunni en nú er því verki sem sagt lokið. Ég get slegið því föstu, án þess að lofa upp í ermina á mér, að bókin kemur út snemma á næsta ári.

Ferð höfundarins er eitt af undirstöðuritum þeirra sem leggja fyrir sig sögusmíðar, hvort sem þær birtast á bókfelli, tjaldi eða sviði. Svo er það einskonar bónus við bókina að hana má nota sem leiðsögutæki, GPS græju, til að rata um lífið.

Ljósmyndin sem fylgir þessari færslu er af kvikmyndaskránni en þar eru veggspjöld allra kvikmynda sem nefndar eru í bókinni. Veggspjald kvikmyndar er ómissandi hluti af söguheiminum, eru í mörgum tilfellum inngangur að sögunni, það fyrsta sem væntanlegir aðnjótendur sjá. Það gefur tóninn, andrúmsloftið og þemað.

Ég hef stundum velt því fyrir mér hvað það er sem gerir Ferð höfundarins svona vinsæla. Ég held að hluti af skýringunni sé sú að ef maður notar kvikmyndina Löggan í Beverly Hills með Eddie Murphy til að varpa ljósi á algildan sannleika í mannlegri tilveru að þá sértu kominn með Bingó.


Stikk-fríhöfnin

Þegar ég var barn fór ég oft í eltingarleiki með krökkunum í hverfinu. Ómissandi hluti af leiknum voru frísvæði þar sem ekki mátti klukka. Frísvæðin voru skilgreind fyrirfram og þangað var hægt að flýja undan þeim sem var'ann. „Þú mátt ekki klukka mig, ég er stikk-frí.“

Barnaleikir eru að sumu leyti æfingar fyrir fullorðinsárin. Eltingaleikir eru kannski fyrsti undirbúningurinn að því að forðast að vera „klukkaður“, til dæmis af skattinum. Þá koma stikk-frí svæðin sér vel. Frísvæðin þar sem önnur lög gilda en almennt. Frísvæðin þar sem það er leyft sem bannað er fyrir utan.

Mér varð hugsað til þessa leiks þegar ég átti leið um Leifsstöð um daginn. Á göngum flughafnarinnar var auglýsing á áfengum miði frá íslensku brugghúsi og innkaupakerran í versluninni við töskufæriböndin var skreytt með þessari ljómandi fínu auglýsingu frá framleiðanda Stella Artois ölsins. Guðaveigar voru auglýstar á skiltum fyrir ofan vínrekkana og ungir kurteisir sérfræðingar kynntu þær. Það rann upp fyrir mér að ég hef aldrei hætt að leika mér í Stikk-frí. Í hvert sinn sem ég ferðast til útlanda gefst mér kostur á einni umferð af þeim gamla og góða leik. Skemmtilegt.

FríhöfninÍ þessari útgáfu af Stikk-frí var ég sem sagt laus undan klukki skattsins, gat keypt vín í búð með fleiri vörum en bara víni (eins og víðast hvar í hinum vestræna heimi) og leyft að glápa á auglýsingar á því. Síðasta atriðið gladdi mig vegna þess að ég naut meira frelsis en venjulega. Gat á eigin ábyrgð horft á vínauglýsingu og metið, án aðstoðar frá einhverjum sem veit betur en ég hvað ég vil, hvort ég kaupi þessa víntegund, aðra víntegund eða enga víntegund.

Ég vorkenndi öllu því fólki sem hefur ekki tök á ferðalögum til útlanda. Ég furðaði mig á hvers vegna fyrsta „hreina vinstristjórnin“ í landinu, þeirri sem berst að eigin sögn fyrir bættum kjörum hinna efnaminni með skjaldborgum og einhverju fleira, er ekki fyrir löngu búin að opna fríhöfn á Hlemmi eða BSÍ fyrir þá sem ferðast með vænglausum hópfarartækjum. Óréttlæti er eitur í mínum beinum og því skil ég ekki hvers vegna skoðanasystkin mín láta þetta óátalið. Sú röksemd og væntanlega forsendan að fríhöfnum yfirleitt, að fólk á leið ÚR LANDI geti keypt vörur skattfrjálst, á ekki við vegna þess að fólk á leið TIL LANDSINS eru bestu viðskiptavinir fríhafnarverslunarinnar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu fyrir „vini verkalýðsins“ að opna fríhöfn á Hlemmi.

Þó mér væri þarna, á íslenskri grund í íslenskri byggingu sem kennd er við Íslendinginn sem fann Ameríku, leyft vöflulaust að verða fyrir áhrifum af vínauglýsingum, fór það ekki framhjá mér að börn og unglingar voru þarna úti um allt. Hugsa sér! Kannski var verið að skjóta fyrstu rótunum að æfilangri áfengissýki hjá einhverju íslensku barninu með hinni blygðunarlausu auglýsingu um hve Thule bjór er ljúffengur (ég ætla nú ekki einu sinni að reyna að ímynda mér hvaða áhrif þetta hefur á útlensk börn). Hræðileg tilhugsun og furðulegt að þeir sem vita best hvað öðrum er fyrir bestu skuli ekki hafa gert við þetta alvarlegar athugasemdir. Áhugafólk um velferð æskunnar HVAÐ ERU ÞIÐ AÐ HUGSA? Af hverju gerið þið ekkert í þessu?

Leiknum lauk svo þegar ég var kominn hinum megin við þilið. Þá var ég aftur orðinn að hálfvitanum sem er því miður ekki fær um að meta sjálfur hvað honum er fyrir bestu. Engar vínauglýsingar, enginn bjór í 10-11, nokkrum metrum frá fríhafnarversluninni, bara sama litskrúðuga og fallega Ísland, fast í viðjum sjálfsblekkingar, tvískinnungs, skorts á umburðarlyndi og sjálfshaturs.


Eftir hverju ertu að bíða?

Losaðu höftin í dag, það þarf ekki að leiða frumvarpið um höft til 2015 í lög.

Eins og fjölmargir bentu á strax í upphafi hafta hefur fjötrakrónan lamandi áhrif á hagkerfið. Það er komið í ljós. Seðlabankinn þarf að leiðrétta allar spár sínar um efnahag landsins á korters-fresti. Aumkunnarvert svo ekki sé fastara að orði kveðið.


mbl.is Seðlabankastjóri: Brýnt að losa höftin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bönnum ALLAR áfengisauglýsingar

Sem meðlimur í SÁÁ fagna ég fyrirhuguðu frumvarpi um bann við áfengisauglýsingum. Það er mikilvægt skref og jákvætt. En betur má ef duga skal. Hrikalegt flóð áfengisauglýsinga frá útlöndum dynur daginn út og inn á saklausri æskunni og þeim sem enga freistingu mega sjá án þess að falla fyrir henni. Ég er að tala um sjónvarpið. Svo virðist sem réttsýnin og skynsemin sem felst í að banna ALVEG áfengisauglýsingar hafi ekki náð að skjóta jafn góðum rótum á Íslandi og víða í hinum stóra heimi. Íþróttakappleikir í útlöndum eru margir hverjir kostaðir af brugghúsum sem jafnframt selja vöru sína hér á landi. Ég hvet félagsmenn í samtökunum að fylgjast vel með úrslitaleik Meistardeildar Evrópu 28. maí, hvort þar séu ekki alveg örugglega framin brot á íslenskum lögum um bann við áfengisauglýsingum. Þetta er vitaskuld ótækt. Ef bannið á að virka og æskan og veikgeðja að halda velli verður að banna svona útsendingar, eða koma í veg fyrir með einhverjum tækniráðum að áfengið komi fyrir augu íslenskra íþróttaunnenda.

Haldi menn að sjónvarpið sé eini sökudólgurinn í þessum efnum eru þeir ekki vel með á nótunum. Yfir landið flæða tímarit sem auglýsa áfengi sem aldrei fyrr. Ef við ætlum að taka okkur alvarlega sem þjóð sem vill koma í veg fyrir áfengisbölið ber okkur að setja á fót nefnd sem hefur það á starfssviði sínu að banna tímarit eða rífa úr og sverta allar áfengisauglýsingar í þeim sem hljóta náð fyrir augum nefndarinnar áður en blöðin berast áskrifendum eða í bókabúðir. Það mætti gera þessa nefnd að deild í Fjölmiðlastofu og skapa þannig fjölmörg viðbótarstörf hjá ríkinu.

Áfengisstofa, eins og það mætti etv. kalla hana gæti líka haft netið á sinni könnu, en eins og flestir vita er mikið um áfengisauglýsingar á netinu, svo mikið að furðu sætir að áfengisbölið skuli ekki vera meira vandamál en það þó er. Með nútímatækni mætti loka fyrir eða sverta allar áfengisauglýsingar á netinu. Eitt og sér myndi þetta skapa fleiri störf hjá ríkinu, en tapast hjá einkageiranum, vegna hins fyrirhugaða algera auglýsingabanns. Það er nú líka miklu göfugra að vinna við slík hátæknistörf en lágtæknistörf eins og bruggun eða auglýsingagerð.

Við blasir að næsta skref, og það heillavænlegasta, er vitaskuld að banna áfengi alfarið í landinu. Byrja á því að draga úr opnunartíma ÁTVR, til dæmis hafa bara opið á miðvikudögum milli sjö og átta að morgni, stytta opnunartíma veitingahúsa smátt og smátt og fækka um leið tegundum áfengis sem þau mega selja. Að sama skapi ætti að minnka stórlega skammtinn fljúgandi vegfarendur mega hafa með sér inn í landið og leggja svo áfengissölu niður í fríhöfninni.

Þeir sem benda á slæma reynslu af áfengisbanni á bannárunum eru bara alkóhólistar og úrtölumenn. Glæpamenn hafa alltaf verið til og verða alltaf til. Áfengis- og vímuefnabann hvetur ekki til glæpa, það sýnir reynslan frá Mexíkó. Það er staðreynd að áfengi er böl og ég er einn þeirra sem tel að það böl megi leysa með einu pennastriki. Falleg framtíðarsýn, ekki satt?

Ég er viss um að margir telja óraunhæft að hægt sé að banna áfengi algerlega á Íslandi. Á móti bendi ég á þá staðreynd að Talibönunum í Afganistan tókst mjög farsællega að loka sínu landi. Þótt það sé etv. ekki rétt að taka Talibanana sér til fyrirmyndar (kúgun kvenna, mannréttindabrot osfrv.), mega þeir þó eiga það að þetta gerðu þeir vel.

Til að koma í veg fyrir misskilning um aðild mína að SÁÁ þá vil ég taka fram að ég er ekki meðlimur í Samtökum áhugamanna um áfengis- og vímuefnavandann heldur í Samtökum áhugamanna um áfengismál. Deildin mín heitir Samtök áhugamanna um áfengismál sem aldrei hafa farið í meðferð en þyrftu kannski á því að halda, skammstafað SÁÁSAHFÍMEÞÁÞH. Markmið deildarinnar er að koma þeim skilaboðum á framfæri (með háði, ef ekki vill betur) að boð og bönn leysa ekki allan vanda og að það eigi að vera hvers og eins að meta áhættuna sem felst í að neyta áfengis eða annarra fíkniefna. Auk þess er markmiðið að hvetja alla frelsisunnandi menn til að sporna við fótum við æ meiri frekju þeirra sem telja sig vita betur hvað öðrum er fyrir bestu.


Stefnt er að... einmitt

Hvílík vonbrigði. Niðurlægingin er fullkomnuð. Lögregluríkið er fætt. Enda blasti það við að höftin voru ekki á förum þótt tal um áætlun um afnám hafta væri í smíðum. Það sýndu gjörðirnar. Aukin harka í að framfylgja þeim. Lúsarleit á flugstöðinni og hlægilegar reglur um hver og hvernig má kaupa gjaldeyri í bönkum. Það má ekki lengur kaupa gjaldeyri í einhverjum banka, nei það verður að vera í þínum viðskiptabanka og þá aðeins með þínu korti á þinn reikning (en þó ekki í Leifsstöð, þar er bara einn Banki og þá gilda reglurnar ekki, hljómar kunnuglega fyrir þá sem þekkja til fyrri haftatímabila).

Þetta er í raun ekki áætlun um afnám hafta, þetta er bara blaður. Áætlun um afnám hafta væri ákveðnar aðgerðir og dagsetningar á þessu ári. Stefna að afnámi hafta kannski hugsanlega mögulega 2015. Aumkunnarvert svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ísland mun dragast aftur úr öðrum þjóðum í lífskjörum á næstu árum. Það er ljóst.

Það sem við þurfum er stefna sem miðar að því að á Íslandi geti hver og einn notað þann gjaldmiðil sem hann kýs. Gjaldmiðlafrelsi. Það er eina raunhæfa leiðin út úr þessu foraði. Íslendingar verða að læra að nýta sér smæðina og græða á henni, láta af mikilmennskubrjálæðinu sem hlegið er að hvarvetna og hætta að skjóta sig í fótinn með „sjálfstæðri“ peningastefnu og efnahagsstjórn. Við þurfum ekki á henni að halda! Sjáið hvert hún hefur skilað okkur, landið er í efnahagslegri rúst.

Tekjur íslendinga eru í erlendum myntum hvort sem er. Hvers vegna skipta þeim í íslenskar krónur? Af hverju getum við ekki bara notað þær beint? Til dæmis þau sem vinna við sjávarútveg eða við aðrar útflutningsgreinar. Hvað kemur í veg fyrir að þeim séu greidd launin í evrum eða dölum eða þeim gjaldmiðli sem notaður er? Laun sem greidd eru fyrir þjónustugreinar innanlands eins og til dæmis í heilbrigðisgeiranum gætu miðast við myntkörfu í sömu hlutföllum og tekjur útflutningsgreinanna.

Er ekki markmiðið að skapa stöðugleika? Eru ekki allir búnir að fá nóg af sveiflunum? Gengisfellingum? Efnahagslegri óstjórn?


mbl.is Höft til 2015
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baggalútsfrétt?

Þetta hljómar eins og frétt úr Lauknum eða Baggalúti. Og þetta hús, er það á Íslandi? Ekki væsir um Samkeppniseftirilitið í þessu húsi, ætli það sé með allar hæðirnar? Talandi um samkeppniseftirlit og verðsamráð. Hefur engum dottið í hug að líta á Mjólkursamsöluna og fyrirkomulag sölu á landbúnaðarafurðum? Þeir eru svo sniðugir stjórnmálamennirnir okkar að þeir tóku „ólöglegt“ frá „samráð“ þegar kemur að mjólkinni. Allt er gert til að koma í veg fyrir dónalega hegðun fyrirtækja á markaði en grófur dónaskapur við almenning í samband við mjólkurframleiðslu er látinn óátalinn. Sorglegt. Þetta er sjúkdómseinkenni Íslands, klíkuskapur sem hyglir fáum en skaðar fjöldann.
mbl.is Heitir nú Byggingavörur Dúdda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Niðurstaða dómsmálsins skiptir ekki máli fyrir Ísland,

það fer á hausinn ef dómsmálið tapast. Verður gjaldþrota. Ef málið vinnst, erum við laus við þetta fyrir fullt og allt. Það er augljóst að Hollendingar og Bretar vilja ekki dómsmál. Ef þeir vinna málið, tapa þeir öllum kröfum. En þetta var algerlega þeirra mál, að greiða út innistæðurnar. Það gerðu þeir, eins og fram hefur komið, til að bjarga eigin skinni. Þeir Íslendingar sem vilja greiða fyrir þetta útspil þeirra eru ginningarfífl og kjarkleysingjar sem sjá ekki skóginn fyrir trjánum. Segjum „nei“ við þessum samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu.
mbl.is Áhættan af dómsmáli meiri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Kim Il Sung og hina spekingana?

Það er nú algert lágmark að hringja í Kim Il Sung, Gordon Brown, Hugo Chaves og Alexander Lukashenko og spyrja þá álits á róstunum í Líbíu fyrst spekingarnir eru á annað borð farnir að tjá sig.
mbl.is Segir Bandaríkin enga áhuga hafa á friði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Forsjárhyggju samfélagið

Vitaskuld á það að vera á ábyrgð foreldra hvort börn undir 18 fara í ljósabekki. Þessi opinbera afskiptasemi er ekkert minna en hlægileg. En hún er líka stórhættuleg, því opinber forsjáriðnaður verður alltaf að finna sér ný og ný viðfangsefni til að halda sjálfum sér við (búa til nýja óvini). Þannig eykst opinbera forsjáin smátt og smátt þar til hún hefur fest samfélagið í viðjar hreinnar flónsku sem haldið er við með ofbeldi.
mbl.is Börnin fái að fara í ljós
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (30.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband