Færsluflokkur: Dægurmál
21.9.2008 | 11:08
Þú ert arinn
Þó ekki brandarinn, heldur arinn eins og er í mörgum húsum og brennir eldiviði. Arinn sem kveikir í eldsneytinu og lætur orkuna hlýja þér og halda þér gangandi.
Líkingin við arininn kom upp í huga mér þegar ég var að velta fyrir mér mataræði og aukakílóum. Þeir sem setið hafa við arin vita að ef maður setur pappír, til dæmis jólapappír, í arininn fuðrar hann upp með miklum hitablossa. En ef maður setur viðardrumb í arininn brennur hann hægt og rólega á jöfnum hita. Eldiviðurinn brennur sem sagt mishratt. Sama má segja um mat. Eldiviðurinn okkar, maturinn sem við borðum, brennur ýmist eins og jólapappír eða viðardrumbur.
Það sem vömbin á okkur arininn okkar hefur umfram hefðbundin arin í húsum er sérstakt kerfi sem tekur hitablossa sem verða til þegar jólapappír er brenndur og breytir þeim í fituforða til að grípa til ef það skyldi nú verða lítið um eldsneyti.
En hvaða matur er jólapappír og hvaða matur er viðardrumbur?
Þarna erum við komin að kjarna málsins og mesta misskilningi heimsins hvað mataræði snertir. Unnin matvæli eins og hvítur sykur og hvítt hveiti eru jólapappír og kartöflur og hrísgrjón eru það líka. Hveiti og sykur er uppistaðan í brauði, þannig að brauð er að stærstum hluta jólapappír í maganum á þér. Allur matur sem inniheldur mikið af þessum efnum er jólapappír. Kolvetni öðru nafni.
Matur sem er viðardrumbur er fita, kjöt og fiskur; próteinríkur matur. Borði maður lítið af jólapappír og mikið af viðardrumbum hleðst ekki utan á mann aukaforði í formi spiks. Þeir sem halda að með því að borða feitan mat, til dæmis avókadó og hnetur, verði þeir feitir eru fórnarlömb útbreiddasta misskilnings heimsins (sönnun þess að margir geta haft rangt fyrir sér). Fituklessurnar á lambahryggnum á diskinum þínum safnast ekki fyrir í skvapinu utan á þér þegar þú borðar þær. Það gera hins vegar kartöflurnar. Af hverju? Af þeirri einföldu ástæðu að fita er viðardrumbur en kartöflur jólapappír. Þær brenna hraðar og gefa líkamanum kost á heppilegri orku til að breyta í varaforða. Geymsluefni líkamans á orku er fita og auðveldasta efnið fyrir hann að breyta í fitu er kolvetni.
Weetabix-pakki heima hjá mér. Þetta er gott og blessað fyrir utan andófið gegn fitunni. Áherslan er á kolvetnin, efnið sem fitan utan á þér er gerð úr. Aldeilis hollur matur það!
Þeir sem látið hafa af áti á jólapappír vita að þá verður líkaminn eins og olíuskip sem siglir sinn sjó án teljandi veltings. Jólapappírsætur eru hins vegar eins og farþegar á lítilli skútu í miðju Atlantshafinu sem fara upp og niður hverja einustu öldu; verða ofurhressir og ofurslappir yfir daginn.
Misskilningurinn sem áður er getið er einhver mesti harmleikur hins vestræna heims. Einhverjir snillingar drógu þá ályktun um 1960 að fitan á diskinum væri fitan utan á þeim. Þeir básúnuðu uppgötvun sína á sannfærandi hátt og almenningsálitið varð það að fita væri vond og hana ætti að forðast í lengstu lög. Eða viltu verða feitur? Það er til marks um hve misskilningurinn er langlífur að enn í dag eru framleidd fituskert matvæli. Einu sinni var bara til mjólk, nú er til mjólk með mörgum mismunandi fituprósentum og sumir drekka bara undanrennu. Þeir um það. Engum hefur dottið í hug að framleiða mjólk án kolvetna þótt feit mjólk án kolvetnanna sé etv. hollasti drykkurinn af þeirri tegund (ég er þó ekki að mæla með mjólkurþambi, bara taka hana sem dæmi).
Afleiðingin af misskilningnum er sú að fólk fitnar sem aldrei fyrr. Þeir sem forðast fituna, fitna samt! Hvað er eiginlega í gangi?
Hver hefur ekki heyrt talað um hamborgararassa? Bandaríkjamenn dæla víst svo miklu hormóni í nautgripi sína að rassinn á fólki stækkar. Etv. kjarnast misskilningurinn í þessari fullyrðingu. Ef hormóni væri dælt í svo miklu magni í kjötið ætti fólk þá ekki að verða vöðvastæltara? Eru það ekki annars vaxtarhormón sem dælt er í kjötið? Ef maður skoðar dæmigerða hamborgaramáltíð kemur í ljós að hún er að stærstum hluta jólapappír; auðbrennanlegur matur í formi brauðs, sósu og kartaflna auk sykraðra gosdrykkja. Sjálfur hamborgarinn er oft og tíðum bara smá próteinbiti innan um gumsið. Það blasir við hver sökudólgurinn er: Það er vitaskuld auðbrennanlegi maturinn. Það er hann sem hleðst utan á okkur í formi aukakílóa.
Hvort eru meiri líkur að þú fitnir af nautahakkinu í þessari hrúgu eða kartöflunum og brauðinu?
Ég bíð spenntur eftir að heimurinn geri sér grein fyrir þessu. Það er tímabært vegna þess að kostnaður vegna offitu er gríðarlegur og vaxandi. Etv. eiga stjórnmálamenn hins vestræna heims einhverja sök, því þeir hafa kosið að greiða niður kolvetnaríkan mat svo sem korn sem þýðir ódýrari kolvetnaríkur matur á borðum okkar (Kornflexið sem þú borðaðir í morgun er í boði bandarískra skattgreiðenda). Niðurgreidd matvælaframleiðsla á Íslandi, mjólkurafurðir sem eru í eðli sínu kolvetnasnauðar, eru stórskemmdar hjá einokunarfyrirtækinu Mjólkursamsölunni með viðbættum sykri í miklu magni.
Óhætt er að fullyrða að margir eru haldnir fíkn í auðbrennanleg kolvetni. Mjólkursamsalan er að svara þeirri fíkn með því að bæta sykri vörur sínar. Skyndibitastaðir eru á þeim fíknimarkaði (staðir þar sem máltíðin er 80% og yfir kolvetni). Það mætti kalla þá skyndibrennslustaði, því maturinn sem þeir selja er jólapappír, fuðrar upp með tilheyrandi sveiflum og varaforða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
16.9.2008 | 07:26
Buck Fush
Það er ekki aðeins mikil kreppa á fjármálamörkuðum heimsins, það er líka yfirvofandi kreppa á öðrum mikilvægum markaði og það á engum smá markaði! Ekkert minna en einn af stólpunum undir efnahagskerfi Bandaríkjanna! Jafnvægið á eftir að raskast, líf margra útgefenda á eftir að verða dans á rósarunnum. Umhverfissinnar munu ekki vita hvaðan á þá stendur veðrið. Hnyttnir bolaframleiðendur fá ritstíflu. Barmmerkjahönnuðir verða atvinnulausir.
Nokkrar vonir eru þó bundnar við væntanlegan varaforseta. Það eru strax farnar að heyrast raddir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.9.2008 | 21:41
Fann ekki hælið
Hælisleitandanum ekið heim | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.9.2008 | 20:30
Hælisleitendur
Ert þú einn þeirra sem dreymir um að vera hælisleitandi? En ekki lengur, nú getur þú líka verið hælisleitandi eins og fína fólkið frá útlöndum. Í nýja hælisleitarbolnum frá Egozentric®© varparðu fram spurningu auk þess að vera í einkennislit Kópavogs. Spurningu til allra sem finna ekki hælið og undrast húsahrúguna sem nú er búið að byggja í Skólagörðunum. Húsin sem eru svo nálægt hvert öðru að nágrannarnir geta heilsast með handabandi út um gluggana hjá sér.
Hvar er Kópavogshæli? Finndu hæli, fáðu hæli, vertu á hæli því hjá mér þú hæli átt. Stærð: 1-100. Litur: Kópavogsgrænn. Verð 8999 kr.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
9.9.2008 | 11:12
Gerðu verðsamanburð!
Ég vissi ekki að það væri komin svona mikil samkeppni milli þjónustufulltrúanna að þær eru farnar að skora á okkur að gera verðsamanburð. Ísland er orðið miklu opnara og tepruminna þjóðfélag en áður. Að vísu er verðið frekar hátt finnst mér, en maðurinn virðist engu að síður sáttur. Vel má vera að fleira sé innifalið í þessum tæpu 35 þúsundum en fram kemur í auglýsingunni.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.9.2008 | 00:26
Drekkur guð kók?
Þegar guð verður þyrstur hvað drekkur hann þá? Drekkur hann etv. kók? Spyr sá er ekki veit. Hver veit? Kannski drekkur hann kók, kannski drekkur hann kaffi. Í bolnum ertu sem gangandi spurningarmerki um almættið, um tilveruna og sköpun heimsins og hvað guð drekkur. Er jörðin flöt? var Jesús smiður? Af hverju er ekki minnst á Bandaríkin í Biblíunni? Allar þessar spurningar holdgervast í þér. Hugsa sér!
Drekkur guð kók? Stærð 1-100. Litur: Svart með hvítum kraga. Spurðu ei hvað guð getur gert fyrir þig, spurðu hvort guð drekki kók. Tengdu þig við gamla pólitík, vertu trúaður og láttu tragedíuna um Jesú veita þér kaþarsis. Verð aðeins 9999 kr. 0,1% af sendingarkosnaðinum rennur óskiptur í söfnunarbaukinn í sjoppunni Gerplu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.9.2008 | 22:01
Forseta bolur
Hver kannast ekki við að finnast lítið til þjóðernis síns koma (td. þegar landsliðið í handbolta lendir neðarlega á mótum)? En ekki lengur. Í nýja Forsetabolnum frá Egozentric®© líður engum eins og aumingja frá köldu landi og fámennu. Klæddu þig í bolinn, sem er gulllitaður, og þú finnur hvernig þjóðernisstoltið flæðir um þig. Þér líður eins og sannkölluðum forseta í áhyggjulausri veislu fyrirmenna þar sem gullið lafir af hverjum áhyggjulausum manni og málverk eru römmuð inn í áhyggjulausa gyllta ramma, allt á kostnað ríkisins. Þú gleymir kreppunni á svipstundu og þarft ekkert að skera niður ferðakostnað eða veisluhöld og flýgur á stoltu skýi þjóðernissins og veifar til aumingjanna þarna niðri. Í bolnum öðlastu sérstaka hæfileika til að skynja hvenær líkur eru á að þjóðernismúgæsing grípi um sig og getur mætt á svæðið og baðað þig í gleðinni.
Forsetabolur. Fljóttu á bylgju þjóðernisástarinnar og gleymdu áhyggjum um stund, vertu eins og forseti alþýðunnar og veifaðu til múgsins. Stærð: 1-100. Efni: Gull (14 karöt). Verð 67000 kr.
Ath leiðrétting: Það átti að standa 0,14 karöt, ekki 14 karöt. Munurinn en sama og enginn, en rétt skal vera rétt. Bolurinn sem auglýsir forsetabolinn er að sjálfsögðu á gamla góða verðinu 8999 krónur fyrir utan sendingarkostnað og tollmeðferðargjald. Takk fyrir það herra Svanur.
Dægurmál | Breytt 5.9.2008 kl. 00:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.8.2008 | 23:15
Forseta hýbýlailmur
Hver kannast ekki við að þurfa að anda að sér miður skemmtilegum fnyk heima hjá sér? En ekki lengur. Með nýja Forseta hýbýlailminum þarf enginn að finna skítalykt lengur. Léttur úði úr sérhönnuðum úðabrúsanum eyðir allri ólykt á augabragði og fyllir öndunarfærin af aðlaðandi og saklausum rósailmi. Ekki nóg með það, heldur er nýi Forseta hýbýlailmurinn þeirrar náttúru gæddur að hann eyðir gömlum sárindum, fortíðarpest, nálykt af dauðum kennisetningum og fúkkalykt svikinna hugsjóna á svipstundu, svo þú getur andað hreinu lofti djúpt í lungun og boðið keikur og hress, alþýðlegur, ef ekki trúðslegur, hverjum sem er í heimsókn í ferskan og saklausan rósailminn.
Forseta hýbýlailmur. Láttu ekki gamla pest angra þig, úðaðu saklausum rósailmi yfir þig og þína og þú verður sem nýsleginn túskildingur, tilbúinn í hvað sem er, virðulegur og gáfulegur. Stærð 1-100. Litur: Þjóðlegur. Verð 8999 kr.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 23:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
27.8.2008 | 19:58
Ekki sanngjarnt
Það er ekki sanngjarnt gagnvart þeim sem lifað hafa og dáið á Íslandi í þau rúmu þúsund ár sem landið hefur verið í byggð, að segja að bara 300 þúsund manns hafi fengið þá gjöf að vera Íslendingur. Þeir eru miklu fleiri. Þetta er dónaskapur við forfeður okkar.
Það er heldur ekki sanngjarnt að ríkið geri handbolta hærra undir höfði en öðru tómstundagamni. Eitt skal yfir alla ganga: Stattu sjálfur straum af áhugamálum þínum. Ríkið getur hjálpað til með því að lækka skatta svo fólk hafi meira fé milli handanna í áhugamál sín. Ef einhver vill til dæmis gefa 50 milljónir í handbolta, þá gefi hann sitt eigið fé, ekki fé annarra sem innheimt er með nauðungargjöldum.
Ótrúleg gjöf að vera Íslendingur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
26.8.2008 | 18:05
Forseta svínastíur
Hver kannast ekki við að hafa lent í vandræðum með svínastíuna sína? En ekki lengur. Með nýju forsetasvínastíunni frá Egozentric®© þarf enginn að hafa áhyggjur af svíninu sínu. Svínastían er háþróuð afurð áratuga rannsókna færustu vísindamanna heimsins. Í stað gerðis, sem er einn stærsti kostnaðarliður við svínastíur, er svínið dáleitt, því talið trú um að umhverfis það sé traust gerði sem engin leið sé að brjótast út úr. Einhverjir kunna að halda að með því að ljúga að svíninu sé verið að brjóta á náttúrulegum rétti þess (öll dýrin eru jöfn osfrv.). En með því er bara hálf sagan sögð. Svín eru í eðli sínu lygarar, þau eru tækifærissinnar og eru fljót að þefa uppi, með sínu næma trýni, veikleika hjá öðrum sem koma þeim sjálfum vel. Svín eru engir vinir vina sinna og svíkja þau umsvifalaust ef það er þeim sjálfum til góða. Þeir sem vinna fyrir svín eru yfirleitt ginningarfífl sem látið hafa svínið ljúga að sér. Þessvegna er ekkert að því að ljúga að svínum, dáleiða þau og láta þau halda að þau búi í forsetahöll þegar þau í raun búa bara á gömlum sveitabæ.
Forseta svínastíur. Litur: Svínsbleikur og skarnabrúnn. Stærð 1-100. Stærsti kostnaðarliður svínastía er gerðið, en með því að útiloka það er hægt að bjóða svínastíuna á hlægilega góðu tilboðsverði. Fyrir aðeins 1,5 milljónir færðu svínastíu með öllu tilheyrandi nema svíninu. Tilboð sem ekki er hægt að hafna. Ef þú hefur ekki efni á svínastíunni geturðu alltaf keypt bolinn. Hann er á tilboðsverði líka. Kostar aðeins 5999 krónur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.1.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 7
- Frá upphafi: 114493
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Fólk
- Eldarnir vestanhafs hafa áhrif á Óskarinn
- Lily Allen tekur geðheilsuna fram yfir hlaðvarpið
- Vill fá að heita Kanína
- Hrafnkatla og Floni hætt að fylgja hvort öðru á Instagram
- Vill að sjónvarpsstöðvar nýti peningana í annað
- Svala sýnir íbúum Los Angeles samhug
- Táraðist þegar hann sá rústirnar
- Gagnrýndur fyrir útlitsdýrkun á ögurstundu
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.