Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Svartir dagar

Ég gleymi ekki þeim degi þegar ég frétti að það ætti að ríkisvæða stjórnmálaflokkana á þingi. Situr ljóslifandi í minningunni við hliðina á deginum þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir.

Það að stjórnmálaflokkarnir séu á framfæri ríkisins er einhver mesta hneisa Íslandssögunnar. Það eru svik við lýðræðið og þjóðina. Þau ólög verður að afnema ekki seinna en strax. Þau hljóta að vera brot á stjórnarskránni.

Framtíðarstefna Íslands ætti tvímælalaust að vera sú að minnka sem frekast er unnt þann sjóð sem stjórnmálamenn ráðskast með. Það gerir tvennt: Minnkar líkur á spillingu og eykur frelsi með ábyrgð.

það þarf stjórnmálaflokk í framboð á Íslandi sem þiggur ekki fé frá ríkinu (utan þings sem innan) og hefur á stefnuskránni að auka ábyrgð hvers og eins.

Daginn sem ég frétti af ríkisvæðingu stjórnmálaflokkanna var ég að fara til Þóris Óskarssonar flugstjóra vegna Loftleiðamyndarinnar sem ég vann þá að. Við Beggi vinur minn vorum að fara að taka viðtal við hann. Ég man ég lagði bílnum frekar langt frá heimili hans fyrir mistök. Það var sagt frá þessu í útvarpinu meðan ég var að leggja. Ég var svo reiður að ég byrjað á því að tala um þetta þegar Þórir bauð okkur inn. Hann horfði á mig undrandi og sagðist svo vera sammála mér. Síðan jafnaði ég mig og gat tekið viðtalið.


Sjónarmið Sigurðar Einarssonar

Sigurður Einarsson skrifaði bréf til vina og vandamanna sem rataði í fjölmiðla. Áhugavert bréf sem mig langar að vitna í hér. Ég gef ekkert fyrir dylgjur um bankana og minni á að það er pólitískur hráskinnaleikur á lægsta plani. Látum dómstóla dæma um ætluð lögbrot og bíðum með að draga ályktanir. Millifyrirsagnir eru mínar.

Krónan okkar kæra

„Ástæður þess að Ísland er í verri stöðu en nágrannaþjóðir landsins eru nokkrar. Fyrst og fremst ber að nefna slensku krónuna. Undirritaður hefur ásamt mörgum öðrum í fjölda ára bent á að það gangi vitfirringu næst fyrir litla, fámenna þjóð í opnu hagkerfi að vera með eigin gjaldmiðil. Því miður hefur sá ótti reynst á rökum reistur. Sömuleiðis hef ég ásamt mörgum öðrum í mörg ár klifað á því að úr því að landið hefði eigin gjaldmiðil þá gengi það alls ekki að búa við svo mikinn halla á viðskiptum við útlönd eins og Ísland hefur búið við undanfarin ár. Til að vinna á þeim halla yrði gengi krónunnar að aðlagast einhverskonar jafnvægisgengi til þess að viðskipti við útlönd nálguðust jafnvægi. Seðlabanki og stjórnvöld skelltu algjörum skollaeyrum við þessum orðum og því varð aðlögun krónunnar með þeim skelfilega hætti sem orðið hefur.“

Fjármálamiðstöðin Ísland

„Ég hef einnig lengi verið í hópi þeirra sem ákaft hafa talað fyrir því að gjaldeyrisvarasjóður landsins yrði margfaldaður, því var í engu sinnt og seðlabanki landsins hélt því áfram að vera algerlega vanmáttugur til þess að fást við það verkefni sitt að vera banki bankanna, þrátt fyrir að marg yfirlýst stefna stjórnvalda væri á þessum tíma að hér risi fjármálamiðstöð. Þetta er einnig sárgrætilegt í ljósi þess að Seðlabanki Íslands gerði allt sem í hans valdi stóð til að koma í veg fyrir að bankarnir verðu sig gegn eða færðu sig af áhrifasvæði íslensku krónunnar. Seðlabankinn þvingaði því íslenska banka til að þiggja af sér þjónustu sem hann sinnti í engu að veita.“

Þjóðnýting Glitnis

„Ég nefni þessi atriði hér að framan vegna þess að hér er um lykilatriði að ræða þegar núverandi efnahagsaðstæður þjóðarinnar eru skoðaðar. Þetta eru megin ástæðurnar fyrir því að íslenska þjóðin er að fara mun verr út úr heimskreppunni en aðrar þjóðir. Þessu til viðbótar er það hrein raunarsaga hvernig haldið var á málum á Íslandi í lok september og byrjun október þegar í ljós kom að Glitnir hafði leitað aðstoðar Seðlabankans. Sú aðferð sem þar átti að nota við þjóðnýtingu Glitnis verður í sögubækur skráð sem mikið axarskaft. Eftir á að hyggja er erfitt að segja hvort hægt hefði verið að bjarga Glitni eða ekki, ég hef ekki nægar upplýsingar til að meta það, en að ríkið tæki yfir bankann gat aldrei verið trúverðugt. Það má líka furðu sæta að ríkið treysti sér fremur til að kaupa hlutafé í bankanum fremur en að veita honum lán gegn veðum. Lán er alltaf tryggari krafa en hlutafé.“

Verstu mistökin

„Hin svokölluðu „Neyðarlög“ sem sett voru í kjölfarið eru þó sennilega verstu mistökin. Eftir setningu neyðarlaganna var hæpið að fjármálakerfið gæti staðist. Nú höfum við séð að undanförnu að fjármálakerfi annarra landa eru í miklum vanda stödd. Margir hafa því spurt mig hvort að íslenska bankakerfið hafi átt einhverja möguleika í þessum ólgusjó. Að mínu mati er þessi spurning ekki réttmæt. Valkostirnir voru ekki óbreytt kerfi eða algjört hrun eins og við horfum upp á nú.“

Ekkert traust milli seðlabankastjóra og bankanna

„Það sem vantaði fyrst og fremst þegar Glitnir lenti í vandræðum var forysta. Í flestum löndum er þessa forystu að finna í seðlabönkum viðkomandi landa. Þegar miklir erfiðleikar eru uppi kallar hver seðlabanki alla helstu banka að samningaborði og staðan er rædd í hreinskilni. Síðan er tekin ákvörðun um það hvað af kerfinu megi bjarga og þá hvernig. Sú aðgerðaáætlun er síðan lögð fram fyrir helstu lánadrottna bankanna. Því miður taldi Seðlabanki Íslands sig ekki þurfa að leita fyrirmynda út fyrir landssteinanna og óskiljanleg er sú ákvörðun að halda forsvarsmönnum bankanna algerlega fyrir utan þetta ferli. Sennilega spilaði þar inn í að það ríkti aldrei neitt traust eða trúnaður á milli forsvarsmanna bankanna og seðlabankastjóra. Raunar ráðfærði seðlabankinn sig ekki einu sinni við sína eigin hagfræðinga né heldur við erlendu sérfræðingana sem bankinn hafði þó á sínum snærum.“

Rangt stöðumat

„Ljóst er nú að hæstráðendur Seðlabankans áttuðu sig engan veginn á stöðunni. Tal seðlabankastjóra í fjölmiðlum um að ríkissjóður yrði því sem næst skuldlaus eftir fall bankana er hrópandi dæmi um vanþekkingu og kolrangt stöðumat. Af þessu eru Íslendingar að súpa seyðið og ekki séð fyrir endann á afleiðingum þessara ólaga sem neyðarlögin eru og sennilega brýnasta verkefni stjórnvalda nú að vinda ofan af þessari lagasetningu. Þetta ásamt því að stjórnvöld vanræktu skyldu sína til að losa þjóðina undan skuldbindingum vegna Icesave á meðan færi var á eru megin ástæður þess að óttast má að Íslendingum muni reynast torveldara að ná sér á strik eftir kreppuna en öðrum þjóðum, þrátt fyrir að því ætti að vera öfugt farið.“

Markviss leki úr skýrslum

„Ljóst er að ljótur leikur er í gangi. Þessi leikur gengur út á að upplýsingum úr skýrslum ýmissa skoðunarnefnda sem vinna að rannsókn á falli íslenska fjármálakerfisins er markvisst lekið úr stjórnkerfinu til valinna fjölmiðla. Einhverra hluta vegna hefur þessi lekastarfsemi undanfarið nær eingöngu snúið að Kaupþingi. Um leið og reynt er að gera allt tortryggilegt varðandi Kaupþing hafa helstu ráðamenn þjóðarinnar, allt þar til Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér í morgun, fríað sig ábyrgð á þeim hlutum sem ég hef í stuttu máli rakið hér að framan og eru auðvitað aðalatriði málsins. Þar til í dag, voru stjórnendur bankanna einu aðilarnir mér vitanlega sem axlað höfðu ábyrgð vegna ástandsins sem nú er i þjóðfélaginu. Meira að segja var nálega allri framkvæmdastjórn Kaupþings skóflað út úr nýja bankanum.“

Þessi skrif Sigurðar Einarssonar þykja mér, eins og áður sagði, vera afar áhugaverð. Ég hef lengi vitað að innan Kaupþings voru aðdáendur Davíðs Oddssonar færri en gengur og gerist, hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir því. Sjálfur hef ég lengi verið stuðningsmaður Davíðs og tel hann einstakan stjórnanda. En mér þykja nokkur veikleikamerki á stjórnunarstíl hans hafa komið í dagsljósið á undanförnum misserum. Ber þar kannski hæst einangrunarstefna hans. Ég tel afar alvarlegt ef samskipti milli Seðlabankans og viðskiptabankanna hafi verið lítil sem engin undanfarin ár. Árangurinn sem Kaupþing náði á alþjóðavettvangi var einstakur, það er óumdeilt. Það að ráðfæra sig ekki við stjórnendur bankans (sem og hinna bankanna) á jafn viðsjárverðum tímum og voru uppi þegar kreppan skall á, er mikið glappaskot. Hreinskilin og góð samskipti er forsendan fyrir góðum árangri. Það blasir líka við núna að árangurinn varð enginn, heldur 100% fall. Ég er ekki fær um að dæma um hvort stefna Seðlabankans hafi verið rétt eða röng, þótt ég hallist að því að hún hafi verið röng. En Davíð kom ekki til bankans fyrr en 2005 svo það er nú tæplega hægt að skrifa ranga stefnu á hann einan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Heimsskyr

Á meðan íslenskir matvælaframleiðendur eru verndaðir með ríkisstyrkjum og tollamúrum gegn samkeppni frá útlenskum matvælaframleiðendum beinast allir kraftar þessara skynsömu og duglegu manna að því hvernig skuli ná sem mestu fé út úr ríkissjóði með sem minnstri fyrirhöfn. Skynsemin hefur fyrir löngu sagt þeim að vænlegast til árangurs sé að þekkja stjórnmálamenn. Þess vegna höfum við lög um einokun á sölu mjólkur, sem samkeppnislög ná ekki til.

Ef matvælaframleiðendur íslenskir væru teknir af ríkisspenanum myndu þeir umsvifalaust beina dugnaði sínum og hyggjuviti að því sem mestu máli skiptir: Að selja vöruna. Þeir myndu fljótt átta sig á því að á Íslandi búa fáir, en í heiminum margir.

Til hvers að beina kröftum sínum að helvítis útlendingunum þegar við höfum það gott heima?

Þrátt fyrir mikið tal um að nú skuli minnka ríkisstyrki er lítið um gjörðir. Og ekki lítur út fyrir að það breytist í bráð.

Örvæntið eigi!

Það er ljós í myrkrinu!

Egozentric designs®©™! London, París, Róm, Mílanó, New York.

Það er hluti af markaðsherferð Egozentric Designs®©™ París, London, Los Angeles, New York, að leggja til góðar hugmyndir í von um ofsagróða. Þótt sér„hagsmunaaðilar tengdir landbúnaði“ skilji það ekki, þá gerir aðalhönnuðurinn sér góða grein fyrir því að heimurinn er að verða eitt markaðssvæði. Það sem hægir á þróuninni en stöðvar hana ekki eru tollamúrar og skriffinnska eins og sú sem stunduð er í Evrópusambandinu og á Íslandi (Tollmeðferðargjaldið t.d.)

Íslenskir sveitalúðar eru ekki heimsborgarar. Hvað eru þeir annað en sveitalúðar sem telja ríkisstyrki vera lausn allra vandamála? Engu breytir þótt þeir séu í jakkafötum og vinni við Melatorg, þeir eru sömu sveitaplebbarnir með skít í skegginu og gras í gúmmískónum. Egozentric designs vill af einskærri eigingirni lyfta sveitalúðunum upp á nýtt plan, heimsborgaraplanið. Velkomnir herramenn. Þið eruð gestir á heimsborgaraplaninu, vinsamlega farið úr fjósagallanum. Hér er markaðsherferð handa ykkur. Hvert á ég að senda reikninginn?

Peru heimsskyr

Peru heimsskyr. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Ísland. Vinur: 1000 ára bóndinn.


Klístruð spakmæli

Á hverjum tíma eru uppi framsýnir snillingar sem láta út úr sér spakmæli sem verða fleyg. Spakmæli sem hjálpa komandi kynslóðum að skilja lífið, skilja tilveruna, skilja sjálfar sig, sjá heiminn nýju ljósi, læra af fortíðinni, verjast vítin og breyta rétt. Egozentric Designs® París, London, Róm, New York, leitar stanslaust leiða til að auka hróður sinn og stöku sinnum er einn og einn framsýnn snillingur notaður sem lyftistöng. Aðalhönnuðinum þótti vel við hæfi að taka þessi klístruðu spakmæli, velta þeim upp úr fiðri og láta þau fljúga.

Fleyg orð óspaks manns

Klístruð spakmæli. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Ísland. Nafn vinar: Steingrímur J. Sigfússon


Bolur til stuðnings vinar í raun

Egozentric Designs® París, London, New York, Mílanó, Reykjavík, er alþjóðleg og virt hönnunarstofa. Aðalhönnuður stofunnar hefur eignast marga vini úti í hinum stóra heimi vegna eigingjarnra starfa fyrir sjálfan sig. Sumir þessara vina hans hafa ekki notið sannmælis og eru jafnvel réttilega úthrópaðir þorparar í mörgum löndum. Þess vegna hefur aðalhönnuðurinn, upp á sitt einsdæmi, en þó ekki ókeypis, tekið að sér að bæta ímynd þeirra. PR er slík hönnun kölluð en hönnuðurinn sver af sér spunameistarastimpilinn, því hann er spunasnillingur, ekki meistari. Stimpillinn má vera þarna hans vegna. Þegar harðnar á dalnum kemur í ljós hverjir eru raunverulegir vinir manns. Aðalhönnuðurinn er slíkur maður. Vinur í veðri góðu. Vinur sem kýs vin af fúsum og frjálsum vilja í fúsum, frjálsum og svindl-lausum kosningum, hvort sem það er með höfði, herðum, hnjám eða tám.

Vote for Castro

Vote for Castro brothers. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Kúba.

Aðalhönnuðurinn er ekki eini vinur aðalritarans og því gefst sönnum vinum kostur á að kaupa boli til stuðnings vini í raun. Bolirnir fást í öllum stærðum og kostar stykkið aðeins 4000 krónur heimsendur með sönnum ríkisfyrirtækivini í raun: Póstinum. Með áritun aðalhönnuðarins kosta bolirnir 8000 krónur. Eina sem þarf að gera er að skilja eftir í athugasemdum nafn á vini, nafn á kaupanda, heimilisfang kaupanda og stærð bolar. Bolirnir eru allir úr fyrsta flokks handtýndri bómull af þrælaökrunum í Súdan.

Vote for Hu Jintao

Vote for Hu Jintao. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Kína.

Vote for Chaves

Vote for Chaves. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Venezuela.

Vote for Abdullah

Vote for Abdullah. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Sádi Arabía.

Vinsamlega athugið að skoðanir og hegðun aðalhönnuðarins eru á engan hátt á ábyrgð eiganda þessa bloggs. Hann er aðeins nytsamur, saklaus vitleysingur sem lánaði síðu sína undir þessa blygðunarlausu sölumennsku.

Vote for Kim Jong-il

Vote for Kim Jong-il. Verð 4000 kr. Stærðir: 1-100. Land vinar: Norður Kórea.

Vinir í raun styrkja vini í raun. 0,5% af kostnaði við að senda hvern seldan bol verður lagt inn á leynireikning viðkomandi vinar í Sviss í baráttunni fyrir betri og öruggari heimi.


Kjósið Mugabe

Kjósið Mugabe baráttubolur frá stuðningsmönnum hans á því máli sem þeir skilja best. Á baki bolsins stendur: Better future for Simbabve. Ekki veitir af að sýna karlinum stuðning nú þegar sótt er að honum úr öllum áttum.

 

Vote for Mugabe

 


mbl.is Kosningar lýstar ómarktækar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Er krónan líkið í lestinni?

Margir vilja meina að íslenska krónan sé efnahag landsins til trafala, aðrir segja að innlendur gjaldmiðill endurspegli best efnahagsástand landsins. Ef á Íslandi væru til dæmis notaðar evrur væru engin tengsl milli gengis evrunnar og ástands efnahagsmála. Það gæti leitt til atvinnuleysis eða annarrar óáran. Krónan á hinn bóginn fælir erlend fyrirtæki frá landinu og gerir þeim sem fyrir eru erfiðara fyrir, einkum þeim sem stunda viðskipti í erlendum gjaldmiðlum. Krónan er einnig ástæðan fyrir háum vöxtum, með evru byðust án efa hagstæðari lán og áhættuminni.

Um þessi mál verður haldin ráðstefna á vegum RSE í næstu viku. 

Gjaldmiðlar og alþjóðavæðing


Ofbeldi og trú

Gerið ykkur klárar stelpur, ég er að koma.Það er nánast regla frekar en undantekning að ofbeldisverk sem getið er um í fréttum dag frá degi eru trúarlegs eðlis. Segja má á hinn bóginn að ofbeldi sem framið er í nafni trúar sé misnotkun á henni. Ég er sammála því, en ég tel talsverð sannindi fólgin í orðum Steven Weinberg um að til þess að gott fólk geri illt, þurfi trú til. Margur saklaus en graður drengurinn hefur eflaust látið ginna sig til voðaverks með sprengju um mittið í þeirri trú að hans bíði ástarleikur með hreinum meyjum í „himnaríki“. Voðaverk hafa oft verið framin í nafni kristinnar trúar líka, til dæmis á Norður Írlandi. Vesturlandabúar geta ekki horft framhjá því að ofbeldi í stíl öfgafullra múslima er einnig að finna meðal kristinna, þótt í minna mæli sé. Misnotkun á trúnni er ein skýring. En líta má öðruvísi á málið og spyrja sig: Er trú og ofbeldi tvær hliðar á sama peningi? Ég hygg að svo sé. 

Áttu plástur?Í heimildarmynd sem heitir The God Who Wasn't There eftir Brian Fleming kemur fram að í lang-vinsælustu trúarkvikmynd allra tíma, The Passion Of The Christ eru blóðsúthellingar, ofbeldi og þjáningar í 104 mínútur af heildarlengdinni sem er um 120 mínútur. Leikstjórinn, Mel Gibson, lagði sig sérstaklega fram um að hafa myndina sem ógeðslegasta, sprautar t.d. blóði með sprautu inn í rammann þegar verið er að negla Jesú á krossinn, eins og það gusist upp sletta þegar gaurinn fer í gegnum lófann. Þessi grófi ofbeldispakki féll trúuðum ákaflega vel í geð. Þeir flykktust á myndina og sögðu halelúja. Ég man eftir forsvarsmönnum tveggja trúfélaga mæra hana í sjónvarpinu (þ. á m. opinberu). Ég man hins vegar ekki eftir neinum forsvarsmanni trúfélags mæra í sjónvarpinu aðra kvikmynd með 52 mínútur af ofbeldi, blóði og þjáningu af hverjum 60. Að vísu horfi ég ekki mikið á sjónvarp og ef því trúlega misst af lofi klerka um Hostel (sem Eyþór Guðjónsson lék svo eftirminnilega í).

Það er víst óhætt að fullyrða í framhaldi af þessu að í kjarna kristinnar trúar er ofbeldi fyrirferðarmikið; er snar þáttur í trúnni. Krossinn sem margir bera um hálsinn er tákn ofbeldis; er aftöku- og pyntingatæki, ekki ósvipað gálga eða rafmagnsstól. Þótt sumir vilji meina að krossinn sé tákn upprisu og vonar, fer ekki á milli mála hvaða hlutverki hann gegndi. Pína Krists er heldur engin undantekning Biblíunni. Hún er í raun blóði drifin. Ef til vill er trúin aðeins birtingarmynd á ofbeldisfullu eðli mannskepnunnar og aðeins tál að halda að án trúar væri heimurinn betri.  

Væri ráð að hvetja til reykleysis á sígarettupökkum?Að mínum dómi ætti ríkið að hverfa frá trúboði og hvetja jafnvel til trúleysis. Ríkið hvetur og skikkar til reykleysis, hví skyldi það ekki hvetja og skikka til trúleysis? Reykingar drepa, það er ljóst. Trú drepur, það er líka ljóst. Yfirvöld í ríkjum þar sem sjálfsmorðsárásir viðgangast ættu að taka þetta til alvarlegrar skoðunar. Yfirvöld í vestrænum ríkjum ættu einnig að taka þetta til skoðunar. Forvarnir skipta miklu máli, um það eru allir sammála. Að vísu er hæpið að yfirvöld sumra ríkja taki upp á því að boða trúleysi, þar sem þau hin sömu sjálfskipuðu yfirvöld stjórna að eigin mati landinu í umboði guðs.

Sem eftirmála við þessa færslu langar mig að bæta við að uppgangur öfga sem tengjast trú, svo sem „vitsmunahönnun“, er mikill um þessar mundir (sjá grein í nýjasta Economist, 21. apr.). Trúaðir hafa fært sig upp á skaftið og eru í auknum mæli farnir að þröngva heimsmynd sinni yfir á aðra, einkum börnin, með góðu eða illu. Núlltrúaðir, trúlausir, trúlitlir og trúengir þurfa að mínum dómi að bregðast við. Guð skapaði ekki heiminn frekar en tunglið er úr osti. Þetta ætti að vera hafið yfir deilur, en er það ekki. Það sýnir vandann í hnotskurn.


Glöggt er gests augað

Þeir fáu sem trúa tali Samfylkingarinnar og Vinstri grænna um að á Íslandi hafi ójöfnuður og fátækt aukist, skattar hækkað, aldraðir á gaddinum, börn á biðlistum og svo framvegis, ættu að lesa þessa grein. Í henni er farið yfir efnahagsumbyltinguna á Íslandi og spurt hvað megi læra af henni. Í sambandi við tilvitnun í greinina hér fyrir neðan er rétt að geta þess að núverandi formaður Samfylkingarinnar greiddi ekki atkvæði með EES-samningnum 1993. 

„Það var EES-samningurinn 1993 í bland við einstaka frelsisáætlun sem gerbylti efnahagnum. Ríkisfyrirtæki voru seld, bankar einkavæddir, tekjuskattar og vextir lækkaðir. Í lok tíunda áratugarins hafði Ísland lokið yfirfærslunni úr miðstýrðu efnahagskerfi í fyrirmyndar opið og frjálst hagkerfi.“ [Þýðing Sig. Orri]

Hér er talað um að ein af helstu ástæðunum fyrir góðum árangri sé sala ríkisfyrirtækja. Í því sambandi er rétt að rifja upp þessi orð Steingríms J. Sigfússonar frá 1998:

„Það er alveg morgunljóst að aðstæður á Íslandi eru þannig að allt þetta samkeppnishjal t.d. í símaþjónustu er meira og minna bull.“ 

Það er alveg morgunljóst að ef Steingrímur og Ingibjörg hefðu haft eitthvað um efnahagsmál Íslands að gera á tíunda áratugnum, væri ekki fjallað um Ísland með aðdáun í erlendum fjölmiðlum í dag.


Undir þetta skrifa ég strax!

Fann þessa snilld á síðunni hans Snorra Bergs, skáksénís og fyrrverandi fanga Bandaríkjanna (okkar Bobby Fischer). 

"Þjóðarsáttmáli Fortíðarlandsins:

-Við heitum því að nýta okkur aldrei nokkurn snefil af tækninýjungum eða hátækni
-Við heitum því að leggja niður allar virkjanir og hætta umsvifalaust allri orkunotkun á Íslandi
-Við heitum því að stunda einvörðungu sjálfsþurftarbúskap og snerta ekki auðlindir landsins
-Við heitum því að gera Ísland aftur að fátækustu og vanþróuðustu þjóð Evrópu líkt og við vorum fyrir 100 árum!

Látum nú hendur standa fram úr ermum góðir íslendingar og skrifum undir þjóðarsáttmála Fortíðarlandsins. Við megum ekki láta glepjast af gylliboðum hátæknialdarinnar og þeytast áfram upp lista Sameinuðu þjóðanna yfir lífskjör og gæði, látum staðar numið og snúum aftur á slóðir forfeðranna, aftur til fornalda!

Sjálfsþurftarbúskapur eða dauði!
-Fortíðarlandið"


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 114141

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband