Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
14.3.2007 | 08:26
Fjarar undan Al Gore
Heimsendaspá stjórnmálamannsins Al Gore rann eins og kakó með rjóma ofan í margan sakleysingjann. En vísindamenn voru ekki eins ginnkeyptir og spurðu á móti ýmissa óþægilegra spurninga um óþægilegan stórasannleik Al Gore. Ég óttast mest að það verði hlegið að mynd hans eftir örfá ár. Við því má Al Gore ekki.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.3.2007 | 10:44
Fegurð mannlífsins
Ef ég hugsa um orðið forræðishyggja dettur mér fyrst í hug stjórnmálaflokkar vinstramegin við miðjuna. Það eru jú þeir sem telja sig vita betur hvað mér og þér er fyrir bestu. Hvort sem þeir viðurkenna það eða ekki, blasir það við af gjörðum þeirra og skoðunum. Þeim finnst að ríkið eigi að sjá um flest - ef ekki allt - og þeir og vinir þeirra eigi svo að stjórna ríkinu. Þeir voru til dæmis á móti því að við gætum keypt bjór á Íslandi (og eru trúlega enn), þeir voru líka á móti því að fleiri en ein sjónvarpsrás væri á Íslandi. Þeir vildu ekki að ríkið seldi bankana, símann, skipafélagið, prentsmiðjuna, bifreiðaskoðunina og lyfjaverksmiðjuna. Og þeir eru auðvitað á móti klámi. Ef þeir réðu á Íslandi væri klám bannað með öllu og sérstök lögregla sæi um að enginn færi á klámsíður á netinu. Þessi frétt birtist á Vísi 25. febrúar:
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vill setja á fót netlöggu, til þess að hindra aðgang að klámi og annarri óáran, á netinu. Steingrímur lét þessi orð falli í Silfri Egils á Stöð 2 í dag. Það var verið að ræða um klámráðstefnuna sem ekki fékk inni á Íslandi, og Egill spurði Steingrím hvort hann vildi þá ekki ganga lengra og skera upp herör gegn öllu klámi. Steingrímur kvað já við. Hann sagðist vilja stofna netlögreglu sem meðal annars og einkum ætti að koma í veg fyrir klámdreifingu á netinu. Steingrímur kvaðst einnig vera á móti nektar og súlustöðum, og ef hann fengi að ráða myndi hann reyna að koma þeim úr landi.
Í viðtali í Blaðinu um daginn bölsóttaðist Davíð Þór Jónsson, fyrrverandi Bleikt og blátt ritstjóri, út í þá sem voru á móti því að klámframleiðendur kæmu til landsins og kallaði það forpokun og forræðishyggju. Blaðamaður (Kolbrún Bergþórsdóttir) benti honum á að hans flokkur, Vinstri grænir, hafi talað nokkuð einum rómi í þessu máli og spurði hvort hann styddi ekki þann flokk. Davíð sagði svo vera, en það væru umhverfis- og utanríkismálin sem réðu atkvæði hans.
Kæmust Vinstri grænir til valda, væri netlögregla næsta vís og það veit Davið. En það gerir ekkert til, hann kaus þá vegna umhverfis- og utanríkismálanna.
Í þessum skringilegu mótsögnum birtist Fegurð mannlífsins. Fegurð vegna þess að það er ekki hægt að segja neittt annað. Lífið er mótsagnakennt og því meira æpandi sem mótsagnirnar eru, því fegurra.
Fleiri standa frammi fyrir svipaðri mótsögn, þó ekki sé hún eins svæsin og hjá Davíð Þór. Það voru nefnilega vel flestir stjórnmálaleiðtogar þessa lands sem misstu fótanna á klámsvellinu. Sumum er kannski vorkunn, það er stutt í kosningar og pólitískt hugrekki með minnsta móti. Álit mitt á sumum stjórnmálamönnum hefur minnkað talsvert. Var þó ekki úr háum söðli að detta. Það vantar menn með pólitískt hugrekki, menn sem þora að standa við skoðanir sínar og hugsjónir, ef þeir hafa þá einhverjar.
Heilt yfir er ég sár vegna þessa máls, sár vegna þess að frjálslyndi, frelsi og mannréttindi, lutu í lægra haldi fyrir forpokun og forræðishyggju.
Ætli ég verði ekki líka að láta utanríkis- og umhverfismálin ráða mínu atkvæði í vor.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 11:47
Tilgangur Heimsverndar staðfestur
Eins og sumir lesendur þessa vefkima vita, er ég stjórnarmaður í Heimsvernd ásamt Gogga og nýliðanum Snorra Bergs. Eitt af markmiðum Heimsverndar er að vernda heiminn fyrir umhverfisverndarsinnum. Hafi einhver haldið að það markmið væri grín, skal sá hinn sami hætta að hlæja og það strax.
Ef heimurinn þarfnast einhvers er það vernd gagnvart þeim sem valið hafa náttúruverndarmálstaðinn í valdabrölti sínu.
Stjórnmálaflokkur sem setur umhverfisvernd í eigin nafn er sérstaklega varasamur. Það kom vel í ljós á landsfundi flokksins og sagt var frá í Vefþjóðviljanum á mánudag.
Einum fulltrúanum fannst grunsamlegt hversu margir bílar voru á bílastæðinu við fundarstaðinn (einkabíllinn er "vondur"). Yfirheyrði hann flokkssystkini sín um málið og voru niðurstöðurnar þessar:
Enginn kom fótgangandi á þingið.
Enginn kom með strætó á þingið.
Einn kom hjólandi á þingið.
Allir hinir komu akandi á eigin bíl á þingið.
Niðurstaðan er, eins og sjá má, dapurleg. Aðeins einn fulltrúi er sannur í trú sinni. Hinir eru einlægir stuðningsmenn einkabílsins þótt þeir viðurkenni það ekki opinberlega og myndu, ef þeir kæmust til valda, reyna að hamla för minni og þinni sem mest um vegi borgarinnar, í nafni umhverfisverndar.
Skilaboð Heimsverndar til þeirra eru: Ef þú ætlar að bæta heiminn, byrjaðu þá á sjálfum þér.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.2.2007 | 13:48
Ljótu börnin hennar Evu
Í draumaheimsmynd margra á Íslandi er ekkert klám, þótt það þrífist hér sem annarsstaðar. Þegar raunveruleikinn úr "sóðalegum útlöndunum" knýr dyra hrökkva þeir í kút. Þessir sömu aðilar telja sig án efa fyrirmynd í umburðarlyndi og nota eflaust hvert tækifæri til að hneykslast á heimskulegu útlendingahatri Frjálslynda flokksins og aðgerðunum gegn Falun Gong á sínum tíma. En þegar fólk, sem starfar við atvinnugrein sem þeim er ekki þóknanleg, hyggst heimsækja landið er umburðarlyndið fokið út í veður og vind.
Svona hugsunarháttur er ekki bara heimóttarlegur, heldur líka birtingarmynd stjórnlyndis. Sumir telja sig þess umkomna að segja t.d. lögráða hollenskri konu að atvinnugrein hennar, sem hún kaus af fúsum og frjálsum vilja og hefur góðar tekjur af, sé ekki góð fyrir hana. Eru jafnvel tilbúnir að beita ljótustu aðferðum fasistaríkja til að hindra hana í að heimsækja landið!
Banna á klám vegna þess að barnaklám viðgengst, banna á klám vegna þess að mansal viðgengst og banna á klám vegna þess að það er niðurlægjandi. Með sömu rökum á að banna byssueign vegna þess að fólk er skotið með byssum og banna trúarbrögð vegna þess að fólk er niðurlægt í nafni trúar.
Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að í lýðræðisríkjum er fólk frjálst gerða sinna. Ef einhver kýs að vinna við kynmök fyrir framan myndavélar er það hans mál. Hann hefur engan rétt til þess að argafjasast út í þá sem kosið hafa t.d. stjórnmálin sem starfsvettvang. Það er þeirra frjálsa val, þótt undarlegt sé.
Lög sem banna framleiðslu og dreifingu á klámi á Íslandi eru ólög sem hefta stjórnarskrárvarin mannréttindi okkar. Klámmyndaframleiðendurnir sem ætla að heiðra okkur með návist sinni ættu að taka nektarmyndir af sjálfum sér fyrir framan Alþingishúsið í mótmæla- og háðungarskyni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.