Leita í fréttum mbl.is

Sjónarmið Sigurðar Einarssonar

Sigurður Einarsson skrifaði bréf til vina og vandamanna sem rataði í fjölmiðla. Áhugavert bréf sem mig langar að vitna í hér. Ég gef ekkert fyrir dylgjur um bankana og minni á að það er pólitískur hráskinnaleikur á lægsta plani. Látum dómstóla dæma um ætluð lögbrot og bíðum með að draga ályktanir. Millifyrirsagnir eru mínar.

Krónan okkar kæra

„Ástæður þess að Ísland er í verri stöðu en nágrannaþjóðir landsins eru nokkrar. Fyrst og fremst ber að nefna slensku krónuna. Undirritaður hefur ásamt mörgum öðrum í fjölda ára bent á að það gangi vitfirringu næst fyrir litla, fámenna þjóð í opnu hagkerfi að vera með eigin gjaldmiðil. Því miður hefur sá ótti reynst á rökum reistur. Sömuleiðis hef ég ásamt mörgum öðrum í mörg ár klifað á því að úr því að landið hefði eigin gjaldmiðil þá gengi það alls ekki að búa við svo mikinn halla á viðskiptum við útlönd eins og Ísland hefur búið við undanfarin ár. Til að vinna á þeim halla yrði gengi krónunnar að aðlagast einhverskonar jafnvægisgengi til þess að viðskipti við útlönd nálguðust jafnvægi. Seðlabanki og stjórnvöld skelltu algjörum skollaeyrum við þessum orðum og því varð aðlögun krónunnar með þeim skelfilega hætti sem orðið hefur.“

Fjármálamiðstöðin Ísland

„Ég hef einnig lengi verið í hópi þeirra sem ákaft hafa talað fyrir því að gjaldeyrisvarasjóður landsins yrði margfaldaður, því var í engu sinnt og seðlabanki landsins hélt því áfram að vera algerlega vanmáttugur til þess að fást við það verkefni sitt að vera banki bankanna, þrátt fyrir að marg yfirlýst stefna stjórnvalda væri á þessum tíma að hér risi fjármálamiðstöð. Þetta er einnig sárgrætilegt í ljósi þess að Seðlabanki Íslands gerði allt sem í hans valdi stóð til að koma í veg fyrir að bankarnir verðu sig gegn eða færðu sig af áhrifasvæði íslensku krónunnar. Seðlabankinn þvingaði því íslenska banka til að þiggja af sér þjónustu sem hann sinnti í engu að veita.“

Þjóðnýting Glitnis

„Ég nefni þessi atriði hér að framan vegna þess að hér er um lykilatriði að ræða þegar núverandi efnahagsaðstæður þjóðarinnar eru skoðaðar. Þetta eru megin ástæðurnar fyrir því að íslenska þjóðin er að fara mun verr út úr heimskreppunni en aðrar þjóðir. Þessu til viðbótar er það hrein raunarsaga hvernig haldið var á málum á Íslandi í lok september og byrjun október þegar í ljós kom að Glitnir hafði leitað aðstoðar Seðlabankans. Sú aðferð sem þar átti að nota við þjóðnýtingu Glitnis verður í sögubækur skráð sem mikið axarskaft. Eftir á að hyggja er erfitt að segja hvort hægt hefði verið að bjarga Glitni eða ekki, ég hef ekki nægar upplýsingar til að meta það, en að ríkið tæki yfir bankann gat aldrei verið trúverðugt. Það má líka furðu sæta að ríkið treysti sér fremur til að kaupa hlutafé í bankanum fremur en að veita honum lán gegn veðum. Lán er alltaf tryggari krafa en hlutafé.“

Verstu mistökin

„Hin svokölluðu „Neyðarlög“ sem sett voru í kjölfarið eru þó sennilega verstu mistökin. Eftir setningu neyðarlaganna var hæpið að fjármálakerfið gæti staðist. Nú höfum við séð að undanförnu að fjármálakerfi annarra landa eru í miklum vanda stödd. Margir hafa því spurt mig hvort að íslenska bankakerfið hafi átt einhverja möguleika í þessum ólgusjó. Að mínu mati er þessi spurning ekki réttmæt. Valkostirnir voru ekki óbreytt kerfi eða algjört hrun eins og við horfum upp á nú.“

Ekkert traust milli seðlabankastjóra og bankanna

„Það sem vantaði fyrst og fremst þegar Glitnir lenti í vandræðum var forysta. Í flestum löndum er þessa forystu að finna í seðlabönkum viðkomandi landa. Þegar miklir erfiðleikar eru uppi kallar hver seðlabanki alla helstu banka að samningaborði og staðan er rædd í hreinskilni. Síðan er tekin ákvörðun um það hvað af kerfinu megi bjarga og þá hvernig. Sú aðgerðaáætlun er síðan lögð fram fyrir helstu lánadrottna bankanna. Því miður taldi Seðlabanki Íslands sig ekki þurfa að leita fyrirmynda út fyrir landssteinanna og óskiljanleg er sú ákvörðun að halda forsvarsmönnum bankanna algerlega fyrir utan þetta ferli. Sennilega spilaði þar inn í að það ríkti aldrei neitt traust eða trúnaður á milli forsvarsmanna bankanna og seðlabankastjóra. Raunar ráðfærði seðlabankinn sig ekki einu sinni við sína eigin hagfræðinga né heldur við erlendu sérfræðingana sem bankinn hafði þó á sínum snærum.“

Rangt stöðumat

„Ljóst er nú að hæstráðendur Seðlabankans áttuðu sig engan veginn á stöðunni. Tal seðlabankastjóra í fjölmiðlum um að ríkissjóður yrði því sem næst skuldlaus eftir fall bankana er hrópandi dæmi um vanþekkingu og kolrangt stöðumat. Af þessu eru Íslendingar að súpa seyðið og ekki séð fyrir endann á afleiðingum þessara ólaga sem neyðarlögin eru og sennilega brýnasta verkefni stjórnvalda nú að vinda ofan af þessari lagasetningu. Þetta ásamt því að stjórnvöld vanræktu skyldu sína til að losa þjóðina undan skuldbindingum vegna Icesave á meðan færi var á eru megin ástæður þess að óttast má að Íslendingum muni reynast torveldara að ná sér á strik eftir kreppuna en öðrum þjóðum, þrátt fyrir að því ætti að vera öfugt farið.“

Markviss leki úr skýrslum

„Ljóst er að ljótur leikur er í gangi. Þessi leikur gengur út á að upplýsingum úr skýrslum ýmissa skoðunarnefnda sem vinna að rannsókn á falli íslenska fjármálakerfisins er markvisst lekið úr stjórnkerfinu til valinna fjölmiðla. Einhverra hluta vegna hefur þessi lekastarfsemi undanfarið nær eingöngu snúið að Kaupþingi. Um leið og reynt er að gera allt tortryggilegt varðandi Kaupþing hafa helstu ráðamenn þjóðarinnar, allt þar til Björgvin G. Sigurðsson sagði af sér í morgun, fríað sig ábyrgð á þeim hlutum sem ég hef í stuttu máli rakið hér að framan og eru auðvitað aðalatriði málsins. Þar til í dag, voru stjórnendur bankanna einu aðilarnir mér vitanlega sem axlað höfðu ábyrgð vegna ástandsins sem nú er i þjóðfélaginu. Meira að segja var nálega allri framkvæmdastjórn Kaupþings skóflað út úr nýja bankanum.“

Þessi skrif Sigurðar Einarssonar þykja mér, eins og áður sagði, vera afar áhugaverð. Ég hef lengi vitað að innan Kaupþings voru aðdáendur Davíðs Oddssonar færri en gengur og gerist, hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir því. Sjálfur hef ég lengi verið stuðningsmaður Davíðs og tel hann einstakan stjórnanda. En mér þykja nokkur veikleikamerki á stjórnunarstíl hans hafa komið í dagsljósið á undanförnum misserum. Ber þar kannski hæst einangrunarstefna hans. Ég tel afar alvarlegt ef samskipti milli Seðlabankans og viðskiptabankanna hafi verið lítil sem engin undanfarin ár. Árangurinn sem Kaupþing náði á alþjóðavettvangi var einstakur, það er óumdeilt. Það að ráðfæra sig ekki við stjórnendur bankans (sem og hinna bankanna) á jafn viðsjárverðum tímum og voru uppi þegar kreppan skall á, er mikið glappaskot. Hreinskilin og góð samskipti er forsendan fyrir góðum árangri. Það blasir líka við núna að árangurinn varð enginn, heldur 100% fall. Ég er ekki fær um að dæma um hvort stefna Seðlabankans hafi verið rétt eða röng, þótt ég hallist að því að hún hafi verið röng. En Davíð kom ekki til bankans fyrr en 2005 svo það er nú tæplega hægt að skrifa ranga stefnu á hann einan.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

En af hverju vildi hann láta stækka gjaldeyrisvarasjóðinn,jú þeir vildu verða en þá stærri ,þá hefði orðið algjört þjóðargjaldþrot .sennilega hefði verið best að þeir hefðu drullað sér strax til Englands 2005 og hinir bankarnir líka, reynt að standa á eigin fótum þá hefði væntanlega ríkisábyrgðin dottið upp fyrir og við ekki í alveg eins slæmum málum..

Res (IP-tala skráð) 29.1.2009 kl. 17:07

2 Smámynd: Ingvar Valgeirsson

Skrýtið hvernig svona "trúnaðarbréf" eiga það til að rata í fjölmiðla. Ætli maður verði ekki að hafa þann möguleika inni í myndinni að bréfið sé að hluta eða heild ætlað sem varnarræða manns sem hefur eitthvað á samviskunni...

Ingvar Valgeirsson, 29.1.2009 kl. 20:53

3 Smámynd: Eygló

"...til vina og vandamanna..." ??? ??? ??? 

Eygló, 30.1.2009 kl. 00:48

4 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Res, eins og Sigurður segir, þvingaði Seðlabankinn bankana til að vera í viðskiptum við sig. Þegar Kaupþing vildi skrá hlutabréfin í evrum var því mætt af hörku, og sagði Sigurður að Davíð hefði hótað því að koma bankanum á kné ef þeir gerðu það. Þeir hættu við að fara með málið lengra, eins og kunnugt er.

Ingvar, hefurðu hingað til furðað þig á að „trúnaðarupplýsingar“ hafi lekið úr bönkunum? Myndir þú ekki svara fyrir þig ef fullyrt væri að þú borðaðir börn í morgunmat? Kannski á Sigurður betri vini en hann hélt, því þetta bréf átti sannarlega erindi í fjölmiðla.

Eygló, er ekkert efnislega í bréfinu sem þú hefur athugsemd við?

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 30.1.2009 kl. 03:41

5 identicon

Vantar Hjá þér Netfangið Las handritið og það er Bara fjandi gott

Jónas Freyr Harðarson (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 15:42

6 Smámynd: Eygló

Eygló hefur hvorki getu né forsendur til að taka afstöðu til alls þessa máls.

Það sem mér fannst skrýtið var að bréf til vina og vandamanna "lækju" alltaf/svo oft til fjölmiðla...

Eitt þykist ég viss um að bæði SEin og DOdd séu greindir og klárir karlar, - með misalvarlegar gloppur.

Það höfum við reyndar öll á e-m sviðum, en við búum ekki við þau völd að hafa fjöregg þjóðarinnar í höndum okkar.

Eygló, 30.1.2009 kl. 22:49

7 Smámynd: Sindri Guðjónsson

Sæll. Takk fyrir að birta þetta bréf. Þetta var fróðlegt.

Sindri Guðjónsson, 2.2.2009 kl. 20:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 114003

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband