26.5.2021 | 20:38
Kurlin að koma til grafar?
í þessari áhugaverðu grein fer Nicholas Wade yfir kenningar um það hvort veiran SARS2 (öðru nafni kóvid) sem lagt hefur 3 milljónir manna í valinn hafi orðið til á tilraunastofu eða á náttúrlegan hátt.
Hér er tilvitnun í greinina:
The US government shares a strange common interest with the Chinese authorities: neither is keen on drawing attention to the fact that Dr. Shis coronavirus work was funded by the US National Institutes of Health. One can imagine the behind-the-scenes conversation in which the Chinese government says If this research was so dangerous, why did you fund it, and on our territory too? To which the US side might reply, Looks like it was you who let it escape. But do we really need to have this discussion in public?
Ég hvet alla sem hafa áhuga á að vita sannleikann um uppruna veirunnar til að lesa þessa grein. Þótt ekki séu haldbær gögn til enn sem komið er um hvaðan SARS2 er upprunnin, hvorki úr náttúrunni (dýrið sem á að hafa borið hana í menn hefur enn ekki fundist) né af tilraunastofu (KFK lokaði gagnagrunni veirurannsóknarstöðvarinnar í Wuhan), leiðir Nicholas sterkar líkur að fæðingarstað hennar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2021 | 00:54
Góða konu fyrir Emil
Dag einn haustið 1997 vorum við Emil einu sinni sem oftar eitthvað að gera, man ekki hvað það var, mögulega að hlusta á Kruder og Dorfmeister (eitt af eftirlætisböndum hans) og slaka á. Emil bjó á þessum tíma niðri í bæ eins og ég. Stutt var á milli heimila okkar og mikill samgangur eins og sagt er. Emil bar sig illa, sagðist vera hálf-niðurdreginn. Lífið hefði ekki leikið við hann síðkastið. Ekkert stórkostlega dramatískt samt, bara svona hefðbundinn bömmer. Ég veit hvað mun gera þig glaðan, sagði ég við hann eftir fáeinar spurningar og stutta umhugsun. Nú, hvað er það? sagði Emil. Þú þarft að kynnast góðri konu, sagði ég. Fyrst þú segir það, sagði Emil og brosti í gegnum bömmerinn. Þetta var á föstudagseftirmiðdegi. Við ákváðum að skreppa út á lífið með það að markmiði að finna góða konu handa Emil svo hann gæti tekið gleði sína á ný.
Tiltölulega snemma kvölds, um tíuleytið, settumst við undir árar á galeiðunni. Fyrsti áfangastaðurinn var tveggja hæða skemmtistaður í Austurstræti sem hét Astró. Þegar inn var komið blasti við okkur frekar dapurleg sýn. Staðurinn var galtómur. Að minnsta kosti fyrsta hæðin. Við ákváðum að fara upp á aðra hæð til að vera alveg vissir um að við værum einu gestirnir þarna. Þegar upp var komið tókum við eftir að það voru tveir viðskiptavinir auk okkar á staðnum. Tvær stúlkur sem stóðu upp við vegg. Önnur ljóshærð, hin dökkhærð. Báðar bráðmyndarlegar. Þar sem ég var með markmið okkar alveg á hreinu vatt ég mér að þeim og spurði í léttu gríni hvort þær væru á lausu. Sú ljóshærða var fyrri til svars: Nei, sagði hún. En sú dökkhærða svaraði spurningu minni játandi. Ég þakkaði þeim kærlega fyrir og fór til Emils sem stóð álengdar og tilkynnti honum glaður að sú dökkhærða væri á lausu. Hvernig líst þér á hana? spurði ég. Bara vel, sagði Emil. Flott, sagði ég, við skulum heilsa betur upp á þær. Við kynntum okkur fyrir þeim og þær fyrir okkur. Sú dökkhærða sagðist heita Bjartey og sú ljóshærða sagðist heita Heiðrún. Þær höfðu fyrr um kvöldið farið í vísindaferð á vegum Verkfræðideildar Háskóla Íslands þar sem þær stunduðu nám.
Við ákváðum að fara af tóma Astró og á annan stað sem við vonuðum að væri þéttara setinn. Ég man ekki hvað sá staður hét en hann var við Ingólfsstræti. Hann reyndist vera þéttara setinn. Þangað komin áttum við kurteislegt spjall. Fljótlega kom í ljós að svör Heiðrúnar og Bjarteyjar við spurningu minni hvort þær væru á lausu höfðu ekki verið alveg sannleikanum samkvæm. Heiðrún sem hafði svarað spurningunni neitandi reyndist vera á lausu en Bjartey sem svaraði spurningunni játandi var á föstu. Aðspurð sagði Heiðrún (mér síðar) að henni hafi ekkert litist á þennan galgopalega, síðhærða ungling sem sagðist vera að vestan (mig) og ákveðið að gefa engan kost á sér. Þetta var náttúrlega heldur súrt fyrir Emil sem þurfti að horfa á eftir Bjartey fara heim til unnustans eftir skemmtilega kvöldstund. Ég man að ég var mjög impóneraður þegar ég komst að því að Heiðrún vissi hvað undirsinkuð skrúfa var. Hún er greinilega ekki eins vitlaus og hún lítur út fyrir að vera, hugsaði ég. Við Heiðrún höfum verið saman síðan þetta kvöld. Við fögnum 20 ára brúðkaupsafmæli 2. júní nk.
Emil var annars vel liðinn af fríðara kyninu enda bráðmyndarlegur og heillandi náungi. Hann var öðru hvoru í sambandi man ég. Þau fóru þó aldrei á alvarlegt stig (sambúð osfrv.). Það var eins og Emil væri í ævilöngu mótþróakasti gegn einhverju sem ég gat aldrei fest fingur á. Tölvupóstfangið hans var emilaint og síðar leoaint, Emil er ekki mætti túlka það. Hann lét hverjum degi nægja sína þjáningu.
Mikill missir að Emil mínum. Sakna hans. Ég vildi óska að hann hefði kosið annan lífstíl en þann sem hann lifði. Ég hafði svo sem lengi talið að Emil myndi tæplega kemba hærurnar. Þrátt fyrir það var það mikið áfall að missa hann aðeins 54 ára að aldri. Hann var stór hluti af mínu lífi.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2021 | 18:57
Emil Ólafsson
Loftur Emil Ólafsson æskuvinur minn (f. 31. maí 1967 d. 18. apríl 2021). Þessi mynd var tekin 4. nóvember 2002 er við Heiðrún vorum að gera upp íbúðina okkar í Garðastræti. Við vorum að vísu að mestu búin að gera hana upp, en ég man að það voru nokkur handtök eftir sem kláruðust þetta ár. Emil var húsamálari, vandvirkur og snjall. Hann fór ekki hratt yfir, en skilaði frábæru verki.
Við Emil vorum góðir félagar fram eftir öllum aldri. Samgangurinn minnkaði er á leið ævina. Við vorum þó alltaf í sambandi. Við kynntumst þegar við vorum um 10 til 11 ára gamlir. Mig minnir að þá hafi hann flutt ásamt fjölskyldu sinni á Þinghólsbraut 71 (ef ég man rétt).
Ég man eitt sinn að heimaverkefni í tónfræðitíma í Kársnesskóla var að búa til hljóðfæri. Ég var búinn að gera eitthvert hljóðfæri, strengja girni milli tveggja nagla á planka eða eitthvað þessháttar. Aðrir nemendur gerðu eitthvað svipað. Emil hafði ekki enn lokið við heimaverkefnið. Lítill tími var til stefnu. Svo vildi til að heima hjá honum var þessi fína hrista, alvöru keilulaga hrista sem hefði sómt sér vel í höndunum á Helenu Eyjólfs upp á sviði í Sjallanum á Akureyri. Ég man ekki hvor okkar átti frumkvæðið, en við tókum þessa hristu, vöfðum hana inn í dagblaðapappír og máluðum með þekjulit. Emil fór með þetta heimatilbúna hljóðfæri í tónfræðitímann. Þórunn Björnsdóttir, kennarinn okkar, var ákaflega ánægð og líka undrandi með hljóðfærið hans Emils. Þetta hljómar ótrúlega vel, sagði hún. Hvað er inni í þessu? Jógúrt dós og hrísgrjón, svaraði Emil. Hún hélt áfram að hrista hristuna og furða sig á hljómgæðunum. Emil fékk toppeinkunn fyrir þetta heimaverkefni.
Þessi mynd var tekin í desember 2006 er við lögðum parket (aftur!) í garðastrætinu. Ég sullaði vatni yfir gamla parketið (sem var raunar nýtt) sem gerði það að verkum að við urðum að endurnýja það að hluta. Emil hjálpaði mér með þetta verkefni. Hann málaði hjá okkur margoft í gegnum árin. Í hvert skipti sem það þurfti að mála var Emil mættur. Til stóð að mála síðasta sumar, en pestin gerði það að verkum að ekkert varð úr því.
Ég þarf að grafa upp eldri myndir af okkur. Geri það þegar ég kemst í fjölskyldualbúmin í sumar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.4.2021 | 17:32
STÖNDUM SAMAN!
Mikilvægast hverri þjóð er að standa saman í baráttu gegn framandi ógn. Kórónuveiran sem kínverski kommúnistaflokkurinn dreifði yfir heimsbyggðina 2020 er slík ógn. Þar sem Egozentric Designs París, Mílanó, New York, London (skráð vörumerki) er eitt virtasta hönnunarhús heims og þótt víðar væri leitað (til dæmis á Mars) var það beðið um að leggjast á árarnar með heilbrigða ráðuneytinu í baráttunni gegn vánni. Ekki stóð á hönnuði Egozentric einmitt þegar bolurinn var hannaður. Aðspurður sagði heilbrigði ráðherrann að framleiða ætti milljón boli með skilaboðum til þjóðarinnar um að standa nú saman. Það var og gert. Skömmu síðar kom babb í bátinn. Skilaboðin höfðu breyst. Góð ráð voru dýr. Ekki var til gjaldeyrir til að prenta aðra milljón boli. Brugðið var á það ráð að prenta nýju skilaboðin á sama bolinn en strika yfir þau gömlu. Það var og gert með litlum tilkostnaði í barnafangelsi í Kína. Skömmu síðar kom annað babb í bátinn. Markmiðið hafði breyst. Segja verður að nýjasta markmiðið sé einstaklega hnitmiðað og raunhæft. Það sem eftir var af bolaupplaginu (níu hundruð þúsund) var sent með einkaþotu til fangelsisins í Kína og nýju skilaboðin prentuð á en strikað yfir þau gömlu. Það verður að segjast alveg eins og er að þetta konsept (eins og við hönnuðir köllum það af því við erum svo hipp og kúl) er algjörlega að slá í gegn. Bolirnir rjúka bókstaflega út. Hönnun eins og þessi sem virðir samtímaarfleifð okkar en reynir ekki að þurrka hana út slær á streng meðal þjóðarinnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.4.2021 | 16:43
Veirufrítt Ísland 2021!
Hver kannast ekki við að vera búinn að fá hundleið á Kínaveirunni? En ekki lengur. Nú er komin lausn í málinu, skíma við endann á þessu langa klóakröri sem við höfum öll verið í. Til að fagna þessum merku tímamótum hefur Egozentric, París, London, Mílanó, Reykjavík (skráð vörumerki), sérhannað bol.
Fyrir einungis 35,999 krónur getur þú eignast bolinn Veirufrítt Ísland 2021! En bíddu við, ekki hætta að lesa núna vegna þess að fyrir einungis 99,999 krónur getur þú fengið þennan einstaka snilldarbol með áletrun sóttvarnarlæknis! Já, með áritun mannsins sem teljast verður einhver raunsæjasti maður sem uppi hefur verið á Íslandi. Snillingsins sem sér fyrir sér veirufrítt Ísland strax á þessu ári!
Iss en þetta er ekki neitt, ef þú kaupir tvo boli færðu bolinn Fíkniefnalaust Ísland árið 2000! í kaupbæti. Stórkostlegra verður það varla! Ekki klóra þér of lengi í pungnum yfir þessu kostaboði. Það gildir einungis í skamman tíma.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2021 | 18:35
Í hvaða myrkri deyr lýðræðið?
Það skyldi þó ekki vera að lýðræðið gefi upp öndina í myrkri fáfræðinnar? Eða heimskunnar ef til vill? Nú er erfitt að meta heimsku, en fáfræðina er auðveldara að festa fingur á. Getur verið að þau sem þekkja ekki söguna séu dæmd til að endurtaka hana? Við getum huggað okkur við að Washington Post stendur lýðræðisvaktina fyrir okkur.
Ekki bera Donald Trump saman við Hitler. Það gerir lítið úr Hitler.
27.1.2021 | 19:17
Lýðræðið deyr í myrkrinu
Slagorð Washington Post er Lýðræðið deyr í myrkrinu. Spurningin er bara hvaða myrkri? Er það myrkrið sem falsfréttirnar leggja yfir heiminn? Eða er það pólitísku sjónarmiðin sem skína í gegnum blaðamennskuna og hafa áhrif á kjósendur? Er það ritstjórnin? Hvaða mál ekki er fjallað um og hvaða mál er fjallað um? Eru það kyndilberar réttlætisins sem bera eld að húsum andstæðinga sinna með þeim sama kyndli?
AP fréttastofan stundar aldeilis vandaða blaðamennsku eins og sést af þessari mynd. Enginn halli, hlutleysið uppmálað.
Ný frétt: Obama sendir útgjaldapakka upp á 4 trilljarða dollara til þingsins til hjálpar millistéttinni. (2. febrúar 2015)
Ný frétt: Trump forseti sendir útgjaldapakka upp á 4,4 trilljarða dollara til þingsins sem leiðir af sér mikinn halla á ríkissjóði. (12. febrúar 2018)
Stjórnmál og samfélag | Breytt 28.1.2021 kl. 18:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.1.2021 | 17:17
Blaðamennska 101
Þegar maður vinnur á blaði og vill að fréttirnar sem maður skrifar endurspegli eigin pólitísk sjónarmið er mikilvægt að haga orðavali á þann hátt að gera sem minnst úr andstæðingnum. Washington Post stendur sig ljómandi vel í þessum efnum.
1. Björgunarpakki þingsins: Hjálplegur, en er upphæðin nógu há? (21. desember 2020)
2. Trump fer fram á að þingið samþykki 2000 dala ávísanir til almennings. (22. desember 2020)
3. Ástæðan fyrir því að hækka ávísanirnar úr 600 dölum í 2000 er slæm hugmynd. (29. desember 2020)
Lesendur sem vilja óbrenglaða mynd af stjórnmálaástandinu eiga hauk í horni þar sem Washington Post er.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.4.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 9
- Frá upphafi: 114581
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.