Leita í fréttum mbl.is

Emil Ólafsson

Loftur Emil Ólafsson æskuvinur minn (f. 31. maí 1967 d. 18. apríl 2021). Þessi mynd var tekin 4. nóvember 2002 er við Heiðrún vorum að gera upp íbúðina okkar í Garðastræti. Við vorum að vísu að mestu búin að gera hana upp, en ég man að það voru nokkur handtök eftir sem kláruðust þetta ár. Emil var húsamálari, vandvirkur og snjall. Hann fór ekki hratt yfir, en skilaði frábæru verki.

Emil ÓlafssonVið Emil vorum góðir félagar fram eftir öllum aldri. Samgangurinn minnkaði er á leið ævina. Við vorum þó alltaf í sambandi. Við kynntumst þegar við vorum um 10 til 11 ára gamlir. Mig minnir að þá hafi hann flutt ásamt fjölskyldu sinni á Þinghólsbraut 71 (ef ég man rétt).

Ég man eitt sinn að heimaverkefni í tónfræðitíma í Kársnesskóla var að búa til hljóðfæri. Ég var búinn að gera eitthvert hljóðfæri, strengja girni milli tveggja nagla á planka eða eitthvað þessháttar. Aðrir nemendur gerðu eitthvað svipað. Emil hafði ekki enn lokið við heimaverkefnið. Lítill tími var til stefnu. Svo vildi til að heima hjá honum var þessi fína hrista, alvöru keilulaga hrista sem hefði sómt sér vel í höndunum á Helenu Eyjólfs upp á sviði í Sjallanum á Akureyri. Ég man ekki hvor okkar átti frumkvæðið, en við tókum þessa hristu, vöfðum hana inn í dagblaðapappír og máluðum með þekjulit. Emil fór með þetta „heimatilbúna“ hljóðfæri í tónfræðitímann. Þórunn Björnsdóttir, kennarinn okkar, var ákaflega ánægð og líka undrandi með hljóðfærið hans Emils. „Þetta hljómar ótrúlega vel,“ sagði hún. „Hvað er inni í þessu?“ „Jógúrt dós og hrísgrjón,“ svaraði Emil. Hún hélt áfram að hrista hristuna og furða sig á hljómgæðunum. Emil fékk toppeinkunn fyrir þetta heimaverkefni.

ParketmennÞessi mynd var tekin í desember 2006 er við lögðum parket (aftur!) í garðastrætinu. Ég sullaði vatni yfir gamla parketið (sem var raunar nýtt) sem gerði það að verkum að við urðum að endurnýja það að hluta. Emil hjálpaði mér með þetta verkefni. Hann málaði hjá okkur margoft í gegnum árin. Í hvert skipti sem það þurfti að mála var Emil mættur. Til stóð að mála síðasta sumar, en pestin gerði það að verkum að ekkert varð úr því.

Ég þarf að grafa upp eldri myndir af okkur. Geri það þegar ég kemst í fjölskyldualbúmin í sumar.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 5
  • Sl. sólarhring: 5
  • Sl. viku: 34
  • Frá upphafi: 114051

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 34
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband