6.11.2008 | 07:15
Íbúðalánasjóður ríkisins
Þegar Kaupþing hóf 2004 að lána til íbúðakaupa á betri kjörum en Íbúðalánasjóður ríkisins, einn einkabanka á Íslandi, sáu margir sér leik á borði og tóku lán hjá Kaupþingi og greiddu upp eldri lán hjá Íbúðalánasjóði ríkisins.
Kaupþing náði nokkru markaðsforskoti með þessu útspili og hefði vafalaust haldið því forskoti á aðra einkabanka landsins ef ekki hefði komið til hver annar en Íbúðalánasjóður ríkisins?
Peningarnir sem hrúguðust í sjóði Íbúðalánasjóðs ríkisins þegar viðskiptavinir Kaupþings greiddu upp lánin voru þá umsvifalaust lánaðir áfram til Landsbankans, Glitnis og Sparisjóðanna sem hófu samstundis að bjóða viðskiptavinum sínum íbúðalán með tilheyrandi auglýsingum og sölumennsku.
Óhætt er að fullyrða að þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs ríkisins jók þenslu á fasteignamarkaðnum; hækkaði verð með aukinni eftirspurn kaupenda með gnægð lánsfjár í höndunum. Ekki sló það á þensluna að Íbúðalánasjóður ríkisins hafði skömmu áður, að undirlagi Framsóknarflokksins, ákveðið að hækka lánshlutfall í 90%.
Í fréttunum nýlega var viðtal við forstjóra sjóðsins, framsóknarmanninn Guðmund Bjarnason, þar sem fram kom að skuldir bankanna við hann væru 100 milljarðar. Það er sem sagt talan sem sjóðurinn lánaði bönkunum.
Íbúðalánasjóður ríkisins er enn eitt dæmið um að affarasælast er að stjórnmálamenn, ríkið öðru nafni, komi hvergi nálægt lánastofnunum og peningamálum yfirleitt. Þessi sjóður á stærsta sök á erfiðleikunum sem margir glíma við í dag vegna kaupa á fasteignum á uppsprengdu verði. Mikilvægt er að hafa þetta í huga við endurskipulagningu bankakerfisins. Ég er að vísu nokkuð svartsýnn á að stjórnmálamenn taki undir þetta vegna þess að þeir líta sjaldnast í eigin barm og leita sökudólganna, með aðstoð lögreglu- og skattayfirvalda, í einkageiranum. Stjórnmálamenn eru ekki settir undir neinar eftirlitsstofnanir og þurfa að því er virðist aldrei að bera ábyrgð. Hlaupast bara undan henni og komast upp með það. Bent hefur verið á að kosningar séu stóridómurinn, en þegar stjórnmálamenn tapa í kosningum fá þeir yfirleitt feit embætti í staðinn. Kosningaábyrgðakerfið virkar ekki þegar flokksmenn raða á listana, setja til dæmis vin sinn og félaga, sem jafnframt er óhæfur stjórnandi sem gengur bak orða sinna og hleypur frá skuldum, í efsta sæti. Kjósendur geta þar með ekki refsað viðkomandi þótt þeir vildu.
Hvað ætli bankamálaráðherrann okkar, Björgvin G. Sigurðsson, segi um stöðuna í landsmálunum í dag? Æjæ, hún virkar ekki heimasíðan hans. Furðulegt hvað það ætlar að taka langan tíma að endurskoða hana. Ég sem hélt að samræðustjórnmálin væru efst á lista hans. Getur verið að hann sé að hlaupast undan orðum sínum?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.11.2008 | 17:12
Netið er stærsti fjölmiðillinn
Í umræðunni um fjölmiðla gleymist netið. Netið er langstærsti fjölmiðill heims og enginn á hann! Jón Ásgeir má setja Hrein Loftsson sem lepp fyrir Vikuna og Séð og heyrt mín vegna. Meðan hann ræður ekki netinu er ég rólegur. Þótt gaman sé að fletta pappírsblöðum er netið sá staður sem ég sæki mér upplýsingar og fréttir. Áhrif hefðbundinna miðla fara minnkandi.
Nú er ég til dæmis í hlutverki fjölmiðils sem leitast við að upplýsa sauðsvarta yfirstétt þessa lands um orsakir kreppunnar. Viðtalið við Steve Forbes sá ég á síðu bloggvinar míns Jóns Þórs Ólafssonar. Kemur það nokkrum á óvart að það var ríkisbankinn með ríkisstarfsmennina sem gerði feil? Kemur það nokkrum á óvart að það voru ríkisstarfsmenn, stjórnmálamenn, sem vildu ábyrgðir á húsnæðislánum lækkuð? Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar byggja þarf upp að nýju.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.11.2008 | 23:40
Spurningar Einars um ESB
Einar S. Hálfdánarson spyr góðra spurninga um Evrópusambandið í Morgunblaðinu um helgina. Hann spyr varaformann Sjálfstæðisflokksins af því hann hefur, að því er virðist, talið að lausn vandamála Íslands séu fólgin í því að ganga í ESB. Raunar er óþarfi að Þorgerður Katrín svari spurningunum, það má hver sem er svara þeim.
Þar sem ég er ákaflega spenntur að heyra svörin ætla ég að taka undir með Einari og endurtaka spurningar hans.
1. Hversu mikil verðbólga hefur verið í Rúmeníu, Búlgaríu, Ungverjalandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen frá því þau gerðust aðilar að Evrópusambandinu?
2. Til samanburðar hversu mikil verðbólgan var í löndunum síðustu þrjú árin fyrir aðild (allt miðað við hvert land um sig).
3. Hafa löndin sem um ræðir fasttengt gjaldmiðla sína við evru á tímabilinu sem um ræðir?
4. Hver landanna hafa fengið vilyrði um upptöku evru og ef svo er, hafa dagsetningar þessar staðist?
5. Hver er meginástæða hlutabréfaverðfalls á sænsku bönkunum (Swedbank og SEB) nú nýverið og stórfelldrar aðstoðar sænska ríkisins til að styðja þá?
6. Hversu háa fjárhæð er áætlað að íslenska ríkið þyrfti að greiða til Evrópusambandsins eftir aðild?
7. Hveru mikill hluti útgjalda Evrópusambandsins er til landbúnaðar; hversu há fjárhæð er það?
8. Voru það reglur Evrópusambandsins eða Seðlabanki Íslands sem gerðu íslensku bönkunum heimilt, án sérstaks leyfis íslenska ríkisins, að taka við innlánum innan landa Evrópusambandsins?
9. Hefði svonefndur hringrásarhagnaður (sbr. ágætt nýyrði Björgólfs Thors um eignfærslu viðskiptavildar) verið heimill án breytingar íslenskra laga til samræmis við tilskipun Evrópusambandsins um reikningsskil?
10. Hvernig telur ráðherrann að samræmd reikningsskil skv. tilskipun Evrópusambandsins hafi reynst í þá veru að treysta upplýsingagjöf til fjármálamarkaðarins?
11. Hversu mikill hefur hagvöxtur verið innan gamla Evrópusambandsins (án Austur Evrópu) að meðaltali síðustur 10 ár? En í Bandaríkjunum, Ástralíu, Nýja-Sjálandi, Indlandi, Chile, Tyrklandi og Noregi á sama tíma (dæmin eru tekin af handahófi)?
Virðingarfyllst.
Þetta eru spurningar Einars sem birtust í Morgunblaðinu 2. nóvember 2008. Allir þeir sem eru að velta fyrir sér hvort Íslandi sé betur borgið í ESB ættu að leitast við að svara þessum spurningum.
Hvað mig snertir tel ég öldungis galið að ganga í ESB, réttast væri að segja EES samningnum upp, eins og Ragnar Árnason lagði til fyrir nokkrum árum að yrði skoðað. Ég tel líka að krónan sé búin að vera. Á Íslandi á að ríkja gjaldmiðlafrelsi, að hver og einn geti notast við þann gjaldmiðil sem hann kýs í viðskiptum sínum. Ástæðan fyrir því að ég vil ekki krónuna lengur er einföld: Krónan er valdatæki og völdin hafa stjórnmálamennirnir, sömu stjórnmálamennirnir og nú hafa komið okkur á vonarvöl. Ég tel brýnasta verkefnið að minnka völd stjórnmálamanna, ekki vegna þess að þeir séu vondir menn, heldur vegna þess að ég vil ekki þurfa að treysta á þá. Frá því íslenska krónan var sett á stofn, hefur hún ekki gert annað en missa verðgildi sitt. Brúsann hefur almenningur greitt. Það er runnið upp fyrir mér að hagstjórn með krónuna er hlægileg vitleysa. Hún er of lítill gjaldmiðill.
Það má líkja Íslandi við stóran búgarð sem framleiðir tómata sem seldir eru í útlöndum. Síðan tekur yfirmaður búgarðsins dollarana sem fengust fyrir tómatana og skiptir þeim í krónur eftir gengisskráningu dagsins, með tilheyrandi fyrirhöfn og kostnaði (hagstjórn), og réttir starfsfólkinu. Hvers vegna er ekki hægt að greiða starfsfólkinu dollarana beint? Tekjur landsins eru allar í erlendum myntum hvort sem er, væri ekki eðlilegast að spara sér milliliðinn og nota þá peninga hér? Það hefur verið gert áður, áður en landið var hneppt í viðjar stjórnmálaflokka sem alltaf vilja vel og meina vel, en hefur ekki tekist vel. Þá var Ísland frjálst land.
Jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni, enda kominn háttatími og bókin bíður á náttborðinu. Munið að svara spurningum Einars, ég tala nú ekki um ef þið viljið fyrir alla muni komast í pilsfald Evrópusambandsins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
24.10.2008 | 22:10
Brown bolurinn
Nú þurfa allir í heimsþorpinu að leggjast á eitt og spara. Af því tilefni hefur Egozentric®© hannað bol sem hvetur breska almúgann til að spara vatn. Fáir gera sér grein fyrir hve mikil sóun á vatni á sér stað í salernum landsins. Því hefur Egozentric®© sett alþýðustöku á nýjustu hönnun stofunnar sem gerir einmitt það, hvetur til sparnaðar og er myndræn um leið.
If it's yellow, let it mellow, if it's Brown, flush him down. Stærð 1-100. Litur: Rauður. Vertu góður borgari og sparaðu vatn. Hleyptu brúnum og láttu hann gossa. Það er best fyrir alla. Verð: 10 pund. Ath. Ekkert sem fram kemur á þessum bol er skáldskapur, ef svo virðist sem um raunverulegt fólk sé að ræða, er það hrein tilviljun.
For English customers of Egozentric Designs®©:
Now every citizen of the global village must be thrifty. Egozentric®© has designed a T-shirt urging British citizens to save water. Few people realize how much water is wasted at British toilets. That's why Egozentric®© has put an old folk wisdom on it's design that does exactly that, urges people to be thrifty in a picturesque way.
By flushing the Brown, Brits are releasing the baggage of yesterday, creating a better future for themselves. Brown is the bad idea, the bad smell of bad solutions and bad governance. The blind snake of no clue of economic affairs and cheap spins in a free fall of popularity into the sewer of history.
Dægurmál | Breytt 25.10.2008 kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
24.10.2008 | 22:09
Nú vantar okkur bara samtalið frá 2. sept.
![]() |
Furðulegt að samtalið skyldi leka í fjölmiðla |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
23.10.2008 | 15:53
Ætlar ekki að halla sér að flöskunni
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson sem lýsti því yfir nýlega að hann ætlaði að halla sér að flöskunni í kreppunni er hættur við, þetta kom fram á blaðamannafundi sem hann hélt í Iðnó nú rétt áðan fyrir nokkrum mínútum. Slefað og skeint er algjörlega að skúbba þessari frétt fyrstur fjölmiðla í gervöllum heimi. Orðrétt sagði Sigurgeir Orri: Ummælin ollu uppnámi í fjölskyldu minni og til að koma í veg fyrir algjört hrun og uppnám ákvað ég að boða til blaðamannafundar og koma málum á hreint. Áform mín hafa ekkert breyst þótt ég hafi keypt 16 rauðvínsflöskur í gær. Sú ákvörðun var tekin áður en kreppan skall á og hefur ekkert með áfengisneyslumynstur mitt að gera. Ég fullvissa alla að ég ætla ekki að halla mér að neinni þessara flaskna. Þvert á móti ætla ég að gera allt sem í mínu valdi stendur til að hjálpa þjóðinni aftur á fætur og gott betur því ég ætla líka að gera allt sem í mínu valdi stendur til að koma Gordon Brown frá völdum í Bretlandi, helst áður en honum verður hent öfugum út úr Downingsstræti 10 í næstu kosningum.
Stjórnmálaskýrendur Slefað og skeint segja að þessi ummæli bendi til þess að Sigurgeir Orri sé hættur að vorkenna sér vegna ástandsins og ætli nú að láta hendur standa fram úr ermum. Fljótlega megi búast við aðgerðum af hans hálfu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
21.10.2008 | 21:00
Listi Sigurgeirs Orra
Hvort segir það meira um Bretland eða Landsbankann að hann skuli vera á lista breska fjármálaráðuneytisins yfir ríkisstjórnir og fyrirbæri sem beitt er refsiaðgerðum? Starfaði bankinn annars ekki eftir gildandi lögum og reglum í landinu? Var Landsbankinn hugsanlega að undirbúa sprengjuárásir? Studdi Landsbanki Íslands hryðjuverkasamtök? Fróðlegt verður að sjá fyrir dómstólum hvernig bresk stjórnvöld réttlæta aðgerðirnar.
Í tilefni af þessu hefur Sigurgeir Orri sett saman lista yfir ríkisstjórnir sem misnota lög og stofnanir í því skyni að hindra samkeppni, slá sér upp og eða breiða yfir eigin vanmátt.
Bretland
Rússland
Simbabve
Súdan
Íran
Hvíta Rússland
Sýrland
Norður Kórea
Míanmar
Að auki er hér listi yfir þá stjórnmálamenn sem hvað minnstir eru á velli þessa stundina.*
Gordon Brown
Mugabe
Vladimir Pútín
Amadínejad
Saddam Hussein
Hugo Chaves
Evo Morales
Fidel Castro
* Yfirstrikaðir eru þeir sem eru ekki lengur á listanum vegna þess að þeir hafa bætt ráð sitt eða hætt í pólitík.
21.10.2008 | 13:33
Myntkörfulánið mitt
Þegar til stóð að kaupa skrifstofuhúsnæði fyrir einu og hálfu ári fórum við yfir þá kosti sem í stöðunni voru. Annarsvegar taka innlent lán með himinháum vöxtum og verðtryggingu, hinsvegar taka myntkörfulán með lágum vöxtum en gengisáhættu. Það var sama hvernig var reiknað, það lá í augum uppi að myntkörfulánið borgaði sig. Jafnvel þótt gengið hrapaði niður úr öllu valdi var það samt skárri kostur en innlenda lánið. Með öðrum orðum: Krónan var verðlögð út af markaðnum. Hagstjórnin sem fólst í þessum háu vöxtum og verðtryggingu er sá fleygur sem nú stendur í hjarta krónunnar.
Hagstjórnin var heimóttarleg og gerði, að því er virðist, ekki ráð fyrir að Ísland væri hluti af fjórfrelsinu þar sem fjármagn flæðir óheft milli landa. Þetta er álíka heimskulegt og bannið við áfengisauglýsingum í íslenskum blöðum, en eins og kunnugt er eru erlend blöð með áfengisauglýsingum á hverju íslensku heimili.
Þeir sem stóðu fyrir þessari hagstjórn eru þeir sem bera meginábyrgð á stöðu þjóðarinnar í dag. Það er samt óþarfi að krefjast þess að þessi eða hinn segi af sér. Þeir eru þegar búnir að segja af sér með gerðum sínum.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.10.2008 | 13:47
Pottþétt kreppa
Gjafmildi Glitnis eru engin takmörk sett, enda er þín velferð þeirra verkefni, sem hefur jú komið á daginn. Nú hefur Glitnir gefið út í samvinnu við Skeinu nýjasta Pottþétt diskinn, Pottþétt kreppa. Verður honum dreift ókeypis inn á hvert heimili í landinu og afgangseintökin gefin til viðskiptavina íslensku bankanna í Bretlandi og Hollandi.
Lögin á diskinum eru ekki af verri endanum og öll hugsuð til að létta fólki lundina í kreppunni sem nú gengur yfir:
1. Hjálpaðu mér upp, Nýdönsk. 2. It's a hard life, Queen. 3. Can't walk away, Herbert Guðmundsson. 4. The winner takes it all, Abba. 5. Er nauðsynlegt að skjóta þá? Bubbi Morthens. 6. I need a miracle, Fragma. 7. Á tjá og tundri, Sálin hans Jóns míns. 8. Run to the hills, Iron Maiden. 9. Hamingjan er krítarkort, GCD. 10. I'm going down, Bruce Springsteen. 11. Þau falla enn, Sálin hans Jóns míns. 12. Ég vil fá að lifa lengur, Todmobile. 13. All by myself, Eric Carmen. 14. Sirkus Geira smart, Spilverk þjófanna. 15. Highway to hell, AC DC. 16. Til hamingju Ísland, Silvía Nótt. 17. Exodus, Bob Marley.
Myndböndin við þessi lög eru að finna á síðunni hans Begga en við félagarnir hjá Skeinu aðstoðuðum Glitni við val á lögum. Góða skemmtun!
17.10.2008 | 09:31
Stjórnmálamenn án ábyrgðar
Þrátt fyrir að Gordon Brown hafi hlotið lof fyrir framgöngu sína við björgun bankanna, er það aðeins piss í skónum hans. Það blasir við nú öllum að Verkamannaflokkurinn hefur stjórnað landinu af fullkomnu getuleysi undanfarin ár. Þeir skuldsettu landið óhóflega og létu blindast meðan fasteignabólan blés æ meira út í stað þess að grípa í tauma og safna í sjóði. Nú þegar harðnað hefur á dalnum hafa þeir ekkert bolmagn, eins og til dæmis Svíþjóð og Ástralía, til að aðstoða fjármálakerfið og verða að leita út fyrir landsteinana undir því yfirskini að hér sé um alþjóðlegan vanda að ræða. Rétt er það alþjóðlegur er hann, en vandinn er stærstur í heimi, fyrir utan etv. Ísland, í Bretlandi. Örvæntingarfullar tilraunir til að afla sér vinsælda með því að ráðast á Ísland eru til marks um getuleysið, vitnisburður um veikleika. Dagar Browns og meðreiðarsveina hans við stjórnvölinn í Bretlandi eru taldir. Þeir fara frá eftir næstu kosningar.
Brown og verkamannaflokkurinn eru líkir sumum íslenskum stjórnmálamönnum að því leyti að þeir hafa safnað skuldum í góðærinu og hlaupa svo frá þeim og kenna öðrum um. Ef ekki Íslandi, þá kapítalismanum. Þeir sem stjórnuðu Reykjavík lengi vel, R-listinn svokallaði, skuldsettu borgina í botn og hlupu svo frá öllu saman og bera enga ábyrgð. ENGA ÁBYRGÐ. Nú er höfuð þess lista utanríkisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Þessu þarf að breyta, stjórnmálamenn verða að sæta ábyrgð ef þeir reka ekki þær stofnanir og fyrirtæki sem þeim er treyst fyrir innan áætlana. Setja þarf í lög að þeir verði að segja af sér ef áætlanir standast ekki. Hvernig sem því er komið um kring, verður að auka ábyrgð stjórnmálamanna. Það gengur ekki að þeir geti yppt öxlum ef allt er í mínus og kennt öðrum um. Heimurinn er að súpa seiðið af stjórnmálamönnum sem enga ábyrgð bera.
Stærsti vandinn er etv. sá að stjórnmálamennirnir líta ekki í eigin barm, heldur auka völd sín með heftandi reglum og eftirlitsstofnunum, þvert á það sem á að gera: Að sjá búa svo um hnútana að hver og einn beri ábyrgð á gerðum sínum. Flóknara er það ekki. Meðan hópur manna hefur frítt spil, ber enga ábyrgð, er ekki von á góðu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 41
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 7
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.