Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
29.5.2009 | 13:19
Liverpool og Chelsea
Ragnar Orri sonur okkar er svo heppinn að hann heldur með Liverpool þótt hann sé bara tveggja ára. Ótrúlegt en satt! Hann á mjög flotta Liverpool treyju (númer 8, Gerrard) sem hann fór stoltur í, í leikskólann um daginn. Var þessi mynd tekin þegar Ragnar Orri var að leggja af stað í leikskólann.
Daginn eftir þegar við feðgarnir komum í leikskólann (þá var Ragnar Orri bara í venjulegri peysu) var það fyrsta sem við sáum gutti á svipuðum aldri og Ragnar Orri í heiðbláum Chelsea búningi frá toppi til táar! Við gátum okkur þess til að strákurinn hafi séð Ragnar Orra í Liverpool treyjunni og ákveðið að sýna nú sínu félagi stuðning og mæta í Chelsea búningnum. Það er af og frá að pabbi hans hafi séð rautt yfir Liverpool treyjunni og klætt soninn svona upp. Krakkar byrja mjög ungir að halda með sínum liðum. Það er staðreynd.
Ég er ekki viss um að allir á leikskólanum, ekki einu sinni kennararnir, hafi gert sér grein fyrir að í leikskólanum voru fulltrúar tveggja bestu knattspyrnuliða Englands (að öðrum liðum ólöstuðum) mættir á svæðið. Að vísu er knattspyrna mikið iðkuð í syðri Kaliforníu en það er vegna áhrifa frá Mexíkó. Flestir hér um slóðir halda að fótbolti sé hyrndur og hann spili menn með herðapúða.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2009 | 16:49
Rétti búningurinn
Kvikmyndagerðarmenn eiga ekki að vera ragir við að velja sögu þann búning sem henni ber, sama hvað tískusveiflum þjóðfélagsins líður. Nú er til að mynda ekki í tísku að gera heimildarmyndir með þul. Ástæðan er sú að það er of sjónvarpslegt sem skilgreinist sem andstæða við listrænt eða kvikmyndahátíðalegt. Sjónvarpsstimpillinn er hræðilegur og forðast opinberir styrkjasjóðir hann eins og heitan eldinn. Það er á misskilningi byggt vegna þess að heimildarmynd með þul er bara eitt framsetningarform af mörgum sem ekki á að hika við að nota henti það efninu best. Aðalatriðið er sagan. Hvernig verður sögunni best komið á framfæri? Það er spurningin. Svona do's and dont's grassera líka í kvikmyndahandritsheiminum og gera það að verkum að höfundar þröngva sögum sínum kannski í gúmmískó þegar þær eiga miklu heldur að vera í krókódílaskinnsstígvélum.
Svo er þetta vitaskuld alltaf glíma við kostnað. Ég gældi við þá hugmynd að sviðssetja atriði í myndinni, og reyndar gerði það, með Dodge 1940, þar sem hann ók um götur miðbæjarins. En hugmyndin var að sviðssetja kannski leikin atriði. En frá því var horfið af tvennum ástæðum: Of dýrt og óviðeigandi. Einhverjir hefðu hrokkið við að sjá leikara bregða sér í hlutverk Alfreðs Elíassonar í myndinni. Ef farið er út í að sviðssetja, er alveg eins gott að gera bara leikna kvikmynd og þá erum við að tala um kostnaðartölur upp á milljónir dala.
Efni Loftleiðasögu er svo magnað að því má gera skil í hvaða formi sem er, en heimildarmyndaformið er það sem kemst næst efninu. Af þeim sökum valdi ég það. Hver veit nema ég skrifi handrit að leikinni kvikmynd sem byggð er á þessari sögu. Aldrei að vita. Sem stendur er ég svolítið spenntur að segja sögu Flugleiða, ekki endilega með því að segja sögu þess félags, heldur einhvers annars sem stóð utan við það en samt nærri, Guðna í Sunnu, til dæmis. Sögu Flugleiða mætti líka segja í sögu Eimskips. Saga Björgólfs Guðmundssonar og Hafskips er líka spennandi verkefni, vegna þess að saga hans varpar ljósi á stærri mynd, þjóðfélagið og ráðandi öfl í því. Af þessum sögum getur samfélagið í dag dregið lærdóm. Sagnfræðin er frábært tæki til þess. Þeir sem hafa velt upp þeirri spurningu hvort saga Alfreðs og Loftleiða sé viðeigandi í dag eru að því leyti á villigötum. Sagan er frábært tæki til að varpa ljósi á samfélag okkar, litla lýðveldið okkar, stjórnkerfið okkar og hvað má betur fara. Nú hafa margir rokið til og ætla að gera mynd um hrunið mikla. Spennandi verður að sjá hvað kemur út úr því.
Varðandi Loftleiðasögu er ég ákaflega sáttur við að hafa valið sögunni þennan búning vegna þess að það gekk upp. Saga Alfreðs og Loftleiða nær út fyrir hópinn sem hefur áhuga á flugi eða tengist Loftleiðum á einhvern hátt. Áhugafólk um góðar sögur, en það eru trúlega flestir menn, njóta hennar. Ekki er hægt að biðja um meira.
Þessi síða er úr Frjálsri verslun frá 1969.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.5.2009 | 06:07
Toppnum náð
Erpur Eyvindarson kvikmyndagagnrýnandi hjá DV gekk út af Loftleiðamyndinni sáttur. Það er afrek út af fyrir sig vegna þess að hann er etv. í þeim hópi sem er hvað lengst frá því að hafa áhuga á efni sem þessu. Þótt hann sé ekki jafn hrifinn og margir aðrir (ég er um margt sammála gagnrýni hans, það má alltaf gera betur) skín í gegn að Loftleiðaævintýrið náði honum í gegn um þennan frásagnarmáta og það er ánægjulegt. Þessari sögu var trúlega valinn sá búningur sem hentaði efninu hvað best. 3 af 5 hjá Erpi. Glæsilegt. Titillinn á gagnrýninni er líka mjög flottur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
19.5.2009 | 19:01
Vefþjóðviljinn um Loftleiðamynd
Þessi pistill birtist um Alfreð Elíasson og Loftleiðir laugardaginn 9. maí á Vefþjóðviljanum:
Hinar talandi stéttir á Íslandi útmála nú íslenska atvinnurekendur sem mestu afglapa og skúrka veraldarsögunnar. Er það af sem áður var þegar lofsöngurinn um víkingaeðlið og djörfungina hljómaði hvarvetna. En nú jafngildir það nánast ærumissi að hafa reynt fyrir sér í atvinnurekstri. Það er ekki beinlínis uppörvandi fyrir þá sem eru með hugmyndir að nýjum rekstri. Einmitt vegna þessa ástands hittir ný kvikmynd Sigurgeirs Orra Sigurgeirssonar, Alfreð Elíasson og Loftleiðir, beint í mark. Hún er kærkomin tilbreyting frá bölmóðinum og uppgjöfinni
Myndin, sem meðal annars er sýnd í Kringlubíói, segir frá einu mesta viðskiptaævintýri Íslendinga á síðustu öld. Loftleiðir hf. undir stjórn Alfreðs Elíassonar náðu miklum árangri í keppni við ríkisflugfélög Evrópuþjóðanna þótt stjórnvöld hér heima og víða erlendis reyndu að bregða fæti fyrir félagið. Hún ætti að vera þeim innblástur sem telja eðlilega margt mæla gegn þátttöku í atvinnurekstri um þessar mundir. Myndin sýnir einnig hve skammt getur verið á milli feigs og ófeigs í atvinnurekstri. Stundum koma upp aðstæður sem enginn ræður við hversu útsjónarsamir menn eru í rekstri. Stundum eru menn einfaldlega heppnir.
Í myndinni kemur glöggt fram hve ríkisafskipti hafa slæm áhrif á atvinnurekstur. Jafnvel lítt sýnilegar og að því er virðist sakleysislegar aðgerðir eins og ríkisábyrgðir geta haft mjög afdrifaríkar afleiðingar. Þetta er ekki síst mikilvægt að undirstrika um þessar mundir þegar íslenskir skattgreiðendur sitja uppi með ábyrgð á starfsemi íslensku bankanna.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2009 | 15:31
Ofurbloggarinn Stefán Fr. Stefánsson um Loftleiðamynd
Stefán Friðrik Stefánsson fór á Loftleiðamyndina og hafði þetta að segja:
Loftleiðaævintýrið og hugsjónasaga Alfreðs
Ég fór í bíó áðan og sá heimildarmyndina um ævintýralega sögu Loftleiða og hugsjónamanninn Alfreð Elíasson, sem var drifkrafturinn í einu mesta viðskiptaveldi Íslandssögunnar. Myndin er gríðarlega vel gerð og leiftrandi af frásagnargleði og þeim krafti sem einkenndi fyrirtækið. Alfreð Elíasson var hugsjónamaður í sínum verkum, byggði upp fyrirtækið af hugviti, áræðni og næmri einbeitingu.Sagan af Loftleiðum er eitt besta dæmið hérlendis um traust vinnubrögð, hugsjónir og einbeitingu þeirra sem leiða uppbyggingu. Með því að virkja krafta allra starfsmanna með einlægri jákvæði tókst Alfreð að gera Loftleiðir að risa á alþjóðavettvangi, fyrirtæki sem naut virðingar um allan heim og byggði upp velvild meðal viðskiptavina. Sá jákvæði andi sem einkenndi starfið innan Loftleiða er einn stærsti þáttur velgengninnar í tæplega þrjátíu ára sögu fyrirtækisins. Þar skipti leiðsögn leiðtogans öllu máli.
Endalok Loftleiðasögunnar eru mjög sorgleg, eins og allir vita sem kynnt hafa sér sameiningu Loftleiða og Flugfélags Íslands árið 1973. Alfreð Elíasson missti heilsuna árið 1971 og náði aldrei eftir það fyrra afli og einbeitingu. Þegar Alfreðs naut ekki við var ekki haldið á málum af sömu einbeitingu og áður var og fyrirtækið missti sitt leiðarljós og leiðtogann sem var á vaktinni. Fyrirtækið var étið upp í veikindum Alfreðs étið upp af kerfiskörlum hjá ríkinu.
Sorglegast af öllu var hvernig unnið var í matinu á eignum Loftleiða og Flugfélags Íslands sem leiddi til þess að fyrirtækin voru metin svo til jafnstór í stað þess að Loftleiðir væri metið 70-75% af andvirði nýja fyrirtækisins, Flugleiða. Með rangindum voru eignir Loftleiða í raun teknar af stofnendunum, þeim frumkvöðlum sem af hugsjón og elju höfðu byggt upp stórveldi á heimsvísu. Þetta er ljót og óhugguleg saga sem þurfti að segja. Það tekst vel upp í þessari mynd.
Í hreinsunum sem einkenndu stjórnunartíð Sigurðar Helgasonar eldri á áttunda áratugnum var öllum hugsjónamönnum Loftleiðatímabilsins bolað út og beitt ógeðfelldum hreinsunum af algjörri skítmennsku. Alfreð Elíassyni, frumkvöðlinum og hugsjónamanninum var bolað út af skrifstofu sinni í húsnæði Loftleiða, sem fyrirtækið átti skuldlaust með hóteli, stöndugu millilandaflugfélagi og auk þess Air Bahama og hótel í Lúxemborg, svo fátt eitt sé nefnt.
Frægt var að Alfreð sagði þegar hann var rekinn á dyr úr eigin skrifstofuhúsnæði af þeim sem véluðu með Flugleiði "Hvað hefur gerst. Hvar er félagið mitt?". Gögn Alfreðs voru einfaldlega sett í pappakassa og hann síðan settur í horn úti á gangi í fyrirtækinu sínu. Þvílíkt níðingsverk! Þessi eignaupptaka og svívirðilega framkoma var fjarstýrð af samgönguráðherranum Hannibal Valdimarssyni sem vegna þrýstings stjórnmálamanna sá ofsjónum af sterkri stöðu Loftleiða og hirtu eignir þeirra af frumkvöðlunum sem höfðu unnið af harðfylgi fyrir sínu.
Ég hvet alla til að fara í bíó og skoða heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir. Þetta er saga hugsjónamanns sem lét ekkert stöðva sig og byggði stórveldi á alþjóðavísu. Endirinn er sorglegur. Mjög gott er þó að þau dapurlegu endalok eru sögð hreint út og ákveðið. Sigurður Helgason fær það óþvegið, verðskuldað og heiðarlega, í uppgjöri Loftleiðamanna. Ýjað er að því að hann hafi verið keyptur til sinna óheilinda við Alfreð.
Þetta er traust mynd, sem er í sérflokki. Sigurgeir Orri Sigurgeirsson á heiður skilinn fyrir vandaða og heilsteypta mynd, sem er vel klippt og gerð. Myndefnið er mjög gott, viðmælendur segja heiðarlega frá velgengni og sorglegum endalokunum og umgjörðin mjög traust. Þetta er traustur og einlægur minnisvarði um hugsjónamanninn Alfreð Elíasson og segir söguna alla, bæði björtu punktana og endalokin, sem hljóta að teljast eitt mesta rán Íslandssögunnar.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2009 | 15:15
Enn meira um Loftleiðamynd
Sigurður Már Jónsson skrifaði grein í Viðskiptablaðið í síðustu viku sem var ekki á sömu nótum og ég er nú farinn að venjast. Hann var frekar neikvæður. Greinin er í viðhengi við þessa færslu. Ég svaraði Sigurði og er það bréf hér að neðan. Fór fram á það við Viðskiptablaðið að það birti bréfið.
Sæll Siggi,
grein þín um heimildarmyndina um Alfreð Elíasson og Loftleiðir er ekki til fyrirmyndar. Engu að síður er ég ánægður með greinina vegna þess að ég var farinn að halda að enginn myndi koma með aðrar athugasemdir en lof. Þú virðist vera eini maðurinn sem finnur eitthvað að myndinni fyrir utan að sumir hafa sagt hana vera of langa. En athugasemdir þínar eru á veikum eða jafnvel röngum grunni reistar. Við það verð ég að gera athugasemdir.
Í fyrsta lagi þá sætir það furðu að þú skyldir ekki hafa samband við mig varðandi myndefni í greinina. Það er ekki langt fyrir þig að sækja, ég er bróðir vinar þíns Jónasar og spilaði með þér fótbolta um skeið, við þekkjumst! Ég hefði getað útvegað þér myndir af flugvélakosti Loftleiða í Loftleiðabúningnum. Það hefði sparað þér leit á google. Auk þess er ég með ýmis gögn sem þú hefði getað fengið þér til stuðnings við greinaskrifin. Hvers vegna fara þessa krókaleið? Ég bít ekki. Þessi vinnubrögð gefa mér tilefni til að álykta að annarlegar hvatir búi að baki skrifum þínum þó ég ætli alls ekki að draga þá ályktun. Vel má vera að þetta séu þau vinnubrögð sem þú hefur tamið þér. Þótt ég myndi ekki vinna svona, er ekki að marka, ég er ekki atvinnumaður í blaðamennsku.
Ég fagna því að þú skulir óska eftir öðrum sjónarmiðum en þeim sem haldið er fram í myndinni. Þó fyrr hefði verið. Hvar eru Flugfélagsmennirnir? Þú getur etv. skrifað grein um Flugfélagið og rekstur þess. Farðu bara á vef Morgunblaðsins og leitaðu. Þar er saga FÍ geymd, afkomutölur, ræður á aðalfundum og svo framvegis. Sjálfur hefðir þú hæglega getað talað við einhvern í hinu liðinu eins og þú kallar það.
Hver einasta fullyrðing mín í myndinni um Flugfélag Íslands er studd opinberum gögnum. Það var ekki hægt að segja neitt annað. Það hefði verið sögufölsun, óheiðarlegt. Ég er með nokkrar síður úr Morgunblaðinu sem titlaðar eru eftir ári og eftir tapi. Tap, tap, tap.
Sú mynd sem dregin er upp af Sigurði Helgasyni er sanngjörn. Farið er mjög mjúkum höndum um hann. Ekki gleyma að það var hann sjálfur sem felldi hvað harðastan dóm um sjálfan sig (hvurslags starfsmaður er það sem fer til viðskiptabankans og hvetur hann til að lána fyrirtækinu EKKI?). Í Loftleiðamyndinni sem Sigurður Helgason lét gera á eigin kostnað og Flugleiða segir Sigurður blákalt að Loftleiðamenn hafi verið þvingaðir út í að biðja um ríkisábyrgð á rekstrarlánum og þar af leiðandi sameinast FÍ. Það stangast algjörlega á við það sem hann segir í eigin ævisögu. Það þarf enga innri ritskoðun til að benda á þetta atriði; þetta er einfaldlega niðurstaðan sem ég komst að. Ef það ætti að draga upp heildarmynd af Sigurði Helgasyni væri það engin helgimynd. Um það hef ég ýmis gögn. En Sigurður var ekki afgerandi í Loftleiðasögu fram að sameiningu og því ástæðulaust að fjalla meira um hann en tilefni gaf til. Hann var ekki mikilvægari en svo að það var búið að ákveða að kaupa hann út, en örlögin höguðu því þannig að það gerðist ekki. Munaði aðeins hársbreidd.
Ég ákvað að gera þessa mynd og segja söguna eins og hún var, ekki áróður fyrir einu sjónarmiði. Fram koma upplýsingar um hve alvarlega Alfreð var veikur í fyrsta sinn. Þetta kemur ekki svona skýrt fram í bók Jakobs. Sumum á væng Loftleiða fannst þetta frekar hart. Þetta er samt sannleikurinn.
Sameining flugfélaganna var fullkomlega ónauðsynleg að mínum dómi. Sagt var að það væri ekki pláss fyrir fleiri en eitt flugfélag í þessu litla landi, en ekki má gleyma því að Loftleiðir störfuðu á alþjóðavettvangi. Hve mörg flugfélög voru hér, skipti ekki máli. Þetta var samt röksemdin og hún hélt ekki einu sinni vegna þess að annað flugfélag var hér á þeim tíma líka, Air Viking sem Guðni í Sunnu rak. Það hefði alveg eins mátt leggja Flugfélag Íslands niður. Það hefði engu breytt fyrir Loftleiðir. Þotur Flugfélagsins voru með svo lítið flugþol að þær komust bara til Evrópu. Þotur Loftleiða voru svo miklu stærri að þær gátu borið FÍ þotuna og alla farþegana tvisvar sinnum. Ef það er eins og Flugfélagið hafi verið niðurlægt í myndinni, er það aðeins örlítið brot af heildarniðurlægingunni. Það var mesta áfallið við gerð myndarinnar að komast að því hver hrikalega aumt þetta vesalings félag var og hlutur þess í sameiningunni allt að því fáránlegur í því ljósi. Þjófnaður er réttnefni.
En sameiningin er ekki aðal málið. Það var trúlega fínt að sameina þessi félög. Mesti skandallinn er matið á eignarhlutunum. Ef sameiningin hefði verið á sanngirnisgrunni, hefði Sigurður Helgason ekki haft burði til að hrifsa til sín völdin í samstarfi við stjórnendur FÍ. Þá hefði verið hægt að ráða til sæmis Einar Ólafsson eða Jóhannes Einarsson til að taka við af Alfreð, en Einar Ólafsson gerði Cargolux að stórveldi á örfáum árum.
Þú segir í greininni að Eyjólfur Hauksson og Arngrímur Jóhannsson hafi komið að rekstri Loftleiða. Það er rangt. Þeir voru bara flugmenn, enda ungir stákar á þeim tíma. Eyjólfur flaug ekki einu sinni fyrir Loftleiðir, hann var hjá Cargolux.
Myndin var EKKI gerð í náinni samvinnu við fjölskyldu Alfreðs, hún var gerð algjörlega sjálfstætt en með samþykki fjölskyldu hans (ólíkt mynd Sigurðar Helgasonar). Ég þekkti engan í fjölskyldunni fyrir utan Millu, fyrr en myndin var komin á lokastig. Þótt ég hafi tekið það sérstaklega fram í inngangserindinu á frumsýningunni að þau hafi ekki haft nein áhrif á efnistökin í myndinni, heldur þú öðru fram.
Þú segir að Alfreð Elíasson sé SAGÐUR hafa verið hvatamaður að flugi til Lúxemborgar í myndinni. Hann er ekki SAGÐUR hafa verið hvatamaður, það er sýnt með óyggjandi hætti með tilvitnun í skýrslu sem Alfreð samdi til stjórnar félagsins eftir að hafa kannað aðstæður í Lúx. Hann sem sagt VAR hvatamaður að flugi til Lúxemborgar. Á þessu er nokkur munur og sýnir á hvaða forsendum þú skrifar grein þína. Allir sem vilja geta lesið þá skýrslu.
Sigurður Helgason taldi Lúxemborgarflug heimsku, eins og hans eigin bréf til stjórnarinnar ber með sér, þótt hann hafi haldið því fram seinna að hann hafi barist fyrir Lúxemborgarfluginu í stjórn Loftleiða (en það var áður en bréf hans kom í leitirnar). Með því að vera á móti Lúxemborgarfluginu sýndi Sigurður að hann skildi ekki lágfargjaldahugmyndir Alfreðs. Í bréfinu þar sem hann segir Lúxemborgarflugið óraunsætt gerir hann einnig lítið úr hótunum Svía um að banna Loftleiðum að fljúga til Gautaborgar. Sú hótun var ekki bara nöldur, ríkisstjórn Svía stóð að baki henni. Þú getur ímyndað þér ef stjórn Loftleiða hefði farið að ráðum Sigurðar og ákveðið að fljúga til Parísar og London, eins og hann leggur til í bréfinu. Þá hefðu þeir ekki getað boðið ódýrar flugferðir og ekki skapað sér sérstöðu á markaðnum. Allir sem vilja geta lesið bréf Sigurðar.
Það voru ekki hinir snjöllu Loftleiðamenn sem spiluðu eignarhlutinn í Cargolux úr höndum sér, það var enginn annar en Sigurður Helgason og félagar hans sem réðu Flugleiðum þá, en það var löngu eftir að Loftleiðir var búið að vera, um 1980. Flugleiðir voru í raun komnar í þrot um þetta leyti og þurfti ríkið að bjarga þeim, eins og það hafði gert fyrir Flugfélagið í gegn um tíðina. Ástæðulaust var að fjalla meira um Cargolux í myndinni þar sem myndin var um Loftleiðir og Alfreð Elíasson. Sigurður Helgason kom hvergi nærri stofnun Cargolux. Hann meira að segja fór í samkeppni við Cargolux með því að lána áhafnir frá Air Bahama á flugvélar Seaboard sem um tíma reyndi árangurslaust að keppa við Cargolux í fraktflugi til Lúx. Það er enn eitt dæmið um að Sigurður vann gegn Loftleiðum. Síðar sagðist Sigurður, í viðtali í Morgunblaðinu, hafa stofnað Cargolux í félagi við annan mann, en svo kom í ljós að þessi maður kom fyrst til Lúxemborgar mörgum árum eftir stofnun Cargolux. Um þetta skrifaði Jóhannes Einarsson grein og hrakti ósannindi Sigurðar. Vonandi ertu nú farinn að sjá heildstæðari mynd af nafna þínum. Ég legg áherslu á að allt sem ég segi hér er hægt að styðja með óyggjandi gögnum.
Mér er það sönn ánægja að segja þér frá því að það er búið að gera amk. tvær myndir um Geysisslysið, Biðin langa og Staðarákvörðun óþekkt. Svo er líka búið að skrifa um það Útkalls bók. Um björgun vélarinnar af Vatnajökli var gerð mynd sem fór um allan heim. Myndskeiðin frá björguninni eru úr henni.
Jakob er ekki sammála þér um að hann hafi verið áberandi í viðmælendahópi myndarinnar, hann grínaðist um það við mig að hann hefði verið klipptur út fyrir utan byrjunina og endinn.
Ég vona að Viðskiptablaðið sjái sér fært um að birta þetta bréf.
Kær kveðja,
Sigurgeir Orri
Dægurmál | Breytt 18.5.2009 kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2009 | 14:31
Loftleiðamynd: Frumleg, áræðin, sterk, vönduð og hnarreist
Ólafur Torfason kvikmyndagagnrýnandi á Rás 2 fjallaði um Alfreð Elíasson og Loftleiðir í gær.
ALFREÐ ELÍASSON & LOFTLEIÐIR * * *
Ísland 2009. Ls: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson.
Sambíóin Kringlunni, Keflavík, Akureyri, Selfossi.
1:56 klst.
Þessi líflega og flotta íslenska heimildamynd er eins og forkólfurinn og forstjórinn Alfreð Elíasson virðist hafa verið á sínum bestu árum, - frumleg, áræðin, sterk, vönduð og hnarreist. Rakin er sagan frá stofnun Loftleiða 1944 og fram yfir sameiningu íslensku flugfélaganna tveggja, Loftleiða og Flugfélags Íslands 1973. Flugsagan var drjúgur partur af Íslandssögu þessa tímaskeiðs. Áhrifamiklar eru upplýsingarnar um barninginn í byrjun og síðan uppganginn þar til Loftleiðir öfluðu meira verðmætis en togaraflotinn og réðu stórum hluta flugs yfir Atlantshafið. Sagan er heillandi og nýstárleg, hvort sem fjallað er um síldarflug, fyrstu almennu farrýmin eða flugfreyjur frá Bahama. Ræman er mjög fróðleg og handritshöfundurinn og leikstjórinn Sigurgeir Orri hefur ekki bara verið ötull og árangursríkur í söfnun myndefnis, kvikmynda og ljósmynda, - hann nýtir formið og möguleikana af krafti og hagleik. Ennfremur hefur honum tekist að ná verulega góðum og líflegum viðtölum við samferðafólk Alfreðs og Loftleiða. Slíkt tekst yfirleitt varla nema til komi þekking og yfirsýn og þegar trúnaður og traust ríkja á báða bóga. Þetta eru dýrmætir vitnisburðir. Það styður líka útkomuna hve mikill húmor er í nálguninni þegar það á við. Saga Loftleiða og frumherjanna í fluginu er sterkur liður í sögu þjóðarinnar, byrjunarkaflarnir spanna einmitt tímann meðan þjóðin var að fyllast sjálfstrausti og krafti. Föst skot á nafngreinda einstaklinga vegna sameiningar flugfélaganna og einnig innávið varðandi rekstur félagsins, koma nokkuð á óvart en eru kannski í hinum hrjúfa anda sem einkennir oft baráttufólk sem talar tæpitungulaust.
John McClean, sem er flugmaður sem staddur er hér á landi nú um stundir, hafði þetta um myndina að segja:
The enterprising nature of the Icelanders in general and Alfred Eliasson in particular shone through in your film and hopefully will get Iceland over the present worldwide economic difficulties.
Áhugaverð ummæli hjá John, vegna þess að við sem Íslendingar sjáum etv. ekki sjálf okkur nógu vel. Við erum kannski í eðli okkar meiri útrásarvíkingar en aðrar þjóðir. Við erum alltént afkomendur manna sem voru áræðnir og djarfir; sem lögðu út á opið haf í leit að betra lífi.
Fróðlegt verður að heyra ummæli fólks í Bandaríkjunum og Evrópu sem þekkir til Loftleiða þegar það sér myndina. Ég veit að margir furðuðu sig á því að Loftleiðir, þetta farsæla fyrirtæki, skyldi vera lagt niður og nafni þess breytt.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 14:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.5.2009 | 17:42
Viðbrögð við Loftleiðamyndinni
Það er sannarlega ánægjulegt hve myndinni um Alfreð Elíasson og Loftleiðir hefur verið vel tekið. Hér er samantekt á því sem sagt hefur verið og skrifað um hana sem ég veit um.
María Margrét Jóhannsdóttir gaf henni 3,5 stjörnur af 4 mögulegum á kvikmyndir.com undir titlinum: Afskaplega vel unnin.
Jón Valur Jensson ofurbloggari fjallaði ítarlega um myndina á bloggi sínu undir titlinum: Alfreð Elíasson og Loftleiðir: ótrúlegt ævintýri.
Hún fær fullar 4 stjörnur af 5 í Popplandi hjá Guðrúnu Helgu Jónasdóttur á Rás 2. Hér eru nokkur af ummælum hennar: Ævintýraleg frásögn, myndin er dýrðleg. Rennur mjög ljúft ofan í áhorfandann. Tónlistin er algjörlega frábær. Gleðinnar mynd sem á erindi til allra í dag.
Eiríkur Jónsson, blaðamaður bloggaði um myndina undir titlinum: Loftleiðir og Evrópusambandið!
Fréttavefurinn Eyjar.net segir frá myndinni, en Loftleiðir voru brautryðjendur að flugi til Vestmannaeyja.
Dagfinnur sláandi líkur Clint Eastwood!
Hér er umsögn ónefnds fyrrum áhrifamanns í viðskiptalífinu (vil ekki nefna nafn hans að honum forspurðum):
Myndin er hreint út sagt frábær, hvetjandi, uppörvandi, bráðfyndin, Dagfinnur er sláandi líkur Clint Eastwood, gagnasöfnun og framreiðsla mjög góð, hroðalegt að hugsa til þess að Alfreð sat allan tímann með Quisling innanborðs, lýsingin á matinu ótrúleg, Loftleiðahótelið og skrifstofubyggingin færð niður um 35% frá brunabótamati, en skúrar Flugfélagsins færðir upp um 50% frá brunabótamati, Goodwill Loftleiða metinn á NÚLL, og svo að sjá menn eins og S.H. og H.S. notfæra sér veikindi Alfreðs til að troða sér í æðstu stöður út alla ævina, myndin þvílíka átakanlega sorgleg.
Ömurlegt að vara minntur svona óþyrmilega hvernig lífið var á Íslandi undir Kolkrabbanum.
Áhrifamikil mynd
Önnur umsögn stjórnmálamanns sem nýlega hætti afskiptum af stjórnmálum:
Þetta er áhrifamikil mynd. Og ekki bara fyrir okkur sem erum með meðfætt LL-merki inni í sálinni. Myndin flytur merkilega sögu sem er mikilvægur þáttur í nútímasögu Íslendinga - og hún flytur líka áhrifamiklar persónulýsingar og alvarlega áminningu. Myndin af einum besta syni fósturjarðarinnar er ógleymanleg. Ég er innilega þakklátur fyrir að fá boð að sjá þessa mynd.
Skellt á mig!
Skondin frásögn ónefndrar vinkonu minnar (ég þekki foreldra hennar ekkert):
Hringdi heim [frá útlöndum] um daginn og í fyrsta skipti á minni 35 ára ævi, skelltu foreldrar mínir á mig. Heyrði bara....við erum að horfa á loftleiða...og svo koma bara sónninn. Hélt kannski að línan hefði slitnað og hringdi aftur, en þá var ekki svarað. Daginn eftir var mér tilkynnt að þau voru að horfa á Loftleiða myndina þína og fannst hún svona helvíti góð. Héldu smá boð í kringum þetta og þar voru drykkir, konfekt og snittur, en fólkið var svo hugfangið af myndinni að ekkert fór af veitingunum. Til hamingju með þetta Orri minn, ég hlakka mikið til að fá að sjá þessa mynd!
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
13.5.2009 | 17:51
Ljóminn yfir Loftleiðum
TILURÐ og uppgangur Loftleiða er með stærstu viðskiptaævintýrum í Íslandssögunni og það sem er hvað mest heillandi, baðað ljóma dugnaðar, áræðis og hæfileika. Það varð einnig illilega fyrir barðinu á pólitíkusum og var innlimað langt undir gengi þegar flugfélögin tvö voru sameinuð undir einn hatt, Flugleiðir. Það er a.m.k. skoðun allra viðmælanda í Alfreð Elíasson og Loftleiðir, vandaðri og einkar áhugaverðri heimildarmynd Sigurgeirs Orra, sem rekur stórbrotna og ævintýralega sögu óskabarns einkaframtaksins, ef svo má að orði komast.
Eins og nafnið bendir til er kastljósinu talsvert beint að þætti Alfreðs heitins Elíassonar og konunnar sem stóð eins og klettur að baki bónda síns, Kristjönu Millu Thorsteinsson. Myndin er að nokkru leyti byggð á ævisögu hans sem skráð er af Jakobi F. Ásgeirssyni. Alfreð var lengst af forstjóri og einn af frumkvöðlunum sem kom Loftleiðum á laggirnar og var að öðrum ólöstuðum, prímusmótorinn, hugmyndasmiðurinn sem stjórnaði félaginu í gegnum súrt og sætt á meðan heilsan leyfði. Framsýnn og framsækinn maður, sem að hætti viðskiptajöfra, sá jafnan úrræði og nýja möguleika þegar kreppti að fyrirtækinu og var frumherji á mörgum sviðum, ekki síst á sviði lágfargjalda þar sem Loftleiðir voru í brautryðjendur í flugsögunni.
Alfreð Elíasson og Loftleiðir, er ævintýri líkust, allt til dapurlegra loka, þegar ríkisafskipti og sameining kemur til sögunnar, þar sem hlutur Loftleiða var hrikalega vanmetinn að dómi viðmælenda og rökin blasa við áhorfendum. Fram til þeirra örlagatíma er sagan stórfengleg, reyfarakennd á köflum, mörkuð sigrum, erfiðleikum áföllum, uppgangi og þrautseigju manna sem börðust eins og afkomendum víkinganna sæmir.
Loftleiðir byrjuðu smátt með þriggja manna Stinson, eftir að nema flug í Kanada. Alfreð, sem áður hafði nokkra viðskiptareynslu af leigubílarekstri, var hinn sjálfkjörni foringi með þá Olsenbræður, Magnús Guðmundsson, Dagfinn Stefánsson, Kristján í Kassagerðinni og fleiri úrvalsmenn með sér í baráttunni. Víðsýna atorkumenn sem eru goðsagnir í íslenskri flugsögu. Raktir sigrar og áföll í umfangsmikilli atvinnusögu sem teygði anga sína um allan heim, utan Ástralíu.
Sigurgeir styðst við ný og eldri viðtöl, hagnýtir það mikla efni sem til er á filmu og fléttar við það auglýsingum, blaðagreinum og fyrirsögnum, af nógu er að taka. Útkoman er ekki aðeins fræðandi heldur firna skemmtileg mynd áhorfs, það er vel haldið á viðfangsefninu, þessu hrífandi Öskubuskuævintýri með mikla sjarmöra í aðalhlutverkum. Maður minnist þess hversu þjóðin hreifst af atorku þeirra í slagnum við IATA og hákarlana, hugmyndaflæði þeirra sem var drifkrafturinn í baráttu við erlenda og síðar íslenska áhrifamenn. Myndin mun hjálpa til að halda nafni Alfreðs og félaga hans á lofti um leið og hún er merk heimild um einstakann útrásarkafla í atvinnusögunni (áður en óorði var komið á hugtakið.).
Þau sitja í minninu lokaorð Alfreðs, þegar andstæðingar hans voru búnir að bola honum út úr fyrirtækinu sem hann byggð frá grunni upp í stórveldi:
Hvar er félagið mitt?, segir hann, sem vekur aðra spurningu. Hver á það í dag og hvar er frægðarljóminn?
Stjörnugjöf: ****
Sæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi Mbl.
---
Ég vona að það sé í lagi að birta þennan dóm um myndina hér svo þeir sem ekki sjá Morgunblaðið í pappírsformi geti lesið hann.
Set hér líka viðtölin sem birtust í Fréttablaðinu:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.5.2009 | 13:39
Nýja Jórvík engri lík
Headless corpse in a topless bar er ein skondnasta fyrirsögn sem samin hefur verið. Ég man ekki hvort þessi fyrirsögn birtist í blaði í New York, en sú borg er óborganleg. Leigubílstjórinn minn í gær (ekki gulur bíll, heldur stór jeppi, vinur einhvers á hótelinu sem pantaði hann fyrir mig) spilaði indversk músíkvídeó af farsíma á mælaborðinu alla leiðina. Þeir sem hafa séð myndböndin vita að þau eru skringileg. Amk. í augum íslendinga. Dinerinn sem ég fór á var álíka skemmtileg upplifun. Fátt toppar þetta clientele. Nýja Jórvík er engri borg lík. Maður skynjar kraftinn í henni langar leiðir.
Þetta myndband er alltaf jafn fyndið.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.