Leita í fréttum mbl.is

Ljóminn yfir Loftleiðum

TILURÐ og uppgangur Loftleiða er með stærstu viðskiptaævintýrum í Íslandssögunni og það sem er hvað mest heillandi, baðað ljóma dugnaðar, áræðis og hæfileika. Það varð einnig illilega fyrir barðinu á pólitíkusum og var innlimað langt undir gengi þegar flugfélögin tvö voru sameinuð undir einn hatt, Flugleiðir. Það er a.m.k. skoðun allra viðmælanda í Alfreð Elíasson og Loftleiðir, vandaðri og einkar áhugaverðri heimildarmynd Sigurgeirs Orra, sem rekur stórbrotna og ævintýralega sögu „óskabarns einkaframtaksins”, ef svo má að orði komast.

Eins og nafnið bendir til er kastljósinu talsvert beint að þætti Alfreðs heitins Elíassonar og konunnar sem stóð eins og klettur að baki bónda síns, Kristjönu Millu Thorsteinsson. Myndin er að nokkru leyti byggð á ævisögu hans sem skráð er af Jakobi F. Ásgeirssyni. Alfreð var lengst af forstjóri og einn af frumkvöðlunum sem kom Loftleiðum á laggirnar og var að öðrum ólöstuðum, prímusmótorinn, hugmyndasmiðurinn sem stjórnaði félaginu í gegnum súrt og sætt á meðan heilsan leyfði. Framsýnn og framsækinn  maður, sem að hætti viðskiptajöfra, sá jafnan úrræði og nýja möguleika þegar kreppti að fyrirtækinu og var frumherji  á mörgum sviðum, ekki síst á sviði lágfargjalda þar sem Loftleiðir voru í brautryðjendur í flugsögunni.

Alfreð Elíasson og Loftleiðir, er ævintýri líkust, allt til dapurlegra loka, þegar ríkisafskipti og sameining kemur til sögunnar, þar sem hlutur Loftleiða var hrikalega vanmetinn að dómi viðmælenda og rökin blasa við áhorfendum. Fram til þeirra örlagatíma er sagan stórfengleg, reyfarakennd á köflum, mörkuð sigrum, erfiðleikum áföllum, uppgangi og þrautseigju manna sem börðust eins og afkomendum víkinganna sæmir.

Loftleiðir byrjuðu smátt með þriggja manna Stinson, eftir að nema flug í Kanada. Alfreð, sem áður hafði nokkra viðskiptareynslu af leigubílarekstri, var hinn sjálfkjörni foringi með þá Olsenbræður, Magnús Guðmundsson, Dagfinn Stefánsson, Kristján í Kassagerðinni og fleiri úrvalsmenn með sér í baráttunni. Víðsýna atorkumenn sem eru goðsagnir í íslenskri flugsögu. Raktir sigrar og áföll í umfangsmikilli atvinnusögu sem teygði anga sína um allan heim, utan Ástralíu.

Sigurgeir styðst við ný og eldri viðtöl, hagnýtir það mikla efni sem til er á filmu og fléttar við það auglýsingum, blaðagreinum og –fyrirsögnum, af nógu er að taka. Útkoman er ekki aðeins fræðandi heldur firna skemmtileg mynd áhorfs, það er vel haldið á viðfangsefninu, þessu hrífandi Öskubuskuævintýri með mikla sjarmöra í aðalhlutverkum. Maður minnist þess hversu þjóðin hreifst af atorku þeirra í slagnum við IATA og hákarlana, hugmyndaflæði þeirra sem var drifkrafturinn í baráttu við erlenda og síðar íslenska áhrifamenn. Myndin mun hjálpa til að halda nafni Alfreðs og félaga hans á lofti  um leið og hún er merk heimild um einstakann útrásarkafla í atvinnusögunni (áður en óorði var komið á hugtakið.).

Þau sitja í minninu lokaorð Alfreðs, þegar andstæðingar hans voru búnir að bola honum út úr fyrirtækinu sem hann byggð frá grunni upp í stórveldi:
”Hvar er félagið mitt?”, segir hann, sem vekur aðra spurningu. Hver á það í dag og hvar er frægðarljóminn?

Stjörnugjöf: **** 

Sæbjörn Valdimarsson kvikmyndagagnrýnandi Mbl.

---

Ég vona að það sé í lagi að birta þennan dóm um myndina hér svo þeir sem ekki sjá Morgunblaðið í pappírsformi geti lesið hann.

Set hér líka viðtölin sem birtust í Fréttablaðinu:

Viðtal í Fréttablaðinu um Loftleiðamynd

Viðtal í Fréttablaðinu um ljósmynd af Jóhönnu Sig.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Innilega til hamingju með myndina. Hlakka til þegar ég fæ tækifæri til að sjá hana.

Vilberg Olafsson (IP-tala skráð) 13.5.2009 kl. 19:26

2 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Sama segi ég. Frábær dómur, hefði ekki getað verið betri. Innilega til hamingju, Sigurgeir Orri.

Ragnhildur Kolka, 13.5.2009 kl. 21:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 13
  • Frá upphafi: 113946

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband