Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Fæddist þú tilbúinn?

Ég hallast æ meira að þeirri skoðun að við fæðumst tilbúin að lang stærstum hluta. Tilbúinn á þann hátt að skólaganga og menntun er aðeins formsatriði. Fjórðungi bregður til fósturs, er sagt. Ætli það sé ekki nær tíund. Dæmi um tilbúinn mann er hann Fokker, hollenski snillingurinn sem ungur hóf að smíða og hanna flugvélar. Hann hætti í skóla til að geta unnið að hugðarefnum sínum. Og hann var með þúsundir manna í vinnu 25 ára. Skólaganga hefði aðeins tafið hann eða jafnvel hindrað í lífinu. Hversu margir hafa ekki þrælað sér í gegn um margra ára nám án nokkurs áhuga, einungis til að fullnægja utanaðkomandi kröfum? Enginn spyr farsælan mann um menntun hans, enda reynast farsælir menn ósjaldan sjálfmenntaðir og stuttskólagengnir. Lífið er besti skólinn.

Það var Fokker bæði til láns og óláns að styrjöld brast á. Stríðsherrarnir áttuðu sig fljótt á mikilvægi flugvélarinnar í hernaði. Uppgangur Fokker-flugvélaverksmiðjunnar var gríðarlegur, þrátt fyrir mikla samkeppni, og var það Fokker sjálfum að þakka. Hann var ávallt einu skrefi á undan keppinautunum og það voru flugmennirnir sjálfir sem völdu vélar hans. Ef þeir fengu ekki að ráða, voru vélar frá betur tengdum keppinautum valdar. Niðurstaðan af því var iðulega sú að fleiri mannslíf fóru í súginn. Ólánið varðandi stríðið var að verksmiðja hans var jöfnuð við jörðu í lok þess og bankainnistæðunum að mestu leyti stolið eða brunnu upp í óðaverðbólgu.

Ég man eftir því að hafa velt fyrir mér, þegar ég horfði á gamla stríðsmynd, hvernig hægt var að skjóta úr hríðskotabyssum flugvélanna svo að segja í gegnum skrúfublöðin án þess að þau tættust í sundur. Þetta var þraut sem leyst var snemma í styrjöldinni af Fokker. Hann fann up tækni sem stillti vélbyssurnar þannig af að þær skutu milli skrúfublaðanna en ekki í þau. Og það aðeins á nokkrum dögum. Þýska herstjórnin sagði við hann þegar hann kynnti uppfinningu sína: "Gott og vel, þú sýnir okkur hvernig þetta virkar með því að skjóta niður óvinaflugvél." Þegar til kom hafði Fokker ekki geð á því og hætti við þegar hann hafði vél í skotmarkinu.

Hvað mig sjálfan varðar eru það hlutirnir sem ég lærði upp á eigin spýtur sem gagnast hafa mér best. Skólinn, þótt góður væri, var ávallt í öðru sæti. Umbrot lærði ég til dæmis af sjálfum mér skömmu eftir að það fór inn í tölvurnar. Svo er um fleira. Menntunin er þó góður grunnur, ekki verður hjá komist að viðurkenna það.


Fokker flugvélasmiður

Það er ánægjulegt að sjá að greinaskilin eru komin í bloggið mitt. Greinaskilanefnd ríkisins samþykkti loksins að ég mætti nota þau.

Ég er að lesa bókina um hann Fokker flugvélasmið. Mikið óskaplega er það skemmtileg lesning. Fokker var hollenskur strákur sem af miklum eldmóði smíðaði flugvélar nokkrum árum eftir að Wright bræður flugu fyrst. Saga hans gefur góða innsýn í árdaga flugsins þegar heimsbyggðin var í hvað mestum friðarblóma, vissi ekki hvað stríð var. Þetta var um 1910. Fólk flykktist á sýningar til að sjá flugmennina leika listir sínar og aldrei var meiri aðsókn en eftir að einhver hrapaði. Í þá daga var leiðin frá flugvélinni í kirkjugarðinn með þeim stystu. Flugkapparnir voru slíkar hetjur að Beckham og hans líkar fölna í samanburði. Þetta var þá. Nú eru flugmenn ekki lengur hetjur sem gefa eiginhandaráritanir.

Margir Íslendingar hafa flogið innanlands með vélum frá Fokker.

Fremst í bókinni stendur skrifað: Gleðileg jól Geiri minn, frá mömmu. Sigrún amma gaf pabba þessa bók þegar hann var unglingur. Pabbi eða systur hans hafa límt myndir af dýrum á fyrstu síðurnar. Það yljar manni um hjartaræturnar að lesa bók sem amma Sigrún keypti. Blessuð sé minning hennar.


Bloggeðli

Það tekur smá tíma að læra að Moggablogga, en það lofar góðu. Hlakka til að læra að gera eitthvað sjálfur, setja mynd inn og svoleiðis.

Við þessi tímamót ætla ég að útskýra fyrir lesendum hverskonar bloggari ég er.

Í fyrsta lagi er ég næstum því raunverulegur bloggari. Raunverulegir bloggarar eru þeir sem skrásetja gjörðir sínar dag frá degi. Blogg er afleiða af orðinu Web log, sem á Íslensku hefur verið kallað logg og þá yfirleitt sem bókar logg. Blogg er sem sagt í eðli sínu dagbók, logg bók (logg bækur tilheyra skipum og flugvélum ef mér skjátlast ekki). Raunverulegir bloggarar eru sem sagt þeir sem segja frá því hvernig þeim leið þegar þeir vöknuðu í morgun, hvað var á morgunverðarborðinu og svo framvegis. Næstum því raunverulegir bloggarar, eins og ég er, eru þeir sem segja frá hversdagslegum hlutum öðru hvoru. Sumir kalla hversdagsblogg húsmæðrablogg.

Í öðru lagi er ég þjóðfélagsrýnir sem kryfur mál til mergjar og hendir svo mergnum.

Í þriðja lagi er ég grínisti. Reyni að vera fyndinn en er oftast sá eini sem hlær.

Í fjórða lagi er hluti af hönnunarteyminu á hönnunarstofunni Egozentric Designs - Feels Good®.

Í fimmta lagi er ég rithöfundur sem skrifar spennandi sakamálasögu fyrir lesendur. Því miður hefur ekki verið nógu góður gangur í sögunni. En hún fjallar um einkaspæjara á Ford Mustang. Sagan heitir Hótel Lifrarkæfa.

Í sjötta lagi er ég kvikmyndarýnir sem skrifar öðru hvoru um myndir, bæði þær sem sýndar eru í klúbbnum afspyrnu og í bíó.

Í sjöunda lagi (gleymdi þessu um daginn) er þetta gestablogg þar sem gestir og gangandi sem sjálfir hafa ekki blogg geta viðrað skoðanir sínar.

Í áttunda lagi er ég meðlimur í Heimsvernd, sem hefur það m.a. að markmiði að vernda heiminn fyrir umhverfisverndarsinnum.

Í níunda lagi er ég óflokkaður bloggari. Í þann flokk fellur allt sem ekki rúmast í hinum átta.

Ps. Þetta er ekki að virka nógu vel, því það koma ekki greinaskil.


Endurfæddur bloggari

Hryllileg lífsreynsla er það að geta ekki bloggað. Ég lenti í því um daginn að ibloggið mitt hætti að virka. Var í sakleysi mínu að breyta útlitinu lítilsháttar og þá drap það á sér. Sagði mér í hvert sinn sem ég reyndi að setja færslu á netið að það væri engin færsla og það væri ekki til nein mappa til að setja enga færslu í!

Eftir að hafa velt nokkrum vöngum ákvað ég að velja Moggabloggið. Ég kannaði vox blog Six apart, en það var ekki heppilegt, of margar auglýsingar og ekki hægt að gera athugasemdir nema að skrá sig hjá þeim. Mér finnst Moggabloggið skemmtilegur grautur. Þeir gera því hátt undir höfði á vef sínum og þar eru margir skemmtilegir pennar.

En sem sagt, Orri er kominn aftur í bloggheima. Verst er að ég get ekki einu sinni sagt báðum lesendum mínum frá flutningnum á gömlu síðunni.


Fyrsta bloggfærsla

Þessi færsla er búin til af kerfinu þegar notandi er stofnaður. Henni má eyða eða breyta að vild.

« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 9
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 8
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband