Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Leik og raunveruleik ruglað saman

Frænka mín kær gerði athugasemd við síðustu færslu og virtist rugla saman leik og raunveruleik (nauðgunarleikur er ekki nauðgun). Það gaf tilefni til vangaveltna um leiki.

Nokkrir leikja sem ég stundaði sem barn voru eftirlíkingar afar ógeðfelldra hluta, þó enginn hafi að vísu snúist um nauðganir. Ég er viss um að krakkarnir í vesturbæ Kópavogs á áttunda áratugnum séu engin undantekning og slíkir leikir hafi verið stundaðir allstaðar þar sem tvö börn eða fleiri komu saman.

Hver drepst best? Gekk út á að hópur nasista hljóp í flasið á vélbyssumanni og var sallaður niður. Sá vann sem drapst með mestum tilþrifum. Margir leikja okkar snerist um þýskara, eins og við kölluðum þá, og bandamenn. Seinni heimsstyrjöldin var ofar á baugi þá en nú.

Tindátaleikur. Stilltum upp tindátahópi beggja vegna gangsins uppi á lofti á Þinghólsbraut 7 (líka í Vallargerðinu hjá Gumma Hallbergs, og Hemma og Gumma Lúx á Þinghólsbraut 12) og rúlluðum glerkúlu á hópinn. Sá sem var fyrri til að drepa alla hermennina með kúlunni vann.

Stríðsleikur. Þessi leikur var eiginlega óhugnanlegur, svona þegar maður hugsar til baka. Hann var í raun allsherjar stríð milli krakkahópa í hverfinu og það voru teknir gíslar (ég man eftir að Inga Hrönn var tekin sem gísl) og lumbrað á þeim (Inga var flengd með kaðalspotta). Við kepptumst við að búa til sem best vopn, trésverð og boga úr rafmagnsrörum. Á örvarnar var tálgaður flugbeittur oddur. Ef til þess kemur á minni ævi að það verður stríð, get ég sótt í reynsluna frá þessu stríði.

Kafbátaleikur. Klassískur tveggja manna leikur sem gengur út á að sökkva skipaflota andstæðingsins. Sá sem var fyrri til við slátrunina, vann.

Kúrekar og Indíánar. Svipaður leikur og stríðsleikurinn, nema sumir voru vondir Indíánar og aðrir svalir kúrekar með skammbyssur með púðurskotum. Við áttum meira að segja indíánatjald. Halda þurfti Indíánunum í skefjum með því að drepa sem flesta þeirra og taka konurnar til fanga.

Tindátasteiking. Ég man eftir a.m.k. einu atviki þar sem við steiktum tindáta yfir eldi. Það var mjög spennandi að sjá tindátana bráðna og við líktum eftir þeim öskrandi í eldhafinu.

Sprengingar. Gömul módel af skipum og flugvélum áttu það til að springa í loft upp, einkum í kring um gamlárskvöld. 

Byssur voru í miklu eftirlæti sem og stríð og stríðstól. Þetta þótti eðlilegt og þykir enn. Samt eru stríð með óhugnanlegri fyrirbærum. Miklu óhugnanlegri en nauðganir svo dæmi sé tekið. Ég sé einhvern veginn ekki fyrir mér fyrirsögn í Mogganum: Börn í stríðsleik - afar ógeðfelldur leikur. Flestir myndu segja: Og hvað með það?

Enginn okkar krakkanna, svo ég viti, yfirfærði þessa leiki í raunveruleikann. Krakkar eru furðuglöggir á leik og raunveruleik. Unglingur sem leikur sér í nauðgunarleik er trúlega betur meðvitaður en áður, að nauðgun er glæpur. Hann er ólíklegri til að nauðga eftir að hafa leikið leikinn. Hafi blundaði í honum löngun til að nauðga, fær hún e.t.v. útrás í leiknum, rétt eins og morðæðið sem blundaði í okkur krökkunum fékk útrás í Hver drepst best?


Hvað með morðleikina?

Hræsnin bókstaflega æpir á mann. Ef þú hefðir tvo afarkosti, A) að vera nauðgað, B) að vera drepinn. Hvort myndirðu velja? Ef þú ættir kost á að fjarlægja einn japanskan leik af íslensku vefsvæði, A) Einn af þúsundum morðleikja, B) nauðgunarleik. Hvorn myndir þú velja?

Hringekjan sem nú er komin í fullan snúning er af sama toga og múgæsingin vegna klámráðstefnunnar sem átti að halda á Íslandi í vor. Hún er ættuð af Morgunblaðinu, því til skammar. Gripið er mesta hálmstrá í heimi til að fá útrás fyrir stjórnlyndið og frekjuna, og bent á ósmekklegan leik sem finna má á íslenskri vefsíðu. Ef leikurinn hefði ekki dúkkað upp á torrent.is hefði Morgunblaðið aldrei lagt af stað í þetta gönuhlaup. Þrátt fyrir að Morgunblaðið sé framarlega í netmálum, virðist það ekki gera sér grein fyrir að netið er alþjóðlegt, og þeir sem áhuga hafa á slíkum leikjum, miklu fleiri nú, þökk sé Morgunblaðinu, sækja hann einfaldlega á erlendar vefsíður. Að vísu bendir Árni Matthíasson á þessa staðreynd í opnu blaðsins og vekur það upp ljótar grunsemdir um Morgunblaðið sé einfaldlega í sorpblaðamennsku, leggist lágt í fréttaflutningi. Ekki er það betra. Trúlega er hér um sambland af þessu tvennu að ræða.

Ég tel að það sé styttra í netlögreglu en marga grunar. Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnaverndarstofu talar um það þurfi að „styrkja lögreglu hvað varðar heimildir viðvíkjandi Netinu“ í viðtali vegna þessa máls í Morgunblaðinu í dag. Sú staðreynd að lögreglan beitti sér fyrir því að leikurinn væri fjarlægður er dæmi um grófa misnotkun á valdi. Hafi íslenska lögreglan ástæðu til að ætla að leikurinn feli í sér lögbrot ætti hún að benda starfsbræðrum sínum í upprunalandi leiksins á það. 

Fólk sem virðir að vettugi rétt samborgaranna til að vera ósmekklegir og gerir sér almennt ekki grein fyrir stjórnarskrárvörðum rétti manna til frelsis, virðist vera orðinn valdamikill hópur hér á landi. Þegar það gerist, er ekki von á góðu.


mbl.is Nauðgunarleikur fjarlægður af íslenskri vefsíðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stuttmyndadagar í Reykjavík

Sit og bíð efir að komast í sturtu. Heiðrún fór bara í sturtu án þess að spyrja um leyfi og því sit ég hér á náttfötunum og bíð. Fór frekar seint að sofa í gær. Var á velheppnuðum Stuttmyndadögum í Tjarnarbíó (mikið kann ég vel við það bíó) vel fram yfir miðnættið. Mynd okkar, Hádegi, var þar til sýnis, en því miður vann hún ekki til verðlauna. Ég er mjög fúll með það, enda mikil snilld þar á ferð. Líklega voru múturnar ekki nógu háar. Efnahagsuppgangurinn hefur gert dómnefndir ótrúlega frekar til fjárins. Jæja. Myndin sem lenti í þriðja sæti var frábær. Mér fannst hún best af þeim stuttmyndum sem ég sá (en það voru 60 stk. á hátíðinni). Hún er eftir gamla nágranna minn af Mánabrautinni hann Tómas. Ég vissi ekki að Tómas væri svona mikill snillingur í að gera teiknimyndir. Helping hand heitir mynd Tómasar og fjallar um unga skólastúlku sem verður fyrir áreiti skólabræðra sinna, en hún hefur ráð undir rifi hverju. Myndina í öðru sæti sá ég að hluta, hún var á spænsku eða ítölsku og þar sem það var enginn texti notaði ég tækifærið og fór út í pásu, get því ekki dæmt um gæði hennar. Myndina sem vann, sá ég ekki.

Aðstandendum Stuttmyndadaga óska ég til hamingju með framtakið. Nokkrar myndir voru áhugaverðar, skemmtilegar og vel gerðar, en mun fleiri myndir voru áhugaverðar og skemmtilegar, en hefðu mátt vera betur gerðar, einkum m.t.t. hljóðs. En þetta er kjörinn vettvangur fyrir kvikmyndagerðarmenn sem eru að stíga sín fyrstu spor, því engin nefnd settist í dómarasætið og vinsaði úr myndir á hátíðina, heldur fengu allir að njóta sín og svo sá þriggja manna dómnefnd um að velja þær bestu að þeirra mati.

Að mínum dómi ætti að setja svona hátíð á vefinn svo áhugasamir geti horft á myndirnar „in the comfort of their own home“ svo gripið sé til auglýsingafrasa. Margir eiga ekki heimangengt sökum elli eða landfræðilegrar legu. Ég ætla að setja Hádegi á vefinn fljótlega og mun senda út um það fréttatilkynningu til þjóðarinnar þegar það gerist.


Vertu Þaraður

Ég ætla í samkeppni um sölu aflátsbréfa við Kolvið undir nafninu Þaraður.is. Mín hugmynd er miklu sniðugri og ódýrari en Kolviðar.

Fyrir mengunardrulluna sem druslan þín spreðar út í loftið skal ég fleygja 100 afleggjurum af þara út í Faxaflóa. Fyrir aðeins 10.000 krónur mun ég friða samvisku þína, ekki bara í ár, heldur til eilífðar. Ef þú hugsar um það, kæri mengunardrulluhali, þá er mitt tilboð miklu betra og hagstæðara en Kolviðar. Ég tryggi 100% lausn undan nagandi sektarkennd, samviskubiti og öryggisleysi. Lífið mun brosa við þér, einmanaleiki og minnimáttarkennd hverfa eins og höglin gerðu í hretinu í gær. Þér mun aldrei framar líða eins og aumingja sem átt ekkert skilið og ekkert getur.

Kæri lesandi, láttu ekki gáfusvipinn á veðurfræðingnum í auglýsingum Kolviðar blekkja þig, komdu heldur til mín og láttu mig um að snúa lífi þínu til betri vegar. Í kaupbæti færðu iðagrænan hafsbotn í kring um landið, betra loft í lungun og grænan rafgeymi til að setja á arinhilluna.


Þessir umhverfisverndarsinnar

Í framhaldi af síðustu færslu langar mig að birta eitt af póstkortunum á Postsecret.com frá því á sunnudag. Þetta póstkort afhjúpar með eftirminnilegum og frumlegum hætti hræsnina sem einkennir svo marga svokallaða umhverfisverndarsinna. 

Umhverfishræsni

 

 

 


Áherslan á stöðugar framfarir

Í fáum orðum sagt er tal og skrif manna sem lýst hafa andúð sinni á áherslunni á stöðugar framfarir, þvæla frá rótum. Þeir eru jafn mikið úti að aka og borgarstjórinn í París árið 1880 sem sagði að nú væri búið að finna svo margt upp að nú mætti láta staðar numið. Sjónarmiðin um stóriðjustopp sem sumir hafa haldið á lofti eru angi af þessu, sjónarmið um að nú sé rétt að hætta að eltast við efnisleg gæði eru angi af þessu. Það er ekki alveg ljóst hvað nákvæmlega þeir eru að fara fram á, en óhætt er að fullyrða að það er einhvers konar þrá eftir staðnaðri, einfaldri fortíð, sem þó var aldrei einföld. Er einungis einföld í huga þeirra. Eru vitrir eftir á. Að sama skapi eru þeir vitlausir fram á við því „eitthvað annað“ er engin sýn.

Framfarir eru náttúrulögmál

Strögglið er óaðskiljanlegur hluti lífsins. Baráttan um að para sig, fjölga sér, fæða sig og klæða, gera betur, bæta sig, verða betri, ná betri tökum á lífinu og náttúrunni, ala börnin betur upp, bjóða þeim betra umhverfi, menntun, húsaskjól, tækni, mat. Tryggja okkur betur gegn áföllum, vera betur í stakk búin fyrir viðfangsefni, leysa þrautir, sigrast á keppinautum í viðskiptum, íþróttum, athygli, atvinnugrein, listgrein. Að eiga nýrri bíl eða sjónvarp en náunginn er eðlilegur hluti þessa lífselements, þessa óaðskiljanlega elements. Framfarir eru ekki krafa, heldur náttúrulögmál.

Úr takti við árnið lífsins 

Svo eru vitaskuld aðrir sem kjósa einfalt líf og sækjast ekki eftir neinu og berjast ekki fyrir neinu og eru sáttir við litla sitt. Ég þekki þannig fólk. En það er ekki í predikunarstól, bókarskrifum, glærusýningum, sjónvarpsþáttum, leikritum eða greinarskrifum að básúna sjónarmið sín. Nei, það er samkvæmt sjálfu sér og er lítillátt. Hinir sem sjá hjá sér knýjandi, jafnvel trúarlega þörf, til að afneita eðlilegum hluta lífsins, eru að því til þess eins að koma sjálfum sér til áhrifa og valda. Þótt það líti út fyrir að verið sé að taka málstað t.d. náttúrunnar, er það aðeins yfirvarp. Stöðvum allt svo við fáum ráðrúm til að átta okkur á hvar útdeila skal verkum. Þó er það á allra vitorði að afturhaldssinnar af þessu tagi hafa engar hugmyndir um hvað skal gera, enda eru þeir úr takti við árnið lífsins (sumir hafa stolið hugmyndum frjálshyggjunnar og selt þær öllum stækustu andstæðingum þeirrar sömu frjálshyggju, án þess að þeir föttuðu það). Hugmyndirnar eru iðulega rómantískt óraunsæi í bland við ríka valdaþrá. Eldfjallagarður á Reykjanesi er dæmi um innantóma rómantíska hugmynd sem er lýsandi fyrir valdabrölt þeirra. Vilja skilgreina og sölsa undir ríkið afmarkaðan skika og hleypa svo allra náðarsamlegast ferðamönnum að eftir sínum reglum og sínu höfði. Það myndu ekki líða mörg ár þar til knýjandi þörf væri á að að selja aðgang að garðinum vegna viðvarandi rekstrarhalla (ástæðu) og mikilvægi þess að vernda náttúruna enn betur (fyrirsláttar).

Eftirávit er minna en hálfvit 

Eftirávit er nánast móðgun við orðið vit, því það er svo auðvelt að vera vitur eftir á. Enginn sá fyrir að efnahagsumbætur ríkisstjórna Davíðs Oddssonar myndu auka velmegun svo mikið í landinu að minni þörf væri að halda áfram að virkja fallvötn og selja til álgerðar. Eða að slíkar framkvæmdir myndu hafa neikvæð áhrif á aðra atvinnustarfsemi í landinu sökum þenslu (húsnæðislán bankanna voru líka ófyrirséð sem og afleiðingar þeirra). Mikill efnahagsuppgangur sem heimurinn nýtur núna vegna alþjóðavæðingarinnar, sem n.b. margir virkjanaandstæðingar eru á móti, hefur breytt stöðunni mjög svo nú eru fleiri möguleikar fyrir Ísland en áður. Þetta sáu menn ekki fyrir. Þegar þessir hlutir eru orðnir lýðum ljósir mæta gagnrýnendurnir með sitt eftirávit og segja: Við þurfum ekki virkjanir, við þurfum ekki álgerðir, við erum svo rík að við getum gert eitthvað annað. 


Síðasta myndin á Pravda

Þetta mun vera síðasta ljósmyndin sem tekin var á Pravda. Fleiri myndir er að finna hér.

Síðasta myndin á Pravda


Drullusokkar á tilboði

Drullusokkatilboð Björn Bjarnason hefur mátt þola að ósekju, eða fyrir þá sök eina að vera ósammála og láta ekki vaða yfir sig, afar ósmekklegar árásir frá Jóhannesi Jónssyni og Hreini Loftssyni. Auk þess að ráðast á Björn eru þeir að grípa síðasta hálmstráið til að ráðast á Davíð í gegn um Björn. Hann er þeirra Albanía. Þessar viðbjóðslegu árásir eiga ekki annan fót fyrir sér en vera ofbeldi gegn þeim sem vogað sér hefur að vera ósammála þeim og STUTT ÞAÐ MEÐ DÆMUM. Það er því sannarlega rétt að í Bónus séu drullusokkar í miklu úrvali. Vel má vera að málareksturinn gegn Baugi hafi verið brogaður, en ekki má gleyma því að það var fyrrum viðskiptafélagi þeirra sem hóf hann. Þegar rykið fellur og samsæriskenningarnar þurfa að standa einar og óstuddar, kemur í ljós að málið er tiltölulega einfalt. Og það er einmitt það sem Jónannes Jónsson getur ekki horfst í augu við. Á eftir honum hleypur svo skósveinninn Hreinn Loftsson og apar eftir honum þvæluna. 

Ég vona að Geir Haarde beri gæfu til að sjá í gegn um sjónarspilið og leggist ekki gegn því að Björn verði ráðherra dómsmála áfram. Ísland þarfnast þessa manns. Hann hefur gert marga góða hluti í embætti og það væri ósvinna að láta undan þrýstingi drullusokkanna í Bónus. 


mbl.is Hreinn: Dómur kjósenda um verk Björns liggur fyrir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Argasti dónaskapur

Mér finnst nú illa komið fram við þær ballerínur sem kjósa að dansa á Evuklæðunum. Það er engu minni list þótt það sjáist í bert Venusbergið. Ég trúi ekki öðru en að nú leggist skattur á allan dans í Noregi, líka þann sem stundaður er í fötum. Ef ekki má fara í kringum lögin og dansa í sokkunum. Sokkaballett gæti orðið blómleg listgrein í Noregi, því fátt er fegurra en karlmaður í sokkum einum fata.


mbl.is Venusarklæðin beri virðisauka
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.1.): 1
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 114499

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 9
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband