Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Dægurmál

Myntkörfulánið mitt

Þegar til stóð að kaupa skrifstofuhúsnæði fyrir einu og hálfu ári fórum við yfir þá kosti sem í stöðunni voru. Annarsvegar taka innlent lán með himinháum vöxtum og verðtryggingu, hinsvegar taka myntkörfulán með lágum vöxtum en gengisáhættu. Það var sama hvernig var reiknað, það lá í augum uppi að myntkörfulánið borgaði sig. Jafnvel þótt gengið hrapaði niður úr öllu valdi var það samt skárri kostur en innlenda lánið. Með öðrum orðum: Krónan var verðlögð út af markaðnum. Hagstjórnin sem fólst í þessum háu vöxtum og verðtryggingu er sá fleygur sem nú stendur í hjarta krónunnar.

Hagstjórnin var heimóttarleg og gerði, að því er virðist, ekki ráð fyrir að Ísland væri hluti af fjórfrelsinu þar sem fjármagn flæðir óheft milli landa. Þetta er álíka heimskulegt og bannið við áfengisauglýsingum í íslenskum blöðum, en eins og kunnugt er eru erlend blöð með áfengisauglýsingum á hverju íslensku heimili.

Þeir sem stóðu fyrir þessari hagstjórn eru þeir sem bera meginábyrgð á stöðu þjóðarinnar í dag. Það er samt óþarfi að krefjast þess að þessi eða hinn segi af sér. Þeir eru þegar búnir að segja af sér með gerðum sínum.


Pottþétt kreppa

Gjafmildi Glitnis eru engin takmörk sett, enda er þín velferð þeirra verkefni, sem hefur jú komið á daginn. Nú hefur Glitnir gefið út í samvinnu við Skeinu nýjasta Pottþétt diskinn, Pottþétt kreppa. Verður honum dreift ókeypis inn á hvert heimili í landinu og afgangseintökin gefin til viðskiptavina íslensku bankanna í Bretlandi og Hollandi.

Pottþétt kreppa

Lögin á diskinum eru ekki af verri endanum og öll hugsuð til að létta fólki lundina í kreppunni sem nú gengur yfir:

1. Hjálpaðu mér upp, Nýdönsk. 2. It's a hard life, Queen. 3. Can't walk away, Herbert Guðmundsson. 4. The winner takes it all, Abba. 5. Er nauðsynlegt að skjóta þá? Bubbi Morthens. 6. I need a miracle, Fragma. 7. Á tjá og tundri, Sálin hans Jóns míns. 8. Run to the hills, Iron Maiden. 9. Hamingjan er krítarkort, GCD. 10. I'm going down, Bruce Springsteen. 11. Þau falla enn, Sálin hans Jóns míns. 12. Ég vil fá að lifa lengur, Todmobile. 13. All by myself, Eric Carmen. 14. Sirkus Geira smart, Spilverk þjófanna. 15. Highway to hell, AC DC. 16. Til hamingju Ísland, Silvía Nótt. 17. Exodus, Bob Marley.

Myndböndin við þessi lög eru að finna á síðunni hans Begga en við félagarnir hjá Skeinu aðstoðuðum Glitni við val á lögum. Góða skemmtun!


Stjórnmálamenn án ábyrgðar

Þrátt fyrir að Gordon Brown hafi hlotið lof fyrir framgöngu sína við björgun bankanna, er það aðeins piss í skónum hans. Það blasir við nú öllum að Verkamannaflokkurinn hefur stjórnað landinu af fullkomnu getuleysi undanfarin ár. Þeir skuldsettu landið óhóflega og létu blindast meðan fasteignabólan blés æ meira út í stað þess að grípa í tauma og safna í sjóði. Nú þegar harðnað hefur á dalnum hafa þeir ekkert bolmagn, eins og til dæmis Svíþjóð og Ástralía, til að aðstoða fjármálakerfið og verða að leita út fyrir landsteinana undir því yfirskini að hér sé um alþjóðlegan vanda að ræða. Rétt er það alþjóðlegur er hann, en vandinn er stærstur í heimi, fyrir utan etv. Ísland, í Bretlandi. Örvæntingarfullar tilraunir til að afla sér vinsælda með því að ráðast á Ísland eru til marks um getuleysið, vitnisburður um veikleika. Dagar Browns og meðreiðarsveina hans við stjórnvölinn í Bretlandi eru taldir. Þeir fara frá eftir næstu kosningar.

Brown og verkamannaflokkurinn eru líkir sumum íslenskum stjórnmálamönnum að því leyti að þeir hafa safnað skuldum í góðærinu og hlaupa svo frá þeim og kenna öðrum um. Ef ekki Íslandi, þá kapítalismanum. Þeir sem stjórnuðu Reykjavík lengi vel, R-listinn svokallaði, skuldsettu borgina í botn og hlupu svo frá öllu saman og bera enga ábyrgð. ENGA ÁBYRGÐ. Nú er höfuð þess lista utanríkisráðherra eins og ekkert hafi í skorist. Þessu þarf að breyta, stjórnmálamenn verða að sæta ábyrgð ef þeir reka ekki þær stofnanir og fyrirtæki sem þeim er treyst fyrir innan áætlana. Setja þarf í lög að þeir verði að segja af sér ef áætlanir standast ekki. Hvernig sem því er komið um kring, verður að auka ábyrgð stjórnmálamanna. Það gengur ekki að þeir geti yppt öxlum ef allt er í mínus og kennt öðrum um. Heimurinn er að súpa seiðið af stjórnmálamönnum sem enga ábyrgð bera.

Stærsti vandinn er etv. sá að stjórnmálamennirnir líta ekki í eigin barm, heldur auka völd sín með heftandi reglum og eftirlitsstofnunum, þvert á það sem á að gera: Að sjá búa svo um hnútana að hver og einn beri ábyrgð á gerðum sínum. Flóknara er það ekki. Meðan hópur manna hefur frítt spil, ber enga ábyrgð, er ekki von á góðu.


Ekki lengur á nóttunni?

Mér finnst það nú fyrir neðan allar hellur að ekki skuli lengur unnið á nóttunni við þetta þjóðhagslega mikilvæga hús. Þeir sem segja að það hafi verið einkennandi fyrir bruðlið að unnið hafi verið á nóttunni hafa einfaldlega rangt fyrir sér. Afköstin aukast á nóttunni þegar enginn er að trufla. Kaupið hækkar að vísu aðeins, en hvað er það á milli vina?
mbl.is Leita leiða til yfirtöku Tónlistarhúss
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Frábært framtak

Þetta er frábært framtak, því handþvottur er trúlega besta forvörn gegn sjúkdómum sem fyrirfinnst. Ástæðan fyrir því að kvef fer á kreik um miðjan vetur er ekki kuldi heldur sú staðreynd að fleiri dveljast innandyra með skítugar hendurnar og smita hver annan.


mbl.is Fyrsti alþjóðlegi handþvottadagurinn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sparnaðarráð

Nú er að spýta í lófana og spara. Draga úr kostnaði, draga úr yfirbyggingu, draga úr útgjöldum. Ef Ísland á að komast út úr þessari kreppu er nauðsynlegt að grípa til aðgerða.

Fyrsta mál á dagskrá er að leggja forsetaembættið niður. Við höfum ekki efni á að vera með sjálfskipaðan útrásarvíking á kostnað ríkisins að opna dyr í útlöndum. Forsetaembættið hefur trúlega stórskaðað íslenska hagsmuni með gaspri sínu og þeirri blekkingaráru trausts sem slíku embætti fylgir. Í fylgd með forsetanum fengu nýju vinir forsetans meiri og betri fyrirgreiðslu sem var gersamlega innihaldslaus; öll á ábyrgð ríkisins sem hafði ekkert bolmagn til að standa að baki því. Forsetaembættið er auk þess flekkað, það er rúið trausti, hlegið er að því í útlöndum.

Ég er því miður ekki með tölurnar um kostnað embættisins á ári, en það eru örugglega nokkur hundruð milljónir. Fyrir slíkar upphæðir má gefa mörgum fjölskyldum í vanda nýja von.


Forsetakortið

Í tilefni af skipbroti útrásarinnar og þess að lofrullunni um forsetann þurfi að breyta, vonandi þó bara í inngangi og eftirmála, en allsekki víðar í bókinni, hefur Egozetntric™®© ákveðið að setja á markað nýjan bol sem auglýsir besta kreditkort í heimi. Forsetakortið sem er gefið út af ríkinu og greitt af ríkinu.

Hver kannast ekki við að hafa eytt um efni fram? En ekki lengur, með nýja forsetakortinu þarf enginn að hafa áhyggjur af fjárhagnum. Klipptu gull- og silfurkortið með skærum og fáðu þér forsetakortið. Sveiflaðu forsetakortinu og þú færð far milli landa með ríku köllunum á einkaþotunum, lyftu forsetakortinu í búðum og þú þarft ekki einu sinni að borga, láttu glitta í forsetakortið og þú færð hádegismatinn frítt. Sýndu forsetakortið og þú labbar óáreittur inn í fínustu veislur veraldar þar sem hvert borðið svignar undan kræsingum í boði skattgreiðenda. Það besta við forsetakortið að reikningurinn fer beint til ríkisins, án athugasemda. Egozentric™®© er stolt af því að fá að kynna þessa nýju og glæsilegu vöru á bolalínu fyrirtækisins.

Meðal þess sem kortinu fylgir eru 10 þúsund mínútur af ókeypis kjaftaviti. Áður en þú veist af ertu farinn að tala um aðskiljanlegustu hluti eins og þú hafir heilmikið vit á þeim; verður jafnvel sérfræðingur á ýmsum sviðum, jafnvel meiri sérfræðingur en vísindamenn með áratuga rannsóknir að baki. Kortið gerir þig að ígildi auðjöfurs og þeir líta á þig sem jafningja sinn og samherja. Hafir þú einu sinni verið eldheitur sósíalisti með helsta markmið lífsins að berjast gegn kapítalistum, hverfur það við fyrstu straujun og þú gerist ákafur kapítalisti með markaðshyggju, útrás og framsækni að aðalbaráttumáli.

Þeir sem sækja um forsetakort fyrir 25. október fá pakka með 100 álkuorðum frá Egozentric™®© sem þeir geta útbýtt að vild.

 Forseta kreditkort
Forsetakreditkort. Stærð 1-100. Litur: Svart með gullkorti. Gefðu kreppunni langt nef og fáðu þér forsetakortið, láttu almúgann borga brúsann af útrásinni en lifðu sjálfur í vellystingum á kostnað ríkisins. Verð aðeins 15990 kr.
mbl.is Forsetabók afturkölluð úr prentsmiðju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Við erum í öskustó Clintons

Ef demókratar halda að þeir komist upp með það að hafa valdið þessari fjármálakrísu með misnotkun á bandarísku íbúðalánasjóðunum er það mesti misskilningur. Fjölmiðlar verða að upplýsa hvernig þessir menn, á tímum Bills Clinton í forsetastóli, tóku að lána hin svokölluðu undirmálslán. Þetta er of mikilvægt mál til að horfa framhjá því í hráskinnaleik stjórnmálanna.
mbl.is Clinton: Munum rísa úr ösku Bush
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bankamenn eða stjórnmálamenn?

Hverjir bera meiri ábyrgð á því að þjóðarskútan sökkvi ekki, bankamenn og kaupsýslumenn eða stjórnmálamenn sem kosnir eru til að halda henni á floti?


Bretar leita alþjóðlegrar aðstoðar

Það er áhugavert að sjá að nú segja Bretar að þeirra vandamál verði að leysa með sameiginlegu átaki margra þjóða. Íslendingar fóru fram á svipað í þeirra vandræðum en fengu ekki. Líkindin eru töluverð þótt ástæðurnar séu aðrar. Bretland er eitt skuldsettasta ríki í heimi og undanfarnin ár hafa gömlu, vanhæfu kommúnistarnir sem þar stjórna, ekki búið í haginn með greiðslu skulda og lækkun skatta heldur þvert á móti sóað almannafé og haldið sköttum háum. Nú þegar harðnar verulega á dalnum hafa þeir ekkert svigrúm til aðgerða og verða að leita út fyrir landsteinana undir því yfirskini að „nú þurfi sameiginlegt átak“.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.1.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband