20.4.2009 | 07:26
Stjórnmálin
Ég hef nú ekki fylgst mikið með kosningabaráttunni, en ég tók þó eftir að Þráinn Bertelsson er í forsvari fyrir Borgarahreyfinguna sem er víst sjálfskipaður fulltrúi þjóðarinnar í stjórnmálum, réttlátri reiði og einhverju fleiru. Þrátt fyrir að vera allur af vilja gerður á ég erfitt með að sjá Þráinn Bertelsson fyrir mér sem ferskan vind á Alþingi eða bara hvar sem er (þótt hann sé góður kvikmyndagerðarmaður). Jæja, ég ætla nú ekki að níða niður þetta framboð sem margir vina minna eru í. Vonandi afneita þeir mér ekki fyrir að velja annað fótboltalið en þjóðina.
Stjórnmálaflokkar eru einmitt ekki ósvipaðir fótboltaliðum, eru hópur manna með það markmið að koma sjónarmiðum sínum í framkvæmd. Sumir velja að halda með einu liði, aðrir halda með því liði sem vinsælast er hverju sinni. Aðrir velja að halda með liðum sem kallast geta litla liðið, minnipokarnir (stjórnmálaflokkar endurspegla að sumu leyti hvernig menn upplifa sjálfa sig). Í upphafi keppnistímabilsins, eða kjörtímabilsins, velur maður að halda með einu liði í þeirri von að það lið muni gera góða hluti. Líkingin við fótboltaliðið er mjög nálægt sanni vegna þess að verið er að ákveða að styðja einhvern án þess að árangur sé tryggður. Kosningin er von. Í þessum kosningum er staðan öll önnur en venjulega. Það fer ekkert á milli mála að ég veit hverjum ég treysti ekki til að fara með stjórn landsmála. Vinstri grænir eru úti að aka í efnahagsmálum og munu aðeins skemma enn frekar fyrir þjóðinni álpist þeir í ríkisstjórn (eru búnir að sýna það á þeim stutta tíma sem þeir hafa verið við völd). Eina sem þeir hafa fram að færa sem vit er í er andstaðan við ESB, en þeir virðast ætla að selja sig eins og hver önnur mella í því máli. Samfylkingin stillir fram sama gamla liðinu og áður og ekki er það hópur að mínu skapi, afglapar á afglapa ofan. Það virðast allir búnir að gleyma að Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson, voru ráðherrar í síðustu ríkisstjórn. Framsóknarflokkurinn er búinn að vera. Frjálslyndir líka. Borgarahreyfingin er eins og liðið sem komst upp úr annarri deildinni og ætlar nú að keppa í fyrstu deild. En þeir stilla fram Þráni Bertelssyni! Æjæ. Getur hann eitthvað í fótbolta? Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið villur vega undanfarin ár. Ríkisútgjöld og umsvif hafa þanist út og þeir stóðu ekki við eigin loforð um skattalækkanir. Skattalækkunarsvikin voru vísbending um að Geir væri ístöðulaus og í raun ekki fær um að leiða flokkinn (gott að vera vitur eftir á). Ríkisvæðing stjórnmálaflokkanna eru hneyksli, ekkert minna. Ég hef gagnrýnt þann flokk í riti undanfarin misseri og ár svo því sé haldið til haga. Plúsinn við Sjálfstæðisflokkinn er að þar hefur orðið mest endurnýjun og hann er ekki á þeim buxunum að skríða í ESB og margir þar innanborðs vilja henda krónunni og koma á gjaldmiðlafrelsi. Á þeim forsendum hyggst ég veðja á Sjálfstæðisflokkinn þótt það sé gert með nokkru óbragði.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Mikið ertu klár. Þetta er svo til alveg eins og talað frá mínu hjarta. Þegar Sjálfstæðisflokkurinn er búin að leggja efnahag landsins í rúst að vísu með hjálp framsóknar, þá er bara að skamma alla aðra fyrir það. Því segi ég við ykkur háttvirta kjósendur.
Því skuluð þið ekki taka mark á neinu nema auglýsingum gæsalappa sjálfs og setja exið fyrir framan D-ið. D-ið þýðir nefnilega drottinn blessi þig.Ragnar L Benediktsson, 20.4.2009 kl. 15:25
Ég tel samlíkinguna á milli stjórnmálaflokks og fótboltaliðs ekki vera alls kostar rétta. Bæði velur þjóðin stjórnmálaflokka og borgar þingmönnum laun á meðan knattspyrnan er ekki á vegum ríkisins.
Það er þó vissulega rétt hjá þér að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengið í gegnum mikla endurnýjun og staðið sig með mikilli prýði á borgarafundum sem og á öðrum vettvöngum. Því mun ég gefa þeim atkvæði mitt og trúi því að traust efnahagsstjórn verði byggð upp á næsta kjörtímabili og að Sjálfstæðisflokkurinn muni leiða okkur til endurreisnar.
Hilmar Gunnlaugsson, 20.4.2009 kl. 16:04
Alveg dáist ég af þér að taka svona djarfa og glænýja afstöðu.
Ekki gleyma því að það er með þínum atkvæðum, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf fengið, að alt er hérna komið í rúst.
Afsakaðu meðan ég æli.
Helgi Sverrisson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 14:17
Fátt er skemmtilegra en að þrasa um pólitík, sérstaklega þegar menn reyna að vera kaldhæðnir eða vísa í lárviðarskáldin.
Hjartanlega sammála ykkur. Sjálfstæðisflokkurinn lagði efnahag landsins í rúst í góðri trú á krónuna. Hann greiddi upp skuldir ríkisins, hélt genginu háu, allir gátu keypt hluti á hlægilega lágu verði. Hvernig ætli ástandið hefði verið ef ríkissjóður hefði verið skuldsettur eins og Borgin efir að R-listinn skildi við hana? Svarið er einfalt: Enn verra.
Mér líður svolítið eins og ég standi frammi fyrir tveimur kostum: Deyja strax eða deyja á 4 árum. Ég vel síðari kostinn í þeirri von að eitthvað gerist á árunum sem ég hef. Hvorugur kosturinn er góður.
Það hlakkar í kvikindinu í mér. Nú fá vinstri menn kjörið tækifæri til að sýna hvað í þeim býr. Ég þykist vita að þeir valda ekki verkinu sem fyrir höndum er. Helgi og Ragnar og allir hinir eiga eftir að komast að þessu „the hard way“.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 22.4.2009 kl. 15:03
Ég vitna gamlan sjálfstæðismann (Jónas Sigurgeirsson) sem sagði það erum við frjálshyggjumennirnir í flokknum sem drögum vagninn þegar kemur að því að stjórna hvert skal haldið hugmyndalega.
Sigurgeir það var ekki skuldastaða Reykjavíkur sem fór með landið á hausinn Er ekki fulllangt að teygja sig í þessa átt? Miklu frekar var það hin barnalega trú á að flokkurinn væri óskeikull þegar að efnahagsstjórnun kemur. Og ég get ekki sé betur en að þið trúið því enn.
Staðreyndin er að Sjálfstæðisflokkurinn dró þjóðina út í efnahagslegt hyldýpi.Hvort einhver kemur okkur upp úr því kemur í ljós.En það er ljóst hver dró vagninn út í kviksyndið og hverjir voru hugmyndafræðingarnir.
Helgi Sverrisson (IP-tala skráð) 22.4.2009 kl. 18:07
Ég held þú ættir frekar að skila bara auðu
Ársæll Níelsson, 23.4.2009 kl. 05:41
Það er stundum eins og menn gleymi að kreppan er alþjóðleg. Ástandið á Íslandi er enn verra en annars staðar einkum vegna krónunnar. Sjálfstæðisflokkurinn á sök á því. Hannes Hólmsteinn lagði til í bók fyrir 25 árum að komið yrði á gjaldmiðlafrelsi á Íslandi. Gamli sjálfstæðismaðurinn Jónas Sigurgeirsson benti mér á þetta um daginn. Ef það hefði verið farið að ráðum Hannesar þá værum við ekki í þessum sporum í dag. Þannig að það er ekki rétt að hugmyndafræðingarnir hafi dregið vagninn út í kviksyndið. Það var ekki á þá hlustað, því miður. Áhrifamiklir menn í Sjálfstæðisflokknum (D.O. ofl.) vildu krónuna, töldu hana það besta fyrir Ísland vegna sveigjanleikans sem í henni er fólginn og þeim tækifærum sem gefast í hagstjórn með stýrivöxtum. Engum datt í hug fyrir hrunið, eða amk. mjög fáum, að krónan væri jafn ónýt og komið hefur á daginn. Það skiptir ekki máli hvaða flokkur hefði verið við völd undanfarin ár eða áratug, enginn flokkur hafði á stefnuskránni að skipta krónunni út. Og margir telja að við getum ekki tekið upp Evru nema ganga í sambandið. Það er furðuleg þröngsýni. Ekkert er okkur að vanbúnaði að taka upp hvaða bévítans gjaldmiðil sem er. Dæmi: Fiskútflytjandi fær greidda dali fyrir afurðirnar. Fiskútflytjandinn greiðir starfsfólki fyrirtækisins hundraðshluta í laun í dölum fyrir sína vinnu. Krónan þarf ekki að koma neins staðar nærri.
Ég nefndi skuldir Reykjavíkur sem dæmi um getu Samfylkingarinnar til að stjórna landinu. Fyrst þeir geta ekki rekið Reykjavík sómasamlega, er nokkur von til þess að þeir geti rekið ríkiskassann? Ég tel svarið við því blasa við.
Ég hugleiddi að skila auðu. En við þessar kringumstæður finnst mér ekki rétt að gera það. Veit ekki hvers vegna. Það er miklu betra að skila auðu en að kjósa ekki. Það að kjósa ekki er fyrirlitning á lýðræðinu og kostunum, en að skila auðu er bara fyrirlitning á kostunum.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 23.4.2009 kl. 17:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.