6.11.2008 | 07:15
Íbúðalánasjóður ríkisins
Þegar Kaupþing hóf 2004 að lána til íbúðakaupa á betri kjörum en Íbúðalánasjóður ríkisins, einn einkabanka á Íslandi, sáu margir sér leik á borði og tóku lán hjá Kaupþingi og greiddu upp eldri lán hjá Íbúðalánasjóði ríkisins.
Kaupþing náði nokkru markaðsforskoti með þessu útspili og hefði vafalaust haldið því forskoti á aðra einkabanka landsins ef ekki hefði komið til hver annar en Íbúðalánasjóður ríkisins?
Peningarnir sem hrúguðust í sjóði Íbúðalánasjóðs ríkisins þegar viðskiptavinir Kaupþings greiddu upp lánin voru þá umsvifalaust lánaðir áfram til Landsbankans, Glitnis og Sparisjóðanna sem hófu samstundis að bjóða viðskiptavinum sínum íbúðalán með tilheyrandi auglýsingum og sölumennsku.
Óhætt er að fullyrða að þessi aðgerð Íbúðalánasjóðs ríkisins jók þenslu á fasteignamarkaðnum; hækkaði verð með aukinni eftirspurn kaupenda með gnægð lánsfjár í höndunum. Ekki sló það á þensluna að Íbúðalánasjóður ríkisins hafði skömmu áður, að undirlagi Framsóknarflokksins, ákveðið að hækka lánshlutfall í 90%.
Í fréttunum nýlega var viðtal við forstjóra sjóðsins, framsóknarmanninn Guðmund Bjarnason, þar sem fram kom að skuldir bankanna við hann væru 100 milljarðar. Það er sem sagt talan sem sjóðurinn lánaði bönkunum.
Íbúðalánasjóður ríkisins er enn eitt dæmið um að affarasælast er að stjórnmálamenn, ríkið öðru nafni, komi hvergi nálægt lánastofnunum og peningamálum yfirleitt. Þessi sjóður á stærsta sök á erfiðleikunum sem margir glíma við í dag vegna kaupa á fasteignum á uppsprengdu verði. Mikilvægt er að hafa þetta í huga við endurskipulagningu bankakerfisins. Ég er að vísu nokkuð svartsýnn á að stjórnmálamenn taki undir þetta vegna þess að þeir líta sjaldnast í eigin barm og leita sökudólganna, með aðstoð lögreglu- og skattayfirvalda, í einkageiranum. Stjórnmálamenn eru ekki settir undir neinar eftirlitsstofnanir og þurfa að því er virðist aldrei að bera ábyrgð. Hlaupast bara undan henni og komast upp með það. Bent hefur verið á að kosningar séu stóridómurinn, en þegar stjórnmálamenn tapa í kosningum fá þeir yfirleitt feit embætti í staðinn. Kosningaábyrgðakerfið virkar ekki þegar flokksmenn raða á listana, setja til dæmis vin sinn og félaga, sem jafnframt er óhæfur stjórnandi sem gengur bak orða sinna og hleypur frá skuldum, í efsta sæti. Kjósendur geta þar með ekki refsað viðkomandi þótt þeir vildu.
Hvað ætli bankamálaráðherrann okkar, Björgvin G. Sigurðsson, segi um stöðuna í landsmálunum í dag? Æjæ, hún virkar ekki heimasíðan hans. Furðulegt hvað það ætlar að taka langan tíma að endurskoða hana. Ég sem hélt að samræðustjórnmálin væru efst á lista hans. Getur verið að hann sé að hlaupast undan orðum sínum?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.