Færsluflokkur: Dægurmál
5.3.2009 | 19:39
Matarkarfan.is
Matarkarfan er besti vinur buddunnar, hún er jákvæður punktur í tilverunni. Matarkarfan hjálpar okkur að fylla ísskápinn á hagkvæman hátt. Til dæmis ef til stendur að borða kjúkling um helgina. Þá er fyrsta skrefið að fara á matarkarfan.is og athuga hverjir eru að bjóða ódýran kjúkling.
Matarkarfan.is er hugarfóstur fóstbræðranna Svavars og Orra og er í umsjón fóstsystur okkar Katrínar Jónsdóttur. Við hvetjum alla vini til að líta við, skrá sig á póstlistann og fá tilboð send heim í hverri viku. Við viljum aukna samkeppni, meira gegnsæi á markaðnum og umfram allt meiri jákvæðni gagnvart kaupmönnum. Það hefur verið hamast of mikið á þeim undanfarin ár. Vel má vera að sumir hafi misnotað sér markaðsráðandi stöðu, en staðreyndin er engu að síður sú að ríkið, stjórnmálamennirnir okkar, eru helstu óvinir íslenskra neytenda. Það eru þeir sem setja á verndartollana og þeir sem setja á vörugjöld (eða neita að afnema þau) og hvað þetta heitir nú allt.
Á Matarkörfunni er líka fréttastofa sem flytur fréttir af matvörumarkaðnum og líka af áhugaverðum málum sem eru í deiglunni. Nýjasta fréttin er til dæmis af áttburamömmunni Nadyu Suleman, en hún er að gera allt vitlaust hérna í Bandaríkjunum.
Dægurmál | Breytt 6.3.2009 kl. 01:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
4.3.2009 | 08:16
Fingur annarrar handar
Hver kannast ekki við það að hafa logið eins og hvert annað svín? Sagt eitthvað teljandi á fingrum annarrar handar þegar í raun þurfti báðar hendurnar í talninguna og jafnvel tærnar líka? En ekki lengur. Nú hefur góður viðskiptavinur sett á markað nýja vöru, fingurágræðslu, fyrir þá sem vilja geta notað frasann áfram án þess að gerast auvirðilegur lygari. Egozentric®© París, London, New York, Tókíó, tekur þátt í markaðsherferðinni í von um gróða. Hugsa sér! Ef Egozentric®© fengi krónu í hvert skipti sem stjórnmálamenn ljúga!
Fingur annarrar handar. Litur rauður. Stærð 1-100. Vertu heiðarlegur, verur ærlegur, vertu ólyginn. Ekki teygja á sannleikanum bættu frekar við puttum. Puttaðu það niður og fáðu þér bol. Verð aðeins 50 dalir. Hálft prósent af virðisaukaskattinum rennur óskiptur í lygamælasjóð ríkisins.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.2.2009 | 20:42
Sigurgeir Orri fordæmir Bandaríkin
Bandaríkin fordæma hvalveiðar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
26.2.2009 | 03:59
Hass lögleitt í Kaliforníu?
Mikil eru vandræði Kaliforníuríkis. Það á engan pening. Til að grynnka á skuldunum hyggjast stjórnmálamenn þess lögleiða hassið, gera það að venjulegri söluvöru og setja á það skatt og stoppa með honum upp í gatið á fjárlögunum.
Þetta er einhver mesta snilldartillaga sem frá nokkrum stjórnmálamanni hefur komið. Ég held að ekkert ríki á jarðkringlunni hafi fleiri einstaklinga í fangelsi fyrir hasssölu, -reykingar eða -ræktun en Kalifornía. Um leið og lögleitt væri hassið mætti sleppa þeim gúbbum sem gerðust svo djarfir að vesenast með það (selja, neyta, smygla, rækta) og segja svo upp öllum þeim lögregluþjónum sem hafa ekkert betra að gera en eltast við hasshausa og öllum þeim fangavörðum sem hafa ekkert betra að gera en hanga yfir hasshausum. Stórkostlegur sparnaður!
Það líður ekki sá dagur að maður sjái ekki frétt um það á Íslandi að þessi eða hinn hafi verið gripinn við hassræktun og þaðan af verra. Hugsið ykkur hvað það mætti spara mikið í löggæslunni á Íslandi ef þeim heimskulega eltingarleik væri hætt og hver og einn látinn meta það, rétt eins og með áfengið, hvort hann setur efnin í líkama sinn eða ekki.
Með þessu er ég ekki að mæla hassreykingum bót, eingöngu að benda á hversu bannið við hassreykingum er heimskulegt. Með slíku banni er verið að taka rétt og stjórn af fólki, réttinn til að lasta og stjórnina til að taka ákvarðanir í eigin málum. Engum ætti að dyljast að dópneysla er hættuleg, hvort sem dópið heitir tóbak, hass eða áfengi. Hversvegna þá að mismuna dópinu? Hver er það nákvæmlega sem telur sig þess umkominn að meta hvað er gott og hvað er vont dóp? Þarf ekki að kæra þessa hróplegu mismunun til mannréttindadómstóls Evrópu? Herra dómari: Hvers vegna má kaupa áfengi úti í búð en ekki hass? Hvers á hassið að gjalda?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
25.2.2009 | 08:42
Mikil viðurkenning
Hætt við málssókn gegn Bretum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.2.2009 | 01:45
Ekki brautryðjandi
Án þess að lítið sé gert úr hlut Sigurðar í uppgangi og rekstri Loftleiða, er ekki rétt að kalla hann brautryðjanda. Þegar Alfreð Elíasson lagði til við stjórn félagsins að Lúxemborg yrði gerð að áfangastað félagsins í Evrópu var Sigurður Helgason alfarið á móti því og sagði það stappa nærri bilun að ætla að fljúga þangað. París og London væru aðalstaðirnir. Um þetta skrifaði hann langt bréf sem öllum er frjálst að lesa.
Munurinn á Lúxemborg og París og London var sá að Loftleiðamenn gátu ráðið verði flugfarsins þangað sjálfir, en flugferð til Frakklands og Bretlands kostaði fyrirfram ákveðið IATA-ríkisfargjald. Hefðu Loftleiðir farið að ráðum Sigurðar hefði fyrirtækið aldrei getað boðið lág fargjöld sem var forsendan að því að þeir náðu fótfestu á markaðnum í Bandaríkjunum.
Sigurður kom til starfa hjá Loftleiðum 1961 og gerðist þá yfirmaður Loftleiða vestanhafs. Markaðssetning Loftleiða í Bandaríkjunum fór fram á sjötta áratugnum þegar Sigurður var á Íslandi og stjórnaði steypustöð ásamt því að vera stjórnarmaður í Loftleiðum frá 1953. Sigurður Magnússon blaðafulltrúi Loftleiða fagnaði tíu ára afmæli Atlantshafsflugsins 1958 með því að segja að nú væru Loftleiðir komnar með fótfestu á hinum gjöfula markaði vestanhafs og spennandi væri að sjá hvar félagið yrði statt að tíu árum liðnum. 1968 var eitt af toppárum Loftleiða. Sigurður Magnússon sá að mikið var í vændum strax 1958.
Þótt margt megi eflaust gott segja um Sigurð, er rangt að segja að hann hafi verið brautryðjandi í ódýrum flugferðum, þar sem hann var á móti þeim í upphafi. Það er líka rangt að hann hafi byggt upp markaðinn í Bandaríkjunum.
Minningu Sigurðar er enginn greiði gerður með rangfærslum. Sagan mun vonandi dæma hann að verðleikum.
Sendi aðstandendum hans samúðarkveðju,
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurður ruddi lággjaldaflugfélögum braut | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
15.2.2009 | 04:48
Stjórnmálamenn og bankamenn
Ef þú vilt finna, á eigin skinni, hvernig uppskriftin að kreppu er skaltu láta þau boð út ganga að þú hyggist skrifa uppá víxla, í nafni réttlætis, bræðralags og samhjálpar, hjá öllum sem vilja. Stjórnmálamenn í stjórnum ríkisrekinna sjóða (Fanny Mae, Freddie Mac) skrifuðu upp á víxla, í nafni réttlætis, bræðralags og samhjálpar hjá öllum sem vildu. Það var uppáskrift að kreppunni sem nú er.
Bankarnir sem hrundu eru afleiðing af þessu ástandi, ekki orsök þess.
Þótt ljóst sé að stjórnmálamenn eigi stærsta sök á því hvernig komið er fyrir heimskúlunni nú um stundir hvað efnahagsmál varðar er engu að síður verið að auka þátt þeirra (raunar þeir sjálfir) í efnahagslífinu með stórkostlegum ríkisvæðingum og skrilljónaaustri fjár í smurningu á legur efnahagslífsins. Er ekki eitthvað bogið við það? Þetta er í sama anda og það sem kom okkur í klípu: Stjórnmálamenn að gera allt fyrir alla.
Það fer ekkert á milli mála að rót vandans er að finna í íbúðalánasjóðum ríkisins í Bandaríkjunum. Að beiðni og þrýstingi demókratískra stjórnmálamanna í valdatíð Clintons, sem vildu ólmir gera góðverk sín á kostnað annarra, fóru sjóðirnir að lána fólki án traustra veða og Bush-stjórnin hélt þessari vitleysu áfram. Svo fyrir einhvern misskilning eða vísvitandi svik voru þessir lánapakkar settir út í hagkerfið til annarra banka í vafningum sem ekki nokkur leið var að sjá að voru byggðir á sandi. Sprengmenntuðustu spekingar heims frá bestu skólum heims á hæstu launum heims með fullkomnustu tölvukerfi heims botnuðu ekkert í þessu. Líklega var þeim hjartanlega sama meðan allt lék í lyndi.
Munurinn á stjórnmálamönnum og bankamönnum er sá að stjórnmálamennirnir vinna við að tala, eru vanir að mæta í fjölmiðla og skýra sín sjónarmið og leka upplýsingum í handgengna blaðamenn. Þar af leiðandi eru sjónarmið stjórnmálamannanna meira áberandi í fjölmiðlum en bankamanna. Stjórnmálamennirnir kenna vitaskuld bankamönnunum um ófarirnar. Hvað annað?
Hitt er og vandamál að stjórnmálamennirnir sæta engri beinni ábyrgð. Þeir falla jú í kosningum eða draga sig í hlé. En þeir bera enga ábyrgð á stanslausum hallarekstri opinberra stofnana, eins og til dæmis Reykjavíkurborgar. Því þarf að breyta. Ef sú regla væri við lýði væri formaður eins stjórnmálaflokksins nú á Kvíabryggju eða í Litháen á skiptiprógrammi.
Ég ætla ekki að rausa meira um þetta í bili, en hvet lesendur til að láta ekki stjórnmálamennina blekkja sig. Ekki er úr vegi að spyrja næst þegar stjórnmálamaður ætlar að slá skjaldborg um heimilin: Myndi ég geta hjálpað öllum þótt ég hefði debetkort á ríkiskassann? Jafnvel þótt við horfum framhjá þeirri staðreynd að hann er tómur núna, sér hver maður að þetta gengur ekki upp. Er innihaldslaust kjaftæði. Er ekki komið nóg af því? Er ekki kominn tími til að hver og einn taki aukna ábyrgð á sér og gerðum sínum?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 04:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.2.2009 | 04:50
Rétta menntunin í starfið
Hver kannast ekki við að hafa áhyggjur af því hvort réttur maður sé í réttu starfi? Til dæmis ef þú færð litháíska smiði í vinnu sem kunna ekki að setja dyrakarm í vegg? En ekki lengur. Í nýju ríkisstjórninni er sérvalinn sérfræðingur í hverju rúmi. Egozentric®© sér í þessum mikla mannauð mikil tækifæri og hyggst græða á því. Það er ekkert launungarmál, enda ætti enginn að skammast sín fyrir að vilja græða. Þannig verða menn ríkir og minna óhamingjusamir. Þannig eykst verðmætasköpun í landinu.
Menntunarserían tekur á sig mynd og nýir sérfræðingar á réttum stað bætast í hópinn. Að þessu sinni er það enginn annar en sérfræðingurin og doktorinn í kynlífi Þingvallaurriðans. Þjóðin getur verið alveg róleg með svona snilling við stýrið í utanríkis- og bankamálum nú þegar mikilvægt er að taka yfirvegaðar og réttar ákvarðanir fyrir land og þjóð. Að ekki sé talað um á löggjafarsamkundunni þar sem viska í lögum er mikilvæg. Hann er nú einu sinni sérfræðingur í kynlífi Þingvallaurriðans? Er hægt að hafa það betra?
Treystið mér ég veit allt um fiskeldi. Litur rauður. Stærð 1-100. Ekki eyða tímanum í vitleysu, ekki eyða tímanum í að blogga blindfullur um miðjar nætur, eyddu tímanum í flottum bol og sýndu að þú metur menntun mikils. Verð aðeins 100 dalir. Með tíunda hverjum bol fylgir ókeypis dvd með Shrek 3: Hefnd öskukarlsins.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.2.2009 | 05:43
Peningar snúa jörðinni
Hver kannast ekki við það þegar rangur maður sér um fjármálin? En ekki lengur. Nú er rétti maðurinn mættur. Annar eins snillingur er vandfundinn. Hugmyndir hans eru djúpar, vitrar og margreyndar, einkum í austurvegi og munu valda því á aðeins nokkrum vikum að smjör drýpur af hverju strýi á Íslandi þegar þjóðin segir skilið við óþarfa munað eins og hárþvottalög. Egozentric®© París, London, Róm, Vín hefur tekið að sér að segja alþýðunni, fyrir mætan viðskiptavin, hver er réttur og hver er rangur í starfið. Hér er önnur hönnunin í þessari einstöku röð. Byrjaðu strax að safna og þú getur gengið í nýjum bol á hverjum degi eftir 10 ár.
Rétt menntun, röng menntun. Litur brúnn með rauðum ermum. Stærð 1-100. Kjóstu rétta manninn en ekki ranga manninn. Vertu forsjáll í fjármálum og fjárfestu skynsamlega, fjárfestu í bol, fjárfestu í festu og skynsemi. Verð aðeins 100 evrur.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2009 | 00:05
Kennslubolur
Hver kannast ekki við að vera með minnimáttarkennd vegna ónógrar menntunar? En ekki lengur. Nú hefur Egozentric®© París, London, New York, Róm tekið að sér í samvinnu við góðan viðskiptavin að kenna fólki. Kenna fólki hvað er rétt og hvað er rangt. Nú þarf enginn að vera með minnimáttarkennd vegna menntunarskorts, greindarleysis eða skilningsleysis. Nú þarf enginn að svekkja sig á hvaða menntun er rétt og hvaða menntun er röng. Egozentric®© upplýsir alla um þann sannleik á einfaldan og skýran hátt: Á bol.
Rétt menntun, röng menntun. Litur brúnn með rauðum ermum. Stærð 1-100. Vertu ekki utangátta, vertu með aðalatriðin á hreinu. Menntaðu þig rétt og sæktu svo um starfið. Fjármál, verkstjórn, skiptir ekki máli. Menntunin skiptir máli. Verð aðeins 100 evrur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (10.1.): 1
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 114491
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.