Leita í fréttum mbl.is

Jónas vinur minn

Einu sinni var ég að mála hillurnar mínar í bílskúrnum heima. Þetta var þegar ég bjó enn í foreldrahúsum. Það var föstudagskvöld. Ég hafði raðað hillunum á planka á búkkum og var með opinn bílskúrinn til að lofta út. Birtist ekki Jónas vinur minn í gættinni. Hann var flottur í tauinu, í gæjalegri skyrtu og með bindi. Hann var kátur á leiðinni út á lífið og spurði mig hvort ég ætlaði að hanga heima í Jónas Freyr Harðarsonkvöld. Ég sagðist ekki geta farið út því ég væri að mála hillurnar og þær væru að stríða mér því sumstaðar væru fitublettir eða eitthvað svoleiðis sem ryddi málningunni frá. Jónas skoðaði framkvæmdirnar og hallaði sér svo yfir eina hilluna til að gaumgæfa eitthvað. Hann uggði ekki að sér því um leið lagði hann bindið sitt, nánast alveg upp að hnút, í blauta málninguna. Mér þótti þetta afar fyndið og Jónasi líka þótt hann væri sá óheppni. Þetta atvik var svolítið lýsandi fyrir Jónas á þeim árum. Hann var ó-h-e-p-p-i-n-n. Jónas er ekki lengur óheppinn, heldur heppinn. Stoltur faðir þriggja barna, landeigandi og forstjóri garðyrkjufyrirtækis.

SjapplínNokkrum árum áður, man ekki hve mörgum, fórum við Jónas og fleiri krakkar í Hafnarbíó að sjá Sjapplín mynd. Bíóið var fullt af glöðum Sjapplínaðdáendum. Þegar myndinni lauk ætlaði Jónas ekki að lenda í troðningi við útganginn og flýtti sér út. En Jónas var búinn að gleyma að það voru tvær Sjapplínmyndir á dagskránni. Hurðin skelltist í lás á eftir honum. Ég man ekki hvort Jónas komst inn aftur. Það hlýtur eiginlega að vera, en það hefur þá verið að framan.

Við Jónas vorum einusinni sem oftar að vasast eitthvað og ákváðum að fá okkur ristað brauð með osti. Þetta var heima hjá mér á Mánabrautinni. Brauðið var ristað, ostur skorinn, smjöri klínt á, borið fram. Jónas, fyrir einhverja rælni og heppni, lyftir ostinum á sinni sneið. Undir ostinum var hálf brennd eldspýta. Hvernig eldspýtan komst undir ostinn hans er ráðgáta. Hún hlýtur að hafa verið á borðinu þegar ég skar ostinn. Þarna var Jónas bæði óheppinn og heppinn, óheppinn að lenda á sneiðinni með eldspýtunni og heppinn að hafa lyft ostinum upp.

Jónasar bíll var tveggja dyra og heiðgulurEinu sinni átti Jónas gula Toyotu, Carina minnir mig. Hann fór í bíltúr á Toyotunni ásamt nokkrum vinum sínum í Nauthólsvíkina. Þetta var áður en ylströndin var gerð. Þá var hægt að aka niður í fjörunna. Það gerði Jónas og skemmti sér og félögum við akstur í sandinum. Nægt var plássið því þetta var á fjöru. En sandurinn var laus í sér og Toyotan festist. Sama hvað þeir reyndu, ekki náðist að losa Toyotuna. Svo fór að flæða að... Vatnið hækkaði ískyggilega mikið og brátt fór að flæða inn í bílinn. Ég man ekki hvernig þeir náðu að losa bílinn, minnir að einhver vegfarandi á bíl hafi kippt í þá með spotta, en hann losnaði loksins og Jónas slapp með skrekkinn. Það hafði aðeins flætt inn á gólfið, vélin og rafkerfið slapp. Þetta var annars skruggu bíll, kraftmikill og tveggja dyra, gæjaleg græja.

Drög að ævisögu, kafli 1.


Hristan góða

Emil heitir maður ljúfur sem ég kynntist er við vorum 10 ára gamlir eða svo. Við sóttum báðir tónlistartíma hjá Þórunni Björnsdóttur í Kársnesskóla í Kópavogi. Við vorum ekki að læra á hljóðfæri sem slík heldur var Þórunn (sem er dóttir Björns Guðjónssonar sem stjórnaði lúðrasveit Kópavogs með glæsibrag um árabil) að fræða okkur um hljóðfæri og hvernig þau eru búin til (Þórunn sjálf hefur unnið marga sigra með skólakór Kársness, er einn fremsti kórstjórnandi landsins). Eitt verkefnið gekk út á það að smíða einfalt hljóðfæri og koma með það í skólann.

Verandi uppteknir menn höfðum við ekki mikinn tíma til að smíða hljóðfæri, enda hljóðfærasmíð tímafrek iðja. Á heimili Emils á Þinghólsbrautinni voru nokkur ekta hljóðfæri, þar á meðal hrista. Við tókum hristuna og pökkuðum henni inn í dagblaðapappír, vöfðum límbandi utan um og máluðum í skærum litum.

Þórunn var mjög undrandi þegar hún prófaði hristuna og heyrði fagmannlegan hljóminn. Hún spurði úr hverju hún væri smíðuð. Jógúrtdósir límdar saman og fylltar með makkarónum, svöruðum við. Er það virkilega? Þetta er ótrúlega góður hljómur, sagði hún og hélt áfram að hrista hana og hlusta.

Svo fórum við með hristuna heim til Emils aftur, tókum utan af henni pappírinn og settum aftur upp í hillu.

Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta prakkarastrik okkar og hlæ enn að því að rifja það upp. Ég er viss um að Þórunn fyrirgefur okkur. En Þórunn má eiga það að hún gerði sér grein fyrir að þetta var meira en bara jógúrtdolla með makkarónum. En hún gat ekki vitað að við hefðum tekið ekta hljóðfæri og lækkað það niður á barnaplan með því að pakka því í viðvaningslegar umbúðir.

Hrista svipuð þeirri sem við pökkuðum inn


Ískrið í rólunni

Um daginn var ég staddur niðri á strönd. Þá heyri ég takfast ískur (íííí... íííí... íííí...) sem ég kannaðist við að hafa heyrt áður. Ég leit í kringum mig og sá að hljóðið kom úr rólu sem barn var að róla sér í. Þá rifjaðist upp fyrir mér að þetta var sama hljóðið og maður heyrði í rólunum hjá Fávitahæli Kópavogs (var þannig í símaskránni) daginn út og inn, lungann úr æskunni. Nú er hælið horfið og fávitarnir líka. Aðrir komnir í staðinn í ný hús sem byggð eru hvert ofan í annað. Það er ekki laust við að ég sakni ískursins.


Sænski kraninn

Fyrir nokkrum árum keyptum við nýjan krana í eldhúsið. Ef handfangið á honum (sjá mynd) er fært alla leið til hægri kemur kalt vatn, færi maður handfangið alla leið til vinstri kemur heitt vatn. Færi maður handfangið á miðjuna kemur kalt vatn, færi maður handfangið aðeins til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið lengra til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið enn lengra til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið örlítið lengra til vinstri kemur kalt vatn. Færi maður handfangið til pínulítið til vinstri kemur heitt vatn. Færi maður handfangið agnarögn til hægri kemur kalt vatn. Færi maður handfangið með mikilli einbeitingu og lagni 1 millimetra til vinstri kemur volgt vatn. 

Kraninn okkar

Ég furðaði mig á hversu erfitt var að láta nýja blöndunar-tækið blanda heita og kalda vatninu saman. Næst þegar ég átti erindi í Kópavoginn leit ég við í versluninni Tengi sem seldi okkur kranann og spurði þjónustufulltrúann hvort það gæti verið að blöndunartækið væri gallað. „Það er ekki gallað“ sagði fulltrúinn brosandi. Þá spurði ég hvers vegna það kæmi ekki volgt heldur bara kalt vatn þegar handfangið væri miðja vegu milli rauðu og bláu punktanna. „Það er til þess að spara heita vatnið“ sagði fulltrúinn. „Spara heita vatnið?“ spurði ég. „Já, það skrúfa allir frá fyrir miðju og til að hjálpa fólki að spara heita vatnið er kraninn stilltur þannig.“ „Er ekki hægt að breyta þessum stillingum?“ spurði ég. „Því miður, þetta er stillt svona í verksmiðjunni í Svíþjóð“ svaraði fulltrúinn. „Einmitt það“ sagði ég og þakkaði honum fyrir.

Alla tíð hefur sænski kraninn pirrað mig. Margsinnis hef ég hugleitt að skipta honum út, en ekki drifið í því. 

Í sögunni af sænska krananum er ástæðuna fyrir því hvers vegna ég er frjálshyggjumaður að finna. Ég þoli ekki þegar einhver góðviljaður og vel meinandi maður telur sig vita, betur en ég, hvað mér er fyrir bestu. Það er algjörlega galið að kranaframleiðandi í Svíþjóð taki að sér að stjórna því hvernig ég nota heitavatnið heima hjá mér. Það er engin tilviljun að kraninn er sænskur. Í Svíþjóð er forsjárhyggja af þessu tagi landlæg. Mér skilst að það sé ekki hægt að kaupa glugga í því landi nema í tveimur stærðum.

Varið ykkur á forsjárhyggjunni, því eins og Vefþjóðviljinn hefur bent réttilega á, glatast frelsið sjaldnast í einu vetfangi, heldur smátt og smátt. Áður en við vitum af er vel meinandi og góðhjartað fólk, á góðum launum og lífeyrisrétti hjá ríkinu, farið að hugsa fyrir okkur.

Að lokum: Ég vona að vörurnar sem Mora framleiðir séu betri en enskan á heimasíðu þeirra. Það er annars ágætis skemmtilesning.


Nú er lag fyrir rafmagnið - gægst inn í framtíðina

Olíuverð þarf að ná svo og svo miklum hæðum til að það borgi sig að þróa og framleiða rafmagnsbíla. Nú er sú stund runnin upp. Olíuframleiðendur eru að pissa í skóinn sinn með því að halda framboði niðri, en aukin eftirspurn hækkar verðið líka svo þeir eru ekki að spræna á fullu, heldur hægt og rólega.

Tvinnbílar sem ekki er hægt að hlaða heima eru bara millibilsástand, verða ekki lengi þannig. Hagkerfið þarf að venjast nýjum veruleika smátt og smátt. Tvinnbílar sem slíkir verða í minnihluta í framtíðinni, rafmagnsbílar munu verða 90% af bílaflotanum, ekki nokkur vafi.

Í framtíðinni tekur maður nýjar rafhlöður á bensínstöðvum (rafhlöðustöðvum), þegar gömlu eru tómar. Þá verður búið að finna upp rafhlöður sem eru léttari en þær sem tíðkast í dag og munu ekki missa hleðslugetuna við notkun. 

Bílnum verður ekið á sérstakt bretti og sjálfvirkt tæki losar þær undan bílnum og setur nýjar í staðinn, rétt eins og þegar skipt er um rafhlöður í leikfangabílum.

En þeir sem aka innanbæjar, munu ekki þurfa á rafhlöðuskiptum að halda, aðeins þeir sem aka langt. Það verður ekki mikil þörf fyrir rafhlöðustöðvar á Íslandi. 

Nú um stundir fær ríkið gríðarlegar tekjur af bílaflotanum í gegn um skatta við innflutning og sölu, og skatta af eldsneytinu (sem hafa hækkað mikið með auknum straumi ferðamanna um landið). Miklu meira en varið er til að bæta vegakerfið. Réttast væri að ríkið lækkaði ofurskattana þegar nýju bílarnir koma og búi ekki til nýja skattstofna. Tekjur ríkisins eru allt of miklar nú þegar. Helsta verkefni Íslendinga á 21. öld er að lækka skattana og minnka umsvif ríkisins. En þetta er óskhyggja, eins og staðan er nú, ríkið þenst út hraðar en nokkru sinni fyrr (flestir stjórnmálamenn eru jú í þessu starfi valdanna vegna, hví skyldu þeir vilja minnka völd sín? það er þversögn). Líklega verða skattar af rafmagnsbílum innheimtir með mælum (svipað og Fastrak) sem verða í bílunum, og þá greiða þeir mest sem aka mest. Það er sanngjarnast að mínum dómi.

Tvennt vinnst með rafmagnsvæðingu bílaflotans: A) Við þurfum ekki olíu lengur og aukum því ekki við olíugróða einræðisherranna í miðausturlöndum og glæpamannanna í Kreml. Það er geysilegt fagnaðarefni. B) Mengun sem hlýst af brennslu olíu hverfur og það hlýtur að vera gott fyrir umhverfið.

Þegar bílaflotinn verður kominn með rafhlöður, lækkar verðið á eldsneytinu hratt og þá munu flugfélög njóta góðs af. 


Myndir

Herra Ragnar Orri er búinn að setja upp myndasíðu með myndum af sér í Kaliforníu.

Það er tengill til vinstri á síðuna! Alltaf nýjar myndir! 


Hvað með litlu tryggingafélögin?

Hafa þau engar áhyggjur af þessu háalvarlega máli? Halda þau að vegna þess að þau tryggja litla bíla hjá litlum mönnum að þau séu stikkfrí? 


mbl.is Dularfullir bílabrunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Finnið Svarthöfðann

Getraun með flottum verðlaunum. Sendið lausnirnar á helstirnið@kirkjan.is


Samanburður milli landa

Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt, hafir þeir á annað borð lesið fréttatilkynninguna sem ég sendi öllum helstu fjölmiðlum landsins, er ég nú staddur í Kaliforníu nánar tiltekið við Laguna-ströndina. Í útlöndum gefst gott tækifæri til að gera samanburð milli landa. Í þessu tilviki á Kaliforníu og Íslandi. Kalifornía ein og sér er eitt öflugasta hagkerfi heims, er á topp fimm í heiminum. Ísland eins og allir vita er besta land í heimi með mestar tekjur og mesta gleði og mesta velsæld þótt ekki nái það inn á topp fimm. Ríkin tvö eru því mjög góð til samanburðar. Veðurfarslega séð hefur Kalifornía vinninginn enda mun sunnar á kúlunni okkar. Mun ég ekki gera samanburð á veðrinu þótt það sé freistandi. Ég hef engan áhuga á að ala á minnimáttarkennd Íslendinga með því að nudda sítrónusafa í sárin. Hér mynd af útsýninu út um eldhúsgluggann:

 Sítrónutréð okkar

Sítrónurnar af því eru góðar á bragðið. Í þeim er 100% sítrónusafi, en ekki 0% eins og ég sá á skyndibitastað um daginn. Jú það er rétt, á gosdælunni stóð: Inniheldur 0% sítrónusafa. Ég fékk mér vitaskuld ekki þann „sítrónusvaladrykk“.

Engin ástæða er til að gefa Íslandi forgjöf þegar kemur að mat. Samkvæmt helstu spekingum á Íslandi er maturinn þar sá ferskasti, besti, hollasti, sjúkdómalausasti og næringarríkasti í heimi. Með það á bak við eyrað grillaði ég nautasteik (organic, án stera, með umhyggju) um daginn. Óformlegur samanburður við þá steik sem ég fékk síðast á Íslandi var Íslandi ekki í hag. Ekki aðeins var steikin ódýrari í Kaliforníu, heldur var hún betri líka. Raunar má fullyrða að það fáist ekki nautakjöt á Íslandi öðruvísi en hakkað ungnautahakk. Það er amk. það eina sem ég sé í borðum verslana oft og tíðum. Hvað verður um allt ungnautakjötið sem ekki er hakkað? Getur verið að „ungnautahakkið“ sé í raun gamalt beljukjöt? Ég sé amk. grunsamlega lítið af kýrkjöti í kjötborðinu þrátt fyrir að það falli til mikið magn af slíku kjöti í fjósum landsins. Einu sinni, skömmu eftir að ég kom frá Bandaríkjunum, keypti ég dýrindis nautasteik í íslenskri sérverslun með íslensku úrvals nautakjöti. Það kostaði svimandi upphæðir og stóðst svo ekki samanburð við bandarískt kjöt, var ólseigt og bragðdauft. Nautakjötið fæst vissulega á Íslandi, en það er svo rýrt að gæðum að óhætt er að fullyrða að það fáist ekki. Það fæst ekki í þeim lágmarksgæðum sem gera verður til nautakjöts. Og hvers vegna fæst ekki ætt nautakjöt á Íslandi? Það er vegna þeirra reglna sem gilda og samþykktar hafa verið af stjórnmálamönnunum okkar blessuðum sem telja sig þurfa að vernda fáa á kostnað fjöldans. Um leið og þeir vernda fáa, stýra neyslu kjöts í átt að lambakjötinu gamla og góða, draga þeir niður lífsgæðin í landinu. Því það eru lífsgæði að fá að velja sér það kjöt sem manni langar helst í og í þeim gæðum sem manni eru samboðin.

Ástæðan fyrir því að matarverð á Íslandi er hæst í heimi er fyrst og fremst þeim reglum sem stjórnmálamennirnir hafa sett til verndar matvælaiðnaðinum innanlands. Sökudólgur stjórnmálamannanna, smásalan, hefur ekkert með þetta að gera. Væru verndartollarnir felldir niður, myndi verðið snarlækka. Vissulega er smásalan ekki barnanna best, og kaupmennirnir reyna auðvitað hvað þeir geta til að hámarka afrakstur sinn. Það er eðlilegt og því ber að fagna. Sú athygli sem beinist að smásölunni vegna háa verðsins er blekking, ryk í augum okkar. Réttast er að beina athyglinni að stjórnmálamönnunum og spyrja þá linnulaust hvenær aðgerða sé að vænta. Þar er valdið til að breyta en því miður lítill vilji eða geta, þeir eru undir járnhæl sérhagsmunanna sumir hverjir.

SAMANBURÐUR Á NAUTAKJÖTI

Ísland 0 – Kalifornía 1

Af hverju: Kjötið er þriðjungi ódýrara, bragðbetra og úrvalið er margfalt, margfalt, margfalt meira.

Sökudólgur: Hver sá stjórnmálamaður sem kemur í veg fyrir að Íslendingar njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda og frelsis að velja það kjöt sem þeim langar í. Var ekki frumvarpi þess efnis frestað um daginn eftir linnulausa baráttu sérhagsmunaaðila? Svei. Við viljum geta flutt fiskinn okkar út hindrunarlaust, það sama á að gilda um aðra matvælaframleiðendur, þótt útlenskir séu.

Nokkur orð um nálgunina:  Samanburðurinn er gerður á mjög svo vísindalegan hátt. Valinn er sá matur sem fjölskyldumeðlimum langar í, í það og það skiptið, og hann borinn saman við matinn sem fjölskyldan borðaði á Íslandi.


Mannréttindi fótum troðin

Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa val um matvæli, rétt eins og það eru sjálfsögð mannréttindi matvælaframleiðenda í sjávarútvegi að selja fisk hindrunarlaust til útlanda. Tafir á auknum mannréttinum að þessu leyti hérlendis er aðeins ein viðbótin enn við langa sögu sérhagsmunaþjónkunar. Á meðan búum við við skert lífsgæði. Hver sá sem trúir því að matvæli framleidd á Íslandi séu betri en matvæli framleidd í útlöndum, og það þurfi að loka landinu fyrir þeim af þeim sökum, er ginningarfífl. Flestir vita betur, afsakanirnar gegn innflutningi eru ömurlegt yfirklór og sjálfsblekking. Fáar, ef nokkrar, sérhagsmunaþjónkanir eru dýrari en einmitt þessi. Fyrir utan það sorglega ástand að fá t.d. ekki boðlegt nautakjöt í verslunum eru lífsgæði íslenskra fjölskyldna skert vegna gríðarlegra útgjalda við að halda uppi matvælaframleiðslu í landinu. Ég skora á ráðherra að láta ekki almannahagsmuni víkja fyrir sérhagsmunum.
mbl.is Breytingar á matvælalögum í þágu bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband