27.1.2009 | 19:51
Ég sé rautt!
Skemmtilegt (en þó að sumu leyti sorglegt) er að fylgjast með ofsanum sem grípur um sig þegar minnst er á frjálshyggju. Þó er enginn í orði kveðnu á móti frelsi, að minnsta kosti ekki eigin frelsi. Hvað er það þá sem veldur geðshræringunni? Ég skal segja þér svarið: Það er ábyrgð. Ábyrgðin er óhjákvæmilegur fylgifiskur frelsisins. Það er hún sem svo margir skelfast. Vilja ekki þurfa að bera ábyrgð á neinu, vilja vera undir verndarvæng ríkisins svo þeir sjálfir þurfi ekki að standa á eigin fótum. Verstu tilfellin eru nú þegar í vinnu hjá ríkinu og það eru einmitt þeir sem eru hvað ömurlegastir í viðmóti þegar þjónusta á vegum þess er annars vegar. Þetta minnir mig á sögu:
Einu sinni leigði ég íbúð og pantaði síma. Fyrir mín mistök var símanúmerið tengt í ranga dós í húsinu. Ég hringdi í Póst og síma sem þá hét og sagði við símadömuna að mér hefði orðið á í messunni. Hún gerði sér lítið fyrir og hundskammaði mig. Þú átt að passa þig á að skrá símann á rétt númer, sagði hún og hélt áfram nokkra stund. Þegar hún hafði skammað nægju sína gaf hún mér samband við viðeigandi deild.
Verkefnið framundan fyrir Íslendinga er að auka ábyrgð hvers og eins. Sjálfur myndi ég vilja styrkja áhugamál og atvinnu allra manna, en ég hef því miður ekki efni á því. Og þótt ég væri með debetkort á ríkiskassann gæti ég heldur ekki, í hans nafni, haldið öllum uppi vegna þess að ríkiskassinn er tómur.
Hér eru nokkrar samviskuspurningar:
Á horni Garðastrætis og Vesturgötu er söluturn. Eigandi þessa söluturns greiðir með aðstoð ríkisins matvælaframleiðanda sem framleiðir kindakjöt styrk svo hann fái haldið áfram rekstri. Óþarft er að taka fram að enginn greiðir, með aðstoð ríkisins eða úr eigin vasa, eiganda söluturnsins styrk til að halda sínum rekstri gangandi. Er þetta eðlilegt? Höfum við sem þjóð efni á þessu?
Fólk sem ákveður að eignast börn fær laun frá ríkinu á meðan og svo tekur hið opinbera að sér að gæta þeirra á sinn kostnað í mörg ár á eftir. Barnlausir einstaklingar þessa lands eru þannig skikkaðir til að greiða fyrir mínar barneignir og uppeldi. Finnst þér, kæri lesandi, ekki furðulegt að ríki og borg skuli taka að sér að halda uppi annars fullfrísku fólki sem valið hefur að eignast börn? Höfum við sem þjóð efni á þessu?
Sumir hafa áhuga á klassískri tónlist og hafa skuldsett ríkissjóð um milljarða tugi vegna þessa áhugamáls síns með því að láta reisa hús undir tónlistarflutning í höfninni í Reykjavík (fyrir utan að reka fyrir opinbert fé sinfóníuhljómsveit). Áhugafólk um bíla, frímerki, flugvélar, fiðrildi, tísku, förðun, pönk, teiknimyndablöð og blóðsugur svo dæmi sé tekið hafa minna fé milli handanna til sinna áhugamála vegna þess fjár sem það greiðir til áhugamanna um klassíska tónlist. Er þetta eðlilegt? Höfum við sem þjóð efni á þessu?
Frjálshyggja er annað orð yfir ábyrgð, og það er þess vegna sem ýmsir sjá rautt yfir frjálshyggju. En hvað er fegurra en að hver og einn beri ábyrgð á sér og gerðum sínum?
Er hægt með nokkrum rökum að halda því fram að það sé frjálshyggju að kenna að bankarnir hrundu? Því fer fjarri. Frjálshyggjan er alfarið á móti ríkisábyrgðum. Það hefur alltaf legið fyrir og hefur gert í áratugi. Hvað segir það um þá sem halda þessu fram? Það er augljóst: Þeir sjá rautt! Með slíkt fólk í forsvari getur Íslandi ekki annað en farnast illa. Það er staðreynd sem á eftir að renna upp fyrir mörgum á næstunni. Ekki henda mótmælaskiltunum alveg strax.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Nýttir þú eða barnsmóðir þín rétt ykkar til fæðingarorlofs?
Skal þá hver og einn bera ábyrgð á kostnaði við ófyrirsjáanleg veikindi eða slys sem sá hinn sami kann að verða fyrir? Eða eiga bara þeir sem velja að fara á sjúkrahús að borga en ekki aðrir?
Má ekki færa rök fyrir því að þau börn, sem barnlausir borga fyrir vegna þvingana hins félagslega kerfis, greiði öldrunarþjónustu hins barnlausa seinna meir? Snýst samfélagið ekki um að hver styðji annan?
Ársæll Níelsson, 27.1.2009 kl. 23:03
Það að ganga um götur í eigu hins opinbera, greiddar með nauðungargjöldum (skatti), er ekki eitt og hið sama og að viðurkenna réttmæti skattlagningar í nafni götugerðar.
Ekki frekar en að sósíalistinn sé að lýsa yfir ánægju sinni með hinn frjálsa markað með því að versla í matinn í matvöruverslun í einkaeigu.
Geir Ágústsson, 28.1.2009 kl. 14:36
Auðvitað notfæra menn sér rétt sinn til fæðingarorlofs, fyrst þeir eru með skattfé sínu búnir að borga fyrir það að hluta til eða heild...
Það á ekki að kalla það frjálshyggju þegar menn sjá eitthvað athugavert við að ríkið haldi úti rekstri sinfoníusveitar eða hendi hundruðum milljóna í íþróttaklúbba úti í bæ. Mér finnst það bara ákaflega sjálfsagt mál að menn bendi á hverslags bull það er. Mér finnst ákaflega skrýtið að hið opinbera hirði af mér part af launum mínum til þess að einhver úti í bæ geti fengið niðurgreitt hobbíið sitt eða jafnvel fengið borgað fyrir að stunda það. Myndi ekki ganga svo langt að kalla það þjófnað... eða jú, það er það sem það einmitt er.
Það má segja að það sé ábyrgð samfélagsins að fólk geti alið upp börn sín með aðstoð frá fæðingarorlofssjóði, þó svo þar mætti að mínum dómi sumt betur fara. Vissulega þurfa að vera til sjúkrahús, slökkvilið, lögregla og þessháttar, en þegar þær stofnanir líða skort á meðan íþróttaklúbbar og áhugamannaleikfélög fá opinbera styrki verður maður pínu fúll. Jafnvel svolítið reiður inní sér.
Ingvar Valgeirsson, 28.1.2009 kl. 17:04
Spurningin er: Hvar á að draga línuna? Eigum við að nota sameiginlega sjóði til að lækna sjúka, sinna öldruðum og minnimáttar? Já. Eigum við að nota sameiginlega sjóði til að greiða niður t.d. íþróttaiðkun og barneignir hjá fullfrísku fólki? Það er álitaefni. Mér þykir það vafasamt. Íslendingar verða að draga línuna, flokka hvað á að vera á eigin ábyrgð og hvað á að vera á ábyrgð ríkis og sveitarfélaga. Íslendingar eru í raun neyddir til þess að fara í slíka flokkun því sameiginlegir sjóðir ríkisins eru tómir, hafa ekki bolmagn lengur til að halda úti jafn víðtækri niðurgreiðslustarfsemi og áður.
Það er dæmigert fyrir þá sem sjá rautt, að grípa til jaskaðra frasa og fullyrðinga. Ég veit að vangaveltur af þessu tagi kunna að hljóma kaldranalega, en við erum neydd, eins og áður sagði, að taka þessi mál fyrir og ræða þau af hreinskilni.
Svo finnst mér algjör óþarfi af Spámanni (sem ég veit ekki hver er) að draga læriföður minn Ögmund Jónasson inn í þessa umræðu.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 28.1.2009 kl. 17:52
Þegar allt hrundi í efnahagskerfi landsins eftir of mikið frelsi vildi ekki nokkur maður taka ábyrgð á einu né neinu. Það var nefnilega ekki neinum að kenna hvernig fór. Nokkir af sökudólgunum, sem voru einmitt aðal hugmyndasmiðir vitleysunnar, voru einmitt vel geymdir undir verndarvæng ríkisins, í ríkisstjórn, Seðlabankanum og nokkrum mikilvægum stofnunum.
Guðmundur Bergkvist, 28.1.2009 kl. 18:16
Ertu ekki að meina of LÍTIÐ frelsi Beggi. Frelsi án ábyrgðar er falsfrelsi. Frelsi til að sóa fé á kostnað almennings er slíkt fals.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 28.1.2009 kl. 18:57
Mitt frelsi hefur verið skert verulega með ofvaldi auðmanna. Það er hluti af baráttu minni fyrir auknu frelsi að hnekkja veldi þeirra. Meðan misskifting auðs er jafn svakaleg og hún er mun vald hinna fáu ríku vera svo mikið að við í millilaginu munum alltaf verða undir. Til þess að eiga eitthvað í auðmennina verð ég að safna liði til þess að ég þurfi ekki að sá í akur óvina minna um aldur og ævi. Ég er tilbúinn að vinna til að öll börn í samfélaginu komist til mennta og hafi í sig og á en ég er ekki tilbúinn að láta vinnu mína fara í að fjármagna auðmenn sem svo nota vinnu mína gegn mínum hagsmunu. Nú tökum við valdið aftur!
Héðinn Björnsson, 28.1.2009 kl. 23:41
Sæll Marteinn, ég hef ekki séð þig í háa herrans tíð. Það getur vel verið að það sé hagkvæmt fyrir þjóðfélagið til langs tíma að niðurgreiða barneignir og barnauppeldi. Börnin verða síðar að skattgreiðendum og því fleiri því meira kemur í kassann. Hagfræðingar hafa örugglega reiknað það út. Ég veit ekki hvað ætlaðir lærimeistarar aðhafast en það má ekki gleyma að ef stóru fyrirtæki í eigu auðmanns er bjargað frá gjaldþroti, er ekki bara verið að bjarga auðmanninum, heldur störfum fjölda fólks. Að einblína á auðmanninn er ákveðin skammsýni. Það er mikil óvirðing við starfsfólkið og fjölskyldur þess.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 29.1.2009 kl. 16:32
Nei ég var að meina OF MIKIÐ frelsi eins og það sem hér var orðið. Það mátti allt og svo þegar allt fer til andskotans þá tekur enginn einasti maður ábyrgð því þetta var ENGUM að kenna að mati sökudólganna, bara heimskreppa. Það er viðurkennt að það mátti allt orðið í þessu landi, Fjármálaeftirlitið hafði ekkert að gera því allar þessar hundakúnstir banka, fjárfesta, eignarhaldsfélaga og group-a sem hafa sett okkur í skuldir til æviloka voru leyfilegar og voru svo sannarlega ekki það "frelsi" sem almenningur vill. Frelsi án eigin ábyrgðar er einmitt þetta frelsi sem hér var búið að koma á, ábyrgðin var sú að ríkið myndi hvort eð er alltaf taka við pakkanum ef illa færi, snillingarnir sem komu því á trúðu bara ekki að það myndi gerast því einkaframtakið er óbilandi. Hvað svo? Jú við almenningur erum þá nógu góð til að borga fyrir sukkið. Ég er fylgjandi frelsi í viðskiptum, en á þann hátt að það sé alveg skýrt hvernig ábyrgð liggur og reglur séu skýrar, mönnum SÉ refsað fyrir auðgunarbrot og þeir landsmenn sem vilja skipta við ríkisbanka eða lánastofnun og teysta ekki öðrum fái að gera það, það er valfrelsi almennings. Frelsi á ekki að vera bara handa útvöldum duglegum viðskiptamönnum undir því yfirskini að það skapi svo miklar tekjur, mikinn hagvöxt og vinnu handa öllum. Sjáðu til, það mun ekki nokkur maður gjalda fyrir eitt né neitt eftir það sem hefur gerst, þeir kjafta sig frá öllu jafnóðum og fráfarandi stjórnvöld voru greinilega skíthrædd við þessa moldríku laxa og hafa ekki þorað að snerta þá. Takk fyrir mig.
Guðmundur Bergkvist, 30.1.2009 kl. 17:11
Frelsi án ábyrgðar er ekki frelsi. Ég held að við séum komnir á þann stað Beggi, að þurfa að komast að samkomulagi um hvað hugtakið frelsi merkir. Er það til dæmis frelsi ef ég get stofnað til skulda sem þú þarft að greiða?
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 30.1.2009 kl. 17:42
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.