Leita í fréttum mbl.is

Lausnin: Minnka völd stjórnmálamanna

Það er afar mikilvægt að minnka völd stjórnmálamanna, ekki vegna þess að þeir séu vondir menn, heldur er vont að þurfa að treysta á þá. Betra er að þurfa að treysta á sjálfan sig. Það skilar óhjákvæmilega betri árangri.

Ef leiðin til að minnka völd íslenskra stjórnmálamanna er að fara í Tsm (ný skammstöfun fyrir Esb, gefin út af staðreyndanefnd ríkisins og stendur fyrir Tolla-, miðstýringar- og skrifræðisbandalagið) er það óhjákvæmilega kostur sem vert er að skoða. Ekki þarf að klóra sér lengi í kollinum til að sjá að þá eru stjórnmálamennirnir ekki farnir, heldur orðnir að embættismönnum með annað ríkisfang. Er það betra? Hugsanlega er það eitthvað betra en miklu líklegra er að það sé hálfu verra, jafnvel öllu verra.

Kostirnir eru sem sagt tveir: Að láta íslenska stjórnmálamenn seilast smátt og smátt meira til valda á Íslandi, eða láta evrópska embættismenn seilast með einu pennastriki til mikilla valda á Íslandi. Báðir þessir kostir eru slæmir svo ekki sé meira sagt.

Heimurinn stefnir í þá átt að vera eitt markaðssvæði, stjórnmálamenn og sérhagsmunaaðilar hafa komið í veg fyrir þá sjálfsögðu þróun með skelfilegum afleiðingum fyrir fátæk ríki. En þróunin verður ekki stöðvuð. (Svo gefa þessir sömu stjórnmálamenn ölmusur til ríkjanna í nafni þróunaraðstoðar sem gerir aðstæður þar enn verri. Taka mætti þennan hring alveg út úr jöfnunni, gefa öllum ríkjum sama tækifæri til að keppa. Að vísu hefðu stjórnmálamennirnir minna að gera við að deila út ölmusum, en það verður að hafa það.)

Íslendingar eiga að líta á allan heiminn sem sitt markaðssvæði, það er mikill heimóttarskapur að einblína til Evrópu og gangast undir lagavitleysuna sem þar er samin (Ees reyndist vera stórgallað plagg og Evrópulöndin geta ekki einu sinni horfst í augu við þá staðreynd). Ríki eins og Kína, Indónesía og Indland, auk fjölmargra landa Afríku og mið- og suður Ameríku, eru miklu vænlegri viðskiptavinir til framtíðar en lönd Evrópu með sinn lága og minnkandi hagvöxt. 

Forsenda fyrir því að Ísland geti tekið þátt í viðskiptum á heimsvísu er að skipta út gjaldmiðlinum, krónunni. Fyrirtækjarekstur á Íslandi er fráleitt að lenda fyrst nú í vandræðum vegna krónunnar. Það lá við að Loftleiðir og Flugfélag Íslands, svo dæmi sé tekið úr sögunni, færu á höfuðið 1950, þegar gengi krónunnar féll eins og steinn. Krónan hefur alltaf kostað fyrirtæki mikla vinnu, vinnu sem þau hefðu annars getað beint í hagkvæmari farveg, td. markaðssetningu.

Sá kostur að skipta út gjaldmiðlinum án þess að ganga í tollabandalög á að vera uppi á borðinu. Með því móti minnkum við völd stjórnmálamanna, hvort sem þeir eru íslenskir eða evrópskir, og losnum við hindranirnar sem minnsti gjaldmiðill í heimi reisir viðskiptalífinu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband