23.6.2008 | 05:39
Hristan góða
Emil heitir maður ljúfur sem ég kynntist er við vorum 10 ára gamlir eða svo. Við sóttum báðir tónlistartíma hjá Þórunni Björnsdóttur í Kársnesskóla í Kópavogi. Við vorum ekki að læra á hljóðfæri sem slík heldur var Þórunn (sem er dóttir Björns Guðjónssonar sem stjórnaði lúðrasveit Kópavogs með glæsibrag um árabil) að fræða okkur um hljóðfæri og hvernig þau eru búin til (Þórunn sjálf hefur unnið marga sigra með skólakór Kársness, er einn fremsti kórstjórnandi landsins). Eitt verkefnið gekk út á það að smíða einfalt hljóðfæri og koma með það í skólann.
Verandi uppteknir menn höfðum við ekki mikinn tíma til að smíða hljóðfæri, enda hljóðfærasmíð tímafrek iðja. Á heimili Emils á Þinghólsbrautinni voru nokkur ekta hljóðfæri, þar á meðal hrista. Við tókum hristuna og pökkuðum henni inn í dagblaðapappír, vöfðum límbandi utan um og máluðum í skærum litum.
Þórunn var mjög undrandi þegar hún prófaði hristuna og heyrði fagmannlegan hljóminn. Hún spurði úr hverju hún væri smíðuð. Jógúrtdósir límdar saman og fylltar með makkarónum, svöruðum við. Er það virkilega? Þetta er ótrúlega góður hljómur, sagði hún og hélt áfram að hrista hana og hlusta.
Svo fórum við með hristuna heim til Emils aftur, tókum utan af henni pappírinn og settum aftur upp í hillu.
Mér hefur alltaf þótt vænt um þetta prakkarastrik okkar og hlæ enn að því að rifja það upp. Ég er viss um að Þórunn fyrirgefur okkur. En Þórunn má eiga það að hún gerði sér grein fyrir að þetta var meira en bara jógúrtdolla með makkarónum. En hún gat ekki vitað að við hefðum tekið ekta hljóðfæri og lækkað það niður á barnaplan með því að pakka því í viðvaningslegar umbúðir.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 12
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Ég man eftir þessu, prakkararnir ykkar. Ætli Þórunn hafi ekki heyrt muninn svo greinilega af því að flestir okkar hinna vorum með jógurtdósir með makkarónum í?
Vilberg Ólafsson (IP-tala skráð) 23.6.2008 kl. 19:39
Þetta kemur nærri því að "snobba nið'rávið".
Ekki er þetta nú illúðlegt prakkarastrik, næstum krúttlegt. Sumir ganga svo langt og á svo illfyglislegar brautir að grínið kárnar illilega.
Beturvitringur, 26.6.2008 kl. 01:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning