Leita í fréttum mbl.is

Sænski kraninn

Fyrir nokkrum árum keyptum við nýjan krana í eldhúsið. Ef handfangið á honum (sjá mynd) er fært alla leið til hægri kemur kalt vatn, færi maður handfangið alla leið til vinstri kemur heitt vatn. Færi maður handfangið á miðjuna kemur kalt vatn, færi maður handfangið aðeins til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið lengra til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið enn lengra til vinstri kemur kalt vatn, færi maður handfangið örlítið lengra til vinstri kemur kalt vatn. Færi maður handfangið til pínulítið til vinstri kemur heitt vatn. Færi maður handfangið agnarögn til hægri kemur kalt vatn. Færi maður handfangið með mikilli einbeitingu og lagni 1 millimetra til vinstri kemur volgt vatn. 

Kraninn okkar

Ég furðaði mig á hversu erfitt var að láta nýja blöndunar-tækið blanda heita og kalda vatninu saman. Næst þegar ég átti erindi í Kópavoginn leit ég við í versluninni Tengi sem seldi okkur kranann og spurði þjónustufulltrúann hvort það gæti verið að blöndunartækið væri gallað. „Það er ekki gallað“ sagði fulltrúinn brosandi. Þá spurði ég hvers vegna það kæmi ekki volgt heldur bara kalt vatn þegar handfangið væri miðja vegu milli rauðu og bláu punktanna. „Það er til þess að spara heita vatnið“ sagði fulltrúinn. „Spara heita vatnið?“ spurði ég. „Já, það skrúfa allir frá fyrir miðju og til að hjálpa fólki að spara heita vatnið er kraninn stilltur þannig.“ „Er ekki hægt að breyta þessum stillingum?“ spurði ég. „Því miður, þetta er stillt svona í verksmiðjunni í Svíþjóð“ svaraði fulltrúinn. „Einmitt það“ sagði ég og þakkaði honum fyrir.

Alla tíð hefur sænski kraninn pirrað mig. Margsinnis hef ég hugleitt að skipta honum út, en ekki drifið í því. 

Í sögunni af sænska krananum er ástæðuna fyrir því hvers vegna ég er frjálshyggjumaður að finna. Ég þoli ekki þegar einhver góðviljaður og vel meinandi maður telur sig vita, betur en ég, hvað mér er fyrir bestu. Það er algjörlega galið að kranaframleiðandi í Svíþjóð taki að sér að stjórna því hvernig ég nota heitavatnið heima hjá mér. Það er engin tilviljun að kraninn er sænskur. Í Svíþjóð er forsjárhyggja af þessu tagi landlæg. Mér skilst að það sé ekki hægt að kaupa glugga í því landi nema í tveimur stærðum.

Varið ykkur á forsjárhyggjunni, því eins og Vefþjóðviljinn hefur bent réttilega á, glatast frelsið sjaldnast í einu vetfangi, heldur smátt og smátt. Áður en við vitum af er vel meinandi og góðhjartað fólk, á góðum launum og lífeyrisrétti hjá ríkinu, farið að hugsa fyrir okkur.

Að lokum: Ég vona að vörurnar sem Mora framleiðir séu betri en enskan á heimasíðu þeirra. Það er annars ágætis skemmtilesning.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Þakka þér kærlega fyrir þetta innlegg. Sjálf er ég fórnarlamb þessarar ofstýringar.

Endurnýjaði innvols í krönunum mínum í vor og hef síðan eytt miklum tíma í að leita að heita vatninu. En þar sem ég hef ekki átt leið í Kópavoginn eins og þú, þá taldi ég að vandinn lægi í uppsetningunni.

Sparaði mér pípara (sem hvort eð er liggja ekki á lausu), fékk handlaginn ættingja til að skella þessu í. Einu sinni dugði það. En nú er öldin önnur og þeir sem vilja hafa vit fyrir manni hafa ekki einu sinni fyrir því að gera manni viðvart um þessi óumbeðnu afskiptin.

Ég er hrædd um að næsta kranasett verði frá einhverju öðru fyrirtæki, þ.e. ef það verður ekki búið að binda það í landslög að hér megi aðeins selja kaldavatnskrana.

Vilji maður halda sjálfsákvörðunarrétti sínum verður varla um annað að ræða en smygla varningnum inn í landið.

Ragnhildur Kolka, 18.6.2008 kl. 19:03

2 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Sæll Sigurgeir Orri

Já þau eru mörg vandamálin. Ég er með þennan líka fína krana (heitir það ekki blöndunartæki á fínna máli?) frá Svíum (Mora) og hann er aðskilinn - sér krani fyrir kalt og annar fyrir heitt. Svo sný ég mismikið og þá kemur úr rörinu vatn með því hitastigi sem ég vil hafa. Að vísu er íslenska vatnið varasamt sökum hitans - en ég kann þetta nú orðið allt saman og er orðinn góður kranastjóri.

Ég fer á morgun til Noregs, svo Finnlands og loks til Svíþjóðar. Ég athuga þetta með gluggana svo það sé á hreinu.

Enskan þeirra í Mora er skondin, En maður skilur allt sem þeir vilja koma til skila.

Hjálmtýr V Heiðdal, 18.6.2008 kl. 22:57

3 Smámynd: Beturvitringur

Eldhús"kraninn" minn er greinilega náskyldur þínum, títtnefndum. Rennur fyrst kalt (milli skinns og...) í lengri tíma. Frá því er það styrkur hugur og hönd sem þarf til að ná réttu blöndunni.

Þegar ég ætla t.d. að vaska upp, - finnst mér best að vera búinn að blanda kvöldið áður!

Beturvitringur, 19.6.2008 kl. 00:16

4 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Þetta er eitt af þeim vandamálum sem eru lítil en hvimleið og eftir því sem árin líða safnast pirringurinn smám saman upp uns maður tekur kranann og hendir honum út í hafsauga með sænsku stillingunni.  Þetta er etv. útbreiddara vandamál hérlendis en virðist í fyrstu eins og reynsla Ragnheiðar og Beturvitrings sýnir. Heita vatnið á Íslandi er heitara en víðast hvar annars staðar og því mikilvægt að hafa blöndunartæki sem blanda heita og kalda vatninu saman á sem víðustum skala. Mora vatnssparandi ofstilltu blöndunartækin henta trúlega ekki íslenskum aðstæðum.

Sæll Hjálmtýr! Ég vissi ekki að þú værir með Moggablogg, ég ætla að biðja þig að gerast bloggvinur minn. Þú ert heppinn kæri Hjálmtýr að vera með blöndunartæki með tveimur krönum. Það kemur reyndar á óvart að svíarnir skuli leyfa slík skaðræðistæki því talsverð hætta er á að þú skrúfir frá heita vatninu og látir það leka í vaskinn!

Ég hlakka til að heyra frá þér varðandi stöðluðu gluggana í Svíþjóð, en ég sel þá sögu ekki dýrar en ég keypti hana

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 19.6.2008 kl. 18:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband