30.1.2008 | 23:25
Hugmyndir að kröfugöngum
Komið hefur í ljós að hraðahindranir eru mjög óheppilegar fyrir umhverfið, eins og kemur fram í þessari frétt. Réttast væri að skipuleggja mótmæla- og kröfugöngu, td. niður Digranesveginn í Kópavogi, en á þeim ágæta vegi eru amk. 100 hraðahindranir. Umhverfisverndarsinnar ættu að gæta að því að það eru ekki bara álver og virkjanir sem ástæða er til að mótmæla, það má ekki gleyma litlu skaðvöldunum. Umhverfisverndarsinnar ættu einnig að gæta þess að fara varlega fari þeir í þá göngu, hraðahindranir geta verið hættulegar yfirferðar, einkum fyrir ökklana.
Á mörgum vegum þar sem hraðahindranir eru, er ekki nokkur leið að fara yfir þær á þó löglegum hámarkshraða. Slíkar þvingunaraðgerðir eru óþolandi. Nýlega í fréttum var fjallað um strætisvagnabílstjóra sem beðið hafa heilsutjón vegna hraðahindrana, þannig að þær eru ekki bara mengunarvaldur, heldur líka heilsufarsvandamál. Eini kosturinn við hraðahindranir, er að þær halda hraðanum niðri og þar með hugsanlegum slysum á fólki. En spurningin er: Er sú forvörn of dýru verði keypt? Hversu mikil mengun er réttlætanleg og hversu marga atvinnubílstjóra með brjósklos þarf til að gera vegi slétta á ný, með þeirri óhjákvæmilegu hættu að einhver kunni að verða fyrir bílunum?
Raunar hefur mér oftar en ekki sýnst, á ferðum mínum um borgina, að hvorki nægu fé né atgervi sé varið í skipulag og hönnun umferðarmannvirkja. Ef ég væri starfsmaður þeirrar deildar er sér um gatnakerfi borgarinnar (eða ríkisins þar sem það á við) myndi vera mitt fyrsta boðorð að umferðin gengi sem greiðast fyrir sig svo allir hefðu meiri tíma fyrir fjölskylduna eða það sem þeim er kærast. Gatnamót Hringbrautar og Snorrabrautar er gott og nýlegt dæmi um að skilvirkni er ekki efst á blaði hjá þeim sem hanna eiga skilvirk gatnamót. Afrein er til dæmis ekki til staðar ef beygja skal frá gömlu Hringbrautinni inn á Bústaðaveg, þótt nægt sé plássið. Í stað þess verða vegfarendur að bíða á ljósi eftir að geta tekið þá einföldu hægribeygju. Og afreinin af nýju Hringbrautinni inn á Bústaðaveg var þegar of lítil þegar hún var opnuð. Vissu hönnuðirnir ekki hve margir bílar fóru þarna um? Eða reiknuðu þeir skakkt? Svona dæmi eru mýmörg í borginni, meira að segja í svo að segja nýjum mannvirkjum. Hugsanlegt er að hönnuðirnir séu allir sænskmenntaðir fjandmenn einkabílsins sem nota hvert tækifæri til að klekkja á þeim djöfli. Vel hugsanlegt, vinstrimenn hafa jú stjórnað borginni um langa hríð. Hvað ætli þessir sömu menn hugsi svo í einkabíl sínum í umferðarteppu á leið heim? Gott á þessa djöfulsins einkabílista! Látum þá bíða svo þeir átti sig á að strætó er framtíðin.
Það mætti skipuleggja kröfugöngu gegn þessum gatnamótum.
Fyrst ég er farinn að fjalla um umferðarmannvirki, þá verð ég að gera alvarlega athugasemd við nýlega breytingu á gatnamótum Vesturgötu og Garðastrætis. Vesturgatan var nýlega gerð að einstefnu í austur sem var óþægilegt fyrir íbúa Garðastrætis (amk. mig); umferðin í götunni stórjókst og bílastæðin eru meira upptekin (verra aðgengi að lausum stæðum vestar). En þetta er þó ekki það sem ég geri athugasemd við, heldur þá furðulegu stækkun á gangstéttinni við Garðastræti 2. Fyrst Vesturgötunni var lokað í vestur, eins heimskulega og það hljómar nú, hafði maður kost á að taka u-beygju. En svo datt einhverjum kjánanum í atvinnusköpunardeild Reykjavíkur í hug að nauðsynlegt væri að stækka gangstéttina og gera u-beygjuna nánast ómögulega. U-beygjan er nota bene, lögleg á þessum stað. Hefur gatnagerðardeildin virkilega ekkert betra við vinnuaflið að gera? Þetta var óþarft, hvernig sem á það er litið og gerir aðeins íbúunum erfiðara fyrir að komast leiðar sinnar.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Á Florida er Disney world skylda. Í Kópavogi er það Digranesvegurinn, jafnast á við skelfitæki (í skemmdargarði).
Ég lá einu sinni í sjúkrabíl á leið frá Læknamiðst. að LSH, sá auðvitað ekkert út en spurði bílstjórann hvort þeir væru virkilega að aka Digranesveginn. - Jú, en þeir væru reyndar ekki vel kunnugir.
Ég bað þá fyrir alla muni að fara héðan í frá eftir Digran.v. ef þeir vildu losna við fólk sem væri illa veikt.
Beturvitringur, 30.1.2008 kl. 23:40
He he, ég vona bara að þér hafi ekki orðið meint af ferðalagi þínu upp og niður hraðahindranir Digranesvegar.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 31.1.2008 kl. 00:05
Allavega hefði hrokkið uppúr mér eplisbitinn, - ef ég hefði verið Mjallhvít! Jafnvel úr hjartastoppi gæti maður hrokkið í gírinn
Beturvitringur, 2.2.2008 kl. 02:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.