2.6.2007 | 09:26
Hneyksli
Það er algjört hneyksli að Griffin skuli hafa aðra skoðun en helsti loftslagsbreytingasérfræðingur NASA. Vita vísindamenn ekki að það er bannað að hafa fleiri en eina skoðun í vísindum?
Það var einmitt sérfræðingur hjá NASA sem gerði mælingar í lofthjúpnum og komst að því að engin hlýnun átti sér stað þar á 20 ára tímabili þvert á spár um að suðupunkturinn nálgist óðum. Ég er viss um að loftslagsbreytingasérfræðingurinn hafi verið yfir sig hneykslaður á þeim tölum líka.
Að öllu gamni slepptu held ég að fleiri breytingar séu okkur að kenna en bara hlýnunin. Rigningin sem sífellt bylur á okkur Íslendingum er pottþétt vegna aukinna stíflna í heiminum. Fleiri ár eru stíflaðar, meira vatn situr eftir á heitri jörðinni sem þýðir meiri uppgufun og rigning á Íslandi. Mér finnst að það eigi að draga úr rigningu um 50% fyrir 2050 á Norðurhveli með því að láta alla Evrópubúa kaupa græna bensíntanka, borga hærri skatta og skammast sín. Sá sem vogar sér að vera ósammála þessu er ekkert annað en trúvillingur og á skilið að vera kjöldreginn.
Rokið sem öllu ætlar að feykja um koll á Íslandi og þó einkum Seltjarnarnesi er án nokkurs vafa aukinni fiðrildarækt í Ástralíu að kenna. Setja þarf viðskiptabann á Ástrali og aðrar þvinganir til að fá þá ofan af þessum ósóma. Draga þarf úr roki á Norðurhveli um 50% fyrir 2020 með því að láta Nýsjálendinga kaupa græna bensíntanka, borga hærri skatta og skammast sín. Sá sem vogar sér að vera ósammála þessu er ekkert annað en trúvillingur og á skilið að vera kjöldreginn.
Norðanáttin sem ósjaldan kælir Ísland langt niður fyrir frostmark er innflytjendastraumnum til Bretlands að kenna. Fólksfjölgunin á Bretlandseyjum veldur aukinni metangasframleiðslu þar í landi sem heldur landinu heitu og bægir hæðinni yfir Grænlandi svo langt frá að hún dælir köldu lofti ofan af norðurpólnum til okkar. Draga þarf úr metangasframleiðslu á Bretlandseyjum um 50% fyrir 2040 með hærri sköttum á sorpflokkunarstöðvar, matvæli, bændur, búalið og fótboltalið. Skikka á alla í Skandinavíu að kaupa græna bensíntanka og skammast sín. Sá sem vogar sér að vera ósammála þessu er ekkert annað en trúvillingur og á skilið að vera kjöldreginn.
Hlýnun jarðarinnar er án nokkurs vafa vegna ósónútblásturs flugvéla og eina leiðin til að minnka það um 100% á næstu 5 árum er að leggja hærri skatt á hvern flugmiða svo allt þetta lið sem sífellt er að þvælast um heiminn í algjöru tilgangsleysi hætti því. En betur má ef duga skal og til þess þarf að framleiða freonúðunarvélar sem úða freoni út í loftið til að eyða ósónlaginu sem flugvélarnar skilja eftir sig. Gisnara ósónlag þýðir að meiri hiti, samkvæmt kenningunni, sleppur út í geim. Með hærri sköttum á að skikka alla flugfarþega til að kaupa grænan bensíntank og skammast sín. Sá sem vogar sér að vera ósammála þessu er ekkert annað en trúvillingur og á skilið að vera kjöldreginn.
Yfirmaður NASA ekki viss um að bregðast þurfi við loftslagsbreytingum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.1.): 1
- Sl. sólarhring: 3
- Sl. viku: 10
- Frá upphafi: 114499
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 9
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Telja menn líklegt að aðili sem sérhæft hefur sig í loftlagshlýnunarmálum viðurkenni að sérhæfing hans sé einskis virði?
Hjörtur J. Guðmundsson, 2.6.2007 kl. 12:17
Það vill svo skemmtilega til að ég þarf einmitt nýjan bensíntank í bílinn minn, þannig að ég hringdi í Bílanaust og spurði hvort þeir ættu græna bensíntanka og hvað þeir kostuðu. Þeir sögðu að tankurinn væri circa 150 þúsund tómur, en ef ég vildi fá hann fullan af skömm og iðrun, þá væri hann á 200 þúsund. Annars seldu þeir skömm sér líka, á 1250 kr líterinn. Hins vegar! Ef þú getur sýnt fram á að þú hafir leigt þér Inconvenient truth, fékkstu 20% afslátt af uppgefnu verði, 35% afslátt ef þú áttir sjálfur eintak og 50% afslátt ef þú kæmir svo með afrif af Live Earth tonleikamiðanum ofan á allt saman.
Ég spurði hvort það teldist til afsláttar ef ég væri frægur leikari sem predikaði yfir allt og alla þennan boðskap, en þá sagði hann að ég þyrfti þá ekki græna tankinn og skömmina, ég mætti haga mér og menga eins og mér sýndist.
Hip 2b^2, 2.6.2007 kl. 15:10
Mér er skemmt.
Ársæll Níelsson, 5.6.2007 kl. 13:23
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.