Færsluflokkur: Dægurmál
31.7.2009 | 09:20
Kostir kreppunnar
Fyrir utan að það er eins og veðrið á Íslandi hafi batnað eftir að kreppan skall á eru nokkrir hlutir sem teljast mega vera kostir kreppunnar.
1. Fleiri bílastæði í Garðastrætinu. Þegar allt var á blússandi farti var stundum erfitt að fá stæði fyrir utan heima hjá sér. Nú er það liðin tíð.
2. Tvíhöfði er aftur að fara í útvarpið. Auglýsingastofurnar sem þeir félagar unnu hjá eru annað hvort hættar eða hafa dregið verulega saman seglin vegna kreppunnar.
3. Fleiri íslenskir leikmenn fá tækifæri til að spila fótbolta með liðum sínum.
4. Heimabruggshefðin deyr ekki út, eins og ég óttaðist á tímabili.
5. Heimilisiðnaður almennt hefur fengið aukinn byr undir seglin.
6. Fleiri ferðamenn hafa efni á að koma til Íslands og lifa eins og kóngar.
7. Bílapartasölur blómstra.
8. Jöfnuður í þjóðfélaginu eykst, það ætti að kæta suma. Nú hafa allir það jafn skítt.
Mikilvægt er að vera jákvæður og sjá björtu hliðarnar, annars breytist maður bara í greppitrýni með fýlusvip.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.7.2009 | 11:53
Flöktandi myntlauf
Eina leiðin fyrir viðskiptalíf að koma landi á höfuðið er að vera á einhvern hátt á ábyrgð ríkissjóðs viðkomandi lands. Í fljótu bragði virðist lausnin á slíkum áföllum til frambúðar vera sú að engin ríkisábyrgð sé til staðar og að hver og einn stundi sín viðskipti á eigin ábyrgð. Þeir sem kjörnir voru til að fara með ríkisfjármálin, sem og ókjörnir embættismen, höfðu það hlutverk að vernda ríkissjóðinn fyrir áföllum, standa vörð um ríkið. Og hvernig tókst nú til? Til þessa hlýtur að verða horft þegar kerfið verður endurbyggt.
Hefur enginn velt því fyrir sér hvers vegna enginn erlendur banki starfaði á Íslandi? Þetta var jú ríkasta land í heimi til skamms tíma og þótt landið sé fámennt, myndi ég telja að það væri eftir nokkru að slægjast fyrir til dæms skandinavískan banka.
En enginn banki treysti sér til að starfa í krónuumhverfinu, þessu flöktandi myntlaufi. Ekki er óeðlilegt að álykta að krónan hafi kostað landið miklu meira en virðist í fyrstu. Ef til dæmis það hefði verið hér erlendur banki, einn eða jafnvel tveir, hefði einhver hópur Íslendinga haft við hann viðskipti og ekki lent í þessu allsherjar hruni sem hér varð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.7.2009 | 11:02
Sjálfstæða þjóðin
Þeir sem vilja vera í ESB geta flutt út, til dæmis til Danmerkur.
Á hinn bóginn tel ég að Íslendingum hafi mistekist að mörgu leyti að vera sjálfstæð þjóð frá stofnun lýðveldisins. Mistökin eru ma. fólgin í því að halda úti sjálfstæðum gjaldmiðli. Eflaust var skynsamlegt að vera með íslenska krónu til að byrja með, en hún varð úrelt um leið og viðskiptafrelsi milli landa fór aftur í átt að því sem það var fyrir fyrri heimsstyrjöld. Lögeyrinum fylgja þau vandkvæði að misveltilfallnir menn undir þrýstingi hagsmunahópa og eigin hugmynda eiga þess kost að misnota hann, til dæmis á þann hátt að halda genginu of háu. Of hátt gengi hefur kostað útflutningsatvinnuvegina gríðarlegar fjárhæðir og valdið því að meira var innflutt en innistæða var fyrir. Ég komst líka að því þegar ég gerði myndina um Alfreð og Loftleiðir að ríkiskassinn var í raun undir stjórn fárra manna sem gátu deilt út ríkisábyrgðum eftir eigin geðþótta og það kostaði ma. það að menn sem gátu ekki rekið fyrirtæki tóku yfir Loftleiðir og stórsköðuðu það uppbyggingarstarf sem hafði verið unnið að í áratugi. Ég veit ekki hve mörg þúsund % krónan hefur rýrnað í virði gagnvart öðrum myntum síðan hún var sett á fót, en það eitt og sér er áfellisdómur yfir lýðveldinu. Hver borgar þann brúsa? Hver ber kostnaðinn af þessu virðistapi?
Ég tel lausnina fyrir Ísland ekki fólgna í að vera í Evrópusambandinu, en það er nánast útilokað að Íslendingum takist að gera það sem þarf að gera til að hér skapist stöðugleiki. Til þess þurfa of margir menn að láta of mikil völd af hendi. Krónan er nefnilega valdatæki og þegar völd eru annars vegar eru þau ekki látin svo glatt af hendi. Það er líka staðreynd að á Íslandi eru menn í æðstu valdastöðum sem hafa sýnt það og sannað að þeir hafa minna en hundsvit á efnahagsmálum. Hvaða bjáni er til dæmis á móti því að bjór sé seldur í landinu? Ég tala nú ekki um ef hinn kosturinn er að hella sig fullan af vodka. Í góðri trú hafa þeir sem um hagstjórnina hafa haldið undanfarna tvo áratugi, siglt skútunni á bólakaf. Höfum við efni á annarri slíkri siglingu?
Heilt yfir tel ég lausnina fyrir Ísland vera þá að umsvif ríkisins minnki um þrjá fjórðu, tekinn verði upp 15% flatur skattur, hér verði enginn lögeyrir og hver og einn beri aukna ábyrgð á sér og sínum. Eins og kerfið er í dag verður þess ekki langt að bíða að það hrynji undan sjálfu sér. Það hefur gerst í Svíþjóð, það var aðeins fyrirboði um enn stærra kerfishrun. Ríkisjatan er eins og björgunarbátur sem smám saman yfirfyllist þar til hann sekkur nema fleygt verði fyrir borð.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 10:36
Eins og ekkert hafi í skorist
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
15.7.2009 | 08:57
Umsókn um aðild
Benedikt Jóhannesson skrifaði grein og lagði til að þingmenn samþykktu að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Þegar ég heyrði af þessu í fréttunum þar sem við ókum um sveitir landsins varð mér hugsað til þeirra nefnda sem farið hafa yfir þá kosti sem Íslendingum stendur til boða vilji þeir gerast gildir limir í sambandinu. Án undantekninga hafa nefndirnar komist að þeirri niðurstöðu að aðild að þessu sambandi sé óásættanleg fyrir Ísland. Í því ljósi: Er virkilega þörf á enn einum fundinum um þetta mál? Þarf að fylla út umsókn og senda til þeirra ef fyrirfram er vitað hverjar niðurstöðurnar verða? Væri ekki eðlilegra að skríða bara á hnjánum til þeirra með vaselínið tilbúið ef ætlunin er að ganga í þetta samband hvað sem það kostar? Til hvers að stunda þennan leikaraskap?
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.7.2009 | 13:00
Netið afhjúpar
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.6.2009 | 23:02
Þversögn
Björn Bjarnason skrifar 24. júní:
Icesave-samningurinn er rökstuddur á þann veg, að hann auðveldi aðild að Evrópusambandinu. Aðild er rökstudd með því, að hún geri kleift að taka upp evru. Með Icesave-skuldbindingunum er borin von, að Íslendingar standist Maastricht-skilyrðin, án þess geta þeir ekki tekið upp evru. ESB-fjölmiðlarnir ræða þennan vinkil málsins að sjálfsögðu ekki.
Þetta er skarplega athugað og ættu ESB sinnar að hugleiða. Með því að hafna samningnum og segja só sú mí er Ísland miklu nær því að geta gengið í þann klúbb sem þeir vilja ekki tilheyra samkvæmt skoðanakönnunum.
Hlægilegt er að fylgjast með hræðsluáróðrinum fyrir því sem mun gerast neiti Íslendingar að samþykkja. Enginn þarf að óttast þótt við segjum nei. Evrópusambandið mun gera okkur nýtt tilboð þar sem til dæmis vextirnir eru 3%. Það er tala sem er miklu nær því að vera sanngjörn þegar litið er til þess hve stýrivextir (ríkisvextirnir) eru lágir.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.6.2009 | 12:18
Hvað með embætti Netlögreglustjóra?
Kæri Steingrímur, ekki gleyma að stofna það embætti. Þú getur ekki ímyndað þér hvað mikill ósómi þrífst á netinu. Skelfilegt að sjá hvað mannskepnan er ófullkomin. Þið verðið að setja í lög að enginn megi vera ófullkominn, þá hætta allir að vera ófullkomnir. Alveg eins og það hætta allir að neyta örvandi efna eða kaupa sér blíðu þegar það hefur verið bannað með lögum.
Bifreiðagjaldið sem nýlega var hækkað, átti aðeins að vera við lýði í skamman tíma. Síðan eru liðin 25 ár og ekkert fararsnið á því. Þessi Bankasýsla sem á aðeins að lifa í fimm ár, mun ekki vera lögð niður að þeim tíma liðnum. Það kennir sagan. Ríkið hefur ódrepandi seiglu við að þenja sjálft sig út og viðhalda sér.
Í stað þessarar Bankasýslu væri eðlilegast að þjóðinni, þessari sömu þjóð sem svo margir telja sjálfa sig vera fulltrúa fyrir, væri send hlutabréfin í ríkisbönkunum. Þá þarf enginn að velkjast í vafa um það hvort rétt hafi verið staðið að sölunni, hvort klíkuskapur hafi ráðið ferðinni og svo framvegis. Hvernig væri það nú að fulltrúar þjóðarinnar sýndu í verki að þeir eru í raun fulltrúar þjóðarinnar, en ekki loddarar sem þykjast vera það í því skyni að komast til valda.
Stofna Bankasýslu ríkisins | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.6.2009 | 14:02
Niðurskurðarhnífurinn
Eins og aðrir Íslendingar bíð ég spenntur eftir niðurskurðinum á ríkisútgjöldum sem framundan er. Það voru nokkur vonbrigði að það skyldi ekki vera tilkynnt á þjóðhátíðardaginn vegna þess að niðurskurður á ríkisútgjöldum varðar sjálfstæði þjóðarinnar. Því minni ríkisumsvif, því meira sjálfstæði hvers og eins. Því meira sjálfstæði hvers og eins, því meiri ábyrgð hvers og eins. Ég er sannfærður um að allir Íslendingar eru tilbúnir að auka ábyrgð sína ef það má verða til þess að koma þjóðinni út úr skuldafeninu sem við blasir. Ríkisstjórnin sem nú situr telur að skuldafenið sé þjóðinni að kenna, að þjóðin hafi gert einhver afglöp. Það er mikill misskilningur, en skiljanlegur misskilningur, hún skilur að því er virðist ekki upp eða niður í málinu. Ég fyrir mitt leyti tók ekki þátt í víkingaleiðöngrum á erlendri grundu og á því bágt með að sjá að skuldahalinn sé mér að kenna. Svo er um flesta aðra.
Þegar hrunið varð var Icesave aðalmálið, sökudólgurinn. Ekki leið þó á löngu að Kaupþing varð sökudólgurinn. Nú er Icesave og Landsbankinn aftur orðið að sökudólgi og það réttilega. Fjandgerving Kaupþings í nokkra mánuði var áhugaverður kafli í þessari sögu. Flestir, ef ekki allir, vita að Kaupþing var langbest rekni bankinn í þrenningunni. Fróðlegt verður að fara í saumana á þessu máli.
Ég held að Ísland hafi dagað uppi í alheimsvæðingunni. Það voru mistök að halda úti eigin gjaldmiðli sem auðvelt er að ráðast á og kostnaðarsamt að reka. Fyrirtæki verja stórfé á hverju ári í gengisflökt og -útreikninga. Ef landið hefði lagt niður krónuna og lagt til að hver og einn versli með þann gjaldmiðil sem hann sjálfur kýs værum við ekki í þessum sporum í dag. Án krónunnar þarf enga embættismenn með laun og fríðindi við að reikna út gengi, leggja á stýrivexti, prenta peninga og allt það sem þessu misskilda sjálfstæðistákni fylgir (sem var flott til að byrja með). Tekjur landsins koma hvort sem er meira og minna að utan, hvers vegna að eyða kröftum í að skipta þeim í íslenskan gjaldmiðil? Það hljómar eins og hvert annað bull að verja tíma og kröftum í það. Ég hef fjallað um það áður að einfaldasta lausnin á launamálum er að taka upp hinn klassíska skiptahlut sem tíðkast hefur í sjávarútveginum svo lengi sem hann hefur verið stundaður.
Mín sparnaðartillaga er að leggja niður íslenska seðilinn og íslenska seðlabankann.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.6.2009 | 17:55
Kóngur um stund!
Hver kannast ekki við að hafa liðið eins og aumingja, verið lítill ræfill fullur minnimáttarkenndar yfir hlutskiptinu? En ekki lengur. Nú getur öllum liðið eins og kóngi. Eina skilyrðið er að þeir drekki Gevalía kaffi sem ekki er búið að taka koffínið úr. Aðeins skoffín hundsa koffín. Egozentric®© hefur gert samning við góðan viðskiptavin um nýja herferð fyrir fyrirtækið. Er þessi bolur fyrsta skrefið í þeirri löngu og farsælu vegferð.
Vertu fíkniefna KÓNGUR og drekktu aðeins Gevalía kaffi. Stærð 1-100, litur Gull. Ekki láta boð og bönn misviturra yfirvalda um hvað er gott fíkniefni og hvað vont, trufla þig. Berðu það undir eigin dómgreind hvað þér er fyrir bestu og láttu aðra um að meta hvað þeim sjálfum er fyrir bestu. Verð aðeins 100 dalir. 0,5% af sendingarkostnaði rennur óskiptur til Skrílsheilsustöðvar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (8.1.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 6
- Frá upphafi: 114489
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.