Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, júní 2008

Samanburður milli landa

Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt, hafir þeir á annað borð lesið fréttatilkynninguna sem ég sendi öllum helstu fjölmiðlum landsins, er ég nú staddur í Kaliforníu nánar tiltekið við Laguna-ströndina. Í útlöndum gefst gott tækifæri til að gera samanburð milli landa. Í þessu tilviki á Kaliforníu og Íslandi. Kalifornía ein og sér er eitt öflugasta hagkerfi heims, er á topp fimm í heiminum. Ísland eins og allir vita er besta land í heimi með mestar tekjur og mesta gleði og mesta velsæld þótt ekki nái það inn á topp fimm. Ríkin tvö eru því mjög góð til samanburðar. Veðurfarslega séð hefur Kalifornía vinninginn enda mun sunnar á kúlunni okkar. Mun ég ekki gera samanburð á veðrinu þótt það sé freistandi. Ég hef engan áhuga á að ala á minnimáttarkennd Íslendinga með því að nudda sítrónusafa í sárin. Hér mynd af útsýninu út um eldhúsgluggann:

 Sítrónutréð okkar

Sítrónurnar af því eru góðar á bragðið. Í þeim er 100% sítrónusafi, en ekki 0% eins og ég sá á skyndibitastað um daginn. Jú það er rétt, á gosdælunni stóð: Inniheldur 0% sítrónusafa. Ég fékk mér vitaskuld ekki þann „sítrónusvaladrykk“.

Engin ástæða er til að gefa Íslandi forgjöf þegar kemur að mat. Samkvæmt helstu spekingum á Íslandi er maturinn þar sá ferskasti, besti, hollasti, sjúkdómalausasti og næringarríkasti í heimi. Með það á bak við eyrað grillaði ég nautasteik (organic, án stera, með umhyggju) um daginn. Óformlegur samanburður við þá steik sem ég fékk síðast á Íslandi var Íslandi ekki í hag. Ekki aðeins var steikin ódýrari í Kaliforníu, heldur var hún betri líka. Raunar má fullyrða að það fáist ekki nautakjöt á Íslandi öðruvísi en hakkað ungnautahakk. Það er amk. það eina sem ég sé í borðum verslana oft og tíðum. Hvað verður um allt ungnautakjötið sem ekki er hakkað? Getur verið að „ungnautahakkið“ sé í raun gamalt beljukjöt? Ég sé amk. grunsamlega lítið af kýrkjöti í kjötborðinu þrátt fyrir að það falli til mikið magn af slíku kjöti í fjósum landsins. Einu sinni, skömmu eftir að ég kom frá Bandaríkjunum, keypti ég dýrindis nautasteik í íslenskri sérverslun með íslensku úrvals nautakjöti. Það kostaði svimandi upphæðir og stóðst svo ekki samanburð við bandarískt kjöt, var ólseigt og bragðdauft. Nautakjötið fæst vissulega á Íslandi, en það er svo rýrt að gæðum að óhætt er að fullyrða að það fáist ekki. Það fæst ekki í þeim lágmarksgæðum sem gera verður til nautakjöts. Og hvers vegna fæst ekki ætt nautakjöt á Íslandi? Það er vegna þeirra reglna sem gilda og samþykktar hafa verið af stjórnmálamönnunum okkar blessuðum sem telja sig þurfa að vernda fáa á kostnað fjöldans. Um leið og þeir vernda fáa, stýra neyslu kjöts í átt að lambakjötinu gamla og góða, draga þeir niður lífsgæðin í landinu. Því það eru lífsgæði að fá að velja sér það kjöt sem manni langar helst í og í þeim gæðum sem manni eru samboðin.

Ástæðan fyrir því að matarverð á Íslandi er hæst í heimi er fyrst og fremst þeim reglum sem stjórnmálamennirnir hafa sett til verndar matvælaiðnaðinum innanlands. Sökudólgur stjórnmálamannanna, smásalan, hefur ekkert með þetta að gera. Væru verndartollarnir felldir niður, myndi verðið snarlækka. Vissulega er smásalan ekki barnanna best, og kaupmennirnir reyna auðvitað hvað þeir geta til að hámarka afrakstur sinn. Það er eðlilegt og því ber að fagna. Sú athygli sem beinist að smásölunni vegna háa verðsins er blekking, ryk í augum okkar. Réttast er að beina athyglinni að stjórnmálamönnunum og spyrja þá linnulaust hvenær aðgerða sé að vænta. Þar er valdið til að breyta en því miður lítill vilji eða geta, þeir eru undir járnhæl sérhagsmunanna sumir hverjir.

SAMANBURÐUR Á NAUTAKJÖTI

Ísland 0 – Kalifornía 1

Af hverju: Kjötið er þriðjungi ódýrara, bragðbetra og úrvalið er margfalt, margfalt, margfalt meira.

Sökudólgur: Hver sá stjórnmálamaður sem kemur í veg fyrir að Íslendingar njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda og frelsis að velja það kjöt sem þeim langar í. Var ekki frumvarpi þess efnis frestað um daginn eftir linnulausa baráttu sérhagsmunaaðila? Svei. Við viljum geta flutt fiskinn okkar út hindrunarlaust, það sama á að gilda um aðra matvælaframleiðendur, þótt útlenskir séu.

Nokkur orð um nálgunina:  Samanburðurinn er gerður á mjög svo vísindalegan hátt. Valinn er sá matur sem fjölskyldumeðlimum langar í, í það og það skiptið, og hann borinn saman við matinn sem fjölskyldan borðaði á Íslandi.


Mannréttindi fótum troðin

Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa val um matvæli, rétt eins og það eru sjálfsögð mannréttindi matvælaframleiðenda í sjávarútvegi að selja fisk hindrunarlaust til útlanda. Tafir á auknum mannréttinum að þessu leyti hérlendis er aðeins ein viðbótin enn við langa sögu sérhagsmunaþjónkunar. Á meðan búum við við skert lífsgæði. Hver sá sem trúir því að matvæli framleidd á Íslandi séu betri en matvæli framleidd í útlöndum, og það þurfi að loka landinu fyrir þeim af þeim sökum, er ginningarfífl. Flestir vita betur, afsakanirnar gegn innflutningi eru ömurlegt yfirklór og sjálfsblekking. Fáar, ef nokkrar, sérhagsmunaþjónkanir eru dýrari en einmitt þessi. Fyrir utan það sorglega ástand að fá t.d. ekki boðlegt nautakjöt í verslunum eru lífsgæði íslenskra fjölskyldna skert vegna gríðarlegra útgjalda við að halda uppi matvælaframleiðslu í landinu. Ég skora á ráðherra að láta ekki almannahagsmuni víkja fyrir sérhagsmunum.
mbl.is Breytingar á matvælalögum í þágu bænda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlutirnir í kringum mig

Ragnar Orri í túpu

Öðru hverju í allmörg ár hef ég skrifað í nokkurs konar dagbók, eða nótubók, á kaffihúsum bæjarins. Um daginn tók ég nótubók með mér á kaffihúsið í verslun Máls og Menningar og gluggaði í gamalt blaður. Ein færslan var einmitt skrifuð á því sama kaffihúsi nokkrum árum áður. Það er gott að liðka fingurna og hugann og koma sér í gír með því að skrifa um það sem er manni næst – ekki fjölskylduna – heldur hlutina á borðinu og jafnvel í kring ef sá gállinn er á manni. Þannig var sú færsla sem ég las. Bara lýsing á því sem var á borðinu og í kring. Og viti menn, það rifjaðist upp fyrir mér nákvæmlega hvað ég var að gera, hvernig veður var þennan dag osvfrv. Bara með því að telja upp hvað var á borðinu kom heildarmynd dagsins upp úr öskustó minnisins. Ég þurfti ekki að skrá samviskusamlega hvað ég var að gera þennan dag til að rifja hann upp, heldur bara skrifa: Kaffibolli, sykurkar, dagblað... Furðulegt, en samt satt.

Tungumálið og ritmálið eru endalaus uppspretta heillandi viðfangsefna. Hvernig er best að setja hlutina fram, hvað er best að segja til að lýsa tilteknum hlut og hvað hentar ekki að segja. Hvort það er best að lýsa beint, eða óbeint, hvort hefur meiri áhrif osvfrv.

Þar sem ég er nú staddur í útlöndum og er að fara að takast á við nýtt verkefni er gott að byrja á að staðsetja sig, skjóta rótum, finna jafnvægi, liðka puttana og hugann með því að lýsa því sem er í kringum mann. Það kann að vera óviðeigandi að skilgreina í og með hvað maður er að gera, en það er samt allt í lagi tel ég. Tungumálið fyrirgefur mér það er ég viss um. En hvað ég er heppinn. Lesendur hins vegar nenna vafalaust ekki að lesa lengra. 99% af þeim er farið á næstu bloggsíðu í leit að bitastæðu lesefni.

Saltstaukur merktur Trader Joe's. Í honum eru sjávarsaltkristallar frá Suður Afríku, ef eitthvað er að marka miðann. Ljósgrænn kaffifontur með botnfylli af köldu kaffi með rjóma. Auðkennislykill, rafmagnssnúra í tölvuna. Auglýsingapóstur, efsta blaðið heitir Weekender – A South Coast Lifestyle Magazine. Í því eru hús auglýst til sölu ásamt öðru. Hús í Laguna Beach er falt fyrir 1 milljón og 6 hundruð þúsund dali. Við hlið Weekender-blaðsins er Laguna Beach Home auglýsingabæklingur sem ég fletti áðan og snýst um heimilið, aðallega fataherbergið og garðinn. Í því er til dæmis auglýst gervigras í garðinn og marmari á gólfin. Undir því blaði er bæklingur frá Irvine Valley College, sem er einskonar endurmenntunarstofnun. Emeritus-prógrömmin eru hugsuð fyrir eldri borgara. Skemmtilegt nafn. Snúra í tölvuna eðernet og svo mús og tölva og puttarnir á mér.

Á myndinni má sjá Ragnar Orra í klifrigrind eigi allfjarri ströndinni í Laguna Beach, Main Beach eins og hún er kölluð. Við feðgarnir fórum í strandferð þennan dag og bjuggum til sandkökur, mökuðum á okkur sólvörn og lágum í sólbaði. 


Guð er ekki fullkominn

Egozentric designs® París, Róm, London, New York, kynnir með stolti nýjustu hönnun aðalhönnuðar fyrirtækisins. Verðið svíkur engan, aðeins 15 þúsund krónur fyrir utan vsk. og flutningskostnað. Fæst í öllum stærðum.

Guð er ekki fullkominn


« Fyrri síða

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 36
  • Frá upphafi: 114003

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 36
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband