15.2.2009 | 04:48
Stjórnmálamenn og bankamenn
Ef þú vilt finna, á eigin skinni, hvernig uppskriftin að kreppu er skaltu láta þau boð út ganga að þú hyggist skrifa uppá víxla, í nafni réttlætis, bræðralags og samhjálpar, hjá öllum sem vilja. Stjórnmálamenn í stjórnum ríkisrekinna sjóða (Fanny Mae, Freddie Mac) skrifuðu upp á víxla, í nafni réttlætis, bræðralags og samhjálpar hjá öllum sem vildu. Það var uppáskrift að kreppunni sem nú er.
Bankarnir sem hrundu eru afleiðing af þessu ástandi, ekki orsök þess.
Þótt ljóst sé að stjórnmálamenn eigi stærsta sök á því hvernig komið er fyrir heimskúlunni nú um stundir hvað efnahagsmál varðar er engu að síður verið að auka þátt þeirra (raunar þeir sjálfir) í efnahagslífinu með stórkostlegum ríkisvæðingum og skrilljónaaustri fjár í smurningu á legur efnahagslífsins. Er ekki eitthvað bogið við það? Þetta er í sama anda og það sem kom okkur í klípu: Stjórnmálamenn að gera allt fyrir alla.
Það fer ekkert á milli mála að rót vandans er að finna í íbúðalánasjóðum ríkisins í Bandaríkjunum. Að beiðni og þrýstingi demókratískra stjórnmálamanna í valdatíð Clintons, sem vildu ólmir gera góðverk sín á kostnað annarra, fóru sjóðirnir að lána fólki án traustra veða og Bush-stjórnin hélt þessari vitleysu áfram. Svo fyrir einhvern misskilning eða vísvitandi svik voru þessir lánapakkar settir út í hagkerfið til annarra banka í vafningum sem ekki nokkur leið var að sjá að voru byggðir á sandi. Sprengmenntuðustu spekingar heims frá bestu skólum heims á hæstu launum heims með fullkomnustu tölvukerfi heims botnuðu ekkert í þessu. Líklega var þeim hjartanlega sama meðan allt lék í lyndi.
Munurinn á stjórnmálamönnum og bankamönnum er sá að stjórnmálamennirnir vinna við að tala, eru vanir að mæta í fjölmiðla og skýra sín sjónarmið og leka upplýsingum í handgengna blaðamenn. Þar af leiðandi eru sjónarmið stjórnmálamannanna meira áberandi í fjölmiðlum en bankamanna. Stjórnmálamennirnir kenna vitaskuld bankamönnunum um ófarirnar. Hvað annað?
Hitt er og vandamál að stjórnmálamennirnir sæta engri beinni ábyrgð. Þeir falla jú í kosningum eða draga sig í hlé. En þeir bera enga ábyrgð á stanslausum hallarekstri opinberra stofnana, eins og til dæmis Reykjavíkurborgar. Því þarf að breyta. Ef sú regla væri við lýði væri formaður eins stjórnmálaflokksins nú á Kvíabryggju eða í Litháen á skiptiprógrammi.
Ég ætla ekki að rausa meira um þetta í bili, en hvet lesendur til að láta ekki stjórnmálamennina blekkja sig. Ekki er úr vegi að spyrja næst þegar stjórnmálamaður ætlar að slá skjaldborg um heimilin: Myndi ég geta hjálpað öllum þótt ég hefði debetkort á ríkiskassann? Jafnvel þótt við horfum framhjá þeirri staðreynd að hann er tómur núna, sér hver maður að þetta gengur ekki upp. Er innihaldslaust kjaftæði. Er ekki komið nóg af því? Er ekki kominn tími til að hver og einn taki aukna ábyrgð á sér og gerðum sínum?
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 11
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.