Leita í fréttum mbl.is

Fjölmiðlar og eignarhald

Það er undarleg þversögn að hvergi sé minnst á internetið þegar eignarhald á fjölmiðlum er til umræðu. Eins og netið sé ekki fjölmiðill heldur bara það sem er prentað, útvarpað eða sjónvarpað eftir hefðbundnum leiðum. Þrátt fyrir að internetið sé gríðarlega fjölbreytt og mikið notað, eru samt stórir hópar fólks í engri aðstöðu til að nálgast fréttir á netið yfir daginn. Þeir verða að treysta á blöðin og útvarpið og svo af gömlum vana glápa á fréttirnar í sjónvarpinu um kvöldmatarleytið. Sumir nota netið ekki neitt, fara þangað aldrei og kunna ekki á tölvu. Ekkert að því. Hefðbundnu fjölmiðlarnir eru þrátt fyrir allt mjög áhrifamiklir. Sú skoðun mín að eignarhald á hefðbundnum fjölmiðlum skipti ekki máli, er etv. að einhverju leyti á misskilningi byggð. Manni hættir svolítið til að sjá heiminn frá eigin sjónarhóli og gleyma að taka með í reikninginn þá sem eru ekki á netinu. 

Vandinn við prentmiðlana er að þeir ganga erinda ýmissa hagsmunahópa, ekki bara eigenda blaðanna, heldur líka vina og kunningja blaðamannanna sem og auglýsenda. Auglýsingar sem líta út eins og auglýsingar eru fráleitt einu auglýsingarnar í blöðunum. Allskyns ímyndasetning og áróður og sölumennska fer fram í fréttum, tilkynningum og viðtölum. Það bregst til dæmis ekki að einhver íslenskur rithöfundur geri milljóna samning við virðuleg forlög í útlöndum um það leyti sem hefðbundin jólasala á bókum er að hefjast. Þetta er sölumennska og ímyndarsetning, ekkert annað. Svo eru aðrir sem vilja bæta hlut sinn og þá birtast viðtöl og fréttir til dæmis um að nú eigi að endurgera þessa eða hina kvikmyndina í Hollywood þótt það blasi við öllum sem sáu myndina að sagan hafi verið einkar veikburða og ólíkleg til að hljóta meiri frama en hún gerði á Íslandi.

Þrátt fyrir það að hættulegt sé að auðmenn eigi fjölmiðlana og komi í veg fyrir neikvæða umfjöllun um sjálfa sig tel ég ekki að þjóðfélaginu stafi hætta af því. Því er haldið fram nú að skortur á gagnrýni á útrásina hafi átt sinn þátt í að þjóðarskútan sökk. Það er einföldun tel ég. Meginskýringin á skaðanum er íslenski gjaldmiðillinn, en það er annar handleggur. Við getum huggað okkur við að nú virðist sem áhrif tiltekinna auðmanna fari þverrandi og jafnvel hverfandi. Ástandið sem skapaðist hefur ekki staðið lengi yfir og mun aldrei gera. Fjölmargir hafa verið óþreytandi, ekki síst á netinu, við að benda á hver á fjölmiðlana og jafnvel fjölmiðlamenn sjálfir hafa beint og óbeint varað almenning við að eignarhaldið stjórni efnistökunum. Ég var amk. meðvitaður um það og ég er viss um að fjölmargir eru það líka.

Það fer þó ekki á milli mála að einhver mesti afglapi Íslands, forsetinn á Bessastöðum, gerði mikil mistök þegar hann neitaði að skrifa undir fjölmiðlalögin sem samþykkt höfðu verð á Alþingi. Ekki endilega vegna þess að þau takmörkuðu eignarhaldið, heldur með því að ganga gegn vilja þingsins. Með því rændi hann völdum af réttkjörnum aðilum. Ég er ekki viss um að Ísland væri í betri málum í dag þótt hann hefði ekki hagað sér eins og bjáni þarna um árið (fyrir vini sína). Það er áminning um að sá einstaklingur er óhæfur til að gegna embættinu. Og bókin um hann nýja er enn ein áminningin.

Sem sagt, ef oflátungur eignast alla fjölmiðlana, verður almenningur óhjákvæmilega meðvitaður um það og lærir að taka það með í reikninginn. Ástandið stendur ekki lengi yfir því dramb er falli næst. Fallið er nú staðreynd. Það er vitaskuld mikil misnotkun á góðvilja fólks að troða áróðursblöðum í dulargerfi dagblaða óbeðið inn um lúgur þess. Þar er aumur blettur sem hrapparnir nýta sér. Það þarf að finna lausn á því, hvernig koma má í veg fyrir svona misnotkun. Ég átta mig ekki á því hvernig best er að gera það. Líklega er lausnin fólgin í að hætta að taka við pappír inn um lúgu og nota netið fyrir nauðsynleg gögn. Póstur sem berst gæti einfaldlega verið sóttur á pósthúsið eftir þörfum. Reikningar sem berast frá bönkum og fyrirtækjum fara allir beint í heimabankann, óþarfi er að prenta hann út og senda. Og auglýsendur geta nýtt sér netið fyrir fjölpóst. Ég er til dæmis áskrifandi að auglýsingapósti frá nokkrum fyrirtækjum, enda lít ég ekki á fjölpóst sem rusl heldur nauðsynlega samræðu kaupmanna við viðskiptavini. Ég er samt ekki viss hvernig ég get nálgast pappírs Moggann minn án þess að hafa bréfalúgu. Hm... Ágætt að enda á þessari pælingu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband