27.6.2008 | 20:53
Jónas vinur minn
Einu sinni var ég að mála hillurnar mínar í bílskúrnum heima. Þetta var þegar ég bjó enn í foreldrahúsum. Það var föstudagskvöld. Ég hafði raðað hillunum á planka á búkkum og var með opinn bílskúrinn til að lofta út. Birtist ekki Jónas vinur minn í gættinni. Hann var flottur í tauinu, í gæjalegri skyrtu og með bindi. Hann var kátur á leiðinni út á lífið og spurði mig hvort ég ætlaði að hanga heima í kvöld. Ég sagðist ekki geta farið út því ég væri að mála hillurnar og þær væru að stríða mér því sumstaðar væru fitublettir eða eitthvað svoleiðis sem ryddi málningunni frá. Jónas skoðaði framkvæmdirnar og hallaði sér svo yfir eina hilluna til að gaumgæfa eitthvað. Hann uggði ekki að sér því um leið lagði hann bindið sitt, nánast alveg upp að hnút, í blauta málninguna. Mér þótti þetta afar fyndið og Jónasi líka þótt hann væri sá óheppni. Þetta atvik var svolítið lýsandi fyrir Jónas á þeim árum. Hann var ó-h-e-p-p-i-n-n. Jónas er ekki lengur óheppinn, heldur heppinn. Stoltur faðir þriggja barna, landeigandi og forstjóri garðyrkjufyrirtækis.
Nokkrum árum áður, man ekki hve mörgum, fórum við Jónas og fleiri krakkar í Hafnarbíó að sjá Sjapplín mynd. Bíóið var fullt af glöðum Sjapplínaðdáendum. Þegar myndinni lauk ætlaði Jónas ekki að lenda í troðningi við útganginn og flýtti sér út. En Jónas var búinn að gleyma að það voru tvær Sjapplínmyndir á dagskránni. Hurðin skelltist í lás á eftir honum. Ég man ekki hvort Jónas komst inn aftur. Það hlýtur eiginlega að vera, en það hefur þá verið að framan.
Við Jónas vorum einusinni sem oftar að vasast eitthvað og ákváðum að fá okkur ristað brauð með osti. Þetta var heima hjá mér á Mánabrautinni. Brauðið var ristað, ostur skorinn, smjöri klínt á, borið fram. Jónas, fyrir einhverja rælni og heppni, lyftir ostinum á sinni sneið. Undir ostinum var hálf brennd eldspýta. Hvernig eldspýtan komst undir ostinn hans er ráðgáta. Hún hlýtur að hafa verið á borðinu þegar ég skar ostinn. Þarna var Jónas bæði óheppinn og heppinn, óheppinn að lenda á sneiðinni með eldspýtunni og heppinn að hafa lyft ostinum upp.
Einu sinni átti Jónas gula Toyotu, Carina minnir mig. Hann fór í bíltúr á Toyotunni ásamt nokkrum vinum sínum í Nauthólsvíkina. Þetta var áður en ylströndin var gerð. Þá var hægt að aka niður í fjörunna. Það gerði Jónas og skemmti sér og félögum við akstur í sandinum. Nægt var plássið því þetta var á fjöru. En sandurinn var laus í sér og Toyotan festist. Sama hvað þeir reyndu, ekki náðist að losa Toyotuna. Svo fór að flæða að... Vatnið hækkaði ískyggilega mikið og brátt fór að flæða inn í bílinn. Ég man ekki hvernig þeir náðu að losa bílinn, minnir að einhver vegfarandi á bíl hafi kippt í þá með spotta, en hann losnaði loksins og Jónas slapp með skrekkinn. Það hafði aðeins flætt inn á gólfið, vélin og rafkerfið slapp. Þetta var annars skruggu bíll, kraftmikill og tveggja dyra, gæjaleg græja.
Drög að ævisögu, kafli 1.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 114426
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.