Leita í fréttum mbl.is

Samanburður milli landa

Eins og flestum Íslendingum ætti að vera kunnugt, hafir þeir á annað borð lesið fréttatilkynninguna sem ég sendi öllum helstu fjölmiðlum landsins, er ég nú staddur í Kaliforníu nánar tiltekið við Laguna-ströndina. Í útlöndum gefst gott tækifæri til að gera samanburð milli landa. Í þessu tilviki á Kaliforníu og Íslandi. Kalifornía ein og sér er eitt öflugasta hagkerfi heims, er á topp fimm í heiminum. Ísland eins og allir vita er besta land í heimi með mestar tekjur og mesta gleði og mesta velsæld þótt ekki nái það inn á topp fimm. Ríkin tvö eru því mjög góð til samanburðar. Veðurfarslega séð hefur Kalifornía vinninginn enda mun sunnar á kúlunni okkar. Mun ég ekki gera samanburð á veðrinu þótt það sé freistandi. Ég hef engan áhuga á að ala á minnimáttarkennd Íslendinga með því að nudda sítrónusafa í sárin. Hér mynd af útsýninu út um eldhúsgluggann:

 Sítrónutréð okkar

Sítrónurnar af því eru góðar á bragðið. Í þeim er 100% sítrónusafi, en ekki 0% eins og ég sá á skyndibitastað um daginn. Jú það er rétt, á gosdælunni stóð: Inniheldur 0% sítrónusafa. Ég fékk mér vitaskuld ekki þann „sítrónusvaladrykk“.

Engin ástæða er til að gefa Íslandi forgjöf þegar kemur að mat. Samkvæmt helstu spekingum á Íslandi er maturinn þar sá ferskasti, besti, hollasti, sjúkdómalausasti og næringarríkasti í heimi. Með það á bak við eyrað grillaði ég nautasteik (organic, án stera, með umhyggju) um daginn. Óformlegur samanburður við þá steik sem ég fékk síðast á Íslandi var Íslandi ekki í hag. Ekki aðeins var steikin ódýrari í Kaliforníu, heldur var hún betri líka. Raunar má fullyrða að það fáist ekki nautakjöt á Íslandi öðruvísi en hakkað ungnautahakk. Það er amk. það eina sem ég sé í borðum verslana oft og tíðum. Hvað verður um allt ungnautakjötið sem ekki er hakkað? Getur verið að „ungnautahakkið“ sé í raun gamalt beljukjöt? Ég sé amk. grunsamlega lítið af kýrkjöti í kjötborðinu þrátt fyrir að það falli til mikið magn af slíku kjöti í fjósum landsins. Einu sinni, skömmu eftir að ég kom frá Bandaríkjunum, keypti ég dýrindis nautasteik í íslenskri sérverslun með íslensku úrvals nautakjöti. Það kostaði svimandi upphæðir og stóðst svo ekki samanburð við bandarískt kjöt, var ólseigt og bragðdauft. Nautakjötið fæst vissulega á Íslandi, en það er svo rýrt að gæðum að óhætt er að fullyrða að það fáist ekki. Það fæst ekki í þeim lágmarksgæðum sem gera verður til nautakjöts. Og hvers vegna fæst ekki ætt nautakjöt á Íslandi? Það er vegna þeirra reglna sem gilda og samþykktar hafa verið af stjórnmálamönnunum okkar blessuðum sem telja sig þurfa að vernda fáa á kostnað fjöldans. Um leið og þeir vernda fáa, stýra neyslu kjöts í átt að lambakjötinu gamla og góða, draga þeir niður lífsgæðin í landinu. Því það eru lífsgæði að fá að velja sér það kjöt sem manni langar helst í og í þeim gæðum sem manni eru samboðin.

Ástæðan fyrir því að matarverð á Íslandi er hæst í heimi er fyrst og fremst þeim reglum sem stjórnmálamennirnir hafa sett til verndar matvælaiðnaðinum innanlands. Sökudólgur stjórnmálamannanna, smásalan, hefur ekkert með þetta að gera. Væru verndartollarnir felldir niður, myndi verðið snarlækka. Vissulega er smásalan ekki barnanna best, og kaupmennirnir reyna auðvitað hvað þeir geta til að hámarka afrakstur sinn. Það er eðlilegt og því ber að fagna. Sú athygli sem beinist að smásölunni vegna háa verðsins er blekking, ryk í augum okkar. Réttast er að beina athyglinni að stjórnmálamönnunum og spyrja þá linnulaust hvenær aðgerða sé að vænta. Þar er valdið til að breyta en því miður lítill vilji eða geta, þeir eru undir járnhæl sérhagsmunanna sumir hverjir.

SAMANBURÐUR Á NAUTAKJÖTI

Ísland 0 – Kalifornía 1

Af hverju: Kjötið er þriðjungi ódýrara, bragðbetra og úrvalið er margfalt, margfalt, margfalt meira.

Sökudólgur: Hver sá stjórnmálamaður sem kemur í veg fyrir að Íslendingar njóti þeirra sjálfsögðu mannréttinda og frelsis að velja það kjöt sem þeim langar í. Var ekki frumvarpi þess efnis frestað um daginn eftir linnulausa baráttu sérhagsmunaaðila? Svei. Við viljum geta flutt fiskinn okkar út hindrunarlaust, það sama á að gilda um aðra matvælaframleiðendur, þótt útlenskir séu.

Nokkur orð um nálgunina:  Samanburðurinn er gerður á mjög svo vísindalegan hátt. Valinn er sá matur sem fjölskyldumeðlimum langar í, í það og það skiptið, og hann borinn saman við matinn sem fjölskyldan borðaði á Íslandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 11
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 5
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband