6.6.2008 | 19:01
Hlutirnir í kringum mig
Öðru hverju í allmörg ár hef ég skrifað í nokkurs konar dagbók, eða nótubók, á kaffihúsum bæjarins. Um daginn tók ég nótubók með mér á kaffihúsið í verslun Máls og Menningar og gluggaði í gamalt blaður. Ein færslan var einmitt skrifuð á því sama kaffihúsi nokkrum árum áður. Það er gott að liðka fingurna og hugann og koma sér í gír með því að skrifa um það sem er manni næst ekki fjölskylduna heldur hlutina á borðinu og jafnvel í kring ef sá gállinn er á manni. Þannig var sú færsla sem ég las. Bara lýsing á því sem var á borðinu og í kring. Og viti menn, það rifjaðist upp fyrir mér nákvæmlega hvað ég var að gera, hvernig veður var þennan dag osvfrv. Bara með því að telja upp hvað var á borðinu kom heildarmynd dagsins upp úr öskustó minnisins. Ég þurfti ekki að skrá samviskusamlega hvað ég var að gera þennan dag til að rifja hann upp, heldur bara skrifa: Kaffibolli, sykurkar, dagblað... Furðulegt, en samt satt.
Tungumálið og ritmálið eru endalaus uppspretta heillandi viðfangsefna. Hvernig er best að setja hlutina fram, hvað er best að segja til að lýsa tilteknum hlut og hvað hentar ekki að segja. Hvort það er best að lýsa beint, eða óbeint, hvort hefur meiri áhrif osvfrv.
Þar sem ég er nú staddur í útlöndum og er að fara að takast á við nýtt verkefni er gott að byrja á að staðsetja sig, skjóta rótum, finna jafnvægi, liðka puttana og hugann með því að lýsa því sem er í kringum mann. Það kann að vera óviðeigandi að skilgreina í og með hvað maður er að gera, en það er samt allt í lagi tel ég. Tungumálið fyrirgefur mér það er ég viss um. En hvað ég er heppinn. Lesendur hins vegar nenna vafalaust ekki að lesa lengra. 99% af þeim er farið á næstu bloggsíðu í leit að bitastæðu lesefni.
Saltstaukur merktur Trader Joe's. Í honum eru sjávarsaltkristallar frá Suður Afríku, ef eitthvað er að marka miðann. Ljósgrænn kaffifontur með botnfylli af köldu kaffi með rjóma. Auðkennislykill, rafmagnssnúra í tölvuna. Auglýsingapóstur, efsta blaðið heitir Weekender A South Coast Lifestyle Magazine. Í því eru hús auglýst til sölu ásamt öðru. Hús í Laguna Beach er falt fyrir 1 milljón og 6 hundruð þúsund dali. Við hlið Weekender-blaðsins er Laguna Beach Home auglýsingabæklingur sem ég fletti áðan og snýst um heimilið, aðallega fataherbergið og garðinn. Í því er til dæmis auglýst gervigras í garðinn og marmari á gólfin. Undir því blaði er bæklingur frá Irvine Valley College, sem er einskonar endurmenntunarstofnun. Emeritus-prógrömmin eru hugsuð fyrir eldri borgara. Skemmtilegt nafn. Snúra í tölvuna eðernet og svo mús og tölva og puttarnir á mér.
Á myndinni má sjá Ragnar Orra í klifrigrind eigi allfjarri ströndinni í Laguna Beach, Main Beach eins og hún er kölluð. Við feðgarnir fórum í strandferð þennan dag og bjuggum til sandkökur, mökuðum á okkur sólvörn og lágum í sólbaði.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 2
- Sl. sólarhring: 2
- Sl. viku: 13
- Frá upphafi: 114426
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 6
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Af mbl.is
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Prófaðu e-n tíma að lýsa BARA lyktinni/ilminum sem þú finnur á staðnum, ekki að lýsa hlutum í það skiptið. Maður verður að vera svolítið smámunasamur í lýsingunni, en prófaðu, það er óóóóótrúlegt. Eini hængurinn á er að þú hafir misst þefskynið, því þú ert það góður penni og vel pælandi að þú ættir að geta gert fína skilgreiningu fyrir undirmeðvitundina! Hafðu það gott í Útlandinu.
Beturvitringur, 6.6.2008 kl. 20:50
Hef kíkt hérna inn af og til undanfarna mánuði, eftir að ég rakst á síðuna. Rakst svo á systur þín í Kringlunni fyrir nokkrum dögum og sagði hún mér af flutningum ykkar, var hissa á að hafa ekkert lesið um þá á síðunni!! :)
Kveðja, Herdís Pála.
Herdís Pála (IP-tala skráð) 7.6.2008 kl. 14:05
Það er góð hugmynd og hún gæti virkað vegna þess að nefið á mér, þótt lítið sé, hefur ekki enn misst þefskynið.
Herdís Pála! Gaman að heyra frá þér, já ég hef ekki sagt frá þessu vegna þess að ég var svo upptekinn vikurnar áður en við fórum. En ég mun samviskusamlega greina frá því sem fyrir augu ber hér í Laguna Beach í sumar.
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 7.6.2008 kl. 17:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.