Leita í fréttum mbl.is

Allt sem aflaga hefur farið í Reykjavík er flugvellinum að kenna

Fyrir nokkrum dögum var grein með þessu inntaki eftir mann, arkitekt, í Morgunblaðinu. Hann taldi að vegna þess að þetta dýrmæta svæði skyldi hafa verið tekið undir flugvöll hefði byggðin í Reykjavík þvingast út um holt og hæðir og orðið jafn gisin og hún er í dag. Ef bara mönnum hefði borið gæfa til að leggja flugvöllinn niður strax eftir stríð væri Reykjavík nú paradís með þéttsetnum almenningsvögnum og raunverulegum miðbæ. Gott ef hann sagði ekki líka að allt sem gengið hefur honum sjálfum í mót í lífinu væri flugvellinum að kenna. Það er amk. tilfellið með mig. Ég hefði trúlega aldrei slitið barnsskónum í Kópavogi ef Vatnsmýrin væri öll í byggð og einbýlishúsahverfi í Öskjuhlíðum. Þá hefði ég ekki næstum því lent fyrir vörubíl á Kársnesbraut og ekki þurft að naglhreinsa spýtur með pabba þegar ég vildi miklu heldur smíða kofa á smíðavellinum. Þá hefði ég ekki kynnst þessum púkum sem bjuggu á Þinghólsbrautinni og götunum í kring. Mikil er ábyrgð skipulagsyfirvalda í Reykjavík!

Grein arkitektsins er nú meiri endemis vitleysan verð ég að segja með fullri virðingu fyrir honum. Hafi verið fyrir því vilji, hefði verið leikur einn að byggja þéttar í Reykjavík. Til dæmis með því að hafa fleiri hæðir í fjölbýlishúsunum. Það var ekki gert. Það var meira að segja bannað, og er enn að ég tel, að byggja fleiri en 4 eða 5 hæðir. Sem dæmi um það má nefna að glerhýsið sem stendur á horni Laugavegar og Kringlumýrarbrautar (og hýsir nú Apple-búðina) er nokkrum hæðum lægra en til stóð. Starfsmaður verktakans sem byggði húsið sagði mér þetta sjálfur. Enda er húsið kubbslegt og skortir þann þokka sem fylgir glerháhýsum. 

Flugvöllurinn á að vera í Vatnsmýrinni áfram. Það er mín skoðun. Hann er rós í hnappagat borgarinnar, hann er persónuleiki miðbæjarins, flugumferðin um hann er hjartsláttur Reykjavíkur. „Það er eitthvað að gerast“ finnst mér þegar einkaþoturnar svífa inn til lendingar eða einkavélarnar sveima um loftin með sínu yndislega vélarhljóði. Ef flytja á flugvöllinn er eini raunhæfi kosturinn Keflavíkurflugvöllur. En áður en svo verður þarf að leggja þangað fjórfaldan akveg  sem þræðir ekki blómabeð íbúa Garðabæjar og öll 50 hringtorgin í Hafnarfirði. 

Að auki er rökvilla í málflutningi þeirra sem vilja reisa íbúabyggð á flugvallarsvæðinu. Hún er sú að umferðaræðarnar, Miklabraut, Skógarhlíð, Bústaðavegur og Hringbraut, bera ekki meiri umferð en þá sem nú fer um þær. Ef heilt hverfi bætist við miðbæinn er hætt við að fleiri verji tíma sínum í bílnum á kostnað vinnu og fjölskyldu. Gott og vel, lagðar verða nýjar stofnæðar. Til dæmis í Öskjuhlíðinni fyrir neðan kirkjugarðinn. Gangi ykkur vel með það! Var ekki horfið frá þeim áformum fyrir nokkrum árum? Fjandmenn einkabílsins sem jafnframt eru ákafir um 102 Reykjavík hafa trúlega ekki hugsað málið til enda.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ragnhildur Kolka

Eins og talað úr mínu eigin hjárta. Þakka þér fyrir að minnast á litlu rellurnar. Rétt eins og komu lóunnar fagna ég tæru vélarhljóðinu á útmánuðum, þegar á góðviðrisdögum vélfákarnir leika listir sínar í loftinu eins og kálfar á vorin.

Ragnhildur Kolka, 8.5.2008 kl. 08:35

2 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Takk fyrir skrifin. Mjög skynsamleg.

Ágúst H Bjarnason, 8.5.2008 kl. 21:14

3 Smámynd: Jens Guð

  Staðsetning flugvallarins í Vatnsmýri er eins og best verður á kosin varðandi sjúkraflug.  Við höfum ótal dæmi þar sem mínútur til og frá hafa skipt sköpum varðandi neyðarflug.

  Flugvöllurinn í Vatnsmýri er einnig lífæð landsbyggðarinnar við stjórnsýslustofnanir landsins,  viðskiptabatteríið og svo framvegis. 

  Úti á landsbyggðinni er víða blómleg atvinnustafsemi.  Það skiptir mörg fyrirtæki úti á landi máli að þurfa ekki að eyða klukkutímaakstri til og frá Keflavík þegar verið er að afgreiða mál í Reykjavík.  Það munar miklu að geta flogið til Reykjavíkur utan af landi fyrripart dags og aftur til baka síðdegis. 

  Ef Vatnsmýrinni yrði drekkt í íbúðabyggð er umferðaræðum í þessum bæjarhluta stefnt í "kaos".  Þegar er þar allt í klessu á milli klukkan 4 - 6 síðdegis.

Jens Guð, 10.5.2008 kl. 00:04

4 identicon

Sammála hverju orði í þessari fínu grein.  Menn geta síðan spurt sig í leiðinni hvar helstu flugvellir mestu heimsborganna er staðsettir.

London, París, New York, Madrid, þeir eru ekki staddir í "Keflavík"

Kv.

Svavar 

Svavar Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.5.2008 kl. 11:19

5 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Það sem hefur staðið borginni og flugvellinum hvað mest fyrir þrifum er ákvarðanaleysið í sambandi við hann. Það er eins og allir lamist þegar kemur að því að taka ákvarðanir tengdar flugvellinum. Bragginn sem hýsir innanlandsflugið er klassískt dæmi um það. Það eru áratugir síðan hann varð úreltur.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 11.5.2008 kl. 22:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson
Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Fyrir mér er sannleikurinn mikilvægastur. Mörgum svíður undan sannleikanum. Það verður bara að hafa það. Sannleikurinn blívur.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband