27.10.2007 | 22:03
Dularfullt snudduhvarf!
Um daginn gerðist dularfullur atburður í Reykjavík. Ragnar Orri Orrason (0,7) fór út í vagn út á svalir til að taka miðdegislúrinn sinn með grænu snudduna sína í munninum. Þegar lúrinn var á enda og faðir hans hjálpaði honum inn var græna snuddan ekki uppi í Ragnari Orra og ekki í vagninum og ekki á svölunum. Hún var hvergi! Sama hve vel var leitað fannst snuddan ekki. Enginn kemst upp á svalirnar nema fuglinn fljúgandi og einhver í stiga en enginn að því er best er vitað fór upp á svalirnar með þeirri aðferð er umræddur lúr var tekinn. Það er hulin ráðgáta hvað orðið hefur um snudduna. Ragnar Orri telur sjálfur að krummi hafi komið og stolið henni og flogið með hana upp á þak. Faðir hans, Sigurgeir Orri (40), telur að geimvera hafi komið og tekið snudduna, haldið að hún hafi verið talstöð til að hafa samband heim. Móðir Ragnars Orra, Heiðrún Gígja (36) telur að snuddan hafi spýst út úr munni Ragnars Orra og fram af svölunum. Það verður að teljast ólíklegasta kenningin vegna þess að vagninn sneri að svalahurðinni og til þess að spýta snuddunni fram af svölunum þurfti fyrst að spýta henni í svalahurðina og láta hana skoppa til baka (eða til hliðar) og fram af. Mikill vafi leikur á að jafn ungt barn og Ragnar Orri er nái slíkum gríðar-spýtingarkrafti. En var hringt á lögregluna? Já við hringdum auðvitað strax í 112 en þeir hlógu að okkur og voru með dónaskap, sagði Sigurgeir Orri, sögðu að þetta kæmi þeim ekki við. Að ég ætti ekki að sóa tíma þeirra í svona vitleysu. En í mínum huga er þetta ekki vitleysa þetta er stóralvarlegt mál! Blaðamaður tekur undir með Sigurgeiri Orra, enda sjálf á barnseignaraldri. Ef ég má bæta einu við, sagði Sigurgeir Orri að lokum, þá langar mig að nota tækifærið og auglýsa eftir græna snuðinu. Ef einhver hefur séð grænt snuð í eða við miðbæ Reykjavíkur, þá vinsamlega hringið í 112 og látið vita hvar og hvenær snuddan fannst.
Slefað og skeint vonar að græna snuðið finnist sem fyrst svo jafnvægi komist á samfélagið á ný.
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (5.8.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Ljóð
Ferðasaga
Einn dag fyrir átta árum
með eimskipi tók ég far.
Nú man ég því miður ekki
hver meining ferðalagsins var.
En einhverra orsaka vegna
að endingu landi var náð.
Og það var með ánægju þegið,
því þetta var skipsstjórans ráð.
Og svo hef ég verið hér síðan
og sofið og vakað og dreymt.
En eins og ég sagði áðan,
er erindið löngu gleymt.
Athugasemdir
Ég tek undir þetta með þér. Þetta er alvarlegt mál og fyrir utan það er gífurleg verðálaging á snuðum. Gangi ykkur vel.
magga hugrún (IP-tala skráð) 30.10.2007 kl. 15:50
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.